Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 39  —  39. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um orsakir
fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um gerð samantektar yfir kannanir og rannsóknir sem lúta að orsökum þess að konum fækkar hlutfallslega meira en körlum meðal íbúa Vestur-Norðurlanda. Teknar verði saman niðurstöður slíkra rannsókna og kannana en einnig lagðar fram tillögur og stefnumörkun sem miðar að því að snúa þessari þróun við.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2013 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi 20. ágúst 2013.
    Það er vel þekkt vandamál hversu erfitt er að viðhalda búsetu kvenna eða fá konur til búsetu á jaðarsvæðum. Ein helsta áskorunin í Færeyjum er fólksfækkun, einkum fækkun kvenna. Það sama gildir um Grænland en síður um Ísland. Fjöldi rannsókna og kannana hafa verið gerðar í Noregi, Danmörku og á Vestur-Norðurlöndum um þróunina, og má þar nefna m.a. rannsóknir gerðar af Nordregio, Norræna Atlantssamstarfinu (NORA) og samstarfshópi nokkurra grænlenskra og færeyskra þingmanna á danska þjóðþinginu (Nordatlantisk gruppe). Rannsóknir sem til eru gera m.a. grein fyrir lýðfræðilegum, samfélagslegum, félagslegum og menningarlegum hliðum þessarar þróunar. Hins vegar er sú þekking, sem er til staðar og nýta mætti til grundvallar tillögum og stefnumörkun hvers markmið væri að snúa þessari þróun við, ekki nægilega vel kynnt eða aðgengileg einstaklingum og hópum með stefnumótunar- og ákvörðunarvald, ekki síst stjórnmálamönnum.
    Vandinn er að þekkingin er til en ekki nægilega aðgengileg þeim sem eru í aðstöðu til að grípa til aðgerða. Því er lagt til að stjórnvöld á Vestur-Norðurlöndum eigi samvinnu um að setja á laggirnar hóp sérfræðinga, t.d. með einum félagsvísindamanni frá hverju landi fyrir sig. Verkefni hópsins yrði að gera samantekt yfir það efni (kannanir, rannsóknir, fræðigreinar) sem til er og draga saman niðurstöður.
    Meginmarkmiðið með vinnu hópsins væri ekki ný rannsókn heldur samantekt um rannsóknir og kannanir sem gerðar hafa verið þar sem áherslan væri lögð á niðurstöður þeirra um orsakir þess að konur flytjast búferlum og þrífast ekki á jaðarsvæðum. Síðast en ekki síst skal samantektin innihalda tillögur um hvernig snúa megi þróuninni við með vísan í reynslu annarra landa eða svæða, sem leggja má til grundvallar stefnumörkun stjórnvalda.