Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 14. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Prentað upp.

Þingskjal 107  —  14. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands
og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar
upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Ólaf Hjálmarsson, Björgvin Sigurðsson, Hrafnhildi Arnkelsdóttur, Rósmund Guðnason og Björn Þór Svavarsson frá Hagstofu Íslands, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Sverri Þorvaldsson frá Íslandsbanka, Þóru Hjaltested frá Arion banka, Svönu Helenu Björnsdóttur og Erlend Stein Guðnason frá Stika, Pál Hilmarsson og Þorstein Yngva Guðmundsson frá DataMarket ehf., Arnheiði Guðmundsdóttur frá Skýrslutæknifélagi Íslands, Smára McCarthy, Ragnar Aðalsteinsson hrl., Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Björgu Thorarensen, Hörð Helgason og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Sigríði Logadóttur, Tómas Örn Kristinsson, Hörpu Jónsdóttur og Þorvarð Tjörva Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Svavar Kjarval frá Félagi um stafrænt frelsi, Theódór Ragnar Gíslason og Ými Vigfússon frá Syndis, Reimar Pétursson frá Lögmannafélagi Íslands, Jónas S. Sverrisson, Helga Tómasson prófessor og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Margréti Sæmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bjarka Sigursveinssyni hdl., Data Market ehf., Félagi atvinnurekenda, Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Helga Tómassyni prófessor, Landsbankanum hf., Lögmannafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Marinó G. Njálssyni, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er lagt til að Hagstofunni verði fengin heimild til að afla upplýsinga af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja Hagstofunni aðgang að upplýsingum sem nauðsynlegar eru til hagsýslugerðar um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.

Söfnun persónuupplýsinga.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér og varða heimildir Hagstofu til að safna saman upplýsingum um einstaklinga og lögaðila. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um fjölmörg álitaefni sem frumvarpið felur í sér, m.a. varðandi stjórnarskrárvarin réttindi um friðhelgi einkalífs, hversu víðfeðma söfnun persónuupplýsinga það felur í sér, hverju hafi verið ætlað að ná fram með því og hvers vegna og hvort meðalhófs hafi verið gætt við útfærsluna, þ.e. hvort unnt hefði verið að fara einfaldari og viðurhlutaminni leið til að ná fram því markmiði sem að er stefnt. Þá var einnig rætt hvort upplýsingarnar mundu í reynd nýtast stjórnvöldum til stefnumótunar um viðbrögð við skuldavanda heimilanna og við mat á árangri þeirra úrlausna. Einnig fjallaði nefndin sérstaklega um þá almannahagsmuni sem í húfi eru svo að vel takist til við framkvæmdina auk öryggisþáttarins sem tengist meðferð gagnanna.

Friðhelgi einkalífs.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um stöðu frumvarpsins gagnvart stjórnarskránni. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í 3. mgr. greinarinnar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu „ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra“. Greinin verður einnig skýrð með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem áskilur hverjum manni rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Samkvæmt 2. mgr. hennar skulu stjórnvöld ekki ganga á þennan rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi „vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra“.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið Persónuverndar sem telur að þær persónuupplýsingar sem frumvarpið fjallar um falli ótvírætt undir friðhelgi einkalífs einstaklinga samkvæmt framangreindum ákvæðum og lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga sem og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laganna eru persónuupplýsingar sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings og felur því umrædd vinnsla í sér afskipti af þeim réttindum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur mikilvægt að markmiðið með söfnun og vinnslu upplýsinganna verði skýrt afmarkað og rökstutt ítarlega í sérstakri markmiðsgrein. Þá verði heimildin tímabundin og sett fram sem bráðabirgðaákvæði sem fellur brott 31. desember 2018.

