Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 71. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 71  —  71. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra.


Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að haldin verði skrá og sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, fjölda þeirra, kyn, hjúskaparstöðu og fjölda barna þeirra. Slík skráning upplýsinga hefjist eigi síðar en 1. janúar 2015.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi er endurflutt frá 141. löggjafarþingi (þskj. 618, 480. mál).
    Í íslenskri hagskýrslugerð eru umgengnisforeldrar skráðir sem barnlausir. Slíkir foreldrar eru þó ekki barnlausir nema í þröngum lagalegum skilningi, þ.e. lögheimili barna þeirra er ekki skráð hjá þeim. Í flestum tilfellum búa hins vegar börn hjá umgengnisforeldrum stóran hluta úr ári.
    Til dæmis má leiða getum að því að stór hluti þeirra karlmanna, sem skráðir eru einstæðir og barnlausir, séu í raun virkir uppalendur og að börn búi hjá þeim drjúgan hluta af árinu. Fjárhagsörðugleikar mælast miklir í hópi þessara karlmanna, sem kann að orsakast af því að þeir hljóta engan stuðning í uppeldishlutverki sínu, enda taldir barnlausir.
    Með því að skilgreina umgengnisforeldra sem barnlausa virðist hið opinbera hafa ákveðið að styðja þá foreldra ekki að neinu marki í uppeldishlutverkinu né heldur taka stöðu og tilvist þessara barna og foreldra með í reikninginn í ákvarðanatöku og stefnumörkun í fjölskyldumálum. Bág staða margra þessara foreldra, sem m.a. hlýst af þessu, bitnar að sjálfsögðu á börnunum sem búa hjá þeim.
    Hér er lagt til að ákaflega þýðingarmikið fyrsta skref verði stigið í átt til þess að breyta þessari bagalegu stefnu. Þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir að hafin verði skráning á fjölda, kyni og hjúskaparstöðu umgengnisforeldra, sem og fjölda barna þeirra. Ríkisstjórninni er samkvæmt tillögunni falið þetta verkefni, en beinast liggur við að Hagstofa Íslands hafi umsjón með því.
    Hagstofa Íslands er hins vegar sjálfstæð stofnun og ekki er hægt að beina bindandi fyrirmælum til hennar um að hefja tiltekna gagnaöflun. Henni ber hins vegar að líta til þarfa stjórnvalda og óska og þarfa almennings þegar metið er hvaða hagskýrsluverkefni skuli unnin af Hagstofunni hverju sinni, sbr. 2. gr. laga nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Ríkisstjórninni ætti að vera í lófa lagið, verði þingsályktunartillaga þessi samþykkt, að koma því á framfæri við Hagstofu Íslands að rík þörf hafi skapast að hefja skráningu á upplýsingum um hagi umgengnisforeldra og mundu heimildir Hagstofunnar í II. kafla fyrrnefndra laga til upplýsingaöflunar tvímælalaust teljast fullnægjandi í því skyni. Þá er einnig vert að kannað verði hvort aðkoma Þjóðskrár Íslands sé nauðsynleg og hvort breyta þurfi þeim lögum sem stofnunin starfar eftir svo Þjóðskrá geti skráð upplýsingarnar og síðan miðlað þeim til þess aðila sem ynni úr þeim.
    Fara má fjölmargar leiðir við að afla og skrá þessar upplýsingar og jafnframt hægt að gera það á öðrum vettvangi en hjá Hagstofunni. Til dæmis mætti afla þeirra við skattskýrslugerð, en nú þegar er spurt í skattskýrslu hvort fólk hafi börn á framfæri, og þá hversu mörg. Ætti að vera hægur leikur að spyrja þar jafnframt hvort fólk sé með barn í umgengni og þá hversu mörg. Er ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu þessari falið að finna bestu leiðina til þess að sem nákvæmastra upplýsinga sé aflað hverju sinni.