Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.

Þingskjal 73.  —  73. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands
og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína sem undirritaður var af utanríkisráðherra Íslands og viðskiptaráðherra Kína 15. apríl 2013.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína sem undirritaður var af utanríkisráðherra Íslands og viðskiptaráðherra Kína 15. apríl 2013.
    Meginmál samningsins er prentað sem fylgiskjal I með tillögu þessari. Yfirlit um uppbyggingu fríverslunarsamningsins er prentað sem fylgiskjal II og sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra Íslands og Kína um reglubundið pólitískt samráð prentuð sem fylgiskjal III. Viðaukar fríverslunarsamningsins liggja frammi í lestrarsal Alþingis.

Saga fríverslunarviðræðnanna.
    Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli Íslands og Kína hófust í apríl 2007. Áður hafði farið fram viðamikill undirbúningur milli embættismanna. Áður en viðræðurnar hófust könnuðu íslensk stjórnvöld hvort forsendur væru fyrir viðræðum EFTA við Kína en slíkt reyndist ekki unnt, einkum sökum þess að kínversk stjórnvöld kusu fremur að fara í tvíhliða fríverslunarviðræður við einstök EFTA-ríki. Hér innan lands var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila um gerð fríverslunarsamningsins. Önnur samningalota var haldin í júní 2007, þriðja í október sama ár og loks sú fjórða í apríl 2008. Þegar fjórðu lotunni sleppti lágu eiginlegar fríverslunarviðræður milli ríkjanna niðri allt til ársins 2012 sökum dvínandi áhuga Kínverja, og voru ýmsar ástæður upp gefnar. Nokkuð bar þá í milli í samningaviðræðunum og önnur ríki höfðu bæst í hóp þeirra ríkja sem hófu viðræður eða vildu semja við Kína, m.a. Sviss og Noregur.
    Málið komst á nýtt stig í apríl 2012 með opinberri heimsókn Wen Jiabao, þáverandi forsætisráðherra Kína, til Íslands. Meðal niðurstaðna forsætisráðherra Íslands og Kína var að flýta viðræðum um fríverslunarsamninginn. Var sammælst um að leiða þær til lykta innan árs. Við tók undirbúningur fyrir frekari samningalotur og áður en lota var haldin í Reykjavík fyrir jól 2012 voru haldnir nokkrir undirbúningsfundir embættismanna. Sjötta og síðasta lota samningaviðræðna var svo haldin dagana 22.–24. janúar 2013. Utanríkisráðherra Íslands og viðskiptaráðherra Kína undirrituðu samninginn 15. apríl 2013.
    Fríverslunarviðræðurnar voru samstarfsverkefni sem utanríkisráðuneytið leiddi en að ferlinu komu sérfræðingar flestra ráðuneyta, þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk sérfræðinga ýmissa stofnana, t.d. frá Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, tollstjóra og Einkaleyfastofu. Gerð var grein fyrir málinu með reglubundnum hætti á meðan viðræðunum stóð, t.d. á Alþingi í skýrslum utanríkisráðherra og í svörum við fyrirspurnum alþingismanna. Ítarlegt samráð var haft við utanríkismálanefnd Alþingis, aðila vinnumarkaðarins og fyrirtæki sem stunda viðskipti við Kína eða hafa hug á að stofna viðskipti í Kína. Utanríkisráðuneytið setti upp sérstakan vef með upplýsingum um samninginn:
     www.utanrikisraduneyti.is/samningar/friverslun-vid-kina/
    Fríverslunarsamningur Íslands og Kína er viðbót við þéttriðið net fríverslunarsamninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert um allan heim, flestir þeirra eru á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Í samfloti við önnur EFTA-ríki, þ.e. Sviss, Noreg og Liechtenstein, hefur Ísland gert 26 fríverslunarsamninga við 36 ríki. Þá hefur Ísland gert tvíhliða samning við Færeyjar, sem er kenndur við Hoyvík og tók gildi 2006, en hann er mun víðtækari en hefðbundnir fríverslunarsamningar.
    Kína hefur gert fríverslunarsamninga við Hong Kong og Makaó (2004), Samband Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) (2005), Síle (2006), Pakistan (2007), Nýja-Sjáland (2008), Singapúr (2009), Perú (2010), Kosta Ríka (2011) og Sviss (2013). Kína er sem stendur í fríverslunarviðræðum við nokkur ríki, svo sem Noreg, Ástralíu, S-Kóreu og Japan.

Uppbygging fríverslunarsamningsins.
    Að meginstofni til er fríverslunarsamningurinn við Kína byggður upp að fyrirmynd og með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur þegar gert með öðrum aðildarríkjum EFTA og vikið var að hér að framan. Fríverslunarsamningur Íslands og Kína inniheldur kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Ítarlegri upplýsingar um uppbyggingu fríverslunarsamningsins og einstaka kafla er að finna í fylgiskjali II með þingsályktunartillögu þessari.
    Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga, í flestum tilvikum frá gildistöku samnings. Nánar er vikið að niðurfellingu tolla síðar.
    Samningurinn nær einnig til þjónustuviðskipta eins og til dæmis ferðaþjónustu og sjóflutninga. Skuldbindingar Íslands eru í samræmi við það sem gert hefur verið í öðrum samningum og rúmast innan gildandi laga og reglna á Íslandi. Ein af megináherslum Kína á fyrri stigum viðræðna var aukið frelsi varðandi aðgang þjónustuveitenda að íslenskum vinnumarkaði. Ísland féllst ekki á að gangast undir neinar skuldbindingar í þeim efnum og gildir núverandi íslensk löggjöf óbreytt um þau efni. Í fríverslunarsamningum er aldrei samið um frjálsa för fólks í anda EES-samningsins. Þá undanskilur samningurinn alfarið opinbera þjónustu, heilbrigðis- og menntunarþjónustu.
    Fríverslunarsamningurinn hefur engar breytingar í för með sér varðandi heimildir Kínverja til fjárfestinga á Íslandi. Samningur ríkjanna frá 1994 um vernd fjárfestinga heldur gildi sínu og er til hans vísað í samningnum, en hann felur ekki í sér sjálfstæða heimild til fjárfestinga.
    Sérstakur kafli er um hugverkaréttindi. Staðfesta samningsaðilar að eitt af markmiðum samningsins sé að tryggja vernd hugverkaréttinda í samræmi við alþjóðasamninga á þessu sviði.
    Í almennum samstarfskafla er áréttað að samstarf ríkjanna nái til fleiri þátta en viðskipta. Er þar vísað í fjölbreytt samstarf sem nú þegar er til staðar og látin í ljós sú ósk að það verði aukið, m.a. á sviði jafnréttismála, vísinda-, mennta-, menningar- og orkumála. Samningurinn kveður einnig á um að ríkin skuli auka samstarf sitt á sviði umhverfisverndar og vinnumála, sem og þróunarmála.
    Í tilefni af undirritun fríverslunarsamningsins gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega sérstaka yfirlýsingu um reglubundið pólitískt samráð sem tekur meðal annars til mannréttinda. Yfirlýsingin tryggir vettvang til að taka upp hver þau mál sem stjórnvöld telja mikilvægt að ræða. Yfirlýsingin er prentuð sem fylgiskjal III með tillögu þessari.

Hagsmunir af fríverslunarsamningi við Kína.
    Markmið fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki er að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að viðkomandi mörkuðum með því að draga úr eða afnema viðskiptahindranir. Gerð fríverslunarsamninga er liður í því að tryggja alþjóðlega samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til lengri tíma. Þetta á ekki síst við um Kína sem er fjölmennasta ríki heims. Ísland er fyrsta Evrópuríkið til að ljúka gerð fríverslunarsamnings við Kína. Íslenskir útflytjendur, eins og aðrir, horfa til þess gríðarstóra markaðar sem þar er að þróast. Áætlað er að fólk í millistétt í Kína sé í dag yfir 300 milljónir manna eða á við íbúafjölda Bandaríkjanna. Eðli markaðarins í Kína er að gjörbreytast og þróast ört í sömu átt og markaðir í hinum vestræna heimi. Því er spáð að Kína muni hafa mesta hagvöxt meðal allra helstu iðnvelda heims að minnsta kosti allt til ársins 2020 og muni leysa af það bandaríska sem stærsta hagkerfi heims innan nokkurra ára.
    Fríverslunarsamningur getur haft umtalsverða þýðingu. Slíkir samningar snúast ekki síst um það að fella niður eða lækka tolla á vörum. Eins og í öðrum fríverslunarviðræðum var lögð áhersla á að tollar féllu niður á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga. Sjávarafurðir hafa undanfarinn áratug að jafnaði verið 90% af útflutningi Íslands til Kína. Algengir tollar á þeim eru á bilinu 10–12% en fara þó upp í 17%. Dæmi um aðrar vörur sem fluttar hafa verið út til Kína eru rafeindavogir og kísiljárn. Í langflestum tilfellum er gert ráð fyrir að tollar falli niður þegar samningurinn tekur gildi. Ef litið er til útflutnings frá Íslandi til Kína árið 2012 hefðu 95% útflutnings (miðað við verðmæti) verið tollfrjáls ef fríverslunarsamningurinn hefði verið í gildi.
    Tollar á innflutningi nokkurra vörutegunda til Kína munu falla niður í áföngum, á fimm eða tíu árum. Í þeim tilvikum munu Kínverjar lækka tollinn í skrefum þar til hann hefur að fullu verið lagður af. Þegar um er að ræða fimm ára aðlögunartíma mun tollurinn lækka í sex skrefum en í ellefu skrefum þegar aðlögunartíminn er tíu ár. Sem dæmi má nefna að tollar á heilfrystum þorski og ýsu, sem bera í dag 10% og 12% toll, munu falla niður á fimm ára aðlögunartíma. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur hingað til ekki verið mikill útflutningur á þessum vörum til Kína. Tollar á frystum hrognum og sæbjúgum, en hvort tveggja ber 10% toll, falla einnig niður á fimm ára aðlögunartíma.
    Líkt og í öðrum fríverslunarsamningum er gert ráð fyrir að Ísland felli niður tolla á öllum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, einkum kjötvörum og mjólkurafurðum. Þess má geta að 70% af tollalínum í íslensku tollskránni bera almennt engan toll fyrir, svo að í þeim tilvikum verður engin breyting á tollum. Niðurfelling á tollum getur leitt til lækkaðs vöruverðs til neytenda, auk þess sem fyrirtæki geta fengið ódýrari aðföng til vinnslu.
    Fríverslunarsamningar leiða óhjákvæmilega til þess að ríkin sem þá gera verða af tolltekjum. Áætlað hefur verið að tolltekjur af vörum sem upprunnar voru í Kína hafi verið um 2 milljarðar kr. á árinu 2011. Ekki er hægt að fullyrða hvort tekjutap ríkissjóðs vegna samningsins nemi jafnhárri fjárhæð og tekjurnar gefa til kynna því að upprunareglur samningsins kveða á um að vara glati rétti til fríðindameðferðar hafi hún verið tollafgreidd inn á yfirráðasvæði annars ríkis en sé vara eingöngu í umflutningi undir tolleftirliti glatast réttindi ekki. Verulegur hluti af kínverskum vörum sem keyptar eru hingað til lands hefur viðkomu í öðru landi á leiðinni til Íslands, þótt ekki sé vitað hve hátt hlutfall varnings er tollafgreitt í viðkomulandinu né hversu hátt hlutfall fari í gegnum viðkomuland undir tolleftirliti.
    Þróunin undanfarna áratugi hefur verið í þá átt að innflutningstollar skipta æ minna máli í tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Viðskiptasamningar Íslands við helsta viðskiptasvæðið, EFTA- ríkin og Evrópusambandið, höfðu mest áhrif í þessa átt. Hátt hlutfall tolltekna af kínverskum vörum í heildartolltekjum ríkissjóðs skýrist því ekki síst af því að ekki er fyrir að fara tolltekjum af vörum sem fluttar eru inn frá EES-ríkjunum, nema að takmörkuðu leyti. Í aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) birtist ekki síður sú stefna stjórnvalda að afnema hindranir í viðskiptum, þ.m.t. með lækkun eða niðurfellingu tolla. Gert er ráð fyrir að aukin milliríkjaviðskipti við Kína, og óbeinar tekjur ríkisins af þeim, vegi upp á móti minnkandi tolltekjum.
    Markmið utanríkisviðskiptastefnu Íslands allar götur frá 1970 með aðildinni að EFTA hefur verið að lækka eða fella niður tolla í viðskiptum milli landa og þannig auka viðskiptafrelsi. Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum, hefur komið sér upp þéttriðnu neti fríverslunarsamninga og horfur eru á að samningum í því neti eigi enn eftir að fjölga því að nú er samið við ríki eins og Rússland, Indland, Indónesíu og Malasíu. Þegar samningum við þessi ríki er lokið mun Ísland líka fella niður tolla á þeirra vörum.

Vöruviðskipti milli Íslands og Kína.
    Vöruviðskipti við Kína hafa aukist mjög undanfarinn áratug. Heildarvöruviðskipti ríkjanna á tímabilinu 2001–2012 voru á bilinu 7–44 milljarðar íslenskra króna, mest árið 2008 en sú aukning var nánast öll tilkomin vegna sölu flugvéla frá Íslandi til Kína. Hlutfall vöruviðskipta við Kína af heildarvöruviðskiptum Íslands við útlönd hefur einnig aukist töluvert. Árið 2001 námu heildarvöruviðskipti Íslands og Kína um 1,7% af heildarvöruviðskiptum Íslands við útlönd en það hlutfall fór mest upp í 4,5% árið 2008. Töluvert meira af vörum er flutt inn frá Kína heldur en út en hlutfallið er yfirleitt í kringum 1:9 í verðmætum talið og vöruviðskiptajöfnuður því neikvæður allt tímabilið, um 4,8–29,7 milljarða kr.
    Innflutningur á vörum frá Kína á árinu 2012 var tæplega sexfaldur á við útflutning Íslands til Kína. Ísland er hins vegar ekki eitt um að vera með neikvæðan viðskiptajöfnuð við Kína. Þannig er háttað um viðskipti flestra ríkja við Kína. Jafnframt má þess geta að halli er á vöruviðskiptum Íslands við ríki eins Bandaríkin og Noreg.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vöruútflutningur Íslands til Kína hefur aukist í krónum talið frá árinu 2001 en þá nam hann um 905 millj. kr. Vöruútflutningur til Kína árið 2012 nam rúmum 7,6 milljörðum kr. Árið 2011 nam vöruútflutningur til Kína um 5,4 milljörðum kr. Aukningin á verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi til Kína á milli áranna 2011 og 2012 er um 40 af hundraði.
    Helstu útflutningsvörur Íslands til Kína eru sjávarafurðir sem eru yfirleitt meira en 90% af heildarvöruútflutningi eins og fram kom að framan. Á tímabilinu var mest flutt út af karfa og grálúðu. Einnig hefur verið flutt út nokkuð af loðnu, rækju, skelfiski og botnfiski. Þá var makríll stærsti undirflokkur útfluttra sjávarafurða árið 2011 fyrir andvirði um 1,8 milljarða kr. Karfi, grálúða og makríll vógu þyngst af útflutningsvörum Íslands til Kína árið 2012. Í flokki iðnaðarvöru var m.a. flutt út kísiljárn og rafeindavogir. Tollar á öllum þessum vörum falla niður við gildistöku fríverslunarsamningsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vöruinnflutningur frá Kína nemur yfirleitt um 80–90% af heildarvöruviðskiptum Íslands og Kína. Hann hefur nær fimmfaldast að verðmæti á síðasta áratug og nam rúmum 42 milljörðum kr. árið 2012 miðað við 6 milljarða kr. árið 2002. Hlutdeild innflutnings frá Kína af heildarvöruinnflutningi Íslands hefur einnig aukist töluvert. Árið 2002 var hann 2,9% af heildarinnflutningi en var kominn upp í 7,2% árið 2012.
    Stærstu innflutningsvöruflokkarnir eru ýmsar unnar vörur á borð við húsgögn, fatnað og skó, vélar og samgöngutæki, t.d. tölvur, rafeinda- og fjarskiptabúnaður. Einnig flytur Ísland inn margvíslegar framleiðsluvörur, t.d. járn og málm, ásamt ólífrænum kemískum efnum til efnaiðnaðar.

Þjónustuviðskipti milli Íslands og Kína og fjárfestingar.
    Á árinu 2012 var seld þjónusta frá Íslandi til Kína fyrir rúma 3,8 milljarða kr. Til samanburðar nam verðmæti þjónustu sem keypt var frá Kína rúmum 2,6 milljörðum kr. Þjónustujöfnuður var því hagstæður um 1,2 milljarða kr. á árinu. Þjónustujöfnuður var óhagstæður árið 2011 en hagstæður bæði árin á undan, 2009 og 2010. Sú mikla aukning sem var í mælanlegum útflutningi á þjónustu til Kína á árinu 2012 skýrist annars vegar af fjölgun kínverskra ferðamanna á Íslandi en einnig af því að kínversk kreditkortagögn urðu fyrst aðgengileg á árinu 2012 og upplýsingar um verðmæti aðkeyptrar þjónustu á sviði ferðamála því áreiðanlegri en áður var.
    Fjöldi kínverskra ferðamanna sem heimsækir Ísland hefur verið mældur síðan 2007. Árið 2010 komu rúmlega 5.000 kínverskir ferðamenn til Íslands en tveimur árum síðar, í árslok 2012, hafði sú tala nær þrefaldast þegar um 14.000 kínverskir ferðamenn komu hingað til lands.

