Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 122  —  52. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þróun lyfjakostnaðar 2008–2010 og skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni við skýrslu um Lyfjastofnun frá 2009.


    Með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um þróun lyfjakostnaðar 2008–2010 ( www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/ throun_lyfjakostnadar.pdf) til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa. Með bréfi, dags. 22. maí 2012, sendi forseti Alþingis svo skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni við skýrslu um Lyfjastofnun frá 2009( www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/Lyfjastofnun.pdf) til umfjöllunar í nefndinni. Nefndin ræddi skýrslurnar á fyrri þingum en lauk ekki umfjöllun sinni. Nýkjörin nefnd tók skýrslurnar til frekari umfjöllunar og ákvað að ræða þær samhliða. Framsögumaðurmálsins er Valgerður Bjarnadóttir.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þróun lyfjakostnaðar 2008–2010 frá því í nóvember 2011 kemur fram að aðgerðir stjórnvalda til að lækka lyfjakostnað hafi borið árangur. Því ber að fagna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni við skýrslu um Lyfjastofnun frá 2009 sem stofnunin gaf út í maí 2012 kemur fram að rekstur stofnunarinnar er ítrekað umfram fjárheimildir.
    Íslenski lyfjamarkaðurinn er lítill, hann lýtur flóknu regluverki sem byggist á evrópskum reglugerðum. Nauðsynlegt er að starfsemi eftirlitsstofnana sé gagnsæ og að framkvæmd beinist að því að tryggja öryggi þeirra sem þurfa að nota lyf.
    Hinn 4. mars 2010 skipaði heilbrigðisráðherra vinnuhóp til að gera tillögur að breytingum á framkvæmd lyfjamála. Starfshópurinn náði ekki samstöðu um niðurstöðu, en skilaði drögum að greinargerð í nóvember 2010. Í minnisblaði með greinargerðardrögunum frá formanni og starfsmanni hópsins kemur m.a. fram að ekki hafi tekist að ná samstöðu um drög að greinargerð vinnuhópsins sem skilað var til ráðherra með athugasemdum í nóvember 2010. Í minnisblaði með greinargerðardrögunum frá formanni og starfsmanni vinnuhópsins segir: Ljóst má vera af greinargerðinni að sameining opinberrar umsýslu lyfjamála undir einn hatt er ekki fýsilegur kostur á meðan ekki er búið að greiða úr fjármálum Lyfjastofnunar. Þá ríkir einnig óvissa um framtíðarfyrirkomulag sjúkratrygginga. Einnig má ljóst vera af greinargerðinni að ætla má að talsverður ávinningur verði af því að sameina opinbera umsýslu lyfjamála í eina stofnun.
    Formaður og starfsmaður vinnuhópsins lögðu því til í minnisblaði sínu að sameiningaráformum yrði skotið á frest þar til skýrari mynd yrði komin á hvernig greiða mætti úr fjárhagsvanda stofnunarinnar og hvernig sjúkratryggingum yrði háttað. Jafnframt var í minnisblaðinu lagt til að vinnuhópurinn yrði lagður niður og að sameiningaráformin yrðu tekin upp aftur síðar, þegar áætlun um lausn á vanda Lyfjastofnunar lægi fyrir, og þá yrði ráðinn verkefnisstjóri til að stýra sameiningarferlinu.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur mikilvægt að þeirri vinnu sem hafin var árið 2010 verði fram haldið og beinir því til heilbrigðisráðherra að vinna verði hafin við endurskipulagningu lyfjamála með hagsmuni neytenda lyfja að leiðarljósi.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Alþingi, 17. september 2013.



Ögmundur Jónasson,


form.


Valgerður Bjarnadóttir,


frsm.

Brynjar Níelsson.



Birgitta Jónsdóttir.


Helgi Hjörvar.


Pétur H. Blöndal.



Sigrún Magnúsdóttir.


Willum Þór Þórsson.