Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1367  —  641. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands,
nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni.


    1. og 2. gr. frumvarpsins orðist svo:
     a.      (1. gr.)
              Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 79. gr. er heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2/ 3hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Til þess að frumvarpið teljist samþykkt þarf það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 40 af hundraði allra kosningarbærra manna, og skal það staðfest af forseta lýðveldisins og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa.
              Um þjóðaratkvæðagreiðsluna fer samkvæmt lögum.
     b.      (2. gr.)
             Lög þessi taka gildi er nýkjörið Alþingi hefur samþykkt þau.

Greinargerð.


    Í þessari breytingartillögu felst að á næsta kjörtímabili verði unnt að gera breytingu á stjórnarskrá með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Annars vegar þurfi 2/ 3hluta greiddra atkvæða á Alþingi til að frumvarpið teljist samþykkt og hins vegar fari frumvarpið þannig samþykkt í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meiri hluti ráði, þó þannig að 40 af hundraði kosningarbærra manna hafi goldið jáyrði sitt við frumvarpinu. Frumvarpið skuli þá staðfest af forseta Íslands og teljist þá gild stjórnarskipunarlög. Eftir sem áður verður samhliða í gildi ákvæði 79. gr. núgildandi stjórnarskrár sem gerir ráð fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskrá með einföldum meiri hluta á tveimur þingum með alþingiskosningum á milli.
    Sú aðferð við breytingar á stjórnarskrá sem hér er lögð til er einkum hugsuð til að greiða fyrir áframhaldandi vinnu við þá heildarendurskoðun á stjórnarskrá sem hófst á þessu kjörtímabili. Enn fremur gerir tillagan ráð fyrir beinni aðkomu þjóðarinnar að breytingum á stjórnarskrá. Samþykkishlutfall er hækkað frá fyrri tillögum og er breytingarákvæðinu í þessu formi ætlað að koma til móts við fram komin sjónarmið og tryggja framgang málsins. Í þessu formi er samþykkisþröskuldur í hærra lagi. Honum verður þó auðveldlega náð ef góð samstaða er um breytingar. Jafnvel þótt skoðanir séu skiptar um stjórnarskrárbreytingar ætti að vera unnt að tryggja framgang þeirra með góðri kosningaþátttöku, svo sem ef þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram samhliða almennum kosningum. Þessi breyting hefur ekki fordæmisgildi fyrir aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur eða um afstöðu almennt til stjórnarskrárbreytinga með aðkomu þjóðarinnar, né um almennar þjóðaratkvæðagreiðslur.