2010 2011 2012
Þjónustujöfnuður 316,2 -841,1 1.231
Út Inn Út Inn Út Inn
Alls 1.613 1.297 1.173 2.015 3.861 2.630
Samgöngur og flutningar 165 304 263 124 429 251
Ferðaþjónusta 320 418 356 424 2.826 488
Önnur viðskiptaþjónusta 812 440 173 1.345 287 1.794
Annað 316 136 382 121 319 97

    Engin bein fjárfesting kínversks aðila er á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Þó ber að nefna að Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga tilheyrir Elkem-samsteypunni sem er í eigu China National Bluestar. Fylgiskjal I.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS
OG
RÍKISSTJÓRNAR
ALÞÝÐULÝÐVELDISINS KÍNA



Efnisyfirlit
Formálsorð
1. kafli: Almenn ákvæði
2. kafli: Vöruviðskipti
3. kafli: Upprunareglur
4. kafli: Reglur um tollmeðferð og um að greiða fyrir viðskiptum
5. kafli: Samkeppni
6. kafli: Hugverkaréttindi
7. kafli: Þjónustuviðskipti
8. kafli: Fjárfestingar
9. kafli: Samvinna
10. kafli: Stofnanaákvæði
11. kafli: Lausn deilumála
12. kafli: Lokaákvæði
Viðaukar
I. viðauki: Tolláætlanir
II. viðauki: Lögbær stjórnvöld og tengiliðir að því er varðar beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna (SPS)
III. viðauki: Lögbær stjórnvöld og tengiliðir að því er varðar tæknilegar viðskiptahindranir (TBT)
IV. viðauki: Upprunareglur um framleiðsluvörur
V. viðauki: Upprunavottorð
VI. viðauki: Upprunayfirlýsing
VII. viðauki: Skrár um sérstakar skuldbindingar í þjónustu
VIII. viðauki: För einstaklinga sem veita þjónustu
IX. viðauki: Starfsreglur gerðardóms

Formálsorð


Ríkisstjórn Íslands („Ísland“) og ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins Kína („Kína“) sem nefnast hér á eftir „samningsaðilarnir“,

SEM HAFA Í HUGA mikilvægi þeirra tengsla sem eru milli samningsaðilanna,

SEM ÆSKJA ÞESS að styrkja þessi tengsl með því að koma á fót fríverslunarsvæði og koma þannig á nánum og varanlegum samskiptum,

SEM ERU SANNFÆRÐAR UM að fríverslunarsvæði muni skapa aukinn og öruggan markað fyrir vörur og þjónustu á yfirráðasvæðum þeirra og skapa stöðugt og áreiðanlegt fjárfestingarumhverfi og auka þannig samkeppnishæfni fyrirtækja sinna á heimsmörkuðum,

SEM ERU STAÐRÁÐNAR Í að stuðla að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum og hvetja til víðtækari alþjóðasamvinnu, einkum milli Evrópu og Asíu, með því að fjarlægja viðskiptahindranir með stofnun fríverslunarsvæðis,

SEM ERU SANNFÆRÐAR UM að samningur þessi muni skapa ákjósanleg skilyrði fyrir tengsl þeirra á sviði efnahagsmála, viðskipta og fjárfestinga,

SEM HAFA AÐ MARKMIÐI að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjör þjóða sinna með viðskiptum, fjárfestingum og samvinnu,

SEM BYGGJA Á réttindum sínum og skyldum samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og öðrum samningum sem eru gerðir á grundvelli hans (hér á eftir nefndur „samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina“) og öðrum marghliða og tvíhliða gerningum um samstarf sem þær eru báðar aðilar að, og

SEM HAFA Í HUGA að efnahagsleg og félagsleg þróun og umhverfisvernd eru samofnir þættir sjálfbærrar þróunar sem styðja hver annan og að nánari efnahagsleg samvinna getur átt mikilvægan þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun,

HAFA ÁKVEÐIÐ eftirfarandi, í samræmi við markmið þessi:

1. KAFLI – ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.
Stofnun fríverslunarsvæðis.

Samningsaðilarnir stofna hér með fríverslunarsvæði í samræmi við XXIV. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994 (hér á eftir nefndur „GATT-samningurinn frá 1994“) og V. gr. hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (hér á eftir nefndur „GATS-samningurinn“).

2. gr.
Markmið.

1.     Markmiðin með samningi þessum eru:
    a)     að stuðla að auknum og fjölbreyttari viðskiptum milli samningsaðilanna,
    b)     að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi og auðvelda vöru- og þjónustuviðskipti yfir landamæri milli samningsaðila,
    c)     að stuðla að sanngjörnum samkeppnisskilyrðum á fríverslunarsvæðinu,
    d)     að öðlast betri skilning á opinberum innkaupum samningsaðilanna,
    e)     að tryggja næga og áhrifaríka vernd hugverkaréttinda í samræmi við skyldur samningsaðilanna samkvæmt alþjóðasamningum um vernd hugverkaréttinda,
    f)     að móta skilvirkar reglur um framkvæmd og beitingu samnings þessa og sameiginlega stjórnun hans og lausn deilumála,
    g)    að skapa ramma um frekari tvíhliða, svæðisbundna og marghliða samvinnu til þess að hafa meiri og betri ávinning af þessum samningi.
2.     Samningsaðilarnir skulu túlka og beita ákvæðum samnings þessa í ljósi markmiða hans, sem eru sett fram í 1. mgr., og í samræmi við viðteknar reglur um túlkun þjóðaréttar.

3. gr.
Landfræðilegt gildissvið.

1.     Samningur þessi gildir um allt tollsvæði Kína.
2.     Samningur þessi gildir um yfirráðasvæði Íslands.
3.     Hvor samningsaðili er alfarið ábyrgur fyrir því að öll ákvæði samnings þessa séu virt og skal gera ráðstafanir við hæfi, sem hann getur gripið til, í því skyni að tryggja að sveitarstjórnir og stjórnvöld á yfirráðasvæði hans fari að þeim.

4. gr.
Tengsl við aðra samninga.

1.     Samningsaðilarnir staðfesta gildandi réttindi sín og skyldur hvors gagnvart öðrum samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina og öðrum samningum sem báðir samningsaðilar eiga aðild að.
2.     Komi upp ósamræmi milli ákvæða samnings þessa og annarra samninga, er um getur í 1. mgr., skulu samningsaðilarnir hafa með sér samráð og finna lausn, sem báðir geta sætt sig við, í samræmi við hefðbundnar reglur um túlkun þjóðaréttar, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

2. KAFLI – VÖRUVIÐSKIPTI

5. gr.
Gildissvið.

Þessi kafli gildir um vöruviðskipti milli samningsaðilanna, nema kveðið sé á um annað.

6. gr.
Innlend meðferð.

Hvor samningsaðili skal veita vörum hins samningsaðilans innlenda meðferð skv. III. gr. GATT-samningsins frá 1994, þ. á m. athugasemdir um túlkun sem honum fylgja, og í því skyni er GATT-samningurinn frá 1994, ásamt athugasemdum um túlkun hans, felldur inn í samning þennan og er hluti af honum.

7. gr.
Afnám tolla.

1.     Hvorugur samningsaðila getur hækkað gildandi innflutningstolla eða lagt nýja innflutningstolla á vörur hins samningsaðilans, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.
2.      Hvor samningsaðili skal afnema innflutningstolla sína á upprunavörur hins samningsaðilans í áföngum í samræmi við I. viðauka.
3.     Grunntollur á hverja framleiðsluvöru, sem á að fara stiglækkandi samkvæmt I. viðauka, skal samsvara bestukjaratollinum sem í gildi var 1. janúar 2012. Ef samningsaðili ákveður að lækka bestukjaratoll eftir að samningur þessi öðlast gildi og áður en tímabilinu fyrir afnám tolla lýkur skal áætlun viðkomandi samningsaðila um afnám tolla (hér á eftir nefnd „áætlunin“) gilda um lækkaðan toll.
4.     Fari annar hvor samningsaðilanna fram á það skulu samningsaðilarnir hafa með sér samráð og taka til athugunar að hraða því afnámi innflutningstolla sem sett er fram í áætlunum þeirra. Samkomulag milli samningsaðilanna um að hraða afnámi innflutningstolls á vöru skal leysa af hólmi þann toll eða afnámsflokk sem er ákvarðaður samkvæmt áætlunum þeirra fyrir fyrrnefnda vöru, þegar hvor samningsaðili hefur samþykkt það í samræmi við gildandi málsmeðferð sem áskilin er samkvæmt lögum og skal það öðlast gildi samkvæmt 126. gr.
5.     „Innflutningstollur“ merkir tollar sem eru heimtir í tengslum við vöruinnflutning, en felur ekki í sér:
    a)    gjöld sem jafngilda innlendum sköttum sem eru lagðir á í samræmi við 2. mgr. III. gr. GATT-samningsins frá 1994 vegna líkra vara, vara í beinni samkeppni eða hliðstæðra vara viðkomandi samningsaðila, eða vegna vara sem eru gerðar eða framleiddar úr innfluttu vörunni að öllu leyti eða að hluta,
    b)     undirboðs- eða jöfnunartoll, og
    c)    þóknun eða gjald í tengslum við innflutning sem samsvarar kostnaði vegna veittrar þjónustu.

8. gr.
Takmarkanir á inn- og útflutningi.

XI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gildir um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar takmarkanir á inn- og útflutningi og er hún hér með felld inn í þennan samning og er hluti hans.

9. gr.
Stjórnsýslugjöld og formsatriði.

1.     Hvor samningsaðili skal tryggja, í samræmi við 1. mgr. VIII. gr. GATT-samningsins frá 1994 ásamt athugasemdum um túlkun, að öll þóknun og gjöld af hvaða tagi sem er (önnur en innflutningstollar, gjöld, sem jafngilda innlendum skatti eða öðru innlendu gjaldi sem er lagt á í samræmi við 2. mgr. III. gr. GATT-samningsins frá 1994, og undirboðs- eða jöfnunartollar), sem eru lögð á inn- eða útflutning eða tengjast honum, sé takmörkuð við áætlaðan kostnað veittrar þjónustu og standi ekki fyrir óbeina vernd innlendra vara eða fjáröflunarskatt á innflutning eða útflutning.
2.     Hvor samningsaðili skal gera aðgengilegan, á Netinu eða á sambærilegu, tölvustýrðu fjarskiptaneti, lista yfir þóknanir og gjöld, ásamt breytingum á þeim, sem opinber stjórnvöld leggja á í tengslum við inn- eða útflutning.

10. gr.
Útflutningsstyrkir til landbúnaðar.

1.     Samningsaðilarnir deila markmiðinu um marghliða afnám útflutningsstyrkja fyrir landbúnaðarafurðir og skulu vinna saman að gerð samnings innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um að afnema þá styrki og koma í veg fyrir að þeir verði endurinnleiddir í hvers konar mynd sem er.
2.     Hvorugur samningsaðila skal innleiða eða viðhalda útflutningsstyrkjum af hvaða tagi sem er, sbr. skilgreiningu í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað, fyrir landbúnaðarafurðir sem flytja á inn á yfirráðasvæði hins samningsaðilans.

11. gr.
Almennar undantekningar.

Að því er samning þennan varðar er XX. gr. GATT-samningsins frá 1994, ásamt athugasemdum um túlkun, felld inn í samning þennan og er hluti af honum.

12. gr.
Grunnöryggi.

Ekkert í samningi þessum ber að túlka þannig:
    a)    að þess sé krafist af samningsaðila að hann láti í té eða heimili aðgang að upplýsingum, telji hann birtingu þeirra ganga gegn grundvallaröryggishagsmunum sínum,
    b)    að samningsaðila sé meinað að grípa til aðgerða sem hann telur nauðsynlegar til að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína:
            i.        sem tengjast kjarnakleyfum efnum eða þeim efnum sem þau eru unnin úr,
            ii.    sem tengjast viðskiptum með vopn, skotfæri og stríðsbúnað og slíkum viðskiptum með aðrar vörur og efni sem fara fram, beint eða óbeint, í því skyni að birgja upp herstofnanir, eða
            iii.    aðgerða sem gripið er til á stríðstímum, eða þegar annað neyðarástand ríkir í alþjóðasamskiptum, eða
    c)    að samningsaðili sé útilokaður frá því að gera ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að viðhalda eða endurheimta frið eða öryggi á alþjóðavettvangi.

13. gr.
Skattlagning.

1.     Í þessari grein hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
    a)    „samningur um skattamál“: samningur um að komast hjá tvísköttun eða annars konar milliríkjasamningur eða -samkomulag um skattlagningu sem er í gildi milli samningsaðilanna, og
    b)     í „ráðstöfunum varðandi skattlagningu“ felst ekki „innflutningstollur“ sbr. skilgreiningu í 5. mgr. 7. gr.
2.     Ekkert í samningi þessum tekur til ráðstafana varðandi skattlagningu að öðru leyti en kveðið er á um í þessari grein.
3.     Samningur þessi skal einungis veita réttindi eða leggja á skyldur að því er varðar ráðstafanir varðandi skattlagningu, séu samsvarandi réttindi veitt eða samsvarandi skyldur lagðar á skv. III. gr. GATT-samningsins frá 1994.
4.     Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt samningum um skattamál sem í gildi eru milli samningsaðilanna. Ríki ósamræmi að því er varðar ráðstafanir varðandi skattlagningu milli samnings þessa og fyrrnefndra samninga um skattamál, skulu hinir síðarnefndu gilda þar sem ósamræmis gætir. Í tilviki samnings um skattamál milli samningsaðilanna bera lögbær stjórnvöld samkvæmt þeim samningi ein ábyrgð á því að ákveða hvort um ósamræmi sé að ræða milli samnings þessa og fyrrnefnds samnings.

14. gr.
Ráðstafanir til að tryggja greiðslujöfnuð.

    Eigi samningsaðili í alvarlegum erfiðleikum með greiðslujöfnuð og ytri fjármálaleg skilyrði, eða ef hætta er á slíkum erfiðleikum, er honum heimilt, í samræmi við samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina og ákvæði samkomulagsins um samþykktir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að gera ráðstafanir sem eru taldar nauðsynlegar.

15. gr.
Jöfnunarráðstafanir.

1.     Samningsaðilarnir halda réttindum sínum og skyldum skv. VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningnum um styrki og jöfnunarráðstafanir sem eru hluti af samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
2.     Ákvæði 11. kafla samnings þessa taka ekki til jöfnunaraðgerða sem gripið er til samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir.
3.     Áður en samningsaðili hefur rannsókn til að ákvarða hvort og að hve miklu leyti er um styrk að ræða og áhrif þess, eins og kveðið er á um í 11. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, skal samningsaðili, sem hyggst hefja rannsókn, senda skriflega tilkynningu þess efnis til þess samningsaðila sem framleiðsluvörurnar tilheyra og rannsóknin tekur til og efna til samráðs í því skyni að leita lausnar sem báðir aðilar geta sætt sig við. Efna skal til samráðs innan ramma sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar, sem komið er á fót skv. 10. kafla, ef annar hvor samningsaðilanna fer fram á það, innan 10 daga frá viðtöku tilkynningarinnar.

16. gr.
Undirboð.

1.     Samningsaðilarnir áskilja sér réttindi og skyldur skv. VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994.
2.     Ákvæði 11. kafla samnings þessa taka ekki til aðgerða á sviði undirboða sem er gripið til skv. VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994.

17. gr.
Víðtækar verndarráðstafanir.

1.     Samningsaðilarnir áskilja sér réttindi og skyldur skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.
2.     Ákvæði 11. kafla samnings þessa taka ekki til aðgerða sem er gripið til skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.

18. gr.
Tvíhliða verndarráðstafanir.

1.     Ef vara upprunnin hjá samningsaðila er flutt inn á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, á aðlögunartímabilinu einvörðungu, í framhaldi af því að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt samningi þessum, í slíku auknu magni að raungildi eða samanborið við innlenda framleiðslu, og við slík skilyrði að valdi svo um munar alvarlegu tjóni, eða gæti valdið alvarlegu tjóni, fyrir innlenda iðnframleiðslu sambærilegrar framleiðsluvöru eða vöru í beinni samkeppni, er samningsaðilanum sem flytur inn heimilt að:
    a)     fresta frekari lækkun á hvaða tolli sem er af vörunni sem kveðið er á um í samningi þessum, eða
    b)     hækka toll af vörunni og skal miða við þann toll sem lægri er:
            i.        toll sem lagður er á í bestukjarameðferð og er í gildi þegar ráðstöfunin er gerð, eða
            ii.    toll sem lagður er á í bestukjarameðferð og er í gildi daginn sem samningur þessi öðlast gildi.
2.     Eftirfarandi skilyrði og takmarkanir gilda um rannsókn eða þegar ráðstöfun er gerð:
    a)     Samningsaðili skal afhenda hinum samningsaðilanum tafarlaust skriflega tilkynningu þegar hann:
            i.     hefur rannsókn á alvarlegu tjóni eða hættu á alvarlegu tjóni og orsökum þess,
            ii.     gerir verndarráðstöfun til bráðabirgða skv. 3. mgr.,
            iii.    hefur komist að niðurstöðu um alvarlegt tjón eða hættu á alvarlegu tjóni vegna aukins innflutnings,
            iv.    tekur ákvörðun um að beita verndarráðstöfun eða framlengja gildistíma hennar, og
            v.    tekur ákvörðun um að breyta ráðstöfun sem gripið hefur verið til áður.
    b)    Þegar samningsaðili, sem gerir tillögu um að beita verndarráðstöfun eða framlengja hana, sendir tilkynninguna, sem um getur í ii. til v. lið a-liðar, skal hann láta hinum samningsaðilanum í té allar upplýsingar þar að lútandi, þar á meðal sönnunargögn um alvarlegt tjón eða hættu á alvarlegu tjóni af völdum aukins innflutnings, nákvæma lýsingu á vörunni sem um ræðir og upplýsingar um fyrirhugaða ráðstöfun og frá hvaða degi og hversu lengi ráðstöfunin gildir. Samningsaðilinn, sem hyggst beita verndarráðstöfun, skal einnig leggja fram allar viðbótarupplýsingar sem hinn samningsaðilinn telur við eiga.
    c)     Samningsaðili, sem fyrirhugar að beita verndarráðstöfun, skal áður veita hinum samningsaðilanum næg tækifæri til samráðs, með eins löngum fyrirvara og frekast er unnt áður en hann gerir fyrrnefnda ráðstöfun, með það fyrir augum að fara yfir þær upplýsingar sem rannsóknin leiðir í ljós, skiptast á skoðunum um ráðstöfunina og ná samkomulagi um bætur er um getur í 4. mgr. Þegar fyrrnefnt samráð fer fram skulu samningsaðilarnir fara m.a. yfir þær upplýsingar sem eru veittar skv. b-lið til þess að ákvarða:
            i.        hvort farið sé að öðrum ákvæðum þessarar greinar,
            ii.    hvort gera eigi fyrirhugaða ráðstöfun, og
            iii.    hvort fyrirhuguð ráðstöfun sé viðeigandi, m.a. með því að skoða hugmyndir um aðrar ráðstafanir.
    d)     Samningsaðili skal aðeins beita ráðstöfuninni að lokinni rannsókn lögbærra stjórnvalda sinna skv. ákvæðum 3. gr. og c-lið greinar 4.2 í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir og í því skyni eru ákvæði 3. gr. og c-liðar greinar 4.2 samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir felld inn í samning þennan og eru hluti af honum að breyttu breytanda.
    e)     Þegar samningsaðili framkvæmir þá rannsókn sem er lýst í d-lið skal hann fullnægja kröfum a- og b-liðar 2. mgr. 4. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir og í því skyni eru ákvæði a- og b-liðar 2. mgr. 4. gr. felld inn í samning þennan og eru hluti af honum að breyttu breytanda.
    f)     Ekki skal viðhalda neinni tvíhliða verndarráðstöfun:
            i.        nema að því marki og eins lengi og kann að vera nauðsynlegt til að bæta fyrir alvarlegt tjón og til að greiða fyrir aðlögun,
            ii.    á upphaflegu tímabili sem varir lengur en eitt ár og með framlengingu sem varir lengur en eitt ár, eða
            iii.    eftir að aðlögunartímabili lýkur, óháð lengd þess eða því hvort það hefur verið framlengt.
    g)     Óheimilt er að beita ráðstöfunum vegna innflutnings framleiðsluvöru, sem ráðstöfun hefur áður verið beitt gegn, í a.m.k. tvö ár frá því að ráðstöfunin fellur úr gildi.
    h)     Óheimilt er að gera tvíhliða verndarráðstöfun vegna tiltekinnar framleiðslu-vöru á meðan víðtæk verndarráðstöfun vegna þeirrar vöru er í gildi. Komi til þess að víðtæk verndarráðstöfun sé gerð vegna tiltekinnar framleiðsluvöru skal sérhverri gildandi tvíhliða verndarráðstöfun sem er gerð vegna þeirrar vöru hætt.
    i)     Þegar verndarráðstöfun samkvæmt þessari grein lýkur skal beita þeim tolli sem settur er fram í áætlun samningsaðila í I. viðauka og sem hefði verið lagður á ef ráðstöfunin hefði ekki verið gerð.
3.     Ef aðstæður eru tvísýnar og tafir myndu valda skaða, sem erfitt yrði að bæta, er samningsaðila heimilt að grípa til verndarráðstafana til bráðabirgða ef ákvarðað hefur verið að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið innlendum iðnaði alvarlegu tjóni eða að hætta sé á því. Fyrrnefnd bráðabirgðaráðstöfun skal ekki vara lengur en 200 daga. Ráðstöfun þessi skal vera í formi hækkaðra tolla sem eru endurgreiddir þegar í stað ef rannsókn sem gerð er í framhaldinu leiðir ekki til þeirrar niðurstöðu að aukinn innflutningur hafi valdið innlendum iðnaði alvarlegu tjóni eða að hætta sé á því. Gildistími slíkrar bráðabirgðaráðstöfunar skal teljast hluti af upphaflega tímabilinu og hvers kyns framlengingu endanlegrar ráðstöfunar.
4.     Sá samningsaðili sem leggur til að beita ráðstöfun, sem er lýst í 1. mgr., skal láta hinum samningsaðilanum í té viðunandi bætur í formi viðskiptafrelsis, sem gagnkvæmt samkomulag er um, í formi ívilnana sem hafa í meginatriðum jafngild áhrif á viðskipti eða sem eru jafngildar þeim viðbótartollum sem búist er við að leiði af þeirri ráðstöfun sem um ræðir. Geti samningsaðilarnir ekki komið sér saman um jöfnunaraðgerðir innan 30 daga meðan það samráð er um getur í c-lið 2. mgr. fer fram, er samningsaðilanum, sem ræður yfir þeim upprunavörum sem ráðstöfunin beinist gegn, heimilt að grípa til aðgerðar sem hefur í meginatriðum jafngild áhrif á viðskipti og sú ráðstöfun sem er beitt samkvæmt þessari grein. Aðgerð þessi skal aðeins standa yfir jafnlengi og nauðsynlegt er til þess að ná fram hinum jafngildu áhrifum í meginatriðum og, hvað sem öðru líður, skal henni hætt eigi síðar en þann dag þegar verndarráðstöfuninni er hætt.
5.     Hvor samningsaðili skal, þegar hann beitir ráðstöfunum samkvæmt þessari grein:
    a)    tryggja samræmda, óhlutdræga og sanngjarna stjórnsýslu með tilliti til laga sinna, reglugerða, ákvarðana og úrskurða sem gilda um allar rannsóknir á verndarráðstöfunum,
    b)    fela til þess bæru stjórnvaldi sem fer með rannsókn ákvarðanir viðvíkjandi alvarlegu tjóni skaða eða hættu á alvarlegu tjóni þegar rannsókn á verndar-ráðstöfunum fer fram, og
    c)     innleiða eða viðhalda málsmeðferð við rannsókn á verndarráðstöfunum sem er sanngjörn, fer fram í tæka tíð og er gagnsæ og skilvirk.
6.     Í þessari grein hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
    a)    „innlend atvinnugrein“: að því er innflutta framleiðsluvöru varðar, allir framleiðendur sambærilegrar framleiðsluvöru eða framleiðsluvöru í beinni samkeppni eða framleiðendur sem samanlagt framleiða sambærilega framleiðsluvöru eða framleiðsluvöru í beinni samkeppni sem telst meirihluti innlendrar heildarframleiðslu slíkrar vöru,
    b)     „verndarráðstöfun til bráðabirgða“: verndarráðstöfun til bráðabirgða sem lýst er í 3. mgr.,
    c)     „verndarráðstöfun“: verndarráðstöfun sem er lýst í 1. mgr.,
    d)     „alvarlegt tjón“: umtalsverð og almenn breyting á stöðu innlendrar atvinnugreinar til hins verra,
    e)     „hætta á alvarlegu tjóni“: alvarlegt tjón sem er greinilega yfirvofandi á grundvelli staðreynda en ekki einungis byggt á staðhæfingu, tilgátu eða hverfandi líkum, og
    f)     „aðlögunartímabil“: þriggja ára tímabil sem hefst daginn sem samningur þessi öðlast gildi, nema í tilviki framleiðsluvöru þar sem aukning frelsis stendur yfir í fimm ár eða lengur en þá varir aðlögunartímabilið uns framleiðsluvaran nær núll tolli samkvæmt áætluninni sem sett er fram í I. viðauka.

