Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 23  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum (framlenging bráðabirgðaákvæða).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Arnór Snæbjörnsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Samtökum íslenskra fiskimanna og sameiginleg umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fiskvinnslustöðva.
    Alþingi hefur áður fjallað um frumvarp af sama meiði. Þannig innihéldu 3.–8. gr. frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 75/2012, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða (856. mál á 140. löggjafarþingi), ákvæði sambærilegs efnis og ákvæði frumvarpsins. Í grundvallaratriðum felur frumvarpið í sér að fiskveiðiárið 2013/2014 lúti stjórn fiskveiða sömu reglum og giltu fiskveiðiárið 2012/2013.
    Á fundi nefndarinnar var nokkuð rætt um 1. gr. frumvarpsins og forsögu hennar. Kom það sjónarmið m.a. fram að betur færi á að fundin yrði varanleg lausn á því ástandi sem kallað hefur á tilvist hennar.
    Eins og fram kom í framsöguræðu ráðherra standa væntingar til að lög um stjórn fiskveiða verði skoðuð heildstætt á næsta löggjafarþingi og því fela ákvæði frumvarpsins aðeins í sér eins árs framlengingu ákvæða sem annars liðu undir lok á yfirstandandi fiskveiðiári.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 19. júní 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


með fyrirvara.


Haraldur Benediktsson.



Ásmundur Friðriksson.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Páll Jóhann Pálsson.



Þorsteinn Sæmundsson.


Þórunn Egilsdóttir.