Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 14. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 109  —  14. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands
og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar
upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn telur mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma geti byggt ákvarðanir sínar á vönduðum upplýsingum og réttum forsendum, en umrætt frumvarp er lagt fram með það að markmiði. Því hefur minni hlutinn tekið fullan þátt í að betrumbæta frumvarpið og lagt áherslu á að ná sem víðtækastri sátt. Þær breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt fram eru ekki fullnægjandi að mati minni hlutans og telur hann sér ekki fært að styðja frumvarpið óbreytt. Minni hlutinn hefur lýst sig reiðubúinn til þess að starfa með meiri hlutanum og öðrum aðilum við að búa til frumvarp sem uppfyllir markmið um vandaðar upplýsingar en gætir jafnframt með fullnægjandi hætti að persónuvernd og mannréttindum. Minni hlutinn telur hægt að ná sátt um slíkt frumvarp og leggja fram á haustþingi. Verulegir annmarkar þess frumvarps sem hér liggur fyrir og á þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram gera hins vegar minni hlutanum ókleift að styðja frumvarpið óbreytt.
    Þrátt fyrir tilraunir meiri hlutans til að bæta úr annmörkum frumvarpsins með breytingum sem hann leggur til telur minni hlutinn markmið frumvarpsins enn óskýr. Minni hlutinn áréttar að frumvarp þetta er ekki forsenda fyrir úrlausn skuldavanda heimila og fyrirtækja. Minni hlutinn leggur áherslu á að sérfræðihópur um skuldavanda heimilanna á að skila tillögum sínum í nóvember nk. en fram kom við meðferð frumvarpsins í nefndinni að Hagstofa Íslands mun skila fyrstu niðurstöðum í fyrsta lagi í mars á næsta ári. Svo virðist sem markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar sé að taka einvörðungu á höfuðstólshækkun lána en ekki er litið til annarra mikilvægra þátta sem brýnt er að leysa úr, sbr. stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði, námsmanna og fyrirtækja og þann greiðsluvanda sem mörg heimili búa við.

Samræmi við stjórnarskrá.
    Minni hlutinn telur ótvírætt og óumdeilt að með frumvarpinu sé gengið inn á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs, sbr. ákvæði stjórnarskrár, ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og umsagnir þeirra sérfræðinga og gesta sem hafa komið fyrir nefndina.
    Minni hlutinn áréttar sérstaklega það sem fram kom í umsögn Persónuverndar en þar segir m.a.: „Þær persónuupplýsingar sem frumvarpið fjallar um falla ótvírætt undir friðhelgi einkalífs einstaklinga […] og umrædd vinnsla felur þannig í sér afskipti af þeim réttindum. Verði umrætt frumvarp að lögum mun verða til persónugreinanlegur gagnagrunnur hjá stjórnvöldum með ítarlegum fjárhagsupplýsingum um landsmenn alla sem unnið verður með a.m.k. næstu fjögur árin.“ Síðar í umsögn Persónuverndar segir: „Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga. Í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af friðhelgi einkalífs. Telji löggjafinn engu að síður tilefni til að veita frumvarpinu lagagildi er lagt til að gerðar verði endurbætur á því þannig að skýrt verði mælt fyrir um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu persónuupplýsinga í umræddum gagnagrunni, um tímamörk á varðveislu þeirra og um eyðingu gagnanna að þeim liðnum.“
    Í breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið er nánar fjallað um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu umræddra upplýsinga, auk þess sem varðveislutími er afmarkaður, mælt fyrir um eyðingu og skýrar tilgreint hjá hverjum upplýsinga um útlán verði aflað og hvaða upplýsinga. Að því leyti hefur verið komið til móts við athugasemdir Persónuverndar. Hins vegar telur stofnunin í seinni umsögn sinni, sem fjallar um breytingartillögur meiri hlutans, enn skorta á rökstuðning fyrir nauðsyn umræddrar upplýsingasöfnunar sem af ákvæðum frumvarpsins er ljóst að er mjög víðtæk og segir þar: „Þá er til þess að líta að samkvæmt orðum fulltrúa sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingasjóðs, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar hinn 2. september 2013, ættu upplýsingar um útlán á skattframtölum að nægja hópnum við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila. Fyrrgreind umsögn Persónuverndar, dags. 25. júní 2013, byggist m.a. á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.“
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið Persónuverndar og tekur fram að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru meðal grundvallarreglna réttarríkisins. Takmörkun þeirra þarf að byggjast á skýrum lagaheimildum og er einungis heimil þegar brýna nauðsyn ber til. Þá er áskilið að ekki sé gengið lengra í takmörkuninni en þörf krefur. Mikilvægt er að réttindin sem skerðingin á að framfylgja vegi þyngra en réttindin sem á að skerða. Að mati minni hlutans hefur meiri hlutanum ekki tekist að rökstyðja með trúverðugum hætti að í húfi séu svo ríkir almannahagsmunir að réttætanlegt geti verið að ganga svo langt til að ná þeim markmiðum sem ætlunin er að ná með frumvarpinu.