19. gr.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.

1.     Markmið þessarar greinar eru:
    a)    að forðast óréttmæta röskun í viðskiptum milli samningsaðilanna með dýr, afurðir úr dýraríkinu, plöntur og vörur úr jurtaríkinu, en vernda um leið líf og heilbrigði manna, dýra eða plantna,
    b)    að tryggja að í ráðstöfunum um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna felist ekki geðþóttabundin eða óréttlætanleg mismunun milli samningsaðilanna,
    c)    að finna lausn á viðskiptamálum á þessu sviði fljótt og örugglega, og
    d)    að skapa tækifæri til þess að auka viðskipti milli samningsaðilanna.
2.     Ákvæði þessarar greinar gilda um allar ráðstafanir samningsaðilanna um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem kunna að hafa áhrif á viðskipti milli þeirra með beinum eða óbeinum hætti.
3.     Ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Samningsaðilarnir eru einhuga um að virða grunnreglur samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna um vísindaleg rök, samhæfingu, jafngildi og svæðaskiptingu, þegar þeir koma á viðeigandi ráðstöfunum um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
4.     Samningsaðilarnir eru einhuga um að beita ákvæðum 7. gr. (Gagnsæi) samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í samræmi við ákvæði viðauka B við þann samning.
5.     Lögbær stjórnvöld samningsaðilanna eru ábyrg fyrir beitingu þeirra ráðstafana er um getur í þessari grein. Heiti og aðsetur lögbærra stjórnvalda og tengiliða eru tilgreind í II. viðauka. Samningsaðilarnir skulu upplýsa hvor annan um verulegar breytingar sem verða á uppbyggingu, skipulagi og skiptingu ábyrgðar hjá lögbærum stjórnvöldum hvors um sig.
6.     Tengiliðirnir, er um getur í 5. mgr., skulu vera ábyrgir fyrir boðskiptum og upplýsingaskiptum. Samningsaðilarnir skulu skiptast á upplýsingum, gegnum fyrrnefnda tengiliði, um málefni sem varða ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem upp koma í tvíhliða viðskiptum og um sams konar ráðstafanir sem samningsaðilarnir grípa til og kunna að hafa áhrif á viðskipti milli þeirra.
7.     Samningsaðilarnir viðurkenna að í meginreglunni um jafngildi, sbr. 4. gr. (Jafngildi) samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, felist gagnkvæmur ávinningur bæði fyrir útflutnings- og innflutningsland. Samningsaðilinn sem flytur inn skal taka til velviljaðrar athugunar að samþykkja að ráðstafanir samningsaðilans, sem flytur út, um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna séu jafngildar, sýni síðarnefndi samningsaðilinn þeim fyrrnefnda fram á, á hlutlægan hátt, að ráðstafanir hans, þ.e. síðarnefnda samningsaðilans, uppfylli viðeigandi kröfur samningsaðilans, sem flytur inn, um vernd með tilliti til hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.
8.     Samningsaðilarnir skulu auka samvinnu á sviði ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á eftirlitskerfum hvers um sig og auðvelda aðgang að mörkuðum sínum.
9.     Kalla skal saman sérfræðinga til samráðs, að skriflegri beiðni samningsaðila, eins fljótt og auðið er telji sá samningsaðili að hinn samningsaðilinn hafi gripið til ráðstafana sem líklegar eru til þess að hafa áhrif eða hafa haft áhrif á aðgang að markaði hans. Slíkt samráð skal miða að því að finna viðeigandi lausn í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Til að auðvelda skilvirka nýtingu úrræða skulu samningsaðilarnir, eftir því sem unnt er, leggja sig fram um að beita nútímaboðskiptatækni, s.s. rafrænum samskiptum og mynd- eða símafundum. Ef nauðsyn krefur skal tilkynna sameiginlegu fríverslunarnefndinni, sem komið er á fót skv. 10. kafla, um niðurstöður samráðs sérfræðinga.

20. gr.
Tæknilegar viðskiptahindranir.

1.     Markmið þessarar greinar eru:
    a)    að greiða í auknum mæli fyrir alhliða fyrirkomulagi upplýsingaskipta milli samningsaðilanna og nánara samstarfi og efla gagnkvæman skilning hvors samningsaðila á stjórnunarkerfi hins,
    b)    að efla samstarf milli samningsaðilanna um tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir, lækka viðskiptakostnað og stuðla að og greiða fyrir tvíhliða viðskiptum milli samningsaðilanna, og
    c)    að leysa á skilvirkan hátt hvers kyns vandamál vegna tvíhliða viðskipta.
2.     Þessi grein gildir um allar tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir sem geta, beint eða óbeint, haft áhrif á vöruviðskipti milli samningsaðilanna, að undanskildum ráðstöfunum er varða hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem falla undir 19. gr.
3.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir, í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (sem nefnist hér á eftir „samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“). Ekkert í þessari grein kemur í veg fyrir að samningsaðili viðhaldi eða taki upp tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir í samræmi við réttindi og skyldur samkvæmt samningnum um tæknilegar viðskiptahindranir.
4.     Lögbær stjórnvöld samningsaðilanna eru ábyrg fyrir beitingu þeirra ráðstafana er um getur í þessari grein. Heiti og aðsetur lögbærra stjórnvalda og tengiliða eru tilgreind í III. viðauka. Samningsaðilarnir skulu upplýsa hvor annan um verulegar breytingar sem verða á uppbyggingu, skipulagi og skiptingu ábyrgðar hjá lögbærum stjórnvöldum hvors um sig.
5.     Tengiliðirnir, er um getur í 4. mgr., skulu vera ábyrgir fyrir boðskiptum og upplýsingaskiptum.
6. Samningsaðilarnir skulu koma á kerfi til þess að skiptast á upplýsingum milli landsbundinna upplýsingamiðstöðva um tæknilegar viðskiptahindranir í samræmi við kröfur um gagnsæi í samningnum um tæknilegar viðskiptahindranir.
7.     Ef viðeigandi alþjóðlegir staðlar eru fyrir hendi eða þeim verður komið á innan tíðar skulu samningsaðilarnir nota þá, eða þá hluta þeirra sem við eiga, sem grundvöll fyrir tæknilegar reglur og samræmismatsaðferðir sem þeim tengjast, nema þeir alþjóðlegu staðlar, eða viðkomandi hlutar þeirra, séu gagnslausir eða henti ekki til að fullnægja lögmætum reglusetningarmarkmiðum.
8.     Samningsaðilarnir viðurkenna að í meginreglunni um jafngildi, sbr. 2. gr. samningsins um tæknilegar viðskiptahindranir, felist gagnkvæmur ávinningur fyrir útflutnings- og innflutningslandið. Ef tæknilegar reglugerðir annars samningsaðila fullnægja jafn vel lögmætum markmiðum og veita hinum samningsaðilanum sams konar vernd skal hinn samningsaðilinn taka til jákvæðrar athugunar að samþykkja þær sem jafngildar reglur.
9.     Að því er varðar samræmismatsaðferðir:
    a)     gera samningsaðilarnir sér grein fyrir muninum á réttarkerfum þeirra að því er varðar samræmismatsaðferðir og samþykkja að kanna möguleika á gagnkvæmri viðurkenningu samræmismatsaðferða í samræmi við samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir,
    b)    skulu samningsaðilarnir skiptast á upplýsingum um kerfi samræmingarmatsaðferða með það fyrir augum að stuðla að því að samningsaðilarnir viðurkenni samræmismatsaðferðir hvor annars, og
    c)    skal samningsaðili taka til vinsamlegrar athugunar beiðni hins samningsaðilans um að viðurkenna samræmismatsaðferðir aðila á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, með samningi eða fyrirkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu.
10.     Í því skyni að efla gagnkvæman skilning samningsaðilanna á kerfum hvors samningsaðila og greiða fyrir gagnkvæmum aðgangi að mörkuðum sínum skulu samningsaðilarnir leggja áherslu á að efla samstarf um eftirfarandi, þar með talið en takmarkast ekki við:
    a)     eflingu samstarfs, boðskipta og samræmingar að því er varðar þátttöku í starfi alþjóðlegra staðlastofnana og samninganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir,
    b)     aukin boðskipti milli stjórnsýslustofnana hvors fyrir sig og greið upplýsingaskipti að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir og góðar eftirlitsvenjur hvors samningsaðila, og
    c)     í því skyni að framfylgja kröfum sem gerðar eru í þessari grein, auka án tafar upplýsingaskipti um tæknilegar reglur, staðla og samræmismatsaðferðir og taka til vinsamlegrar athugunar hverja skriflega beiðni um samráð.
11.     Samningsaðilarnir skulu, með fyrirvara um 3. mgr., að fenginni skriflegri beiðni samningsaðila og eins fljótt og kostur er, hafa með sér samráð um hvert það mál sem upp kann að koma vegna beitingar tiltekinna tæknilegra reglna, staðla og samræmismatsaðferða sem, að áliti samningsaðila, hefur valdið eða gæti valdið hindrun í viðskiptum milli samningsaðilanna, í því skyni að finna viðeigandi lausn í samræmi við samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir.
12.     Til að auðvelda skilvirka nýtingu úrræða skulu samningsaðilarnir, eftir því sem unnt er, leggja sig fram um að beita nútímaboðskiptatækni, s.s. rafrænum samskiptum og mynd- eða símafundum. Ef nauðsyn krefur skal tilkynna niðurstöður úr samráði sérfræðinga til sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar sem komið er á fót skv. 10. kafla.

3. KAFLI – UPPRUNAREGLUR

1. þáttur: Upprunareglur
21. gr.
Skilgreiningar.

Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    a)     „Samningur um tollverðsákvörðun“: Samningur um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994, sem er hluti af samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar,
    b)     „CIF“: virði innfluttrar vöru, að meðtöldum flutnings- og vátryggingarkostnaði, að komuhöfn eða -stað inn í innflutningslandið,
    c)    „FOB“: virði vöru sem flutt er að kostnaðarlausu um borð, óháð flutningatæki, í síðustu umhleðsluhöfn eða -stað erlendis,
    d)    „efni“ merkir vara eða afurð sem notuð er við framleiðslu eða umbreytingu annarrar vöru, þ.m.t. hluti eða innihaldsefni,
    e)    „framleiðsla“: vara verður til með ræktun, eldi, námugreftri, uppskeru, fiskveiðum, gildruveiðum, skotveiðum, framleiðslu, vinnslu eða samsetningu, og
    f)    „framleiðandi“: aðili sem stundar ræktun, eldi, námugröft, aflar uppskeru, veiðir fisk, veiðir í gildru, stundar skotveiðar, framleiðslu, vinnslu eða samsetningu vöru.

22. gr.
Upprunavara.

Að því er þennan samning varðar telst vara upprunnin hjá samningsaðila þegar:
    a)    varan er að öllu leyti heimafengin eða framleidd á yfirráðasvæði samningsaðila í merkingu 23. gr., eða
    b)    varan er að öllu leyti framleidd á yfirráðasvæði annars eða beggja samningsaðila og einvörðungu úr efnum sem uppfylla ákvæði þessa kafla hvað varðar uppruna, eða
    c)    varan er framleidd á yfirráðasvæði annars eða beggja samningsaðila úr efnum, sem ekki eru upprunaefni en uppfylla skilyrði um breytingu á tollflokkun, reglu um svæðisbundið efnisvirði, aðvinnslureglu eða aðrar kröfur sem tilgreindar eru í IV. viðauka, og varan uppfyllir önnur viðeigandi ákvæði í þessum kafla.

23. gr.
Að öllu leyti heimafengnar vörur.

Að því er varðar a-lið 22. gr. skal eftirfarandi teljast að öllu leyti fengið innan yfirráðasvæðis samningsaðila:
    a)     jarðefni unnin úr jörðu eða úr hafsbotni á yfirráðasvæði samningsaðila,
    b)     plöntur eða plöntuafurðir úr uppskeru á yfirráðasvæði samningsaðila,
    c)     lifandi dýr sem eru borin og alin á yfirráðasvæði samningsaðila,
    d)     afurðir úr lifandi dýrum, sem um getur í c-lið,
    e)     afurðir, sem aflað er með skotveiðum, gildruveiðum og fiskveiðum í vötnum innan yfirráðasvæðis samningsaðila,
    f)     sjávarafurðir og aðrar afurðir, sem aflað er innan landhelgi samningsaðila,
    g)    sjávarafurðir og aðrar afurðir, sem aflað er utan landhelgi samningsaðila, þ.m.t. sérefnahagslögsaga þess samningsaðila, með skipi sem skráð er á yfirráðasvæði samningsaðila og siglir undir fána þess samningsaðila,
    h)    afurðir framleiddar um borð í verksmiðjuskipum, sem skráð eru á yfirráðasvæði samningsaðila og sigla undir fána samningsaðila, einvörðungu úr afurðum sem um getur í f- og g-lið,
    i)        vörur unnar úr yfirborðslögum eða undirlögum hafsbotnsins utan landhelgi samningsaðila, að því tilskildu að hann hafi einkarétt á að nýta þar hafsbotninn,
    j)        notaðir hlutir, sem safnað er á yfirráðasvæði samningsaðila gagngert til endurvinnslu hráefna,
    k)    úrgangur og brotamálmur, sem fellur til við framleiðslustarfsemi, sem fram fer á yfirráðasvæði samningsaðila og nýtist einungis til endurvinnslu hráefna, og
    l)        vörur sem einungis eru framleiddar úr þeim hlutum sem tilgreindir eru í a- til k-lið.

24. gr.
Breytingar á tollflokkun.

Breyting á tollflokkun skv. IV. viðauka gerir þá kröfu að efni, sem ekki eru upprunaefni og notuð eru í framleiðslu varanna, færist til í tollflokkum vegna þeirrar vinnslu sem fram fór á yfirráðasvæði annars eða beggja samningsaðila.

25. gr.
Svæðisbundið efnisvirði.

1.     Að því er varðar c-lið 22. gr. skal svæðisbundið efnisvirði vöru reiknað á grundvelli eftirfarandi aðferðar:
                             V – VNM
RVC = ----------------------- x 100 %
                                  V
þar sem:
    a)    „RVC“ merkir svæðisbundið efnisvirði tilgreint í hundraðshlutum,
    b)    „V“ merkir virði vörunnar eins og það er skilgreint í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tollverðsákvörðun, leiðrétt á FOB-grundvelli, og
    c)    „VNM“ merkir virðið eins og það er skilgreint í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tollverðsákvörðun um efni sem ekki eru upprunaefni, leiðrétt á CIF-grundvelli.
2.     Í virði efna, sem ekki eru upprunaefni, skulu undanskilin, þegar svæðisbundið efnisvirði framleiðsluvörunnar er reiknað skv. 1. mgr., virði efna sem eru ekki upprunaefni og framleiðandi notar í framleiðslu upprunaefna sem eru síðar notuð við framleiðslu upprunavörunnar.

