Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 44  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samninga við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, einkum hvað varðar skurðlækningar. Sérhæfing hvers lands á mismunandi sviðum skurðlækninga verði nýtt þar sem því verður við komið. Skorað er á heilbrigðisráðherra landanna að útvíkka slíkt samstarf til annarra sviða og ná samkomulagi um þátttöku allra landanna þannig að þau geti bæði verið veitendur og viðtakendur þjónustunnar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2013 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi 20. ágúst 2013.
    Vestnorræna ráðið telur að aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu geti komið öllum löndunum þremur til góða. Hvert þeirra hefur fram að færa sérfræðikunnáttu á vissum sviðum sem hin geta nýtt sér með hagkvæmni og samlegðaráhrif að leiðarljósi. Löndin eru víðast strjálbyggð, þéttbýlisstaðir oft afskekktir og drjúgar vegalengdir á milli byggða. Afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar kalla á niðurskurð í heilbrigðismálum en vaxandi alþjóðleg efnahagsumsvif á norðurslóðum kalla aftur á móti á aukna þjónustu. Þegar horft er til legu landanna og samgönguinnviða mælir flest ef ekki allt með samstarfi þeirra á sviði heilbrigðisþjónustu. Þannig gætu þau betur mætt þörfum sjúklinga og aukið hagkvæmni í stað þess að kaupa þjónustu lengra frá sem er bæði kostnaðarsamara og tímafrekara með tilliti til sjúkraflutninga. Nálægðin skapar líka möguleika á að læknar geti boðið upp á þjónustu sína í öllum löndunum með reglulegum hætti.
    Á sviði skurðaðgerða geta Vestur-Norðurlönd boðið hvert öðru samkeppnishæft verð. Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í janúar 2013 á Ísafirði kom m.a. fram að nú þegar er til staðar fyrirkomulag til eftirbreytni þar sem íslenskur skurðlæknir framkvæmir aðgerðir á sjúklingum í Færeyjum mánaðarlega. Slíkt fyrirkomulag hentar öllum hlutaðeigandi. Færeyingar kaupa hágæðaþjónustu á samkeppnishæfu verði, Landspítali Íslands fær aukatekjur af útseldri þjónustu og síðast en ekki síst fá sjúklingarnir persónulega þjónustu í heimalandi sínu í stað þess að þurfa að sækja hana til útlanda. Þá stuðlar þetta fyrirkomulag að því að viðkomandi læknir fær tækifæri til að viðhalda og auka færni sína til hagsbóta fyrir alla sjúklinga. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í nokkur ár og reynst mjög vel. Það kom einnig fram á þemaráðstefnunni að aðgerðirnar hafa í sumum tilvikum verið framkvæmdar skjótt samanborið við þann tíma sem það tekur að komast í og framkvæma aðgerð utan vestnorræna svæðisins.