Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 26. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 46  —  26. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um neytendalán
(frestun gildistöku).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2013“ í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 33/2013 kemur: 1. nóvember 2013.

2. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2013“ í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 121/1994 kemur: 1. nóvember 2013.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku laga nr. 33/2013, um neytendalán, verði frestað frá 1. september 2013 til 1. nóvember 2013. Lög nr. 33/2013 byggjast á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB en tilgangur hennar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána. Tilskipunin mælir fyrir um fulla samræmingu (e. full harmonisation), sem þýðir að heimildir til frávika frá efnisákvæðum hennar við innleiðingu í landsrétt eru takmarkaðar. Innleiðing tilskipunarinnar hefur óhjákvæmilega í för með sér breytingar á útlánareglum, gerð skjala, lánaferlum og lána- og upplýsingakerfum, auk fræðslu fyrir starfsfólk fjármálafyrirtækja um efni laganna og breytt vinnubrögð.
    Lög nr. 33/2013, um neytendalán, gilda um veitingu lána til neytenda í atvinnuskyni. Lánveiting telst í atvinnuskyni hvort sem um er að ræða aðal- eða aukastarfsemi. Helstu réttindi neytenda samkvæmt lögunum eru:
          neytanda ber að fá ákveðnar upplýsingar áður en gengið er til samnings, t.d. um útlánsvexti, heildarfjárhæð láns og árlega hlutfallstölu kostnaðar,
          neytandi hefur rétt til að falla frá samningi innan fjórtán almanaksdaga án þess að tilgreina ástæðu,
          neytanda er heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi, að öllu leyti eða að hluta, fyrir þann tíma sem umsaminn er (lánveitanda ber þó að fá sanngjarnar bætur sem byggjast á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir),
          neytandi hefur rétt til að falla frá lánssamningi þegar samningur um afhendingu vöru eða þjónustu, sem lánssamningur er tengdur við, fellur brott.
    Lögin gera ráð fyrir að lánveitandi veiti neytanda ítarlegar upplýsingar um lánssamning. Í öllum auglýsingum og kynningarefni um lánssamninga skulu tilteknar upplýsingar koma fram á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt. Þá skal lánveitandi, með eðlilegum fyrirvara, veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning áður en neytandi er bundinn af samningi eða tilboði. Enn fremur er skylt að ákveðnar upplýsingar komi fram í lánssamningum. Framangreindar upplýsingar skulu koma fram í stöðluðu eyðublaði sem ráðherra setur reglugerð um.
    Mikilvægt ákvæði er að finna í 10. gr. laga nr. 33/2013 sem fjallar um lánshæfis- og greiðslumat. Með lánshæfi er átt við mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Með greiðslumati er átt við útreikning á greiðslugetu lántaka miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur, sem m.a. byggist á opinberum neysluviðmiðum. Er það orðað svo í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 33/2013 að með lánshæfismati sé leitast við að staðreyna greiðsluviljann en greiðslugetu með greiðslumati. Lánshæfismat skal ávallt framkvæmt en greiðslumat er bundið við lánveitingu að fjárhæð 2.000.000 kr. eða meira en 4.000.000 kr. eða meira þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða.

Frestun gildistöku.
    Skv. 36. gr. laga nr. 33/2013 öðlast þau gildi 1. september 2013. Fram hefur komið beiðni frá Samtökum fjármálafyrirtækja um að gildistöku verði frestað til 1. janúar 2014. Innanríkisráðuneytið hefur skoðað beiðnina og telur réttlætanlegt að gildistöku laganna verði frestað og kynnti þá afstöðu sína á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd. Sem fyrr segir felast í lögunum umtalsverðar breytingar sem óhjákvæmilega hafa í för með sér breytingar á útlánareglum, gerð skjala, lánaferlum og lána- og upplýsingakerfum, auk fræðslu fyrir starfsfólk fjármálafyrirtækja um efni laganna og breytt vinnubrögð.
    Embætti ríkisskattstjóra vinnur nú að undirbúningi að gildistöku laganna en gert er ráð fyrir auknu álagi á embættið við að útvega skattframtöl og launagreiðslur lánþega vegna greiðslumats. Komið hefur fram að embættið hyggst afhenda slík gögn með rafrænum hætti gegn framvísun rafrænna skilríkja en fjármálafyrirtæki hafa ekki tök á að innleiða almenna notkun rafrænna skilríkja fyrir áætlaða gildistöku 1. september nk.
    Í lögunum er Neytendastofu falið hlutverk eftirlits- og framkvæmdaraðila. Til þess að starfsmenn stofnunarinnar geti uppfyllt þetta hlutverk er mikilvægt að þeir fái tíma til að undirbúa þá framkvæmd og er tíminn fram að gildistöku ekki nægjanlegur.
    Þá er í lögunum gert ráð fyrir að velferðarráðuneytið gefi út neysluviðmið. Reiknivél fyrir þau hefur verið gefin út en lánveitendur bíða nú eftir að fá í hendur á aðgengilegu formi þær forsendur sem reiknivélin byggist á.
    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur skoðað þær röksemdir sem fram hafa verið færðar fyrir frekari frestun á gildistöku laganna og telur í ljósi þess rétt að fresta gildistöku laganna til 1. nóvember 2013. Fyrir liggur að erfitt verður að undirbúa alla aðila fyrir 1. september þegar lögin áttu að öðlast gildi. Ef gildistökunni er frestað ætti að gefast ráðrúm til að undirbúa nýja framkvæmd neytendalána. Álit nefndarinnar er að frestur fram í nóvember gefi hlutaðeigandi aðilum nægilegan tíma til að ljúka þeim verkefnum sem enn er ólokið til að hægt sé að innleiða nýja heildarlöggjöf um neytendalán. Nefndin áréttar mikilvægi þess að allar reglugerðir er málið varða verði tilbúnar 1. september 2013. Þannig gefst framkvæmdaraðilum frestur til að aðlaga tölvukerfi, verkferla, eyðublöð og annað sem nauðsynlegt er fyrir gildistöku laganna. Einnig leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að flýta gildistökunni eins og kostur er og að allir hlutaðeigandi leggist á eitt í þeirri vinnu að gera kerfið tilbúið til að þjónusta neytendur í samræmi við ný lög.
    Ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 121/1994, um neytendalán, fellur úr gildi 1. september að óbreyttu. Ákvæði þetta er hugsað þannig að gildistími þess haldist í hendur við gildistöku laga nr. 33/2013. Því er lagt til að gildistími ákvæðisins verði lengdur til 1. nóvember nk.