26. gr.
Uppsöfnun.

Ef upprunavörur eða upprunaefni samningsaðila eru sett saman við vöru á yfirráðasvæði hins samningsaðilans skal litið á vörurnar eða efnin, sem þannig eru sett í vöruna, eins og þau séu upprunnin á yfirráðasvæði síðarnefnda samningsaðilans.

27. gr.
Aðgerðir sem ekki veita upprunaréttindi.

1.     Eftirfarandi aðgerðir teljast ekki nægileg aðvinnsla til að vörur fái stöðu upprunavara:
    a)    aðgerðir til að tryggja að vörur haldist óskemmdar meðan á flutningi og geymslu stendur,
    b)    uppskipting og sameining pakkninga,
    c)    þvottur, hreinsun, fjarlæging á ryki, ryði, olíu, málningu eða öðru yfir-borðsefni,
    d)     straujun og pressun textílefna,
    e)     einfaldar aðgerðir til að mála og fægja,
    f)     afhýðing, bleiking í heild eða að hluta, slípun og sykurhúðun korns og hrísgrjóna,
    g)     aðgerðir til að lita sykur eða búa til sykurmola,
    h)     aðgerðir til að afhýða, taka steina úr og skurn af ávöxtum, hnetum og grænmeti,
    i)     skerping, einföld slípun eða einfaldur skurður;
    j)        sigtun, sáldun, sundurgreining, flokkun, velja saman (þar á meðal að setja hluti í samstæður),
    k)    einföld setning á flöskur, í dósir, poka, öskjur, kassa, á spjöld eða töflur og allar aðrar einfaldar pökkunaraðgerðir,
    l)        festing merkja, miða, kennimerkja og annarra slíkra auðkenna á vörur eða umbúðir þeirra,
    m)    einföld blöndun framleiðsluvara, hvort sem um er að ræða ólíkar vörur eða ekki,
    n)    einföld samsetning vöruhluta þannig að úr verði fullgerð vara eða sundurhlutuð vara,
    o)    aðgerðir sem hafa eingöngu þann tilgang að auðvelda fermingu,
    p)    slátrun dýra, og
    q)     sameining tveggja eða fleiri aðgerða sem tilgreindar eru í a- til p-lið.
2.     Í þessari grein hafa eftirfarandi orð og hugtök þá merkingu sem hér greinir:
    a)    „einföld“ lýsir yfirleitt aðgerð sem hvorki þarfnast sérstakrar færni, sérstakra véla, tækja né sérstaks búnaðar sem er framleiddur eða settur upp sérstaklega vegna aðgerðarinnar, og
    b)     „einföld blöndun“ lýsir yfirleitt aðgerð sem hvorki þarfnast sérstakrar færni, sérstakra véla, tækja né sérstaks búnaðar sem er framleiddur eða settur upp sérstaklega vegna aðgerðarinnar. „Einföld blöndun“ felur þó ekki í sér efnahvarf.

28. gr.
De Minimis.

Vara, sem ekki uppfyllir kröfur um breytingu á tollverðsflokkun samkvæmt ákvæðum IV. viðauka, skal eigi að síður teljast upprunaleg vara ef:
    a)    virði allra efna, sem ekki eru upprunaleg, ákvarðað skv. 25. gr., þ.m.t. efni af óvissum uppruna, sem ekki standast kröfur um breytingu á tollverðsflokkun, fer ekki yfir 10% af FOB-virði viðkomandi vöru, og
    b)    vörurnar uppfylla öll önnur viðeigandi skilyrði þessa kafla.

29. gr.
Fylgihlutir, varahlutir og verkfæri.

Ekki skal tekið mið af fylgihlutum, varahlutum eða verkfærum, sem fylgja vöru við innflutning, þegar uppruni vöru er ákvarðaður, að því tilskildu:
    a)    að fylgihlutirnir, varahlutirnir eða verkfærin séu flokkuð með vörunni og ekki sérstaklega aðgreind frá henni í vörureikningi, og
    b)    að magn og virði fyrrgreindra fylgihluta, varahluta eða verkfæra sé eðlilegt miðað við vöruna.

30. gr.
Pökkun og ílát til flutninga.

Ekki skal taka tillit til íláta og pökkunarefna, sem notuð eru við flutning á vörum, við ákvörðun á uppruna varanna.

31. gr.
Umbúðaefni og ílát fyrir smásölu.

Þegar vörur eru háðar breytingu á tollflokkun, eins og kveðið er á um í IV. viðauka, skal, þegar uppruni varanna er ákvarðaður, líta fram hjá uppruna efnis í umbúðum og ílátum, sem vörurnar eru í fyrir smásölu, að því tilskildu að umbúðaefnið og ílátin séu tollflokkuð með vörunum. Ef vörurnar falla undir kröfur um svæðisbundið efnisvirði skal þó, eftir atvikum, telja virði umbúðaefnis og íláta, sem notað er í smásölu, til upprunaefna eða efna, sem ekki eru upprunaefni, þegar uppruni varanna er ákvarðaður.

32. gr.
Atriði sem hafa ekki áhrif.

1.     Þegar uppruni vöru er ákvarðaður skal ekki taka til greina atriði sem hafa ekki áhrif og skilgreind eru í 2. mgr.
2.     Með „atriðum sem hafa ekki áhrif“ er átt við vörur sem notaðar eru í framleiðslu vöru en eru ekki felldar inn í vöruna eða eru hluti af henni, s.s.:
    a)     eldsneyti, orka, hvatar og leysiefni,
    b)     búnaður, tæki og ýmsar smávörur sem notuð eru til prófunar eða skoðunar á vörunni,
    c)     hanskar, gleraugu, skófatnaður, fatnaður, öryggisbúnaður og ýmsar smávörur,
    d)     verkfæri, form og mót,
    e)     varahlutir og efni sem notuð eru við viðhald búnaðar og bygginga,
    f)    smurefni, feiti, íblöndunarefni og önnur efni, sem notuð eru í framleiðslu eða við rekstur búnaðar og bygginga, og
    g)    hvers kyns aðrar vörur sem eru ekki felldar inn í vöruna en unnt er að sýna fram á með réttu að notkun þeirra í framleiðslu vörunnar sé hluti þeirrar framleiðslu.

33. gr.
Beinn flutningur.

1.     Ívilnandi tollmeðferð, sem kveðið er á um í samningi þessum, gildir um vörur sem uppfylla kröfur sem gerðar eru í þessum kafla og eru fluttar beint milli samningsaðilanna.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirfarandi teljast flutt beint frá samningsaðilanum, sem flytur vöruna út, til samningsaðilans sem flytur vöruna inn:
    a)    vörur, sem eru fluttar án þess að vara fari um yfirráðasvæði aðila, sem ekki er samningsaðili, og
    b)    vörur, sem fluttar eru um yfirráðasvæði eins eða fleiri aðila, sem eru ekki samningsaðilar, með eða án umskipunar eða tímabundinnar geymslu á slíku yfirráðasvæði aðila, sem ekki er samningsaðili, að því tilskildu:
            i.        að umflutningur helgist af landfræðilegum ástæðum eða sjónarmiðum sem einungis tengjast flutningskröfum,
            ii.    að vörurnar fari ekki í sölu eða neyslu þar, og
            iii.    að vörurnar fari ekki í frekari framleiðslu eða hvers kyns aðgerð þar aðra en umhleðslu, endurhleðslu, uppskiptingu sendingar eða hvers kyns aðgerð sem nauðsynleg er til að varðveita þær í góðu ástandi, að því tilskildu að vörurnar séu undir tolleftirliti meðan umflutningur á yfirráðasvæði aðila, sem ekki er samningsaðili, varir.
3.     Uppfylling ákvæða, sem sett eru fram í 2. mgr., skal staðfest með því að framvísa hjá tollyfirvöldum þess samningsaðila, sem flytur vöruna inn, annaðhvort tollskjölum aðila, sem ekki er samningsaðili, eða hverjum þeim skjölum sem tollyfirvöld samningsaðila, sem flytur vöruna inn, telja fullnægjandi.

2. þáttur: Framkvæmdarreglur
34. gr.
Skilgreiningar.

Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    a)    „Viðurkennd stofnun“: hvers kyns stofnun sem tilnefnd er samkvæmt landslögum samningsaðila eða opinberu valdi samningsaðila til að gefa út upprunavottorð, og
    b)     „Lögbært stjórnvald“:
            i.        að því er varðar Kína er yfirstjórn tollamála ábyrg fyrir skipulagningu og framkvæmd upprunareglna samkvæmt samningi þessum, í samræmi við landslög, og yfirstjórn gæðaeftirlits, skoðunar og sóttvarnareftirlits er ábyrg fyrir útgáfu upprunavottorða í samræmi við landslög, og
            ii.    að því er varðar Ísland, embætti tollstjóra.

35. gr.
Skjalfest sönnun uppruna.

Til að eiga rétt á ívilnandi tollmeðferð samkvæmt samningi þessum skal við innflutning leggja fram annað hvort eftirfarandi skjala hjá tollyfirvöldum samningsaðilans sem flytur vöruna inn:
    a)    upprunavottorð, sem um getur í 36. gr., eða
    b)    upprunayfirlýsingu sem um getur í 37. gr.

36. gr.
Reglur um útgáfu upprunavottorðs.

1.     Viðurkenndar stofnanir samningsaðila skulu gefa út upprunavottorð, eins og kveðið er á um í V. viðauka, samkvæmt umsókn útflytjanda, að því tilskildu að viðkomandi vörur fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í þessum kafla.
2.     Í upprunavottorði:
    a)    skal vera einkvæmt vottorðsnúmer,
    b)    skal tilgreind ein vara eða fleiri í einni vörusendingu,
    c)    skal tilgreint á hvaða grundvelli sé rétt að telja vörurnar upprunalegar í skilningi þessa kafla,
    d)    skulu vera öryggisþættir, s.s. sýnisdæmi um undirritun eða stimplun, að höfðu samráði við samningsaðila, sem flytur vöruna inn, eða samningsaðila sem flytur vöruna út, og
    e)    skal nota ensku sem færð er inn með vélritun.
3.     Upprunavottorðið skal gefa út áður en viðkomandi vörur eru fluttar út eða um leið og útflutningur fer fram. Það skal gilda í eitt ár frá útgáfudegi á yfirráðasvæði samningsaðila sem flytur vöruna út.
4.     Hvor samningsaðili skal upplýsa tollyfirvöld hins aðilans um heiti allra viður-kenndra stofnana, ásamt viðeigandi samskiptaupplýsingum, og gefa ítarlegar upplýsingar um öryggisþætti á viðkomandi eyðublöðum og skjölum, sem hvor hinna viðurkenndu stofnana notar, áður en viðkomandi stofnun gefur út vottorð. Breytingar á veittum upplýsingum, sem um getur hér að framan, skal tilkynna án tafar til tollyfirvalda hins samningsaðilans.
5.     Ef upprunavottorð hefur ekki verið gefið út áður eða um leið og útflutningur átti sér stað vegna óviðráðanlegra atvika eða óviljandi skekkja, aðgerðarleysis eða annarra gildra ástæðna, er heimilt að gefa út upprunavottorð afturvirkt en ekki lengur en einu ári eftir sendingardag vöru, merkt „ISSUED RETROACTIVELY“ eða „ISSUED RETROSPECTIVELY“, sem skal setja í athugasemdarreit upprunavottorðsins.
6.     Hafi upprunavottorði verið stolið eða það hefur glatast eða skemmst getur útflytjandi eða framleiðandi sótt um með skriflegri beiðni til viðurkenndra stofnana samningsaðilans sem flytur vöruna út, að gefið sé út staðfest afrit, að því tilskildu að útflytjandinn eða framleiðandinn gangi úr skugga um að áður útgefið frumrit hafi ekki verið notað. Á staðfesta afritinu skal vera ritað „CERTIFIED TRUE COPY of the original certificate of origin number ___ dated ___“, sem skal sett í athugasemdareitinn á upprunavottorðinu. Komist tollyfirvöld í innflutningslandinu að þeirri niðurstöðu að frumritið hafi verið notað telst staðfesta afritið ógilt og öfugt.

37. gr.
Upprunayfirlýsing.

1.     Viðurkenndum útflytjanda, skv. 38 gr., á yfirráðasvæði samningsaðila er heimilt, í því skyni að fá ívilnandi tollmeðferð á yfirráðasvæði hins samningsaðilans, að gefa út upprunayfirlýsingu í samræmi við útgáfu sem er að finna í VI. viðauka.
2.     Aðeins viðurkenndum útflytjanda í skilningi 38. gr. er heimilt að gefa út upprunayfirlýsingu.
3.     Upprunayfirlýsingu skal því aðeins gefa út að viðkomandi vara geti talist upprunavara samningsaðila samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
4.     Ef viðurkenndur útflytjandi innan tollsvæðis samningsaðilans er ekki framleiðandi vörunnar, getur hinn viðurkenndi útflytjandi gefið út upprunayfirlýsingu í samræmi við lög og reglur samningsaðilans, sem flytur út vöruna.
5.     Upprunayfirlýsing skal gefin út áður en samningsaðilinn, sem flytur inn, flytur inn framleiðsluvöruna sem hún tekur til.
6.     Upprunayfirlýsing skal gilda í 12 mánuði frá útgáfudegi.

38. gr.
Viðurkenndur útflytjandi.

1.     Samningsaðili sem flytur inn skal veita fríðindameðferð þeim vörum sem falla undir upprunayfirlýsinguna sem gefin var út af viðurkenndum útflytjanda samningsaðilans sem flytur út. Upprunayfirlýsingin skal vera í samræmi við sniðið sem sett er fram í VI. viðauka.
2.     Úthluta skal einstöku leyfisnúmeri til viðurkennds útflytjanda, sem samningsaðili sem flytur út hefur veitt heimild til að gefa út upprunayfirlýsingu, og er þess krafist að númerið sé á upprunayfirlýsingunni á meðan hún er í notkun. Samningsaðili sem flytur út skal fylgjast náið með og hafa eftirlit með notkun slíks leyfisnúmers.
3.     Hvor samningsaðili skal veita hinum samningsaðilanum ítarlegar upplýsingar um viðurkennda útflytjendur, s.s. nöfn, skráningarnúmer og samskiptaupplýsingar um þá og sýnisdæmi um stimplun, sem útflytjendurnir nota, áður en kemur til raunverulegs útflutnings á vörum þeirra. Breytingar á upplýsingunum hér að framan skal tilkynna án tafar til hins samningsaðilans.
4.     Samningsaðili skal, fyrir 31. mars ár hvert, veita hinum samningsaðilanum upplýsingar um nafn og skráningarnúmer hvers viðurkennds útflytjanda ásamt tilsvarandi raðnúmerum á öllum skýrslum vegna ívilnandi tollmeðferðar sem gefnar voru út árinu áður. Komi eitthvert misræmi í ljós vegna þessara upplýsinga skal samningsaðili upplýsa hinn samningsaðilann um þess háttar ósamræmi til frekari rannsóknar eða útskýringar af hálfu þess samningsaðila.

39. gr.
Undanþága frá upprunavottorði eða upprunayfirlýsingu.

1.     Samningsaðili getur, í þeim tilgangi að veita fríðindameðferð samkvæmt þessum kafla, fallið frá kröfum um að sýna upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu og veitt fríðindameðferð:
    a)    vörusendingu upprunavara sem fara ekki yfir 600 bandaríkjadali að verðgildi eða samsvarandi fjárhæð í gjaldmiðli samningsaðila, eða
    b)    annarra upprunavara eins og kveðið er á um í landslögum hans.
2.     Þeim undanþágum sem kveðið er á um í 1. mgr. skal ekki beita þegar leitt er í ljós af hálfu tollyfirvalda samningsaðilans sem flytur inn, að innflutningurinn sé liður í raðtengdum innflutningi sem hægt er með rökum að telja að sé framkvæmdur eða skipulagður í þeim tilgangi að komast hjá því að leggja fram upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu.

40. gr.
Skyldur er varða innflutning.

Innflytjandi sem fer fram á ívilnandi tollmeðferð fyrir vöru samkvæmt samningi þessum skal:
    a)    að eigin frumkvæði lýsa því yfir skriflega í tollskýrslu að varan sé upprunavara,
    b)    hafa undir höndum gilt upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu á þeim tíma þegar innflutningstollskýrslan sem um getur í a-lið er útbúin, og
    c)    leggja fram upprunalegt upprunavottorð eða upprunayfirlýsingu og önnur skrifleg gögn sem tengjast innflutningi vörunnar, óski tollyfirvöld samningsaðilans sem flytur inn þess.

41. gr.
Endurgreiðsla innflutningstolla eða tryggingarfjár.

1.     Sé vara flutt inn á yfirráðasvæði samningsaðila án þess að lagt sé fram upprunavottorð eða upprunayfirlýsing samkvæmt samningi þessum geta tollyfirvöld samningsaðilans sem er innflytjandi, eftir atvikum, lagt á gildandi toll án fríðindameðferðar, eða krafist greiðslu tryggingarfjár eða tryggingar sem jafngildir allri fjárhæð tollsins sem lagður er á þá vöru, að því tilskildu að innflytjandinn lýsi því formlega yfir við tollyfirvöld við innflutning að varan sem í hlut á sé upprunavara.
2.     Innflytjandinn getur sótt um endurgreiðslu greidds umfram tolls eða tryggingafjár, innan tímabils sem tiltekið er í löggjöf samningsaðilans sem er innflytjandi.

42. gr.
Varðveisla skjala.

1.     Hvor samningsaðili skal gera kröfu um að framleiðendur, útflytjendur og innflytjendur geymi í a.m.k. þrjú ár gögn sem sanna upprunaréttindi fyrir vörur auk gagna sem sanna að farið hafi verið að öðrum skilyrðum sem kveðið er á um í þessum kafla.
2.     Hvor samningsaðili skal gera kröfu um að aðilar sem til þess eru bærir geymi afrit af upprunavottorðum og öðrum gögnum sem færa sönnur á uppruna í a.m.k. þrjú ár.

43. gr.
Sannprófun.

1.     Í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að upprunavottorðið eða upprunayfirlýsingin séu ósvikin og áreiðanleg, upprunaréttindi fyrir viðkomandi vörur séu til staðar, eða um uppfyllingu annarra skilyrða sem mælt er fyrir um í þessum kafla, mega tollyfirvöld samningsaðilans sem flytur inn sannprófa uppruna með því að leggja fram beiðni til lögbærra stjórnvalda samningsaðilans sem er útflytjandi, eða með annarri málsmeðferð sem tollyfirvöldum samningsaðila er heimilt að koma sér saman um.
2.     Tollyfirvöld samningsaðilans sem er innflytjandi, sem hafa lagt fram beiðni til lögbærra stjórnvalda samningsaðilans sem er útflytjandi um sannprófun, skulu tilgreina ástæður að baki beiðninni og útvega þau skjöl og upplýsingar sem réttlæta sannprófun.
3.     Þar til bært yfirvald samningsaðilans sem er útflytjandi, sem fær beiðni um staðfestingu samkvæmt 1. mgr., skal bregðast við beiðninni innan sex mánaða frá viðtökudegi beiðninnar.
4.     Ef ekki berst svar innan tímabilsins sem tilgreint er að ofan, eða ef svarið hefur ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar til að ganga úr skugga um áreiðanleika gagnanna eða um upprunaréttindi fyrir umræddar vörur, geta tollyfirvöld hafnað því að beita ívilnandi tollmeðferð.