Markmið frumvarpsins.
    Til að takmarka megi mannréttindi þurfa rökin fyrir því að vera veigamikil og tilgangurinn brýnn. Frumvarpið virðist hafa tvíþættan tilgang. Annars vegar að eiga við meint neyðarástand sem réttlæti þá jafnróttækar aðgerðir og mælt er fyrir um í frumvarpinu og hins vegar að greiða fyrir almennri hagskýrslugerð til aðstoðar við umsýslu á almannafé. Nokkuð er á reiki hvort upplýsingasöfnunin eigi að nýtast við ákvörðunartöku varðandi úrbætur í skuldamálum heimila og fyrirtækja eða við að leggja mat á árangur slíkra aðgerða, nema hvort tveggja sé.
    Af umsögnum sem nefndinni bárust og að áliti margra gesta sem komu á fundi nefndarinnar, er ljóst að miklar efasemdir eru uppi um hvort þessi óljósu markmið frumvarpsins teljast nægilega veigamikil rök til að ganga inn á friðhelgi einkalífs með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Minni hlutinn bendir á í því sambandi að fram kom á fundum nefndarinnar að sérfræðingahópur sem vinnur tillögur um höfuðstólslækkun húsnæðislána getur byggt þær á upplýsingum frá skattyfirvöldum sem byggjast á framtölum. Minni hlutinn telur því einsýnt að sá rökstuðningur fyrir nauðsyn þessarar viðamiklu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér sé haldlítill.
    Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að ákvarðanir um efnahagsmál og ríkisfjármál teljist til mikilvægra almannahagsmuna. Minni hlutinn getur ekki fallist á að þeir almannahagsmunir sem raktir eru í rökstuðningi meiri hlutans réttlæti skerðingu á mannréttindum og telur að möguleikar á skynsamlegri ákvörðunartöku yfirvalda, svo sem í skuldamálum heimila og fyrirtækja, dugi ekki sem réttlæting þegar svo rík réttindi eru í húfi.
    Í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til hefur að nokkru leyti verið brugðist við þessum athugasemdum með því að leitast við að skilgreina markmið frumvarpsins, hafa gildistímann takmarkaðan og afmarka nánar frá hvaða aðilum Hagstofan getur aflað umræddra upplýsinga. Að mati minni hlutans vantar þó enn verulega á að markmið lagasetningarinnar og tilgangur sé nægilega skýr.

Meðalhóf.
    Verði frumvarpið samþykkt bendir minni hlutinn á að ef látið yrði reyna á stjórnskipulegt gildi laganna muni stjórnvöld þurfa að sýna fram á að markmið frumvarpsins lúti að brýnum almannahagsmunum og enn fremur að ekki hafi verið unnt að beita vægari úrræðum en víðtækri söfnun persónuupplýsinga um alla íslenska borgara sem eiga í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og lánastofnanir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu, m.a. vegna aðgerða fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki. Minni hlutinn bendir í því sambandi á að skynsamleg ákvörðunartaka stjórnvalda um meðferð almannafjár og/eða eftirlit með árangri hennar, geti tæpast verið háð því að borgararnir þurfi að afsala sér mannréttindum sínum.
    Minni hlutinn bendir á að ekki hefur verið sýnt fram á með sannfærandi hætti að úrtak skili ekki sömu eða sambærilegum niðurstöðum. Auk þess sem upplýsingarnar sem ætlunin er að safna gefa ekki fullkomalega rétta mynd þar sem þær eiga m.a. að byggjast á fasteignamati húsnæðis og jarða, þ.e. varðandi eignahliðina en fyrir liggur að það gefur ekki sanna mynd af raunverulegri eignastöðu.

Málsmeðferð.
    Frumvarpið sem kom til umfjöllunar allsherjar- og menntamálanefndar var sjö greinar. Í meðförum nefndarinnar var ljóst að frumvarpið var ekki tækt í þeirri mynd sem það var lagt fram. Þrátt fyrir þá vinnu sem hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar eru helstu vankantar upphaflegs frumvarps óleystir eins og að framan hefur verið rakið. Þá hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort og hvernig frumvarpið samræmist ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum og Evrópulöggjöf er lúta að vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga og við vinnslu og frjálsa miðlun persónuupplýsinga. Að mikilvægi könnunar á þessu var sérstaklega vikið í umsögn Lögmannafélags Íslands um frumvarpið.
    Minni hlutinn tekur fram að þegar litið er til þess hvaða gæðakröfur löggjöf þarf að uppfylla sé ljóst að frumvarpið hefur ekki fengið nægjanlega umfjöllun og krefst ítarlegri yfirferðar. Þá hafa þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu ekki hlotið nægjanlega yfirlegu og hafa umsagnaraðilar, m.a. Lögmannafélag Íslands, gert athugsemdir við það.
    Minni hlutinn lítur enn fremur svo á að engin ástæða sé til þess að hraða málinu á sumarþingi í ljósi þess að gögnin verða ekki nýtt fyrr en eftir að starfshópar um skuldavandann hafa lokið störfum og skilað sínum tillögum.