Almannahagsmunir.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um markmið gagnasöfnunarinnar og hvort það væri nægilega vel rökstutt í frumvarpinu að þörf væri á svo ítarlegum upplýsingum um fjárhagsstöðu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Meiri hlutinn telur ljóst að markmiðið sé að greina skulda-, greiðslu- og eiginfjárstöðu heimila og lögaðila með vönduðum hætti til að tryggja að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum upplýsingum.
    Nýta á tölfræðiskýrslur sem Hagstofunni er falið að afla og vinna með til að meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra breytinga á hag heimila og fyrirtækja. Það er mat meiri hlutans að einsýnt sé að þessar úrlausnir varði meðferð almannafjár og því nauðsynlegt að þær byggist á traustum grunni og vönduðum upplýsingum. Efnahagsmál, ríkisfjármál og fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja geta talist til málefna þar sem mikilvægir almannahagsmunir eru í húfi. Meiri hlutinn bendir á að íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heiminum, árið 2012 námu skuldirnar 228% af ráðstöfunartekjum, en þær voru ríflega 162% árið 2007. Skuldirnar hafa því aukist verulega hin síðustu ár. Skuldir einstaklinga námu ríflega 1.920 milljörðum kr. árið 2012 og þar af námu skuldir vegna íbúðalána ríflega 1.220 milljörðum kr. Meiri hlutinn telur því ljóst að knýjandi þörf sé fyrir slíka tímabundna gagnasöfnun sem hér er lögð til svo að unnt sé að mæta afleiðingunum sem íslensk heimili glíma við af banka- og efnahagshruninu sem hér varð. Úrbætur varðandi skuldir heimila og fyrirtækja hafa verið eitt meginviðfangsefni íslenskra stjórnmála frá bankahruninu 2008 og eru nú eitt helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Til þess að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um opinber málefni þurfa vandaðar upplýsingar um stöðu mála og áhrif ákvarðana að liggja fyrir. Meiri hlutinn telur að frumvarp það sem hér um ræðir lúti að því að skapa forsendur fyrir skynsamlegri ákvarðanatöku um úrbætur í skuldamálum heimila og fyrirtækja. Það eykur líkur á að skynsamlegar ákvarðanir verði teknar ef byggt er á bestu fáanlegum upplýsingum um stöðu mála. Þær ákvarðanir sem hér um ræðir geta haft verulega þýðingu fyrir fjárhag heimila og fyrirtækja og þar með efnahagslíf í landinu og veltur því mikið á að vel takist til. Jafnframt er nauðsynlegt að geta fylgst með þróun mála eftir að ákvarðanir um aðgerðir hafa verið teknar og þeim hrint í framkvæmd til þess að meta hvort aðgerðirnar skili tilætluðum árangri.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að skort hefur á að unnt sé að samkeyra upplýsingar sem fjármálafyrirtæki og sjóðir skila til opinberra aðila og þegar eru til hjá stjórnvöldum þannig að ljóst sé hvert viðfangsefnið er og umfang þess. Með þessari tímabundnu vinnslu verður unnt að samkeyra slíkar upplýsingar og fá þannig skýra mynd af stöðu mála á ákveðnu tímabili. Með þær upplýsingar geta stjórnvöld brugðist við með viðeigandi hætti. Það er auk þess álit meiri hlutans að með þessari tímabundnu og afmörkuðu heimild verði upplýsingagjöf þeirra sem undir ákvæðið falla minna íþyngjandi en nú er.