44. gr.
Höfnun ívilnandi tollmeðferðar.

Nema kveðið sé á um annað í þessum kafla getur samningsaðilinn sem er innflytjandi hafnað kröfu um ívilnandi tollmeðferð ef:
    a)    vörurnar uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru fram í þessum kafla,
    b)    innflytjandinn, útflytjandinn eða framleiðandinn fara ekki að þeim skilyrðum sem kveðið er á um í þessum kafla, eða
    c)    upprunavottorðið eða upprunayfirlýsingin uppfyllir ekki þau skilyrði sem kveðið er á um í þessum kafla.

45. gr.
Tengiliðir.

Hvor samningsaðili skal tilnefna tengiliði til að tryggja árangursríka og skilvirka framkvæmd þessa kafla.

4. KAFLI – REGLUR UM TOLLMEÐFERÐ OG
UM AÐ GREIÐA FYRIR VIÐSKIPTUM


46. gr.
Almennar meginreglur.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna það sameiginlega markmið að þjóna atvinnulífi eigin samfélags og skapa viðskiptaumhverfi sem gerir þeim kleift að nýta þau tækifæri sem samningur þessi veitir.
2.     Samningsaðilarnir eru sammála um að eftirfarandi meginreglur séu m.a. undirstaða þróunar og stjórnunar af hálfu lögbærra stjórnvalda á ráðstöfunum til að greiða fyrir viðskiptum:
    a)     gagnsæi, skilvirkni, einföldun, samhæfing og samkvæmni viðskiptaaðferða,
    b)     notkun alþjóðlegra staðla,
    c)     samræmi við marghliða gerninga,

    d)     besta mögulega notkun upplýsingatækni,
    e)     mikil gæði opinberrar þjónustu í þágu atvinnulífs eiginviðskiptasamfélags,
    f)     eftirlit stjórnvalda byggt á reglum um áhættustjórnun,
    g)     samvinna hjá hverjum samningsaðila á meðal tollyfirvalda og landamærayfirvalda,
    h)     samráð við eigin viðskiptasamfélög, og
    i)     trygging þess að viðskiptaöryggis sé gætt og þess að greitt sé fyrir viðskiptum.

47. gr.
Samvinna.

Samningsaðilarnir staðfesta skuldbindingu sína um að beita skilvirkum viðskiptaaðferðum sem miða að því að lækka kostnað og draga úr óþarfa töfum í viðskiptum þeirra á milli, jafnframt því sem þeir viðurkenna að þörf sé á að efla samvinnu á marghliða vettvangi og beita aðferðum sem er að finna í meiri háttar gerningum um að greiða fyrir viðskiptum sem báðir samningsaðilarnir hafa undirritað.

48. gr.
Gagnsæi.

1.     Hvor samningsaðili skal birta tafalaust á Netinu, á ensku eftir því sem unnt er, öll lög og reglugerðir sem hafa almennt gildi og varða vöruviðskipti milli samningsaðilanna.
2.     Hvor samningsaðili skal stofna upplýsingamiðstöðvar, sem varða tollamál og önnur mál sem ákvæði þessa kafla taka til, sem unnt er að hafa samband við á Netinu, á ensku eftir því sem unnt er.
3.     Samningsaðilarnir skulu hafa samráð við eigin viðskiptasamfélög um þarfir þeirra í tengslum við þróun og framkvæmd ráðstafana til að greiða fyrir viðskiptum, þar sem sérstök áhersla er lögð á hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
4.     Hvor samningsaðili skal birta fyrirfram, einkum á Netinu, drög að lögum og reglugerðum, sem hafa almennt gildi og varða alþjóðaviðskipti, í því skyni að veita almenningi, einkum hagsmunaaðilum, tækifæri til að gera athugasemdir við þau.
5.     Hvor samningsaðili skal sjá til þess að gert sé ráð fyrir hæfilegu hléi milli birtingar laga og reglugerða sem hafa almennt gildi og varða alþjóðavöruviðskipti og gildistöku þeirra.
6.     Hvor samningsaðili skal starfa eftir öllum lögum sínum og reglugerðum og stjórnvaldsákvörðunum, sem varða alþjóðavöruviðskipti, með samræmdum, óhlutdrægum og sanngjörnum hætti.

49. gr.
Forúrskurðir.

1.     Samningsaðili skal gefa út, að fenginni skriflegri beiðni, með réttmætum hætti og með tímasetningu, bindandi og skriflegan forúrskurð, þar sem finna má allar nauðsynlegar upplýsingar, til handa innflytjanda, útflytjanda eða framleiðanda, sem hefur skráð sig hjá tollyfirvöldum sínum eins og landslög kveða á um, fyrir þann dag sem innflutningur viðkomandi framleiðsluvöru á sér stað, að því er varðar:
    a)     tollflokkun framleiðsluvöru,
    b)     þær upprunareglur sem samningsaðili mun beita gagnvart framleiðsluvöru, og
    c)     önnur þau mál sem samningsaðilarnir kunna að verða sammála um.
2.     Samningsaðili, sem hafnar því að gefa út forúrskurð, skal tilkynna það skriflega og án tafar og þeim innflytjanda, framleiðanda eða útflytjanda sem leggur fram beiðni og rökstyðja ákvörðun sína.
3.     Hvor samningsaðili skal leggja svo fyrir að forúrskurðir taki gildi á útgáfudegi þeirra, eða annan dag sem tiltekinn er í úrskurðinum, að því tilskildu að þær staðreyndir eða aðstæður sem úrskurðurinn byggir á haldist óbreyttar.
4.     Samningsaðili getur takmarkað gildi forúrskurða við tímabil sem innlend löggjöf segir fyrir um.
5.     Hvor samningsaðili um sig skal leitast við að gera almenningi aðgengilegar upplýsingar um forúrskurði, sem hann telur varða aðra kaupsýsluaðila miklu, að teknu tilliti til þeirrar nauðsynjar að vernda trúnaðarupplýsingar.

50. gr.
Tollverðsákvörðun.

Samningsaðilarnir skulu beita ákvæðum VII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og ákvæðum samningsins um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994 um tollverðsákvörðun gagnvart vörum sem þeir versla með sín á milli.

51. gr.
Tollflokkun.

Samningsaðilarnir skulu beita ákvæðum hins alþjóðlega samnings um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá gagnvart vörum sem þeir versla með sín á milli.

52. gr.
Einfölduð tollmeðferð.

1.      Tollmeðferð hvors samningsaðila skal vera einföld, sanngjörn, hlutlæg og óvilhöll.
2.     Hvor samningsaðili skal samþykkja eða viðhalda einfaldaðri tollmeðferð til að leysa út vörur með skilvirkum hætti og greiða þannig fyrir viðskiptum milli samningsaðila.
3.     Samningsaðilarnir skulu takmarka eftirlit, formsatriði og fjölda skjala, sem er krafist vegna viðskipta milli samningsaðila, við þau sem eru nauðsynleg og viðeigandi til þess að tryggja að lagakröfur séu virtar og einfalda þannig, að því marki sem frekast er unnt, þá málsmeðferð sem við á í hverju tilviki.
4.     Hvor samningsaðili um sig skal, í samræmi við ákvæði 3. mgr., samþykkja eða viðhalda verklagsreglum sem:
    a)    kveða á um rafræna framlagningu og vinnslu upplýsinga fyrirfram, áður en þær vörur sem uppfylla þurfa tiltekin skilyrði eða kröfur koma til ákvörðunarstaðar, til að hraða tollafgreiðslu þeirra,
    b)    geta heimilað innflytjendum að fá vörur afhentar áður en öllum innflutningskröfum viðkomandi samningsaðila er fullnægt, ef innflytjandinn leggur fram fullnægjandi og virkar tryggingar og þar sem sú ákvörðun tekin að frekari könnun, efnisleg skoðun eða nokkur önnur athugun sé nauðsynleg. Samningsaðila er ekki skylt að afhenda vörur ef lögmætum innflutningskröfum hans hefur ekki verið fullnægt, og
    c)    kveða á um að trygging skuli felld niður án tafar þegar hennar er ekki lengur krafist.
5.     Hvor samningsaðili skal byggja verklagsreglur sínar um vöruviðskipti og tengda þjónustu að því marki sem frekast er unnt á alþjóðlega samþykktum stöðlum, sem hvor aðili um sig beitir og miða að því að lækka kostnað og draga úr óþarfa töfum í viðskiptum þeirra á milli, einkum stöðlum og starfsháttum sem Alþjóðatollastofnunin (WCO) mælir með, þ.m.t. meginreglur endurskoðaðrar gerðar alþjóðasamningsins um einföldun og samhæfingu tollmeðferðar (endurskoðaður Kýótó-samningur).

53. gr.
Áhættustýring.

1.     Við tolleftirlit skulu samningsaðilarnir nota áhættustýringu. Hvor samningsaðili skal ákvarða hvaða einstaklingar og hvaða vörur skuli rannsaka, þ.m.t. flutningatæki, og umfang rannsóknarinnar á grundvelli núverandi áhættumats. Samningsaðilarnir skulu samþykkja áætlun um eftirlit með eftirfylgni svo stuðla megi að áhættustýringu. Það skal ekki koma í veg fyrir að samningsaðilarnir annist gæðaeftirlit og kanni eftirfylgni, sem getur haft í för með sér víðtækari rannsóknir.
2.     Við beitingu reglna um tollmeðferð skal hvor samningsaðili leggja áherslu á eftirlitsaðgerðir sem beinast að vörum sem fela í sér mikla áhættu og greiða fyrir tollafgreiðslu áhættulítilla vara.
3.     Reglur hvors samningsaðila um tollmeðferð, þ.m.t. skoðun fylgiskjala, vöruskoðun eða rannsóknir í kjölfar endurskoðunar, skulu ekki vera meira íþyngjandi en þörf krefur til draga úr þeirri áhættu sem um getur í 2. mgr.

54. gr.
Beiting upplýsingatækni.

Samningsaðilarnir skulu beita upplýsingatækni til stuðnings tollstarfsemi ef það er hagkvæmt og skilvirkt, einkum þegar um er að ræða pappírslaus viðskipti, að teknu tilliti til þróunar á því sviði innan Alþjóðatollastofnunarinnar.

55. gr.
Kerfi viðurkenndra rekstraraðila.

Samningsaðili, sem beitir kerfi viðurkenndra rekstraraðila eða öryggisráðstöfunum, sem hafa áhrif á flæði í alþjóðaviðskiptum, skal:
    a)    gefa hinum samningsaðilanum færi á að semja um gagnkvæma viðurkenningu og öryggisráðstafanir í því skyni að greiða fyrir alþjóðaviðskiptum jafnframt því að tryggja virkt tolleftirlit, og
    b)    nota viðeigandi alþjóðlega staðla, einkum staðlaramma Alþjóðatollastofnunarinnar.

56. gr.
Tímabundinn innflutningur.

1.     Hvor samningsaðili skal greiða fyrir tímabundnum innflutningi í samræmi við landslög og reglur hvors samningsaðila og alþjóðlega staðla sem þeir beita.
2.     Að því er varðar þessa grein merkir „tímabundinn innflutningur“ reglur um tollmeðferð sem hafa í för með sér að tilteknar vörur eru undanþegnar greiðslu aðflutningsgjalda þegar þær eru fluttar inn á tollsvæði. Slíkar vörur skulu fluttar inn í sérstökum tilgangi og vera ætlaðar til endurútflutnings innan tiltekins tíma án nokkurra breytinga, að undanskildum eðlilegum afskriftum vegna notkunar þeirra.

57. gr.
Endurskoðun og málskot.

Hvor samningsaðili skal tryggja að innflytjendur, útflytjendur og framleiðendur hafi rétt til óháðrar endurskoðunar á a.m.k. einu æðra stjórnsýslustigi og málskoti til dómstóla í samræmi við landsrétt hvors samningsaðila.

58. gr.
Samstarf um landamærastofnun.

Hvor samningsaðili skal tryggja samstarf og samræmi í málsmeðferð stjórnvalda sinna og stofnana, sem annast landamæragæslu og eftirlit með innflutningi og útflutningi, til að greiða fyrir viðskiptum.

59. gr.
Þagnarskylda.

Samningsaðilar skulu fara með allar upplýsingar, sem veittar eru í tengslum við innflutning, útflutning og í öðrum skyldum málum, sem trúnaðarmál og skal gilda um þær þagnarskylda í samræmi við landslög hvors samningsaðila um sig. Stjórnvöld samningsaðila skulu ekki veita þess háttar upplýsingar án skýlauss samþykkis þess aðila eða yfirvalds sem lætur þær í té.

60. gr.
Samráð.

1.     Hvor samningsaðili getur farið fram á samráð um málefni sem upp kunna að koma við beitingu eða framkvæmd þessa kafla. Slíkt samráð skal fara fram fyrir atbeina viðeigandi tengiliða sem samningsaðilarnir tilnefna. Hvor samningsaðili skal veita hinum upplýsingar um tengiliðina og skal tilkynna án tafar um hvers kyns breytingar á þeim upplýsingum.
2.     Í því skyni að þróa enn frekar aðferðir til að greiða fyrir viðskiptum samkvæmt samningi þessum skulu samningsaðilarnir koma á og tilkynna hvor öðrum, eins og við á, tilgreina og leggja fyrir sameiginlegu fríverslunarnefndina sem komið var á fót skv. 10. kafla, frekari aðgerðir sem miða að því að greiða fyrir viðskiptum milli samningsaðila, þar á meðal eftirfarandi:
    a)     almennar ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum,
    b)     opinbert eftirlit,
    c)     flutningar,
    d)     kynning og notkun á stöðlum,
    e)     notkun tölva og rafrænna gagnaskipta,
    f)     tiltækileiki upplýsinga,
    g)     almenn tollamál,
    h)    tollmeðferð og önnur opinber málsmeðferð er varðar flutningatæki og flutningabúnað, þ.m.t. gámar,
    i)         opinberar kröfur um innfluttar vörur,
    j)         tollafgreiðsla útflutningsvara,
    k)     uppruni vara,
    l)         umferming vara,
    m)    vörur í alþjóðlegum umflutningi,
    n)     viðskiptahættir,
    o)     forúrskurðir,
    p)     tollmiðlarar,
    q)     greiðsluskilmálar, og
    r)     önnur þau mál sem samningsaðilarnir kunna að verða sammála um.
3.     Sameiginlega fríverslunarnefndin mun endurskoða viðkomandi alþjóðleg framtaksverkefni um greiðari viðskipti til að finna svið þar sem frekari sameiginlegar aðgerðir gætu stuðlað að sameiginlegum markmiðum með þeim.

61. gr.
Skilgreiningar.

Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    a)     „tollyfirvöld“:
            i.        að því er varðar Kína, General Administration of Customs, the People's Republic of China, og
            ii.    að því er varðar Ísland, tollstjóraembættið, Íslandi.
    b)    „tollalög“: ákvæði laga og reglna samningsaðila sem varða innflutning, útflutning, flutning eða geymslu vara, framkvæmd og framfylgd ákvæða laga og reglna sem heyra sérstaklega undir tollyfirvöld og hvers kyns reglur sem tollyfirvöld setja í krafti lögskipaðs valds síns,
    c)    „reglur um tollmeðferð“: meðferð sem tollyfirvöld samningsaðila beita að því er varðar vörur og flutningatæki sem falla undir tollalög þess samningsaðila, og
    d)    „flutningatæki“: ýmsar tegundir skipa, farartækja, loftfara og burðardýra sem koma inn á eða fara út af yfirráðasvæði samningsaðila með fólk og vörur.

5. KAFLI – SAMKEPPNI

62. gr.
Reglur um samkeppni.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna að samkeppnishamlandi viðskiptahættir kunni að hindra ávinning af samningi þessum. Slíkir viðskiptahættir samrýmast því ekki réttri framkvæmd þessa samnings að svo miklu leyti sem það getur haft áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna.
2.     Samningur þessi gildi einnig um fyrirtæki sem njóta forréttinda og sérréttinda samkvæmt lögum. Slík beiting skal ekki hindra það að áðurnefnd fyrirtæki uppfylli lögbundin hlutverk sín.
3.     Ekki skal túlka ákvæði þessa kafla með þeim hætti að kveðið sé um lagalega bindandi skyldur sem lagðar séu á fyrirtækin og einnig er gerður fyrirvari um sjálfstæði samkeppnisyfirvalda samningsaðilanna í samræmi við samkeppnislöggjöf hvors um sig.
4.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að beita samkeppnislögum sínum með það að markmiði að uppræta samkeppnishamlandi viðskiptahætti. Samvinna samningsaðilanna getur falið í sér upplýsingaskipti í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir samningsaðilanna, auk trúnaðarkvaða sem á þeim kunna að hvíla.
5.     Samkeppnisyfirvöld samningsaðilanna skulu vinna saman og hafa samráð um málefni sem tengjast þessum kafla.
6.     Leysa skal úr sérhverju deilumáli sem kann að rísa varðandi þennan kafla með samráði milli samningsaðilanna. Hvorugur samningsaðilanna getur nýtt sér úrræði til að leysa úr deilumálum samkvæmt þessum samningi að því er varðar málefni sem kunna að rísa í tengslum við þennan kafla.

6. KAFLI – HUGVERKARÉTTINDI

63. gr.
Almenn ákvæði.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi hugverkaréttinda í eflingu efnahagslegrar og félagslegrar þróunar, einkum í hinu nýja stafræna hagkerfi, tækninýsköpun og viðskiptum, auk mikilvægi þess að ná jafnvægi milli réttinda rétthafa og lögmætra hagsmuna notenda og samfélagsins að því er varðar verndað efni.
2.     Í kafla þessum merkir hugtakið „hugverkaréttindi“ höfundarétt og skyld réttindi, réttindi til vörumerkja, landfræðilegar merkingar, iðnhönnun, einkaleyfi, trúnaðarupplýsingar, svæðislýsingar smárása, og yrkisrétti eins og þessi hugtök eru skilgreind í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (hér eftir nefndur TRIPS-samningurinn).
3.     Hvor samningsaðili skal koma á fót og halda úti gagnsæju regluverki og kerfi til að vernda hugverkaréttindi sem:
    a)    veitir vissu um vernd og fullnustu réttinda gagnvart brotum, þ.m.t. eftirlíkingum og ólöglegri nýtingu,
    b)     dregur sem mest úr kostnaði fyrirtækja við reglufylgni, og
    c)     auðveldar alþjóðaviðskipti með miðlun hugmynda, tækni og skapandi verka.

64. gr.
Alþjóðasamningar.

