Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1388, 141. löggjafarþing 664. mál: endurskoðendur (peningaþvætti og eftirlit, EES-reglur).
Lög nr. 49 8. apríl 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum (EES-reglur).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að endurskoðandi gæti að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Endurskoðendaráð hefur heimild til samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum félaga sem eru með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.


2. gr.

     Við 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig eru innleidd ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 og 32/2012.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 2013.