Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 702. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1334  —  702. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda
og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006 (tengdir aðilar).


Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (VBj, LGeir, MSch, MT, BjG).



1. gr.

    5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Tengdir aðilar:
     a.      Lögaðilar þar sem svo háttar til að annar er í raun undir stjórn hins þar sem sá síðarnefndi á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í þeim fyrrnefnda.
     b.      Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila.
     c.      Maki og ófjárráða börn eiganda meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðafjölda í lögaðila.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lögð til nánari skýring á því hverjir teljist tengdir aðilar samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra en nokkur vafi virðist vera á því hvernig túlka beri þá skilgreiningu laganna.
    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er stjórnmálasamtökum og frambjóðendum óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en nemur 400 þús. kr. Samkvæmt sömu grein skal telja saman framlög tengdra aðila. Í 5. tölul. 2. gr. laganna er að finna skilgreiningu á tengdum aðilum. Nefndin leitaði til Ríkisendurskoðunar sem fer með eftirlit með framkvæmd laganna vegna þessa og óskaði eftir tillögu að breytingu á greininni ásamt rökstuðningi frá stofnuninni sem hér fer á eftir.
    Í 1. málsl. 5. tölul. 2. gr. er kveðið á um að tengdir aðilar séu lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum.
    Samkvæmt þessum málslið teljast tveir lögaðilar eða fleiri tengdir ef sömu aðilarnir eru meirihlutaeigendur í þeim. Lögaðilarnir í meirihlutaeigu sömu aðila mega því aðeins veita stjórnmálasamtökunum saman hámarksstyrk, þ.e. 400 þús. kr. Eigendurnir teljast á hinn bóginn ekki tengdir. Dæmi:
    A, B og C eiga meiri hluta (allir meira en 10% hlut) í bæði félagi 1 og félagi 2. Félögin teljast tengd og mega því sameiginlega aðeins veita stjórnmálaflokki styrk samtals að fjárhæð 400 þús. kr. Á hinn bóginn mega A, B og C hver um sig láta hámarksstyrk af hendi rakna til sama flokks.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ákvæðið takmarkar samkvæmt framansögðu fyrst og fremst framlög félaganna 1 og 2 en ekki eigenda þeirra og þau teljast samkvæmt framansögðu ekki tengd í skilningi 1. málsl. 5. tölul. 2. gr. laganna.
    2. málsl. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er svohljóðandi: Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila.
    Þessi málsliður fjallar með öðrum orðum um það hvenær lögaðili sem ásamt eigendum sínum á tilskilinn hlut í öðrum lögaðila telst tengdur aðili. Dæmi:
    A og B eiga meiri hluta (allir meira en 10% hlut) í félagi 1. Saman eiga síðan A og B ásamt félagi 1 meiri hluta í félagi 2. Félögin teljast tengd og mega því sameiginlega aðeins veita stjórnmálaflokki styrki samtals að fjárhæð 400 þús. kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Andstætt því sem á við um 1. málsl. ákvæðisins má að mati Ríkisendurskoðunar deila um hvernig skilja beri þennan málslið. Álitamálið lýtur að því hvort ákvæðið takmarkar einungis framlag félaganna til stjórnmálaflokka eða tekur líka til eigendanna, þ.e. hvort þeir teljist tengdir í skilningi ákvæðisins.
    Að mati Ríkisendurskoðunar er nærtækari skýringarkostur að líta svo á að ákvæðið takmarki aðeins framlög félaganna vegna tengsla. Því beri að líta svo á að með orðalaginu „sama á við“ sé átt við rétt eins og í 1. málsl., að aðeins lögaðilarnir teljist tengdir þegar eignarhaldi á þeim er háttað með þeim hætti sem lýst er í 2. málsl. Eigendurnir að báðum félögunum verði á hinn bóginn ekki taldir tengdir í skilningi ákvæðisins. Sýnist þessi skýringarkostur bæði í betra samræmi við efnisinntak fyrri málsliðarins auk þess sem eðlilegt er að gera þá kröfu að lagafyrirmæli, sem takmarka möguleika einstaklinga og lögaðila til þátttöku í félagslegu starfi eða til að styrkja slíkt starf, séu skýr og ótvíræð.
    Í lokamálslið 5. tölul. 2. gr. er mælt svo fyrir að til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt töluliðnum telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
    Samkvæmt 2. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, og 2. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/ 1994, telst það hlutafélag, sem á svo mikinn hluta hlutafjárins í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi að það fer með meiri hluta atkvæða í því, móðurfélag gagnvart síðarnefnda hlutafélaginu. Samkvæmt sömu lagagreinum teljast móður- og dótturfélag samstæða. Skv. VII. kafla ársreikningalaga, nr. 3/2006, ber móðurfélagi eftir atvikum og að uppfylltum skilyrðum, sem þar eru nánar rakin, að halda samstæðureikning fyrir dótturfélög sín. Af umfjöllun um efnisinntak 5. tölul. 2. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka hér að framan má ráða að ákvæðið girðir ekki fyrir að jafntengdir aðilar og móðurfélag og dótturfélag veiti hvort um sig sama stjórnmálaflokknum hámarksstyrk.
    Þar sem vart er hægt að hugsa sér nánari tengsl lögaðila en móður- og dótturfélög er að mati Ríkisendurskoðunar beinlínis ankannalegt að telja tengsl lögaðila í eigu sömu aðila nánari en tengsl móður- og dótturfélags líkt og raunin er samkvæmt gildandi lögum. Því leggur Ríkisendurskoðun til að aðilar í slíku réttarsambandi teljist einnig tengdir í skilningi laganna. Tekið skal fram að þetta mun að sjálfsögðu hvorki gera framkvæmd einfaldari né auðveldari. Hún verður á hinn bóginn í betra samræmi við skilgreiningu í annarri löggjöf á tengdum aðilum, svo sem í hlutafélaga-, einkahlutafélaga-, ársreikninga- og samkeppnislöggjöf.
    Að auki þykir ekki úr vegi að velta hér upp þeirri spurningu hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að spyrða saman í þessu efni lögráða skyldmenni í beinan legg. Að mati Ríkisendurskoðunar væri eðlilegra að takmarka þessi tengsl við hjón eða sambúðarfólk og ófjárráða börn þeirra. Ef eitthvað er þá er tillaga af þessu tagi líkleg til að gera eftirlit ögn einfaldara. Í samræmi við það er gerð um það tillaga í lok 1. gr. frumvarpsins að í stað orðanna „skyldmenna í beinan legg“ komi „ófjárráða barna“.
    Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur nauðsynlegt að í lögum sé kveðið skýrt á um hverjir teljist tengdir aðilar í skilningi laga og telur því þörf á að flytja frumvarpið.