Sérfræðingahópar um skuldavanda heimilanna.
    Meiri hlutinn bendir á að síðan frumvarpið var lagt fram hefur forsætisráðherra skipað sérfræðingahópa um skuldavanda heimila í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem samþykkt var 28. júní sl. (þskj. 55, 9. mál). Annars vegar er um að ræða sérfræðingahóp um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingarsjóðs og hins vegar sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fyrri hópurinn á að leggja fram tillögur í nóvember nk. Fyrir nefndinni komu fram þær upplýsingar að jafnvel þótt Hagstofa Íslands fengi nú þær lagaheimildir sem hér um ræðir yrði tölfræði á þeim grunni ekki gefin út fyrir árslok 2013. Fram kom á fundi nefndarinnar að sérfræðingahópurinn teldi sig geta lokið verkefni sínu á tilsettum tíma á grundvelli upplýsinga frá ríkisskattstjóra. Meiri hlutinn áréttar að stjórnvöld þurfa að meta þær tillögur sem sérfræðingahópurinn leggur til og taka afstöðu til þess hvaða aðgerða sé þörf, útfæra þær og meta kostnað við þær, til þess þurfi undirbúning og jafnvel breytingar á lögum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að frumvarpið nái fram að ganga, mikilvægt sé að búa í haginn fyrir vandað mat á áhrifum tillagnanna, sem og að grundvöllur verði lagður að mati á árangri aðgerða á sviði skulda- og greiðsluvanda. Burtséð frá aðgerðum stjórnvalda í þágu skuldsettra heimila og eftir atvikum fyrirtækja sýnir reynslan að mjög mikilvægt er að hafa sem bestar upplýsingar um þróun mála í þessum efnum. Tölfræðiskýrslur Hagstofunnar munu þannig verða mikilvægur hagvísir fyrir það tímabil sem um ræðir.

Tímanlegar upplýsingar.
    Meiri hlutinn bendir á að verulegur skortur er á tímanlegum upplýsingum, m.a. um afborganir, vexti og lánakjör og önnur fjárhagsmálefni, en þessi atriði ráða mestu um greiðslubyrði og endurspegla því greiðsluvanda heimila og lögaðila. Til þess að sýna réttar upplýsingar, sem gagnast stjórnvöldum við ákvarðanatöku, skiptir máli að skilgreiningar séu samræmdar og niðurstöður birtar með sama hætti. Einnig þurfa nákvæmar upplýsingar um lánskjör að liggja fyrir svo unnt sé að meta áhrif breytinga hvort sem þær eru vegna aðgerða stjórnvalda eða lánastofnana. Það er álit meiri hlutans að upplýsingar úr skattframtölum sem tiltæk eru á ári hverju svari ekki að fullu fyrrgreindum þörfum þar sem framtöl hvers árs eru ekki tiltæk til vinnslu fyrr en eftir álagningu skatta á ári hverju. Sem dæmi má einnig nefna að greiðslubyrði verður ekki metin af framtalsgögnum, né heldur grunnforsendur láns, skilmálar og greiðslueiginleikar, svo sem jafngreiðslulán, jafnar afborganir, kúlulán, vaxtalán, árstíðarbundnar greiðslur, óreglulegar greiðslur né heldur úrræði vegna greiðsluvanda. Þar vantar einnig upplýsingar um afborganir annarra lána en þeirra sem tekin eru vegna húsnæðiskaupa en þær upplýsingar eru nauðsynlegar við mat á greiðslustöðu, sem og ítarlegar upplýsingar um tegund og kjör þeirra lána. Þar er heldur ekki að finna upplýsingar um greiðsluvanda ef um hann er að ræða, né heldur upplýsingar um áhrif aðgerða sem gripið hefur verið til til að bregðast við greiðslu- eða skuldavanda. Þannig vantar á að grunnupplýsingar séu fyrir hendi svo að unnt sé að fá sem skýrasta heildarmynd.
    Hagstofa Íslands gaf 30. ágúst 2013 út niðurstöður úr framtölum vegna ársins 2012 í heftinu „Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga 2012“. Þar sem upplýsingar úr framtölum liggja aldrei fyrir fyrr en eftir á með umtalsverðri tímatöf eru þau síður nothæf og í þeim er því ekki að finna allar þær niðurstöður sem þörf er á. Tímanlegar upplýsingar sýna fyrst og fremst hver staðan er hverju sinni, hvað gerst hefur og einnig áhrif aðgerða sem grípa þarf til eða annarra breytinga sem kunna að verða á umfangi og stöðu. Þær eru því nauðsynlegar til að sjá hvert stefnir og munu verða eins konar mælir á ástand efnahags heimila. Meiri hlutinn tekur fram að með samantekt slíkra upplýsinga er unnt að leggja grunn að hagskýrslugerð og mati á fjárhagsstöðu heimila og lögaðila sem og að fylgjast með framgangi og leggja mat á áhrif aðgerða stjórnvalda þannig að hægt sé að bregðast nógu snemma við ef eitthvað er um það bil að fara úrskeiðis.