Hvor samningsaðili áréttar skuldbindingar sínar samkvæmt TRIPS-samningnum sem er hér með felldur inn samning þennan og er hluti af honum. Samningsaðilarnir árétta einnig skuldbindingar sínar sem settar eru fram í eftirfarandi marghliða samningum um hugverkaréttindi og báðir eru aðilar að:
    a)    Parísarsamþykktin frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttindi á sviði iðnaðar, með þeim breytingum sem gerðar voru með Stokkhólmsgerðinni árið 1967 (nefndur „Parísarsamþykktin“),
    b)    Bernarsamningurinn frá 9. september 1886 til verndar bókmenntum og listaverkum, með þeim breytingum sem gerðar voru með Parísargerðinni árið 1971 (nefndur „Bernarsamningurinn“),
    c)    Samstarfssamningurinn um einkaleyfi frá 19. júní 1970, með þeim breytingum sem gerðar voru með Washington-gerðinni árið 2001,
    d)    Búdapest-samningurinn frá 28. apríl 1977 um alþjóðlega viðurkenningu á innlagningu örvera til varðveislu vegna meðferðar einkaleyfamála,
    e)    bókun frá 27. júní 1989 við Madrídarsamninginn um alþjóðlega skráningu merkja, og
    f)    Nice-samningurinn frá 25. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vörumerkja, með þeim breytingum sem gerðar voru með Genfargerðinni árið 1979.

65. gr.
Samstarf og gagnkvæm miðlun upplýsinga.

1.     Samningsaðilarnir stefna að því að efla frekar samvinnu sína á sviði hugverkaréttinda almennt. Samningsaðilarnir geta unnið saman, m.a. á eftirfarandi sviðum, sem ekki eru tæmandi talin:
    a)    skipti á upplýsingum, reynslu og skoðunum á málefnum sem varða báða aðila og tengjast hugverkaréttindum,
    b)    skipti á upplýsingum varðandi vernd og fullnustu hugverkaréttinda,
    c)    þjálfun starfsfólks og upplýsingakerfi um hugverkaréttindi,
    d)    að stuðla að gagnkvæmum skilningi á stefnu samningsaðila, starfsemi og reynslu á sviði hugverkaréttinda,
    e)    að stuðla að menntun og vitund fólks um hugverkaréttindi, og
    f)    aðrar aðgerðir og frumkvæði sem samningsaðilarnir koma sér saman um.
2.     Hvor samningsaðili skal tilnefna tengilið eða tengiliði innan 60 daga frá gildistöku samnings þessa til að auðvelda samskipti milli samningsaðilanna varðandi þau mál sem fjallað er um í þessum kafla og veita hinum samningsaðilanum upplýsingar um slíka tengiliði. Samningsaðilarnir skulu þegar í stað tilkynna hvor öðrum um allar breytingar á upplýsingum um tengiliði þeirra.
3.     Tilnefndir tengiliðir skulu bera ábyrgð á upplýsingaskiptum samkvæmt 1. mgr.

66. gr.
Viðræður og endurskoðun.

1.     Samningsaðili getur hvenær sem er óskað eftir viðræðum við hinn samningsaðilann í því skyni að leita skjótra lausna, sem báðir aðilar geta sætt sig við, á hugverkaréttindamálum sem falla undir kafla þennan. Slíkar viðræður skulu fara fram milli þeirra tengiliða sem samningsaðilarnir hafa tilnefnt, nema samningsaðilar semji um annað, innan 60 daga frá móttöku beiðni um viðræður. Samningsaðili getur aðeins gripið til aðgerða samkvæmt 11. kafla í þeim tilvikum þar sem slíkar viðræður duga ekki til að leysa úr slíku máli.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur samningsaðili, eftir að slíkar viðræður hafa hafist og eftir að hinum aðilanum hefur verið tilkynnt um slíka ákvörðun, gripið til aðgerða samkvæmt 11. kafla, ef hann telur að viðræðurnar muni ekki duga til að leysa úr málinu.
3.     Samningsaðilarnir samþykkja að endurskoða ákvæði þessa kafla óski einhver aðili eftir því við sameiginlegu fríverslunarnefndina, sem komið er á fót skv. 10. kafla, með fyrirvara um samkomulag beggja samningsaðila og sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar, með það fyrir augum að bæta frekar umfang verndar og til að tryggja góða framkvæmd ákvæða þessa kafla.

7. KAFLI – ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI

67. gr.
Umfang og gildissvið.

1.     Samningur þessi á við um ráðstafanir af hálfu samningsaðilanna sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti sem ríkisstjórnir, svæðisbundin eða staðbundin stjórnvöld eða yfirvöld gera og einnig óopinberar stofnanir sem fara með vald í umboði ríkisstjórnar, svæðisbundinna eða staðbundinna stjórnvalda eða yfirvalda.
2.     Samningur þessi gildir ekki um:
    a)    þjónustu sem veitt er við beitingu opinbers valds innan yfirráðasvæðis hvors samningsaðila, eða
    b)    reglugerðir eða kröfur sem gilda um innkaup ríkisstofnana á þjónustu til eigin nota sem er ekki ætluð til endursölu í hagnaðarskyni eða til veitingar þjónustu í hagnaðarskyni.
3.     Kafli þessi gildir ekki um ráðstafanir sem hafa áhrif á flugumferðarréttindi eða ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustu sem tengist beint nýtingu flugumferðarréttinda, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 3. lið viðaukans við GATS-samninginn, um flutningaþjónustu í lofti.

68. gr.
Innfelling ákvæða úr GATS-samningnum.

Þegar kveðið er á um það í þessum kafla að ákvæði úr GATS-samningnum skuli fellt inn í þennan kafla og vera hluti af honum skal merking hugtaka í ákvæðum GATS-samningsins vera sú sem hér segir:
    a)    „aðili“: „samningsaðili“, nema „meðal aðila“ sem skal merkja „meðal aðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar“,
    b)    „skrár“: skrárnar sem um getur í 84. gr. og er að finna í VII. viðauka, og
    c)    „sérstakar skuldbindingar“: sérstakar skuldbindingar í skránum sem um getur í 84. gr.

69. gr.
Skilgreiningar.

Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     Eftirfarandi skilgreiningar í I. gr. GATS-samningsins eru hér með felldar inn í samning þennan og eru hluti hans:
    a)     „þjónustuviðskipti“,
    b)     „þjónusta“,
    c)     „ráðstafanir samningsaðilanna“, og
    d)     „þjónusta sem stjórnvöld veita“.
2.     „Þjónustuveitandi“: hver sá aðili sem veitir þjónustu. 1
3.     „Einstaklingur frá samningsaðila“: einstaklingur sem er ríkisborgari eða hefur fasta búsetu í landi samningsaðila samkvæmt viðkomandi landslögum. 2
4.     Eftirfarandi skilgreiningar í XXVIII. gr. GATS-samningsins eru hér með felldar inn í samning þennan og eru hluti af honum:
    a)     „ráðstöfun“,
    b)     „veiting þjónustu“,
    c)     „ráðstafanir samningsaðila sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti“,
    d)     „viðskiptanærvera“,
    e)     „svið“ þjónustu,
    f)     „þjónusta annars samningsaðila“,
    g)     „einstaklingur eða lögaðili sem hefur fengið einokunaraðstöðu til að veita þjónustu“,
    h)     „þjónustuneytandi“,
    i)         „aðili“,
    j)         „lögaðili“,
    k)     „lögaðili hins samningsaðilans“,
    l)     „í eigu“, „undir stjórn“ og „tengd“, og
    m)    „beinir skattar“.

70. gr.
Markaðsaðgangur.

Ákvæði XVI. gr. GATS-samningsins gilda um skuldbindingar um markaðsaðgang og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum.

71. gr.
Innlend meðferð.

Ákvæði XVII. gr. GATS-samningsins gilda um skuldbindingar um innlenda meðferð og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum.

72. gr.
Viðbótarskuldbindingar.

Ákvæði XVIII. gr. GATS-samningsins gilda um viðbótarskuldbindingar og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum.

73. gr.
Innlendar reglur.

Ákvæði VI. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar innlendar reglur, og eru þau hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum.

74. gr.
Viðurkenning.

1.     Ef samningsaðili viðurkennir, með samningi eða fyrirkomulagi, menntun, fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða veitingu leyfis eða skírteinis, sem eru veitt á yfirráðasvæði aðila sem á ekki hlut að samningnum, skal sá samningsaðili veita hinum samningsaðilanum fullnægjandi tækifæri til að semja um aðild að slíkum fyrirliggjandi eða síðari samningi eða fyrirkomulagi, eða semja við hann um sambærilega samninga eða fyrirkomulag. Ef samningsaðili viðurkennir einhliða, skal hann veita hinum samningsaðilanum næg tækifæri til að sýna fram á að viðurkenna beri einnig menntun eða fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða leyfi eða skírteini sem eru veitt á yfirráðasvæði hins samningsaðilans.
2.     Allir slíkir samningar eða fyrirkomulag eða eigin viðurkenning skal vera í samræmi við viðeigandi ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þá einkum VII. gr. GATS- samningsins.

75. gr.
För einstaklinga.

VIII. viðauki um för einstaklinga sem veita þjónustu er hluti af samningi þessum.

76. gr.
Einokun og þjónustuveitendur með einkarétt.

Ákvæði 1., 2. og 5. mgr. VIII. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar einokun og þjónustuveitendur með einkarétt, og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum.

77. gr.
Viðskiptahættir.

Ákvæði IX. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar viðskiptahætti, og eru þau hér með felld inn í samning þennan og eru hluti af honum.

78. gr.
Verndarráðstafanir.

Samningsaðilarnir veita athygli marghliða viðræðum samkvæmt X gr. GATS-samningsins um verndarráðstafanir í neyðartilvikum sem byggjast á meginreglunni um bann við mismunun. Þegar slíkum marghliða viðræðum lýkur skulu samningsaðilarnir láta endurskoðun fara fram í þeim tilgangi að ræða viðeigandi breytingar á samningi þessum, til þess að fella niðurstöður slíkra marghliða viðræðna inn í samning þennan.

79. gr.
Fjármálaþjónusta.

Viðaukinn um fjármálaþjónustu í GATS-samningnum er hér með felldur inn í samning þennan og er hluti af honum.

80. gr.
Greiðslur og yfirfærslur.

1.     Að frátöldum þeim tilvikum sem tilgreind eru í 81. gr. skal aðili ekki setja takmarkanir á alþjóðlegar yfirfærslur og greiðslur í yfirstandandi viðskiptum er varða sérstakar skuldbindingar hans.
2.     Ekkert í samningi þessum skal hafa áhrif á réttindi og skyldur samningsaðila sem á aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samkvæmt samningsákvæðum sjóðsins, þ.m.t. ráðstafanir í gjaldeyrismálum sem eru í samræmi við ákvæði hans, að því tilskildu að samningsaðili setji engar takmarkanir á fjármagnsviðskipti, sem ekki samrýmast sérstökum skuldbindingum hans að því er varðar slík viðskipti, nema skv. 81. gr. eða að beiðni sjóðsins.

81. gr.
Takmarkanir til að tryggja greiðslujöfnuð.

Ákvæði 1. og 3. mgr. XII. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar takmarkanir til að tryggja greiðslujöfnuð, og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

82. gr.
Undanþágur.

Ákvæði XIV. gr. og 1. mgr. XIV. gr. a í GATS-samningnum gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar almennar undantekningar og undantekningar af öryggisástæðum, og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

83. gr.
Styrkir.

1.     Samningsaðilarnir skulu endurskoða verklagsreglur um styrki sem tengjast þjónustuviðskiptum með hliðsjón af þeim verklagsreglum sem kveðið er á um í XV. gr. GATS-samningsins með það fyrir augum að fella þær inn í samning þennan.
2.     Að beiðni samningsaðila, sem telur sig verða fyrir skaðlegum áhrifum af styrk sem hinn samningsaðilinn veitir, skulu samningsaðilarnir eiga með sér samráð um slík mál með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu.

84. gr.
Skrár um sérstakar skuldbindingar.

1.     Sérhver samningsaðili skal færa í skrá þær sérstöku skuldbindingar sem hann tekur á sig samkvæmt 70., 71. og 72. gr. Að því er varðar svið þar sem gengist hefur verið undir skuldbindingar, skal í hvorri skrá fyrir sig tilgreina:
    a)     sviðin þar sem gengist hefur verið undir slíkar skuldbindingar,
    b)     skilmála, takmarkanir og skilyrði fyrir markaðsaðgangi,
    c)     skilyrði og forsendur fyrir innlendri meðferð,
    d)     samþykkt varðandi viðbótarskuldbindingar, og
    e)     tímamörk fyrir framkvæmd slíkra skuldbindinga, ef við á.
2.     Ráðstafanir, sem eru ósamrýmanlegar bæði 70. og 71. gr., skulu skráðar í báða dálkana sem eiga við 70. gr. Þá merkir skráningin einnig skilyrði eða forsendu sem á við 71. gr.
3. Skrár samningsaðilanna um sérstakar skuldbindingar í VII. viðauka eru óaðskiljanlegur hluti samnings þessa.

85. gr.
Breytingar á skrám.

1.     Samningsaðili getur breytt eða afturkallað skuldbindingar í skrá sinni, hvenær sem er eftir að liðin eru þrjú ár frá gildistökudegi skuldbindingarinnar, að því tilskildu að:
    a)    hann tilkynni hinum samningsaðilanum um áform sín um að breyta eða afturkalla skuldbindingu eigi síðar en þremur mánuðum fyrir þann dag sem fyrirhugað er að breytingin komi til framkvæmda,
    b)    að hann hefji viðræður við hinn samningsaðilann í því skyni að komast að samkomulagi um nauðsynlegar bætur.
2.     Þegar slíkar bætur eru fengnar skulu samningsaðilarnir leitast við að haga almennu stigi skuldbindinga á þann veg að þær séu hagstæðar þeim báðum og ekki óhagstæðari fyrir viðskipti en þær sem þegar var kveðið á um í skránum áður en samningaviðræðurnar hófust.
3.     Ef samningsaðilinn sem breytir skuldbindingum sínum kemur fyrirhuguðum breytingum eða afturköllunum í framkvæmd og fer ekki að niðurstöðum gerðardómsins er hinum samningsaðilanum heimilt að breyta eða afturkalla jafngildan ávinning í samræmi við þessar niðurstöður.

86. gr.
Gagnsæi.

Ákvæði III. gr. GATS-samningsins eru felld inn í samning þennan og skulu vera óaðskiljanlegur hluti hans.

87. gr.
Greint frá trúnaðarupplýsingum.

Ákvæði III. gr. a GATS-samningsins eru felld inn í samning þennan og skulu vera óaðskiljanlegur hluti hans.

88. gr.
Endurskoðun.

1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að endurskoða skrárnar um sérstakar skuldbindingar annað hvert ár með það að markmiði að auka frelsi í þjónustuviðskiptum sín á milli.
2.     Geri samningsaðili samning við land sem ekki er samningsaðili samkvæmt V. gr. eða V. gr. a GATS-samningsins, skal hann að beiðni hins samningsaðilans veita honum tækifæri til að ræða þann möguleika að veita hinum samningsaðilanum meðferð, sem eigi er lakari meðferð en sú sem það veitir í tengslum við eins þjónustu og þjónustuveitendur aðila sem ekki er samningsaðili.

89. gr.
Synjun um ávinning.

Ákvæði XXVII. gr. GATS-samningsins eru felld inn í samning þennan og skulu vera óaðskiljanlegur hluti hans.

8. KAFLI – FJÁRFESTINGAR

90. gr.
Markmið.

Markmið þessa kafla skal vera að aðstoða samningsaðilana við að efla, innan marka þeirra eigin valdsviðs, aðlaðandi og stöðugt, gagnkvæmt fjárfestingaumhverfi.

91. gr.
Upplýsingaskipti.

Samningsaðilarnir skulu stuðla að því að koma á leiðum fyrir full upplýsingaskipti og auðvelda samskipti og upplýsingaskipti fyrir eftirfarandi þætti:
    a)     um fjárfestingarstefnu og lög, auk efnahags-, verslunar- og viðskiptaupplýsinga,
    b)     um könnun á kostum þess að koma á fót kerfi til að efla fjárfestingar, og
    c)    um veitingu upplýsinga innanlands fyrir mögulega fjárfesta og samstarfsaðila í fjárfestingum.

92. gr.
Tvíhliða samningur um fjárfestingar.

Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi samnings aðilanna um að hvetja til fjárfestinga og veita þeim gagnkvæma vernd frá 31. mars 1994 í því skyni að skapa hagstæð skilyrði fyrir fjárfestingar milli samningsaðilanna og þar með þátt samningsins í að skapa fríverslunarsvæðið sem komið er á fót með samningi þessum.

9. KAFLI – SAMVINNA

93. gr.
Almenn markmið.

1.     Samningsaðilarnir skulu hafa með sér nána samvinnu með það fyrir augum m.a. að:
    a)    efla efnahagslega og félagslega þróun,
    b)    örva árangursríka samvirkni sem er til þess fallin að skapa ný tækifæri til viðskipta og fjárfestinga sem efla samkeppnishæfni og nýsköpun, og
    c)    auka og dýpka samstarf samningsaðilanna á sviðum þar sem aðilarnir hafa gagnkvæma hagsmuni.
2.     Samningsaðilarnir árétta mikilvægi allrar samvinnu sem leiðar til að uppfylla markmið samnings þessa.

94. gr.
Efnahagssamvinna.

Til þess að auka og efla viðskipti sín á milli og efnahagstengsl skulu samningsaðilarnir styðja og auðvelda, eins og við á:
    a)    skoðanaskipti um stefnu og upplýsingaskipti og hugmyndir um leiðir til að efla og auka vöru- og þjónustuviðskipti milli samningsaðilanna,
    b)    upplýsingaskipti um mikilvæg efnahags- og viðskiptamálefni og það sem stendur í vegi fyrir því að efla efnahagssamvinnu samningsaðilanna,
    c)    veitingu aðstoðar og aðstöðu fyrir kaupsýslumenn og viðskiptasendinefndir sem heimsækja lönd hvor annars með vitund og stuðningi þar til bærra stofnana,
    d)    þróun þeirra aðferða sem nú eru notaðar til að veita upplýsingar og greina möguleg tækifæri til viðskiptasamvinnu, vöruviðskipta og fjárfestinga, og
    e)    opinberar aðgerðir eða aðgerðir einkageirans á sviðum sem hafa efnahagslega þýðingu.

95. gr.
Rannsóknir, vísindi og tækni.