Öryggi gagna.
    Upplýsingarnar sem hér er lagt til að safna saman eru afskaplega viðamiklar og því auðséð að aðrar stofnanir ríkisins munu sjá sér hag í að nálgast þær til ýmissa nota. Á fundi nefndarinnar með Persónuvernd kom fram að þegar um svo viðurhlutamikla gagnagrunna er að ræða sé skýr tilhneiging til þess að finna leiðir til að nýta þá frekar. Samtök Fjármálafyrirtækja viðruðu sömu áhyggjur á fundi sínum með nefndinni. Í umsögn þeirra um frumvarpið segir m.a.: „Söfnun og varðveisla trúnaðargagna felur ávallt í sér hættu á því að upplýsingarnar geti lekið út til óviðkomandi aðila eða verði misnotaðar. Slíkt getur m.a. skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækja og valdið því að traust í viðskiptum á milli aðila verður minna en ella.“ Minni hlutinn tekur undir þessar áhyggjur Persónuverndar og Samtaka fjármálafyrirtækja.
    Minni hlutinn bendir á að á fundum með sérfræðingum á sviði öryggismála kom fram að öryggi tölvukerfa væri ekki metið eftir því hvort þau væru örugg eða ekki, heldur hversu langan tíma og hversu mikið fé það kostaði að brjótast inn í þau. Í ljósi smæðar er Ísland veikburða til að standast áhlaup, t.d. frá erlendum njósnaiðnaði eða stórum glæpasamtökum sem gætu m.a. hagnast á því að selja persónugreinanlegar upplýsingar til hagsmunaaðila af ýmsum toga. Verði frumvarpið að lögum verða tölfræðiupplýsingar um fjárhagsstöðu einstaklinga og lögaðila í einni stofnun og því er talið að því fylgi aukin hætta á að hún verði fyrir netárás. Minni hlutinn bendir á að Hagstofa Íslands tók undir þessi sjónarmið á fundum nefndarinnar.

Stjórnskipulegt gildi.
    Minni hlutinn bendir á að vegna þess mikla vafa sem leikur á um stjórnskipulegt gildi frumvarpsins og ekki síst vegna þeirra vandkvæða sem það getur verið bundið að fá skorið úr því fyrir dómstólum sé ábyrgð Alþingis sérlega rík í þessu máli. Verði frumvarpið að lögum muni þeir einstaklingar sem upplýsingasöfnun lýtur að eingöngu vita að upplýsingum um þá sé safnað en þeir munu ekki vita með áþreifanlegum hætti hvaða persónugreinanlegu upplýsingar verða látnar Hagstofunni í té. Af því leiðir að það getur orðið miklum vandkvæðum háð að láta reyna á lagaheimildina fyrir dómstólum.

Niðurlag.
    Minni hlutinn áréttar þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin og telur að enn séu gallar á málinu og ósamræmi enn í skýringum á tilgangi frumvarpsins. Sterkar efasemdir eru uppi um að frumvarpið standist stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmála. Minni hlutinn bendir á að frumvarpið krefst því mun vandaðari undirbúnings. Rökstuðningur fyrir nauðsyn þeirrar víðfeðmu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér er enn fyrir hendi að mati Persónuverndar og fleiri aðila. Upplýsingar í skattframtölum ættu að nægja við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila samkvæmt sérfræðihópi forsætisráðherra um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.
    Minni hlutinn bendir á að til þess að uppfylla kröfur um gæði lagasetningar og í samræmi við þær kröfur sem stjórnarskráin setur þarf að átta sig á til hvers á að nýta upplýsingarnar, hvert markmiðið er. Finna þarf út hvaða upplýsingar það eru sem raunverulega vantar og hvaða leiðir eru mögulegar til að ná því markmiði sem að er stefnt og velja vægustu mögulegu leiðina.
    Minni hlutinn ályktar að skynsamlegast væri að allsherjar- og menntamálanefnd tæki málið aftur upp á haustþingi með reynsluna og réttindi borgaranna að leiðarljósi frá upphafi. Þannig telur minni hlutinn að megi búa til frumvarp sem nýtist stjórnvöldum við að meta áhrifin af aðgerðum sínum án þess að brjóta í bága við réttindi almennings til friðhelgi. Það eru minni hlutanum mikil vonbrigði að meiri hlutinn nýti ekki þá samstöðu sem náðist í nefndinni um meginmarkmið frumvarpsins til að ná sátt um útfærsluna.
    Minni hlutinn áréttar þann vilja sinn að frumvarpið verði lagt fram á nýju þingi og vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til frekari vinnslu með það að markmiði að ná sátt um það.

Alþingi, 11. september 2013.



Helgi Hrafn Gunnarsson,


frsm.


Svandís Svavarsdóttir.


Guðbjartur Hannesson.



Páll Valur Björnsson.