Meðalhóf.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um það hvort verkefnið uppfyllti kröfur um meðalhóf, þ.e. gengi ekki frekar á stjórnarskrárvarin réttindi um friðhelgi einkalífs en þörf krefði. Nefndin fjallaði í því sambandi um umfang verkefnisins og hvaða upplýsingar þyrftu í reynd að liggja fyrir svo að hægt væri að ná fram þeim markmiðum sem að væri stefnt. Meiri hlutinn fellst í því sambandi á þau sjónarmið sem komið hafa fram á fundum nefndarinnar að heimildin sem lögð er til í frumvarpinu sé of víðtæk þar sem henni var ætlað að ná til fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri og víki auk þess þagnarskyldu þeirra til hliðar. Fram kom að undir ákvæðið féllu m.a. stéttir sem bundnar eru mjög ríkri þagnarskyldu, svo sem lögmenn, sálfræðingar, geðlæknar o.fl. sem geta átt útistandandi skuldir hjá einstaklingum vegna þjónustu sem þeir hafa veitt. Meiri hlutinn leggur því til að það verði skýrt afmarkað í greininni til hverra heimild Hagstofunnar til gagnasöfnunar nær. Meiri hlutinn fellst á að ekki verði safnað gögnum umfram það sem brýn nauðsyn ber til til að mæta tilgangi laganna. Meiri hlutinn leggur því til að þeir aðilar sem Hagstofa Íslands getur kallað eftir upplýsingum frá verði tilteknir í ákvæðinu, þ.e. Íbúðalánasjóður, fjármálafyrirtæki, þ.m.t. þau sem stýrt er af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi sem hefur verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, lífeyrissjóðir, Lánasjóður íslenskra námsmanna og önnur fyrirtæki og opinberir aðilar sem stunda lánastarfsemi í atvinnuskyni eða samkvæmt lögum.
    Fyrir nefndinni voru einnig þau sjónarmið reifuð hvort ekki væri hægt að ganga skemur í öflun upplýsinga með því að velja úrtak úr gögnunum. Meiri hlutinn bendir á að þrátt fyrir að farin yrði sú leið að velja úrtak þyrfti engu síður að afla þeirra heimilda sem frumvarpið felur í sér. Jafnframt kom það fram við meðferð frumvarpsins í nefndinni að ef ætti að fara þá leið að velja úrtak yrði það að vera mjög stórt, eða um 30.000 heimili eða um 70.000 manns, til þess að niðurstöðurnar yrðu marktækar. Meiri hlutinn telur að með því að velja úrtak aukist hætta á því að upplýsingarnar verði persónugreinanlegar.
    Nefndin fjallaði einnig um þann möguleika að kveða á um að einstaklingar og lögaðilar geti undanskilið sig þessari tímabundnu heimild þar sem það gæti einnig skekkt niðurstöður þegar litið er til einstakra hópa. Notkun heildargagna tryggir öryggi niðurstaðna og gerir kleift að birta ítarlegar niðurstöður.

