Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 62. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 62  —  62. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014.

Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir,
Björt Ólafsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Margrét Gauja Magnúsdóttir, Óttarr Proppé, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hlutast til um að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur frá og með árinu 2014, auk hefðbundinnar tölfræði, sbr. XIX. kafla laga nr. 24/ 2000, um kosningar til Alþingis.

Greinargerð.


    Hagstofa Íslands safnar upplýsingum um kjörsókn eftir sveitarfélögum og kyni. Ekki eru til rauntölur um kosningaþátttöku eftir aldri þótt Íslenska kosningarannsóknin gefi sterkar vísbendingar um að kjörsókn sé hlutfallslega minnst í yngstu aldurshópunum. Nýlegt fordæmi er fyrir því að Alþingi feli Hagstofu Íslands að taka saman nýja tölfræði, auk hefðbundinnar tölfræði, í tengslum við kosningar. Var það gert í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og í máli framsögumanns nefndarinnar, með lögum um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna (aðstoð við kosningu), nr. 111/2012, sbr. 180. mál 141. löggjafarþings.
    Niðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni frá alþingiskosningunum 1983–2009 gefa sterkar vísbendingar um að kosningaþátttaka ungs fólks á Íslandi sé mun minni en annarra aldurshópa og fari auk þess minnkandi. Í kosningunum til Alþingis árið 1983 var kjörsókn um 88% en var um 85% árið 2009. Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki fyrir vegna alþingiskosninganna 2013 en kjörsókn var einungis um 81,5% í þeim kosningum. Kosningarannsóknin sýnir að kjörsókn í aldurshópnum 18–24 ára var um 85% árið 1983 en árið 2009 var hún um 76%. Það vekur einnig athygli að kjörsókn aldurshópsins 25–29 ára var framan af tímabilinu nálægt meðaltali kjörsóknar en hefur dregist saman umfram meðaltal frá og með kosningarannsókninni 1999.
    Ýmsar rannsóknir sýna að ánægja með lýðræðið almennt, sem og traust í garð stjórnvalda, hefur sterka fylgni við kosningaþátttöku einstaklinga. Þessir þættir fylgjast auk þess að við félagsauð, traust milli borgaranna og samfélagsþátttöku í víðara samhengi, svo sem félagsstarf og hagsmunabaráttu. Allt er þetta nauðsynlegur hluti af lýðræðinu sjálfu og hefur auk þess ýmsa mikilvæga kosti í för með sér fyrir samfélagslega velferð almennt. Kosningaþátttaka mismunandi þjóðfélagshópa getur því verið sterk vísbending um getu stjórnmálamanna til þess að virkja þá til samfélagslegrar þátttöku og vinna sér inn traust þeirra og rækta tengsl við þá.
    Könnunin „Ungt fólk 2010“ sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið sýnir að traust framhaldsskólanema á aldrinum 16–19 ára í garð Alþingis er aðeins um 30% sem er mun minna en traust í garð kirkju, dómstóla og lögreglu. Almenn þátttaka í félagsstarfi og félagslífi virðist einnig fara minnkandi sem er vísbending um að vandamálið sé víðtækt samfélagsvandamál sem stjórnvöld þurfa að bregðast heildrænt við. Hins vegar ber að geta þess að í könnun Félagsvísindastofnunar um traust til Alþingis frá því í maí 2013 kemur fram að yngsti aldurshópur kjósenda, 18–29 ára, ber frekar traust til Alþingis en eldri aldurshóparnir. Það eru þó aðeins um 19% í þessum aldurshópi sem segjast bera traust til Alþingis miðað við 14% að meðaltali ef litið er til allra aldurshópa.
    Virkt lýðræði veltur á þátttöku borgaranna, jafnræði þeirra og virkum tengslum við stjórnvöld. Það hefur því alvarlegar afleiðingar ef tilteknir þjóðfélagshópar missa tengslin við stjórnmál og samfélag, sérstaklega þegar sá þjóðfélagshópur er kynslóðin sem síðar tekur við stjórn landsins. Í Hvítbók Evrópusambandsins um málefni evrópskra ungmenna frá árinu 2001 segir á bls. 8:
    „Ungt fólk í Evrópu hefur yfirleitt mjög mikinn áhuga á að hlúa að lýðræðinu og þá sérstaklega að nýta lýðræðisleg réttindi sín. Þó hefur borið á vantrausti þeirra í garð opinberra stofnana. Ungt fólk hefur ekki eins mikinn áhuga á hinum hefðbundnu stjórnmálalegu öflum (t.d. stjórnmálaflokkum og verkalýðsfélögum) og áður var. Skoðanir þeirra eru því ekki áberandi í umræðum og ákvarðanatökum. Félagasamtök ungs fólks finna fyrir þessu áhrifaleysi og gera sér grein fyrir þörfinni á breytingum.
    Ekki má þó skilja þetta svo að ungt fólk hafi ekki áhuga á þjóðlífinu. Flest ungmenni vilja vera með í og hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanatökur en þau vilja gera það annars staðar en í stjórnmálahreyfingum og/eða stofnunum.
    Það er hlutverk valdhafanna að brúa það bil sem myndast hefur á milli áhugasamra ungmenna og stjórnkerfisins. Verði það ekki gert getur það haft slævandi áhrif á þegnskap almennings og jafnvel leitt til mótmæla.“
    Vísbendingar um litla eða minnkandi kosningaþátttöku er áhyggjuefni fyrir stjórnvöld hvarvetna. Á sama tíma og kosningaþátttaka hefur almennt farið minnkandi á heimsvísu hefur sú þróun verið sérstaklega áberandi meðal yngstu kjósendahópanna. Þessi þróun er sérstakt áhyggjuefni og er það á ábyrgð stjórnvalda að taka hana alvarlega, leita upplýsinga um samfélagsþátttöku ungs fólks og bregðast við þeirri stöðu með markvissum hætti.