1.     Samningsaðilarnir skulu, eftir því sem við á, á grundvelli gildandi samninga um samstarf á sviði rannsókna, vísinda og tækni, hvetja opinberar stofnanir, rannsóknarstofnanir, háskóla, einkafyrirtæki og önnur vísindasamtök í löndum sínum til að gera beinar ráðstafanir til stuðnings samstarfsaðgerðum, áætlunum og verkefnum innan ramma þessa samnings, einkum er varða verslun og viðskipti.
2.     Samvinna á sviði rannsókna, vísinda og tækni skal einkum beinast að eftirfarandi sviðum:
    a)    jarðskjálftafræði, eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðskjálftaverkfræði og gagnráðstöfunum til að draga úr hættu af skjálftum,
    b)    haf- og heimskautafræði, eins og kveðið er á um í viljayfirlýsingu um samvinnu milli samningsaðilanna á sviði haffræði, heimskautafræði og tækni, sem var undirrituð 20. apríl 2012,
    c)    jarðhita og jarðvísindum, eins og kveðið er á um í viljayfirlýsingu milli samningsaðilanna um jarðhita- og jarðvísindasamstarf, sem var undirrituð 20. apríl 2012, og
    d)    menntun og rannsóknum á sviði heilbrigðismála.
3.     Samningsaðilarnir munu stuðla að og auðvelda, eftir því sem við á, eftirfarandi starfsemi, þar með talið en ekki einvörðungu:
    a)    að greina leiðir, í samráði við háskóla og rannsóknarmiðstöðvar, til að efla sameiginlegt framhaldsnám á háskólastigi og rannsóknaheimsóknir,
    b)    skipti á vísindamönnum, rannsakendum og sérfræðingum um tækni, og
    c)    skipti á upplýsingum og gögnum.

96. gr.
Samvinna á sviði vinnu- og umhverfismála.

1.     Samningsaðilar skulu bæta samskipti og samvinnu á sviði vinnumála.
2.     Samningsaðilar munu bæta samskipti og samvinnu enn frekar í samræmi við viljayfirlýsingu um samvinnu í umhverfisvernd milli umhverfisverndarstofnunar Alþýðulýðveldisins Kína og umhverfisráðuneytis Íslands.

97. gr.
Þróunarsamvinna.

1.     Samningsaðilar staðfesta markmið sitt um samvinnu við að efla efnahagslega og félagslega þróun Kína.
2.     Samvinna sem um getur í 1. mgr. getur t.d. verið aðbúnaður, tækniaðstoð og möguleikar á þjálfun sem Ísland veitir Kína.
3.     Samningsaðilarnir skulu á vettvangi sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar sem komið er á fót skv. 10. kafla ræða mögulegar ráðstafanir til þess að ná markmiðinu sem sett er fram í 1. mgr. með því að skilgreina forgangsverkefni í þróunarsamvinnu og íhuga að ganga frá rammasamningi um fyrirkomulag og málsmeðferð við samvinnu í framtíðinni.

98. gr.
Menntun.

1.     Samningsaðilarnir skulu stuðla að og auðvelda eftir því sem við á skipti milli skóla og annarra stofnana á sviði menntunar á öllum stigum.
2.     Samvinna á sviði menntunar getur beinst að:
    a)    upplýsingaskiptum, kennslugögnum og kynningarefni,
    b)    gerð og framkvæmd sameiginlegra áætlana og gagnkvæmri samræmingu markvissrar starfsemi á sviðum sem samkomulag hefur náðst um,
    c)    þróun samstarfs á sviði þjálfunar, sameiginlegum rannsóknum og þróun innan grunn- og framhaldsnáms á háskólastigi,
    d)    skiptum á kennurum, stjórnendum, rannsakendum og nemendum í tengslum við áætlanir sem munu koma báðum aðilum til góða, og
    e)    að því að öðlast skilning á menntakerfi hvors samningsaðila, lögum og stefnu á sviði menntunar, þ.m.t. upplýsingar sem varða túlkun og mat á menntun og hæfi.

99. gr.
Opinber innkaup.

1.     Samningsaðilarnir eru sammála um mikilvægi samvinnu í því skyni að auka gagnkvæman skilning á lögum og reglum hvors um sig er lúta að opinberum innkaupum.
2.     Samningsaðilarnir skulu birta lög sín eða með öðrum hætti gera lög sín, reglur og stjórnsýsluákvarðanir sem hafa almennt gildi aðgengilegar öllum.
3.     Svo fljótt sem auðið er eftir að Kína leiðir til lykta með tilætluðum árangri viðræður sínar um aðild að fjölhliða samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, skulu samningsaðilarnir hafa samráð um hugsanlegar ráðstafanir í því skyni að gera samning um opinber innkaup sín á milli.
4.     Samvinna á svið opinberra innkaupa er undanþegin 100. gr.

100. gr.
Samstarfsfyrirkomulag.

1.     Samningsaðilarnir munu koma á innlendum tengilið til að auðvelda samskipti vegna hugsanlegra samstarfsverkefna. Innlendi tengiliðurinn mun starfa með opinberum stofnunum, fulltrúum einkafyrirtækja og mennta- og rannsóknarstofnunum við framkvæmd þessa kafla.
2.     Að því er varðar þennan kafla skal sameiginlega fríverslunarnefndin sem komið er á fót skv. 10. kafla gegna eftirfarandi hlutverkum sem samningsaðilarnir hafa komið sér saman um:
    a)    hafa umsjón með framkvæmd samstarfsrammans,
    b)    hvetja samningsaðilana til þess að framkvæma samstarfsverkefni innan samstarfsrammans, og
    c)    beina tilmælum um samstarfsverkefni samkvæmt þessum kafla í samræmi við markvissa forgangsröðun samningsaðilanna.

101. gr.
Lausn deilumála.

Hvorugur samningsaðila skal nýta sér 11. kafla að því er varðar hvers kyns mál sem kunna að rísa vegna eða í tengslum við þennan kafla.

10. KAFLI – STOFNANAÁKVÆÐI

102. gr.
Stofnun sameiginlegu kínversk-íslensku fríverslunarnefndarinnar.

Samningsaðilarnir koma hér með á fót sameiginlegri kínversk-íslenskri fríverslunarnefnd (sameiginlega fríverslunarnefndin) sem skal skipuð fulltrúum samningsaðila sem hér segir:
    a)     úr viðskiptaráðuneytinu, af hálfu Kína, og
    b)     úr utanríkisráðuneytinu, af hálfu Íslands.

103. gr.
Umboð sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar.

1.     Sameiginlega fríverslunarnefndin skal:
    a)    hafa yfirumsjón með og endurskoða framkvæmd samnings þessa og túlka hann, eftir því sem við á,
    b)    leitast við að koma í veg fyrir og leysa öll deilumál sem upp kunna að koma í tengslum við túlkun eða beitingu samnings þessa,
    c)    hafa yfirumsjón með starfi allra vinnuhópa sem komið er á fót samkvæmt samningi þessum,
    d)    taka til umfjöllunar hvert það málefni sem kann að hafa áhrif á framkvæmd samnings þessa, og
    e)    koma á fót vinnuhópum ef þörf er á og samkvæmt samkomulagi milli samningsaðilanna.
2.     Sameiginlega fríverslunarnefndin getur samið um breytingar á samningi þessum og viðaukum hans. Samþykki samningsaðila fyrir öllum breytingum er með fyrirvara um að lokið hafi verið við nauðsynlega málsmeðferð sem áskilin er samkvæmt lögum af hálfu þess samningsaðila.
3.     Sameiginlega fríverslunarnefndin skal setja sér reglur og reglur um málsmeðferð.
4.     Allar ákvarðanir sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar skulu teknar með einróma samþykki.

104. gr.
Fundir sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar.

1.     Sameiginlega fríverslunarnefndin skal koma saman á fyrsta fundi innan árs frá gildistöku samnings þessa og skal efnt til næstu funda með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en annað hvert ár, eða á annan hátt með gagnkvæmu samþykki beggja samningsaðila.
2.     Komi upp sérstakar aðstæður og samningsaðili fer fram á það skulu samningsaðilarnir koma saman hvenær sem er að fengnu samþykki beggja samningsaðila.
3.     Samningsaðilarnir skulu stýra fundum sameiginlegu fríverslunarnefndarinnar í sameiningu.

11. KAFLI LAUSN – DEILUMÁLA

105. gr.
Samvinna.

Samningsaðilarnir skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um beitingu samnings þessa og gera sitt ítrasta, með samvinnu og samráði, til að finna lausn sem allir aðilar geta sætt sig við í hverju því máli sem getur haft áhrif á framkvæmd hans, ef deilumál kemur upp.

106. gr.
Gildissvið.

Telji samningsaðili að hinn samningsaðilinn hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt samningnum gilda ákvæði þessa kafla um lausn deilumála, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

107. gr.
Val á vettvangi.

1.     Komi upp deila á grundvelli samnings þessa eða annarra samninga, þ.m.t. annar fríverslunarsamningur sem báðir samningsaðilar eru aðilar að, eða samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, getur samningsaðili sem bar fram kvörtun valið vettvang til þess að leysa deiluna.
2.     Hafi samningsaðili sem bar fram kvörtun óskað eftir gerðardómi samkvæmt öðrum samningum sem um getur í 1. mgr. skal vettvangur sá sem valinn er útiloka beitingu ákvæða um lausn deilumála samkvæmt samningi þessum.

108. gr.
Samráð.

1.     Samningsaðilarnir skulu gera sitt ítrasta til að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við í hverju deilumáli með samráði, samkvæmt þessari grein eða öðrum ákvæðum um samráð í samningi þessum.
2.     Beiðni um viðræður skal lögð fram skriflega og skal skýra frá ástæðum fyrir beiðninni og meðal annars tilgreina þær ráðstafanir sem um ræðir og þann lagagrundvöll sem kvörtunin er byggð á. Samningsaðilinn sem ber kvörtun fram skal skila beiðninni til hins aðilans.
3.     Ef beiðni um viðræður er lögð fram skal sá samningsaðili sem kvörtun beinist gegn svara innan 10 daga frá því að beiðni um viðræður barst og hefja viðræður í góðri trú innan frests, sem ekki má vera lengri en 30 dagar frá því að viðræðubeiðnin barst, með það að markmiði að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Ef samningsaðili sem kvörtun beinist gegn hefur ekki svarað innan þess 10 daga frests, sem fyrr er getið, eða hefur ekki viðræður innan fyrrnefndra 30 daga, er samningsaðila sem bar fram kvörtun heimilt að halda áfram og óska eftir því að skipaður verði gerðardómur.
4.     Viðræðurnar skulu fara fram í trúnaði og hafa þær engin áhrif á rétt samningsaðila við frekari málsmeðferð.

109. gr.
Skipun gerðardóms.

1.     Ef ekki tekst að leysa málið með viðræðum, sem um getur í 108. gr., innan 60 daga frá því beiðni um viðræður barst er samningsaðilanum sem bar fram kvörtun heimilt að óska eftir því skriflega að skipaður verði gerðardómur til þess að fjalla um málið.
2.     Samningsaðilinn sem bar fram kvörtun skal tilgreina í beiðninni þær ráðstafanir sem kvörtunin er út af, sem og þau ákvæði samnings þessa sem hann telur máli skipta og skila beiðninni til hins samningsaðilans. Gerðardómur skal skipaður þegar slík beiðni berst.

110. gr.
Skipan gerðardóms.

1.     Gerðardómur skal skipaður þremur gerðarmönnum.
2.     Samningsaðilarnir skulu, innan 15 daga frá þeim degi er gerðardómur er skipaður, tilnefna einn gerðarmann hvor.
3.     Samningsaðilarnir skulu, innan 30 daga frá skipun gerðardómsins, koma sér saman um tilnefningu þriðja gerðardómsmannsins. Gerðardómsmaðurinn sem þannig er tilnefndur skal gegna formennsku í gerðardóminum.
4.     Hafi einhver gerðardómsmanna ekki verið tilnefndur eða skipaður innan 30 daga frá skipun gerðardóms er þess vænst að aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að beiðni annars hvors samningsaðila, tilefni gerðardómsmann innan 30 daga til viðbótar.
5.     Formaður gerðardóms skal ekki vera ríkisborgari annars hvors samningsaðila, eða búsettur að jafnaði á landsvæði annars hvors samningsaðila, eða vera, eða hafa verið starfsmaður annars hvors samningsaðila, eða gegnt hlutverki í málinu með öðrum hætti.
6.     Allir gerðardómsmenn skulu:
    a)    hafa sérþekkingu eða reynslu á sviði lögfræði, alþjóðaviðskipta, annarra málefna sem samningur þessi tekur til, eða lausnar deilumála sem rísa samkvæmt alþjóðlegum viðskiptasamningum,
    b)    einungis valdir á grundvelli hlutlægni, áreiðanleika og góðrar dómgreindar,
    c)    vera óháðir og ekki hafa tengsl við eða taka við fyrirmælum frá samningsaðilunum, og
    d)    og framfylgja hátternisreglum í samræmi við reglur sem settar eru af Alþjóðaviðskiptastofnuninni með skjali WT/DSB/RC/1.
7.     Ef gerðardómsmaður sem skipaður er samkvæmt þessari grein hættir, eða honum reynist ekki unnt að gegna hlutverki sínu, skal annar gerðardómsmaður skipaður í hans stað innan 15 daga í samræmi við þá valaðferð sem lýst er vegna tilnefningar hins upphaflega gerðardómsmanns. Eftirmaðurinn skal hafa sama vald og sömu og skyldur og upphaflegi gerðardómsmaðurinn. Störfum gerðardómsins skal frestað á meðan skipun nýs gerðardómsmanns stendur yfir.

111. gr.
Störf gerðardóms.

1.     Hlutverk gerðardóms er að leggja hlutlægt mat á það deilumál sem hann hefur til umfjöllunar, meðal annars með skoðun á staðreyndum málsins og hvort þær séu í samræmi við ákvæði samningsins og hvort ákvarðanir hans eigi við.
2.     Álykti gerðardómur að ráðstöfun brjóti í bága við samning þennan skal hún gefa út tilmæli þess efnis að gagnaðilinn skuli færa ráðstöfunina til samræmis við samninginn.
3.     Gerðardómurinn getur í niðurstöðum sínum og tilmælum hvorki aukið né dregið úr réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samningi þessum.
4.     Gerðardómurinn skal úrskurða á grundvelli ákvæða samnings þessa, sem skulu túlkuð í samræmi við hefðbundnar reglur um túlkun þjóðaréttar.

112. gr.
Starfsreglur gerðardóms.

1.     Málsmeðferð í gerðardómi skal fara fram í samræmi við þennan kafla og starfsreglur gerðardóms sem settar eru fram í IX. viðauka, nema samningsaðilarnir komi sér saman um annað.
2.     Að því er varðar málsmeðferð í gerðardómi skal meðferð málsins tryggja að:
    a)    samningsaðilarnir eigi rétt á munnlegum málflutningi fyrir gerðardómi að minnsta kosti einu sinni og fái jafnframt tækifæri til að leggja fram skrifleg gögn og gagnrök,
    b)    samningsaðilarnir séu boðaðir í hvert sinn sem munnlegur málflutningur fer fram fyrir gerðardómi,
    c)    samningsaðilarnir hafi aðgang að öllum gögnum og athugasemdum sem eru lögð fyrir gerðardóm með fyrirvara um kröfur um þagnarskyldu, og
    d)    málflutningur, umræður og öll skrifleg gögn sem eru lögð fyrir gerðardóm og samskipti við hann séu bundin trúnaði.
3.     Starfsskilmálar gerðardóms eru sem hér segir, nema samningsaðilarnir komi sér saman um annað innan 20 daga frá dagsetningu beiðni um skipun gerðardóms:
    „Að rannsaka, í ljósi viðeigandi ákvæða samnings þessa, það mál sem um getur í beiðninni um skipun gerðardóms samkvæmt 109. gr. og komast að rökstuddri niðurstöðu, á grundvelli laga og staðreynda, og gefa út tilmæli, ef við á, um lausn deilunnar.“
4.     Ákvarðanir gerðardóms skulu teknar með einróma samþykki. Náist ekki einróma samþykki innan gerðardóms getur hann tekið ákvörðun með meirihluta atkvæða. Gerðardómsmönnum er heimilt að skila séráliti um málefni sem ekki náðist einróma samþykki um. Álit einstakra gerðardómsmanna skal birt nafnlaust í skýrslu gerðardóms.
5.     Gerðardómi er heimilt, að beiðni annars hvors samningsaðila eða að eigin frumkvæði, að leita til sérfræðinga um vísindalegar upplýsingar og tæknilega ráðgjöf eftir því sem hann telur við eiga.
6.     Samningsaðilarnir skulu skipta jafnt með sér kostnaði vegna þóknunar gerðardómsmanna og öðrum kostnaði vegna gerðardóms.

113. gr.     
Afturköllun kvörtunar.

Samningsaðila sem ber fram kvörtun er hvenær sem er heimilt að draga kvörtun sína til baka áður en frumskýrsla er gefin út. Slík afturköllun hefur þó ekki áhrif á rétt hans til að leggja síðar fram nýja kvörtun vegna sama efnis.

114. gr.     
Málsmeðferð frestað eða hætt.

1.     Samningsaðilarnir geta hvenær sem er komið sér saman um að gerðardómur geri hlé á störfum sínum, þó ekki lengur en í 12 mánuði frá þeim degi er slíkt samkomulag er gert. Hafi hlé á störfum gerðardóms varað lengur en í 12 mánuði fellur heimildin um skipun nefndarinnar úr gildi nema samningsaðilarnir verði ásáttir um annað.
2.     Samningsaðilunum er heimilt að gera samkomulag um að málsmeðferð gerðardóms verði hætt.

115. gr.
Frumskýrsla.

1.     Gerðardómur skal afhenda samningsaðilunum frumskýrslu innan 90 daga frá þeim degi er hann var skipaður.
2.     Gerðardómur skal byggja skýrslu sína á viðeigandi ákvæðum samnings þessa og málsgögnum og röksemdum samningsaðilanna.
3.     Hvorum samningsaðila er heimilt að leggja fyrir gerðardóm skriflegar athugasemdir um frumskýrsluna innan 14 daga frá framlagningu hennar.
4.     Í slíku tilviki og eftir umfjöllun um skriflegu athugasemdirnar er gerðardóminum heimilt, að eigin frumkvæði eða beiðni samningsaðila, að:
    a)     leita eftir áliti hvors samningsaðila sem er,
    b)     endurskoða skýrslu sína og/eða
    c)     láta fara fram hvers kyns frekari athugun, ef hann telur slíkt nauðsynlegt.

116. gr.
Lokaskýrsla.

1.     Gerðardómurinn skal afhenda samningsaðilunum lokaskýrslu, þar sem fjallað er um þau málefni sem um getur í 2. mgr. 115. gr., þ.m.t. sérálit um málefni sem voru ekki afgreidd með einróma samþykki, innan 45 daga frá framlagningu frumskýrslunnar.
2.     Lokaskýrslan skal birt 15 dögum eftir að hún er afhent samningsaðilunum, nema þeir ákveði annað.

117. gr.     
Framfylgd skýrslu gerðardóms.

1.     Komist gerðardómur að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að samningsaðili hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum skal lausn deilumálsins miða að því að uppræta ósamræmi við samningsskyldur þegar þess er kostur.
2.     Náist ekki samkomulag um bætur eða aðra lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við skulu samningsaðilarnir koma í framkvæmd þeim tilmælum sem er að finna í skýrslu gerðardómsins.
3.     Samningsaðilarnir skulu hrinda í framkvæmd tilmælum þeim sem er að finna í skýrslu gerðardómsins innan hæfilegs frests, ef ekki reynist unnt að fara að þeim strax.

118. gr.
Hæfilegur frestur.