Alþjóðavettvangur.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að engin önnur þjóð á Norðurlöndum safni eins ítarlegum gögnum frá bönkum og fjármálastofnunum og stefnt sé að með frumvarpinu. Meiri hlutinn bendir á að í því sambandi sé rétt að líta til svokallaðra skuldagrunna sem settir hafa verið á laggirnar í ýmsum Evrópulöndum en þeir eru ýmist reknir af einkaaðilum eða opinberum aðilum. Af þeim má sjá að þær heimildir sem frumvarpið felur í sér eru á engan hátt einsdæmi. Það sem er hins vegar sérstakt við nálgun frumvarpsins er að Hagstofu Íslands er falið meginhlutverk við söfnun upplýsinga og úrvinnslu þeirra og að einungis er gert ráð fyrir að gögnin séu nýtt til útgáfu reglubundinna tölfræðigreininga og þeim eytt að því loknu. Það verður því í reynd ekki til neinn varanlegur gagnagrunnur í tengslum við þetta tölfræðiverkefni um skuldir heimila og lögaðila. Á alþjóðavísu hefur verið talið lögmætt að safna saman skuldaupplýsingum og vinna úr þeim í ýmsu skyni. Í fyrsta lagi getur slík upplýsingavinnsla stuðlað að auknu gagnsæi á lánamarkaði, bæði í þágu lánveitenda og lántaka. Í öðru lagi getur slík upplýsingavinnsla auðveldað starf eftirlitsaðila eins og Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, m.a. við mat á áhættu í kerfinu. Í þriðja lagi má nýta upplýsingarnar við gerð tölfræði varðandi peningamál, fjármálakerfið og skuldsetningu heimila og lögaðila.

Vinnsla persónuupplýsinga.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ekki hafi verið sýnt fram á hvers vegna þörf er á jafnítarlegri upplýsingasöfnun og gert er ráð fyrir í frumvarpinu og að unnið hafi verið að slíkri rannsókn árið 2009 með mun viðurhlutaminni hætti. Nefndin fjallaði ítarlega um gagnaöryggi á fundum sínum og hvort ákvæði frumvarpsins stæðist þær kröfur sem gerðar eru til réttaröryggis við meðferð slíkra persónuupplýsinga. Nefndin fjallaði í því sambandi sérstaklega um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið að frumvarpið kallaði á skoðun á samþýðanleika við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á þessu sviði. Markmið tilskipunarinnar er að vernda grundvallarréttindi og frelsi manna, einkum rétt þeirra til friðhelgi einkalífs síns, í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.
    Tilskipunin gildir um vinnslu persónuupplýsinga með rafrænum hætti, hvort sem er að hluta eða í heild, og um vinnslu með öðrum aðferðum en rafrænum á persónuupplýsingum sem eru geymdar, eða geyma á, í skráningarkerfi. Í 6. gr. tilskipunarinnar koma fram fimm meginreglur um gæði gagna. Í fyrsta lagi segir að aðildarríki skuli kveða á um að persónuupplýsingar skuli vinna með sanngjörnum og lögmætum hætti. Í öðru lagi segir að persónuupplýsingarnar skuli fengnar með skýrt tilgreindum og lögmætum markmiðum og að frekari vinnsla þeirra megi ekki vera ósamrýmanleg þessum markmiðum. Í þriðja lagi skulu persónuupplýsingarnar vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við markmiðin með söfnuninni og/eða vinnslunni. Í fjórða lagi verða persónuupplýsingarnar að vera áreiðanlegar og, ef þörf krefur, uppfærðar; gera verður allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar, sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við markmiðin með söfnun þeirra eða frekari vinnslu, verði afmáðar eða leiðréttar. Í fimmta lagi verða persónuupplýsingarnar að vera geymdar í því formi að ekki sé unnt að persónugreina þær um skráða aðila lengur en þörf er á miðað við markmiðin með söfnun þeirra eða frekari vinnslu. Jafnframt skulu aðildarríkin setja nauðsynleg öryggisákvæði um þær. Meiri hlutinn telur að þegar litið er til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og framangreindrar tilskipunar sé nauðsynlegt að leggja til ítarlegar breytingar á frumvarpinu, m.a. í þá veru að efni frumvarpsins verði fært í bráðabirgðaákvæði þannig að ljóst sé að um tímabundna og afmarkaða vinnslu sé að ræða og að hún byggist á lögmætum sjónarmiðum. Þá þarf að kveða skýrt á um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu persónuupplýsinga í gagnagrunninum, um tímamörk á varðveislu þeirra og um eyðingu gagnanna að þeim liðnum til þess að frumvarpið standist kröfur um réttaröryggi þeirra er upplýsingarnar varða.

