Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 41  —  4. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta, strandveiðar, byggðakvóti, gjaldtökuheimildir, viðurlög).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Á fund nefndarinnar kom Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda. Þá barst nefndinni minnisblað frá Siglingastofnun Íslands.
    Eftir 2. umræðu komu fram áhyggjur af því að 1. gr. frumvarpsins, eins og hún hljóðar eftir að breytingartillaga nefndarinnar var samþykkt, kynni að verða andlag túlkunarvafa. Var talið að sá vafi sem umlyki efni hennar byði heim hættu á að hægt yrði að auka veiðigetu krókaaflamarksbáta án þess að það leiddi til sviptingar veiðileyfis með krókaaflamarki. Þannig yrði eigendum slíkra báta áfram mögulegt að gera þá breiðari (og styttri), m.a. með því að bæta á þá búnaði eins og svölum, kössum og síðustokkum án þess að það hefði þær afleiðingar sem lagðar eru til í 2. málsl. a-liðar 6. gr. frumvarpsins.
    Skilningur nefndarinnar er að viðmiðunin 15 m mesta heimila lengd krókaaflamarksbáta sé ekki háð túlkunarvafa. Skilgreining á mestu lengd kemur fram í reglum um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum, nr. 527/1997. Þar segir að mesta lengd sé heildarlengd skipsins, þ.m.t. allir fastir hlutar bolsins, svo sem skriðbretti, perustefni, skutgeymar og hlífðarlistar sem teljast hluti bolsins. Hins vegar skuli ekki mæla gúm- eða trélista til hlífðar, stýrisfjaðrir, utanborðsvélar eða utanborðsdrif né annan auðlosanlegan búnað svo sem handrið, jafnvægisstýri, hlífðargrindur við utanborðsdrif og þess háttar.
    Nefndin áréttar að framlagning breytingartillögu við 2. umræðu grundvallaðist á þeirri ætlan að láta lengingu krókaaflamarksbáta fyrir viðskeytingu svala, kassa, síðustokka og annars útbúnaðar sem ekki fellur undir skilgreiningu á mestu lengd leiða til missis krókaaflamarksveiðileyfis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. júní 2013.



Jón Gunnarsson,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason,


með fyrirvara.


Haraldur Benediktsson.



Björt Ólafsdóttir.


Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.



Þorsteinn Sæmundsson.


Þórunn Egilsdóttir.

Fylgiskjal.



Til atvinnuveganefndar Alþingis
Frá Siglingastofnun Íslands
Dags.: 25. júní 2013

Efni: Viðmiðun krókaaflamarksbáta

    Vísað er til tölvupósts atvinnuveganefndar dags. 24. júní 2013 þar sem óskað er eftir því að Siglingastofnun láti nefndinni í té minnisblað, þar sem fjallað verði um sýn stofnunarinnar á álitamáli sem komið hefur upp í umræðum innan nefndarinnar um að „15 metra að mestu lengd“ gæti orðið andlag túlkunarvafa. Þannig hefðu komið fram ábendingar þess efnis að þrátt fyrir að sérstaklega væri rætt um „mestu lengd“ í frumvarpsgreininni kynni áfram að verða heimilt að bæta svölum, kössum, síðustokkum og öðrum útbúnaði á báta sem mældust 14,99 m að lengd án útbúnaðarins og það hefði ekki áhrif á heimildir þeirra til veiða á grundvelli krókaaflamarks.
    Þá er þess óskað að tekin verði afstaða til þess hvort það væri til bóta ef nefndin legði til við 3. umræðu, með skýringum í nefndaráliti, að kveðið yrði á um að þeir bátar geti einir öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki sem séu styttri en 15 metrar „að samanlagðri heildarlengd“ og minni en 30 brúttótonn eða e.t.v. bátar sem séu „að hámarki 15 metrar að allri lengd“ og minni en 30 brúttótonn. Verði slík breyting talin koma til greina er þess óskað að nefndin verði upplýst um þau áhrif sem slík breyting hefði á réttindi skipstjórnarmanna, vélstjóra, stýrimanna o.fl. sem hafa réttindi til að vinna um borð í þeim bátum sem um er rætt og gerð grein fyrir því hvort einhver munur er þar á eftir því hve gömul slík réttindi eru eða aldri skipa.
    Í meðferð frumvarpsins hefur atvinnuveganefnd lagt til að miða við 15 metra að mestu lengd og 30 brúttótonn skv. íslenskum mælingareglum skv. reglum nr. 527/1997 í stað 15 metra að mestu lengd og 20 brúttótonn skv. „evrópskum“ mælingareglum, eins og lagt var til í frumvarpinu.

Reglur 527/1997; skilgreining á mestu lengd og brúttótonn:
„5.3    Mesta lengd, Lm, er heildarlengd skipsins, þar með taldir allir fastir hlutar bolsins, svo sem skriðbretti, perustefni, skutgeymar og hlífðarlistar sem teljast hluti bolsins. Hins vegar skal ekki mæla gúm- eða trélista til hlífðar, stýrisfjaðrir, utanborðsvélar eða utanborðsdrif né annan auðlosanlegan búnað svo sem handrið, jafnvægisstýri, hlífðargrindur við utanborðsdrif og þess háttar.“

„6.2    Brúttótonnatala, BT, skal reiknuð sem hér greinir:
        BT = Ls2 * Bs * 0,031, þar sem
        Ls = skráningarlengd skv. gr. 5.2.
        Bs = skráningarbreidd skv. gr. 5.4.“

    Í frumvarpinu er miðað að fullnægja verði báðum kröfunum um mestu lengd og brúttótonn skv. reglum nr. 527/1997. Siglingastofnun Íslands telur að viðmiðun við mestu lengd eigi ekki að vera háð túlkunarvafa, sbr. grein 5.3. og því engin þörf á að koma með breytingartillögu um „samanlagða heildarlengd“ eða „allri lengd“, en það eru hugtök sem hvergi eru notuð í lögum eða reglum um mælingar skipa eða í alþjóðasamningum.

F.h. Siglingastofnunar Íslands,

Helgi Jóhannesson og Steingrímur Hauksson.




Til atvinnuveganefndar.

    Ráðuneytið hefur kynnt sér umsögn Siglingastofnunar og telur ekki ástæðu til frekari athugasemda miðað við framborna fyrirspurn nefndarinnar.

Arnór Snæbjörnsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.