Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.

Þingskjal 3  —  3. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (framlenging bráðabirgðaákvæða).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




1. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2013“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: 1. september 2014.

2. gr.

    Í stað orðanna „2010/2011, 2011/2012 og 2012/2013“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: til 2013/2014.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „2011/2012 og 2012/2013“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: til 2013/2014.
     b.      Í stað orðanna „og 2012/2013“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: til 2013/2014.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 3 málsl. og orðast svo: Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari grein er óheimilt að framselja.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2012/2013“ í 2. og 3. mgr. kemur: til 2013/2014.
     b.      Í stað orðanna „allt að 2.000 lestum af óslægðum þorski og 600 lestum af óslægðum ufsa“ í 2. mgr. kemur: allt að 2.600 lestum af óslægðum botnfiski.
     c.      Í stað orðanna „allt að 2.500 lestum af þorski og 500 lestum af ufsa“ í 3. mgr. kemur: allt að 3.000 lestum af óslægðum botnfiski.
     d.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Aflaheimildir þessar skal draga frá leyfðum heildarafla áður en kemur til skiptingar og frádráttar skv. 3. mgr. 8. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „á árunum 2012 og 2013“ í 1. málsl. kemur: á árunum 2012, 2013 og 2014.
     b.      Í stað orðanna „á árinu 2012 og 2013“ í 2. málsl. kemur: á árunum 2012, 2013 og 2014.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, sem samið er í ráðuneyti sjávarútvegsmála, er lögð til sú breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, að tilgreind ákvæði til bráðabirgða við lögin eru framlengd um eitt ár, eða til fiskveiðiársins 2013/2014. Frumvarpið felur því í sér að fiskveiðiárið 2013/2014 lúti stjórn fiskveiða sömu reglum, að þessu leyti, og giltu fiskveiðiárið 2012/2013.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 116/2006 snýr að fresti aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan settra marka varðandi eignarhald, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna. Fresturinn er til 1. september 2013 og er hér lagt til að hann verði framlengdur til 1. september 2014.

Um 2. gr.

    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 116/2006 getur ráðherra á fiskveiðiárunum 2009/2010, 2010/2011, 2011/2012 og 2012/2013 bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti.
    Með greininni er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt um eitt ár, til fiskveiðiársins 2013/2014.

Um 3. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 116/2006 kemur fram að á fiskveiðiárunum 2010/2011, 2011/2012 og 2012/2013 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 2.000 lestir af íslenskri sumargotssíld og 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld. Einnig að á fiskveiðiárunum 2011/2012 og 2012/2013 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 1.200 lestir af skötusel. Þessar heimildir miðast við óslægðan afla og skulu dragast frá heildarafla þeim sem veiða má á hverju tímabili, sbr. 3. gr. laganna.
    Með greininni er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt um eitt ár, til fiskveiðiársins 2013/2014. Til áréttingar er einnig bætt við ákvæðið, í 2. mgr., að óheimilt er að framselja aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt ákvæðinu.

Um 4. gr.

    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IX í lögum nr. 116/2006 er kveðið á um að á fiskveiðiárunum 2011/2012 og 2012/2013 hefur ráðherra til ráðstöfunar allt að 2.000 lestum af óslægðum þorski og 600 lestum af óslægðum ufsa til strandveiða, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 6. gr. a., og að á fiskveiðiárunum 2011/2012 og 2012/2013 skuli allt að 2.500 lestum af þorski og 500 lestum af ufsa, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 1. mgr. 10. gr., ráðstafað til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr.
    Með greininni er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt um eitt ár, til fiskveiðiársins 2013/2014. Til áréttingar er einnig bætt við ákvæðið, í nýrri málsgrein, að aflaheimildir þessar skuli draga frá leyfðum heildarafla áður en kemur til skiptingar og frádráttar skv. 3. mgr. 8. gr.

Um 5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XI í lögum nr. 116/2006 kveður á um að lokamálsliður 5. mgr. 6. gr., 2. mgr. 23. gr. a og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII skulu ekki gilda á árunum 2012 og 2013. Einnig að þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. bráðabirgðaákvæðisins skuli rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs fá 30 millj. kr. framlag til ráðstöfunar á árinu 2012 og 2013 af tekjum vegna aflaheimilda skv. 5. mgr. 6. gr. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII.
    Ákvæði 23. gr. a laganna var afnumið með lögum nr. 75/2012. Ákvæði 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII kveður á um að tekjur af aflaheimildum, sem ráðherra hefur til ráðstöfunar samkvæmt ákvæðinu, skuli ráðstafað á þann veg að þær renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs. Með framlengingu á bráðabirgðaákvæði XI er lagt til að á árinu 2014 skuli rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs fá 30 millj. kr. framlag til ráðstöfunar (á sama hátt og á árunum 2012 og 2013) af tekjum vegna framangreindra aflaheimilda.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (framlenging bráðabirgðaákvæða).

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að nokkur bráðabirgðaákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, verði framlengd um eitt ár eða til fiskveiðiársins 2013/2014, sem hefst 1. september 2013. Bráðabirgðaákvæðin sem um ræðir eru í fyrsta lagi ákvæði V um frest eigenda fiskiskipa til að ráðstafa krókaaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan settra marka varðandi eignarhald. Í öðru lagi ákvæði VII um heimild ráðherra til að binda meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveða að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum. Á það við þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, a.m.k. fimmtung eða meira, og ætla má að framsalið eða ráðstöfunin hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Í þriðja lagi ákvæði VIII um úthlutun ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar á 2.000 lestum af sumargotssíld, 2.000 lestum af norsk-íslenskri síld og 1.200 lestum af skötusel. Tekjurnar af þessum aflaheimildum renna í ríkissjóð. Áætla má að tekjur af þeim úthlutunum sem nýttar verði, þ.e. um 500 tonn af sumargotssíld til smábáta auk tekna af almennu veiðigjaldi, verði samtals um 7,4 m.kr. á ári en um 260 m.kr. yrðu heimildirnar að fullu nýttar. Í fjórða lagi ákvæði IX um úthlutun ráðherra til ráðstöfunar allt að 2.000 lestum af óslægðum þorski og 600 lestum af óslægðum ufsa til strandveiða en auk þess allt að 2.500 lestum af þorski og 500 lestum af ufsa til stuðnings byggðarlögum til viðbótar því. Tekjurnar af þessum aflaheimildum renna í ríkissjóð og eru þær áætlaðar um 40 m.kr. á ári vegna tekna af almennu veiðigjaldi. Í fimmta lagi er það síðan ákvæði XI um að rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs skuli fá 30 m.kr. framlag til ráðstöfunar af tekjum vegna aflaheimilda samkvæmt ákvæði VII.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs, vegna tekna af úthlutun aflaheimilda, verði um 47 m.kr. á ári en á móti því komi 30 m.kr. kostnaður vegna framlags til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs. Að samanlögðu má því reikna með að afkoma ríkissjóðs verði jákvæð um 17 m.kr. vegna fjárhagsáhrifa frumvarpsins.