Öryggi gagna.
    Nefndin ræddi sérstaklega um öryggisráðstafanir við vinnslu persónuupplýsinga. Ræddi nefndin í því sambandi hvernig öryggi væri tryggt hjá Hagstofu Íslands, hvort kerfi hennar væru tekin út og veikleikaprófuð og hvort þau væru vottuð. Fram kom á fundum nefndarinnar að á Hagstofunni eru ýmis kerfi og ferlar til að verja öryggi tölvu- og pappírsgagna. Öryggiskerfin eru þrautreynd en Hagstofan leitast við að setja upp viðurkennd kerfi til eftirlits og aðgangsstýringa á gagnasöfnum stofnunarinnar. Einnig kom fram að kerfi Hagstofunnar sem snúa að ytri samskiptum, svo sem pósti, vef og netbúnaði, eru prófuð reglulega en þær prófanir eru gerðar af fyrirtæki sem sérhæfir sig í prófunum af þessu tagi. Niðurstöður prófana eru lagðar til grundvallar við lagfæringar og uppfærslur. Þessu til viðbótar fylgist Hagstofan sjálf með innri og ytri netum og kerfum með það að markmiði að finna veikleika til að koma í veg fyrir innbrot og stöðva gagnaleka.
    Fram kom við meðferð frumvarpsins að Hagstofa Íslands hefur ekki formlega vottun, hvorki öryggis- né gæðavottun. Það er álit meiri hlutans að mikilvægt sé að stofnunin öðlist slíka vottun. Jafnframt telur meiri hlutinn nauðsynlegt að gerð verði úttekt á öryggismálum og telur ljóst í því sambandi að mæta þurfi þeim kostnaði sérstaklega með auknum fjárframlögum.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var nokkuð rætt um mikilvægi þess að frumvarpið fæli í sér ítarleg ákvæði um öryggi gagnanna, þ.e. meðferð, vinnslu og eyðingu þeirra, sbr. framangreinda tilskipun Evrópuráðsins. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur til breytingar á frumvarpinu þar að lútandi. Meiri hlutinn leggur til að Hagstofu Íslands verði gert að gæta þess að upplýsingaöflun, samtenging og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur og að ekki sé unnt að rekja upplýsingar í birtum skýrslum eða rannsóknum til einstaklings, heimila eða lögaðila. Einnig er lagt til að gæta skuli fyllsta öryggis við sendingu og meðferð upplýsinga og að framkvæma skuli áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við 11.–13. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglur sem settar hafa verið á þeim grundvelli. Jafnframt verður Hagstofunni gert skylt að eyða gögnum sem hægt er að rekja til einstaklinga eða lögaðila einu og hálfu ári eftir fyrstu útgáfu á niðurstöðum hvers tímabils og eigi síðar en í árslok 2018. Telur meiri hlutinn að þessar breytingar eigi að leiða til þess að fyllsta öryggis verði gætt við meðferð gagnanna sem hér er um að ræða.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á það ákvæði frumvarpsins sem kveður á um að Hagstofunni sé óheimilt að afhenda öðrum stjórnvöldum umrædd gögn og að ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víki fyrir því ákvæði og að upplýsingarnar lúti ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum. Með ákvæðinu er því allur vafi tekinn af um að ákvæði annarra laga um afhendingu gagna nái ekki yfir gögn sem notuð verða til að vinna framangreindar tölfræðiskýrslur og rannsóknir og víkur það trúnaðarskyldu starfsmanna Hagstofunnar þess vegna ekki til hliðar.

