Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 8  —  8. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.


Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fara beri að skýrum vilja meiri hluta kjósenda, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og skorar á forsætisráðherra að hafa þessa ályktun að leiðarljósi við þá endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem fyrirhuguð er á yfirstandandi kjörtímabili. Í þeirri vinnu verði tekið fullt tillit til hins mikla starfs sem fólkið í landinu, stjórnlagaráð og Alþingi lögðu sameiginlega af mörkum við endurskoðun stjórnarskrárinnar.


Greinargerð.

    Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að allt ríkisvald sé sprottið frá þjóðinni og að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Afdráttarlaus vilji kjósenda varðandi nýja stjórnarskrá liggur fyrir í veigamiklum atriðum eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðaði til og haldin var 20. október 2012.
    Alþingi býr sem stendur við fordæmalaust vantraust almennings í landinu. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um traust til Alþingis, sem gefin var út í maí 2013, kemur fram að mikill meiri hluti svarenda taldi að það mundi auka traust þeirra til Alþingis mikið eða nokkuð mikið ef starf þess væri markvissara (93%). Þegar Alþingi spyr þjóðina álits í jafnveigamiklu máli og gert var 20. október 2012 er ekki óeðlilegt að Alþingi lýsi því yfir að taka skuli mark á niðurstöðunni og hlíta henni, annað er ómarkvisst.
    Nú liggur fyrir að forsætisráðherra mun skipa í nýja stjórnarskrárnefnd og hefur hann þegar óskað eftir tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Í minnisblaði frá forsætisráðherra segir m.a.:
    „Hliðsjón verður höfð af vinnu undanfarinna ára um efnið, meðal annars tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007. Þá verði nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. Nefndin gerir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. Óskað verður eftir því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir. Nefndin ákveður að öðru leyti sjálf verklag sitt.“
    Flutningsmenn fagna vilja forsætisráðherra til að halda áfram og ljúka farsællega starfi við endurskoðun stjórnarskrárinnar og vilja með þessari tillögu til þingsályktunar gefa þingmönnum tækifæri til þess að veita áframhaldandi ferli aukið vægi með því að lýsa því yfir af hálfu Alþingis að fara skuli að vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og taka fullt tillit til þess starfs sem fram fór á liðnu kjörtímabili af hálfu stjórnlaganefndar, þjóðfundar, stjórnlagaráðs og Alþingis.

Fylgiskjal.


Tilkynning landskjörstjórnar um niðurstöðu talningar
við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20.október 2012.
(Af kosningavef innanríkisráðuneytisins, kosning.is)

(23. október 2012.)

    Talningu atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 20. október sl. um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd lauk kl. 22.40 hinn 21. október. Samkvæmt skýrslum yfirkjörstjórna voru 236.903 kjósendur á kjörskrá og greiddu 115.980 manns atkvæði.
    Atkvæði féllu þannig um spurningar 1–6:
     1.      Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
              Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá
            Atkvæði          hlutföll
            73.408          64,2 %
              Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá
            Atkvæði          hlutföll
            36.252          31,7 %
     2.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
            Atkvæði          Hlutföll
            Já     84.633     74,0 %
            Nei     17.441     15,2 %
     3.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
            Atkvæði          Hlutföll
            Já     58.354     51,1 %
            Nei     43.861     38,3 %
     4.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er ?
            Atkvæði          Hlutföll
            Já     78.356     68,5 %
            Nei     21.623     18,9 %
     5.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt ?
            Atkvæði          Hlutföll
            Já     66.554     58,2 %
            Nei     33.536     29,3 %
     6.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu ?
            Atkvæði          Hlutföll
            Já     72.523     63,4 %
            Nei     26.402     23,1 %

    Ógild atkvæði voru 1.493, þar af 661 auður seðill en 832 atkvæði voru ógilt af öðrum ástæðum.
    Landskjörstjórn hafa enn fremur borist eftirrit af gerðarbókum yfirkjörstjórna. Landskjörstjórn hefur ákveðið að hún komi saman kl. 12.00, mánudaginn 29. október nk. til þess að lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Heimilt er að kæra ólögmæti atkvæðagreiðslunnar til landskjörstjórnar og skulu slíkar kærur sendar landskjörstjórn eigi síðar en tveimur dögum áður en fundur landskjörstjórnar verður haldinn. Að þeim fundi loknum tilkynnir landskjörstjórn innanríkisráðuneytinu um niðurstöður sínar. Ráðuneytið auglýsir að því loknu úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.