Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 704. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1360  —  704. mál.




Skýrsla



stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um Þorláksbúð.

    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis barst bréf frá áhugamönnum um velferð Skálholtsstaðar, dags. 6. september 2012. Bréfið var undirritað af Eiði Guðnasyni, Jóni Hákoni Magnússyni, Vilhjálmi Bjarnasyni og Ormari Þór Guðmundssyni. Í bréfinu var athygli nefndarinnar vakin á bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis, dags. 28. júní 2012, um athugun á ráðstöfun styrkja úr ríkissjóði til Félags áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar í Skálholti.
    Á fundi nefndarinnar 25. september 2012 var samþykkt að nefndin skyldi taka málið fyrir. Á fundi nefndarinnar komu Eiður Guðnason, Ormar Þór Guðmundsson og Vilhjálmur Bjarnason (9. október), Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og fyrrverandi formenn fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Oddný Harðardóttir og Gunnar Svavarsson (15. október). Á fundi 31. október kynnti formaður svo bréf frá Fornleifavernd ríkisins vegna málsins.

Fjárreiður félagsins.
    Í bréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að Félag áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar fékk á árunum 2008–2011 úthlutað samtals 9,4 millj. kr. úr ríkissjóði og að auki 3 millj. kr. frá kirkjuráði. Þá kom fram að Ríkisendurskoðun þurfti í tvígang að ítreka beiðni til styrkþega um upplýsingar um fjárreiður félagsins.
    Í bréfinu kom jafnframt fram að ársreikningar félagsins fyrir árin 2009–2011 höfðu ekki verið endurskoðaðir en voru uppsettir af viðurkenndum bókara og undirritaðir af stjórn félagsins. Einnig var upplýst að bókhald ársins (2012) hafði ekki verið fært. Af reikningsyfirliti frá banka mætti dæma að tekjur þess árs væru 1,5 millj. kr. sem væri framlag frá kirkjuráði fyrir árið 2012, en það hefði verið notað til greiðslu á yfirdráttarláni auk reiknings vegna færslu á árinu 2012. Eftir stæði yfirdráttur upp á 400 þús. kr. auk þess sem félagið skuldaði birgjum um 1 millj. kr. frá fyrra ári. Stjórn félagsins upplýsti Ríkisendurskoðun vorið 2012 um að von væri á reikningum upp á „nokkrar milljónir“ vegna unninna verka. Það var niðurstaða Ríkisendurskoðunar að óvissa ríkti um fjárhagsstöðu félagsins. Ríkisendurskoðun kvað könnun þó ekki gefa tilefni til frekari athugasemda.
    Fyrir nefndina komu formenn fjárlaganefnda árin 2008–2011. Þar kom fram að fyrsta fjárveiting til verkefnisins var styrkur að fjárhæð 1 millj. kr. sem veittur var af fjármálaráðuneytinu. Helsta forsenda fjárlaganefndar fyrir því að halda áfram fjárveitingum til verkefnisins árin 2009–2011 var að stöðva ekki framkvæmdir sem væru hafnar. Engin athugun fór fram á fjárreiðum eða framgangi verkefnisins áður en ný fjárveiting var samþykkt á vegum þingsins. Að mati stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er slíkt verklag gagnrýnisvert jafnvel þótt það eigi sér áralanga hefð.
    Nefndin fagnar því að fjárlaganefnd hefur beitt sér fyrir breyttu verklagi við útdeilingu fjármuna til sérstakra verkefna, m.a. með því að fela það fagsjóðum. Nefndin leggur áherslu á að það er hlutverk framkvæmdarvaldsins að fylgjast með stjórnsýslu þeirra stofnana sem undir ráðherrana og ráðuneytin heyra, m.a. með því að setja reglur um einstök verkefni til að fylgja því eftir að vel sé með fjármuni farið og tryggja að þeir renni til tilætlaðra verkefna.
    Nefndin bendir á að það er svo hlutverk Alþingis og þingnefnda, og þá sérstaklega stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hafa eftirlit með ákvörðunum og verklagi ráðherra, sbr. ákvæði 8. tölul. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Skipulagsmál.
    Nefndin aflaði upplýsinga frá Skipulagsstofnun en deilt hefur verið um hvort deiliskipulag Skálholts sé í gildi. Fyrir nefndina kom skipulagsstjóri og lýsti þeirri afstöðu stofnunarinnar að bygging Þorláksbúðar hefði ekki staðist skipulagslög. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála (nú umhverfis- og auðlindamála) og umhverfisráðuneyti (nú umhverfis- og auðlindaráðuneyti) hefðu hins vegar ekki tekið efnislega afstöðu til málsins sem var kært heldur vísað málinu frá þar sem kærendur gátu ekki átt aðild að slíku máli enda höfðu þeir ekki lögvarinna hagsmuna að gæta samkvæmt lögunum.

Niðurstaða.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fagnar því að sett hafi verið ný og breytt skipulagsreglugerð, nr. 90/2013, frá 16. janúar sl. Vænta má að hefði slík reglugerð verið í gildi hefði verið unnt að koma í veg fyrir að byggingin hefði risið á þeim stað þar sem hún er. Nefndin fagnar því einnig að mennta- og menningarmálaráðherra friðaði byggingar í Skálholti að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar 27. desember 2012. Ekki verður horft fram hjá því að úr því sem komið er verður byggingin ekki fjarlægð nema kveðið verði á um það með dómi eða með samkomulagi þeirra sem hlut eiga að máli, þ.e. kirkjunnar og Þorláksbúðarfélagsins. Nefndin hvetur til þess að samkomulags verði leitað um að færa bygginguna.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.