Varðveisla og flutningur gagna.
    Meiri hlutinn bendir á að við flutning gagna og tölfræðivinnslu verður ekki unnið með kennitölur um lántakendur heldur einkvæm einkenni og því verða persónuupplýsingar órekjanlegar þar sem persónuauðkenni verða afmáð (dulkóðuð). Í upplýsingaveitum gagnaveitenda eru einstaklingar auðkenndir með kennitölum en þegar kerfi Hagstofunnar tekur á móti gagnasendingu verður kennitölum þegar í stað breytt sjálfvirkt í einkvæm persónuauðkenni og gögnin vistuð þannig. Önnur gögn sem Hagstofan nýtir í verkefninu verða einnig vistuð með sama persónuauðkenni. Með þessum hætti verður hægt að tengja ólík gagnasett og auðga gögnin án þess að nota kennitölu. Við vinnslu hagtalna um skulda- og eignastöðu munu sérfræðingar Hagstofunnar ekki hafa aðgang að gögnum sem innihalda kennitölur. Upplýsingar sem gera það kleift að sækja kennitölu í gagnasafni verða geymdar sérstaklega, aðgangur takmarkaður við móttökukerfi gagna og strangt eftirlit haft með aðgangi. Hagstofan telur að með þessum hætti sé trúnaður, skilvirkni ferla og áreiðanleiki gagna best tryggður og tekur meiri hlutinn undir það.
    Meiri hlutinn tekur sérstaklega fram að þótt kveðið sé á um að þeir sem eiga að skila upplýsingum til Hagstofu skuli gera það án endurgjalds sé ljóst að Hagstofan þarf að þróa kerfi til að taka á móti slíkum upplýsingum og aðlaga þannig að framkvæmdin feli í sér sem minnstan kostnað fyrir þá sem falla undir ákvæðið. Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti kemur fram að í fjárlögum ársins 2012 hafi Hagstofunni verið veittar samtals 55 millj. kr. til uppbyggingar á gagnagrunni og einnig að varanlegar fjárheimildir til verkefnisins verði 35 millj. kr. Fyrir nefndinni kom fram að þessi undirbúningur sé kominn vel á veg hjá Hagstofunni.

Eyðing gagna og eftirlit.
    Nefndin fjallaði einnig um eyðingu gagnanna og telur það vera grundvallaratriði í þeim skilningi að ekki verði til varanlegur gagnagrunnur. Meiri hlutinn leggur því til að tekið verði skýrt fram að Hagstofa Íslands skuli eyða gögnum sem hægt er að rekja til einstaklinga, heimila eða lögaðila einu og hálfu ári eftir fyrstu útgáfu á niðurstöðum hvers tímabils og eigi síðar en í árslok 2018.
    Þá telur meiri hlutinn einnig mikilvægt að kveða á um að Persónuvernd hafi eftirlit með þeirri eyðingu þar sem Hagstofunni hafi með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til verið falið að setja sér öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við 11.–13. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglur settar á þeim grundvelli og þarf því að hafa samstarf við Persónuvernd.

Úrvinnsla og tímarammi.
    Nefndin fjallaði um tímamörk á vinnslu en fyrir nefndinni kom fram nauðsyn þess að Hagstofan fengi gögn frá 1. janúar 2012 og eldri gögn að því er varðar lán sem hafa verið greidd upp eða verið breytt vegna úrræða í þágu skuldara allt frá 31. desember 2006. Fram kom að miðað er við 1. janúar 2012 vegna samkeyrslu við upplýsingar frá skattyfirvöldum sem berast Hagstofu eftir að álagningu ársins er lokið, þ.e. rúmu einu og hálfu ári síðar. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að þau tímamörk séu afmörkuð skýrt í frumvarpinu sem og hvenær síðasta úrvinnsla gagna geti farið fram en í frumvarpinu var lagt til að heimildin yrði endurskoðuð fyrir árslok 2017. Meiri hlutinn leggur því til að síðasta úrvinnsla gagna geti farið fram í árslok 2018 en þá er unnt að keyra upplýsingar Hagstofunnar saman við gögn skattyfirvalda vegna ársins 2017. Meiri hlutinn telur að með þessum breytingum sé tímarammi úrvinnslunnar skýrt afmarkaður.

Þagnarskylduákvæði.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um ákvæði frumvarpsins sem varða þagnarskyldu en fram komu sjónarmið um að með því að kveða á um að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum greinarinnar geti ákvæðið falið í sér of víðtæka takmörkun sem megi einnig skilja þannig að þeir starfsmenn Hagstofunnar sem veita viðtöku upplýsingum sem annars mundu falla undir 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki beri ekki sömu refsiábyrgð og aðrir sem veita slíkum upplýsingum viðtöku, svo sem starfsmenn viðkomandi fjármálafyrirtækja og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins. Það kunni því að fela í sér takmörkun þeirrar verndar sem 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki er ætlað að veita þeim upplýsingum sem hér um ræðir. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur til að skýrt verði kveðið á um að upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu, sbr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða öðrum sérlögum, skuli háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Hagstofu Íslands, sbr. 10. gr. laganna. Meiri hlutinn leggur því einnig til að við frumvarpið bætist sambærilegt refsiákvæði þannig að kveðið verði á um að brjóti starfsmenn Hagstofu Íslands gegn þagnarskylduákvæðum í 10. og 11. gr. laganna fer um refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Þegar um er að ræða upplýsingar, sem falla undir 58. gr. laga nr. 161/2002, varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum.

Tímabundin heimild.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimildin verði endurskoðuð fyrir árslok 2017 og við þá endurskoðun metið hvort þjóðfélagsleg nauðsyn fyrir slíku verkefni sé enn fyrir hendi. Meiri hlutinn fellst ekki á að heimildin verði endurskoðuð. Meiri hlutinn hefur rökstutt ástæður þess að hann leggur til að efni frumvarpsins verði að mestu fært í bráðabirgðaákvæði sem falli brott 31. desember 2018. Rökin fyrir þeirri tilhögun eru ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og mannréttindasáttmála Evrópu og þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að unnt sé að takmarka þau réttindi. Þá hefur meiri hlutinn litið sérstaklega til tilskipunar Evrópuráðsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Með þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur lagt til er að mati hans komið til móts við kröfur tilskipunarinnar, þ.e. að vinnslan sé unnin með sanngjörnum og lögmætum hætti, skýrt tilgreindum markmiðum á grundvelli almannahagsmuna, uppfylli kröfur um meðalhóf með því að vera tímabundið og skýrt afmarkað verkefni, byggist á áreiðanlegum upplýsingum sem eru ópersónugreinanlegar og eytt undir eftirliti Persónuverndar.
    Meiri hlutinn leitaði álits Persónuverndar á þeim breytingum sem hann leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Í umsögn Persónuverndar segir: ,,Í umræddri tillögu að breytingu á frumvarpinu er nánar fjallað um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu umræddra upplýsinga, auk þess sem varðveislutími er afmarkaður, mælt fyrir um eyðingu og skýrar tilgreint hjá hverjum upplýsinga um útlán verði aflað og hvaða upplýsinga.“ Að þessu leyti hefur að mati meiri hlutans verið komið til móts við athugasemdir Persónuverndar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að markmið bráðabirgðaákvæðisins er skýrt og tekinn er af allur vafi um það að hér er um tímabundna heimild að ræða sem nær yfir afmarkað verkefni sem lýkur með eyðingu allra persónugreinanlegra upplýsinga sem safnað var vegna rannsóknarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    

Alþingi, 10. september 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Líneik Anna Sævarsdóttir,


frsm.


Elsa Lára Arnardóttir.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.