1.     Hæfilegur frestur sem um getur í 3. mgr. 117. gr. skal ákvarðaður af báðum samningsaðilum. Komist samningsaðilarnir ekki að samkomulagi um hæfilegan frest innan 45 daga frá því að skýrsla gerðardómsins kom út, getur hvor samningsaðili vísað málinu til hins upprunalega gerðardóms, sem ákvarðar hæfilegan frest að loknum viðræðum við samningsaðilana.
2.     Gerðardómurinn skal skila ákvörðun um hæfilegan frest til samningsaðilanna innan 60 daga frá því að málinu var vísað til gerðardómsins. Telji gerðardómurinn að hann geti ekki tekið ákvörðun innan þessa frests skal hann greina samningsaðilunum skriflega frá ástæðum fyrir töfinni og áætla innan hvaða tímamarka hann muni leggja ákvörðun sína fram. Töf skal ekki vara lengur en 30 daga til viðbótar nema samningsaðilarnir semji um annað.

119. gr.
Endurskoðun á samræmi framkvæmdarráðstafana.

1.     Ef uppi er ágreiningur um hvort fyrir hendi séu ráðstafanir gerðar innan hæfilegs frests til samræmis við tilmæli gerðardóms, eða hvort þær séu í samræmi við samning þennan, skal slíku deilumáli vísað til málsmeðferðar í gerðardómi, eftir því sem verður við komið með því að leita til upphaflega gerðardómsins.
2.     Gerðardómurinn skal skila skýrslu sinni til samningsaðilanna innan 60 daga frá því að málinu var vísað til gerðardómsins.

120. gr.
Frestun ívilnana og skuldbindinga.

1.     Ef gerðardómur kemst að þeirri niðurstöðu að samningsaðili sem kvörtun beinist gegn láti hjá líða að færa ráðstöfun sem úrskurðuð hefur verið ósamrýmanleg samningi þessum til samræmis við tilmæli gerðardómsins innan hæfilegs frests, eða samningsaðili sem kvörtun beinist gegn lætur í ljós skriflega að hann muni ekki hrinda tilmælunum í framkvæmd, og samningsaðilarnir komast ekki að samkomulagi um bætur, er samningsaðilanum sem bar fram kvörtun heimilt að fresta ívilnunum eða öðrum skuldbindingum með samsvarandi áhrifum á gagnaðilann.
2.     Við mat á því hvaða ívilnunum og skuldbindingum skuli frestað skv. 1. mgr.:
    a)    ber honum fyrst að leita eftir frestun ívilnana eða skuldbindinga á sama sviði eða sviðum og þeim sem gerðardómur hefur ákvarðað að séu ósamrýmanleg þeim skyldum sem leiða af samningi þessum, og
    b)    ef samningsaðili sem bar fram kvörtun telur að ekki sé gerlegt eða vænlegt til árangurs að fresta ívilnunum eða skuldbindingum á sama sviði eða sviðum getur hann farið fram á frestun ívilnana eða skuldbindinga á öðrum sviðum. Í tilkynningu um slíka ákvörðun af hálfu samningsaðila sem bar fram kvörtun skal hann upplýsa um ástæðurnar sem liggja að baki ákvörðuninni.
3.     Samningsaðilanum sem bar fram kvörtun ber að tilkynna gagnaðilanum um frestun ívilnana og skuldbindinga með 30 daga fyrirvara.
4.     Upphaflegur gerðardómur skal að fenginni skriflegri beiðni viðkomandi samningsaðila ákvarða hvort umfang ívilnana og skuldbindinga, sem samningsaðili sem bar fram kvörtun hyggst fresta, sé of mikið skv. 2. mgr. Ef ekki reynist unnt að skipa gerðardóm með upphaflegum gerðardómsmönnum skal beita málsmeðferðinni sem kveðið er á um í 110. gr.
5.     Gerðardómurinn skal leggja fram ákvörðun sína innan 60 daga frá því að beiðnin var gerð skv. 4. mgr. eða, ef ekki reynist unnt að skipa gerðardóm með upphaflegum gerðardómendum, frá þeim degi þegar síðasti gerðardómandinn var valinn. Úrskurður gerðardómsins skal vera endanlegur. Hann skal afhentur samningsaðilunum og gerður opinber, nema samningsaðilarnir ákveði annað.
6.     Samningsaðili sem bar fram kvörtun skal ekki fresta ívilnunum og skuldbindingum fyrr en skilyrði 1. mgr. hafa verið uppfyllt.
7.     Frestun ávinnings skal vera tímabundin ráðstöfun sem samningsaðili sem bar fram kvörtun beitir einungis þar til ráðstöfunin, sem brýtur í bága við samning þennan, hefur verið færð til samræmis við samninginn, eða samningsaðilar hafa komist að samkomulagi um lausn deilumálsins.

121. gr.
Að frestun lokinni.

1.     Telji gagnaðilinn, með fyrirvara um málsmeðferðina í 120. gr., að hann hafi upprætt þær vanefndir samningsins sem gerðardómurinn taldi vera fyrir hendi, er honum heimilt að senda samningsaðila sem bar fram kvörtun skriflega tilkynningu með lýsingu á því með hvaða hætti vanefnd samnings hafi verið upprætt. Sé samningsaðilinn sem bar fram kvörtun ekki á sama máli er honum heimilt að vísa málinu til hins upphaflega gerðardóms innan 60 daga frá því að slíkri tilkynningu var veitt viðtaka. Að öðrum kosti skal samningsaðilinn sem bar fram kvörtun þegar í stað hætta frestun á ívilnunum og skyldum.
2.     Gerðardómurinn skal birta skýrslu innan 60 daga frá því að málinu var vísað til hans. Sé það niðurstaða gerðardómsins að gagnaðilinn hafi upprætt orsök vanefndar samnings skal samningsaðilinn sem bar fram kvörtun þegar í stað hætta frestun á ívilnunum og skuldbindingum.

122. gr.
Einkaréttur.

Hvorugum samningsaðila er heimilt að kveða á í löggjöf sinni um heimildir til þess að leita réttar síns á grundvelli þess að ráðstöfun hins samningsaðilans sé í ósamræmi við samning þennan.

12. KAFLI – LOKAÁKVÆÐI

123. gr.
Gagnsæi.

1.     Hvor samningsaðili skal tryggja að lög hans, reglur og stjórnsýsluákvarðanir, sem hafa almennt gildi að því er varðar atriði sem falla undir samning þennan, eða kunna að hafa áhrif á framkvæmd samnings þessa, skulu birtar þegar í stað eða gerðar aðgengilegar á annan hátt.
2.     Samningsaðili skal, fari hinn samningsaðilinn fram á það og að því marki sem unnt er, veita upplýsingar og svara tilteknum spurningum um málefni sem um getur í 1. mgr.
3.     Litið er svo á að upplýsingarnar, sem um getur samkvæmt þessari grein, hafi verið veittar þegar Alþjóðaviðskiptastofnuninni hefur verið tilkynnt um þær, eða þegar þær hafa verið birtar á opinberri gjaldfrjálsri vefsíðu hlutaðeigandi samningsaðila.

124. gr.
Trúnaðarupplýsingar.

Ekkert í samningi þessum skal leggja þær skyldur á herðar samningsaðila að hann láti af hendi trúnaðarupplýsingar, ef slíkt hindraði framkvæmd laga eða bryti á annan hátt í bága við hagsmuni almennings, eða skaðaði lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, í eigu hins opinbera eða einkaeign.

125. gr.
Viðaukar.

Viðaukar við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans.

126. gr.
Breytingar.

1.     Samningsaðilum er heimilt að koma sér saman um breytingar á samningi þessum. Hvor samningsaðili skal tilkynna hinum samningsaðilanum skriflega þegar lokið er við nauðsynlega lagalega málsmeðferð um gildistöku samnings þessa. Slíkar breytingar skulu öðlast gildi 60 dögum eftir daginn sem síðari tilkynningin er lögð fram, eða innan annars tímafrests sem samningsaðilarnir kunna að koma sér saman um.
2.     Þegar breyting hefur verið samþykkt og öðlast gildi skv. 1. mgr. telst hún óaðskiljanlegur hluti samnings þessa.

127. gr.
Breyting á Marakess-samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Sé einhverju ákvæði sem samningsaðilarnir hafa fellt inn í samning þennan breytt, skulu samningsaðilarnir, að beiðni annars hvors samningsaðilans, efna til viðræðna um hvort breyta skuli samningi þessum til samræmis við það.

128. gr.
Gildistaka og uppsögn.

1.     Hvor samningsaðili skal tilkynna hinum samningsaðilanum skriflega þegar lokið er við nauðsynlega lagalega málsmeðferð um gildistöku samnings þessa. Samningur þessi skal öðlast gildi 60 dögum eftir daginn sem síðari tilkynningin er lögð fram, eða innan annars tímafrests sem samningsaðilarnir kunna að koma sér saman um.
2.     Báðum samningsaðilum er heimilt að segja samningi þessum upp með skriflegri tilkynningu til hins samningsaðilans. Samningur þessi fellur úr gildi 180 dögum eftir þann dag er slíkri tilkynningu er veitt viðtaka.

129. gr.
Gildir textar.

Samningur þessi er gerður í tvíriti á íslensku, kínversku og ensku. Allir þrír textar samnings þessa eru jafngildir. Ef ágreiningur rís um túlkun skal enski textinn ráða.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.

Gjört í Beijing, 15. apríl 2013.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands Fyrir hönd ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína
………………………………. ………………………………..
ÖSSUR SKARPHÉÐINSSON utanríkisráðherra GAO HUCHENG viðskiptaráðherra



Fylgiskjal II.


Yfirlit um uppbyggingu fríverslunarsamnings Íslands og Kína


    Að meginstofni til er samningurinn byggður upp að fyrirmynd og með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur þegar gert með öðrum aðildarríkjum EFTA.
    Samningurinn skiptist í eftirfarandi kafla.

Formálsorð
    Í formálsorðum eru ýmsar almennar yfirlýsingar meðal annars um samskipti ríkjanna og að fríverslunarsamningur geti verið mikilvægur liður í að styrkja viðskiptatengsl. Markmiðið sé að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjör. Byggt sé á réttindum og skyldum sem ríkin hafa innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Þar er jafnframt tekið fram að efnahagsleg og félagsleg þróun, og umhverfisvernd, séu samofnir þættir sjálfbærrar þróunar sem styðja hver annan, og að nánari efnahagsleg samvinna geti stuðlað að sjálfbærri þróun.

1. kafli – Almenn ákvæði
    Í kaflanum um almenn ákvæði eru meginmarkmið fríverslunarsamnings útlistuð – að auka viðskipti og eyða viðskiptahindrunum. Vísað er til landfræðilegs gildissviðs samningsins og tengsla hans við aðra alþjóðasamninga. Í því sambandi eru áréttuð réttindi og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fjölmörg réttindi og skyldur sem kveðið er á um fríverslunarsamningnum grundvallast einmitt á samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem Ísland og Kína eiga bæði aðild að.

2. kafli – Vöruviðskipti
    Í kaflanum um vöruviðskipti er að finna ákvæði um niðurfellingu innflutningstolla, magntakmarkanir, styrki og jöfnunarráðstafanir og verndunarráðstafanir, undirboð, ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, og tæknilegar reglur. Réttindi og skyldur samningsaðila á þeim sviðum, sem undir þennan kafla heyra, grundvallast oft á þeim reglum sem gilda í samningum sem gerðir hafa verið innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í viðauka I við samninginn eru skuldbindingar ríkjanna um niðurfellingu tolla útlistaðar nánar.
    Í II. og III. viðauka koma fram upplýsingar um lögbær stjórnvöld og tengiliði ríkjanna hvað varðar annars vegar ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna og hins vegar tæknilegar viðskiptahindranir. Ákvæði samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á þessum sviðum eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna.

3. kafli – Upprunareglur
    Kveðið er á um upprunareglur og upprunasannanir í sérstökum kafla samningsins og í IV. og V. og VI. viðauka. Til að vara geti notið tollfríðinda á grundvelli fríverslunarsamningsins þarf hún að teljast upprunnin á Íslandi eða í Kína. Upprunareglur samningsins kveða á um hvaða skilyrði vara þarf að uppfylla til þess að teljast upprunnin á Íslandi eða Kína. Upprunareglur samningsins fyrir iðnaðarvörur fela í sér víðtæka möguleika til að framleiða upprunavörur úr hráefnum frá öðrum ríkjum. Upprunareglur fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarvörur eru hins vegar strangari og að meginstefnu gerð krafa til þess að varan sé að fullu upprunnin í landi samningsaðila. Þar fyrir utan þarf að vera um að ræða bein viðskipti milli landanna tveggja og vörurnar skulu sendar beinum flutningi (umflutningur mögulegur).

4. kafli – Reglur um tollmeðferð og að greiða fyrir viðskiptum.
    Í flestum fríverslunarsamningum eru ákvæði sem hafa að markmiði að framkvæmd tollyfirvalda sé hagað þannig að greitt sé fyrir viðskiptum milli ríkja. Ekki verði óþarfa tafir við tollafgreiðslu og að hún sé sem einföldust fyrir viðskiptaaðila. Meðal leiða að þessu markmiði eru einfaldaðir ferlar við tollafgreiðslu vöru, skýrar og gagnsæjar upplýsingar, bindandi álit sem veitt er áður en tollafgreiðsla á sér stað, einfölduð stjórnsýsla, skýr kæruréttur viðskiptaaðila og gott samstarf milli tollyfirvalda viðkomandi ríkja.

5. kafli – Samkeppni
    Samningurinn gerir ekki ráð fyrir samræmdri framkvæmd samkeppnisreglna samningsaðila, líkt og gert er í EES-samningnum. Viðurkennt er hins vegar að samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækja kunni að hindra þann ávinning sem annars hlýst af samningnum. Aðilar takast á hendur að beita samkeppnislögum sínum í því skyni að vinna gegn viðskiptaháttum sem hamla samkeppni. Kveðið er á um samvinnu og samstarf milli samkeppnisyfirvalda og að ágreiningsmál sem upp kunna að koma verði leyst með tvíhliða samráði milli ríkjanna.

6. kafli – Hugverkaréttindi
    Markmið hugverkaréttar er að tryggja hagsmuni skapandi greina, svo sem hönnuða, forritara og listamanna, og einnig rétt fyrirtækja sem vinna að nýsköpun og tæknilegri framþróun. Til hugverka teljast til dæmis höfundaréttur, vörumerki sem auðkenna vöru og þjónustu, einkaleyfi og hönnun. Ísland og Kína eiga aðild að fjölmörgum alþjóðlegum samningum á sviði hugverkaréttar, til dæmis samningnum um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS) á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Vernd hugverkaréttinda er eitt af markmiðum fríverslunarsamningsins. Það kemur fram í ákvæði samningsins um markmið hans og þar staðfesta samningsaðilar vilja sinn til að tryggja vernd hugverkaréttinda í samræmi við skuldbindingar samningsaðila samkvæmt alþjóðasamningum á þessu sviði. Í sérstökum kafla samningsins staðfesta samningsaðilar mikilvægi verndar hugverkaréttinda til að efla efnahagslega og félagslega þróun. Þeir staðfesta jafnframt skuldbindingar sínar samkvæmt tilteknum alþjóðasamningum. Einnig er þar að finna ákvæði um mögulegt samstarf og gagnkvæm upplýsingaskipti aðila hvað varðar vernd hugverkaréttinda. Þá er kveðið á um rétt samningsaðila til beinna tvíhliða samskipta í því skyni að leysa hvers kyns vandamál sem upp kunna að koma á sviði hugverkaréttinda. Samningurinn skapar því grundvöll fyrir aukið samstarf við Kína um hugverkavernd.

7. kafli – Þjónustuviðskipti
    Eins og margir aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert á undanförnum árum nær samningurinn við Kína einnig til þjónustuviðskipta.
    Skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum byggja alfarið á tilboði sem Ísland lagði fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 2005. Er það jafnframt í samræmi við það sem Ísland hefur samið um í fríverslunarviðræðum með EFTA-ríkjunum á undanförnum árum. Á sama hátt byggja kínversk stjórnvöld á tilboði sem þau lögðu fram innan WTO.
    Skuldbindingar Ísland í þjónustuviðskiptum í fríverslunarsamningum grundvallast ávallt á íslenskum lögum, þar á meðal lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga.
    Samningurinn tiltekur þær þjónustugreinar sem undir hann falla. Sérstakar skuldbindingar ríkjanna á sviði þjónustuviðskipta eru tilgreindar í viðauka VII við fríverslunarsamninginn. Nokkur svið eru alfarið undanskilin samningnum, svo sem opinber þjónusta, heilbrigðis- og menntunarþjónusta. Í fríverslunarsamningum er aldrei samið um frjálsa för fólks í anda EES- samningsins og Schengen-samstarfsins, og heldur ekki um að það að ræða í þessum samningi.
    Ein af megináherslum Kína í viðræðunum var aukið frelsi varðandi aðgang þjónustuveitenda að íslenskum vinnumarkaði. Niðurstaðan varð sú að Ísland undirgengst engar skuldbindingar í þeim efnum. Gert er ráð fyrir að komi fram ósk um slíkt verði unnt að ræða sérstaklega um stöðu örfárra kínverskra atvinnugreina (nálastungusérfræðingar, kennarar í austurlenskum bardagaíþróttum, tungumálakennarar og leiðsögumenn með sérstakt starfsleyfi) með tilliti til möguleika á að veita þjónustu hér á landi en þó tekið skýrt fram að um það gildi íslenskar lagareglur og alþjóðlegar skuldbindingar. Engar skuldbindingar eru í samningnum um að veita þessum þjónustuveitendum aðgang að íslenskum vinnumarkaði. Sjá nánar viðauka VIII.

8. kafli – Fjárfestingar
    Í fríverslunarviðræðunum við Kína var ekki samið um fjárfestingar. Einungis er gert ráð fyrir að fjárfestingasamningur ríkjanna frá 1994 muni halda sér en hann kveður á um gagnkvæma vernd fjárfestinga sem til er stofnað og vísað er til þess samnings í sérstökum kafla fríverslunarsamningsins. Samningurinn mun því ekki hafa breytingar í för með sér á möguleikum á fjárfestingum Kínverja á Íslandi eða á möguleikum Íslendinga til fjárfestinga í Kína. Engar sjálfstæðar heimildir til fjárfestinga eða vilyrði um rýmkun reglna þar að lútandi eru að finna í samningnum.

9. kafli – Samvinna
    Stundum er í fríverslunarsamningum komið á samstarfi milli samningsaðila um ýmis mál sem aðallega varða fríverslunarsamninginn en geta þó einnig varðað önnur málefni. Í fríverslunarsamningi Íslands og Kína er vísað til þess víðtæka samstarfs sem er á milli ríkjanna á hinum ýmsum sviðum. Má þar nefna vaxandi samstarf á sviði vísinda og tækni, norðurslóðamála og mennta- og menningarmála. Samningurinn kveður einnig á um að ríkin skuli auka samstarf sitt á sviði umhverfisverndar og vinnumála.

10. kafli – Stofnanaákvæði
    Með samningnum er settur á stofn vettvangur þar sem embættismenn ríkjanna fjalla um framkvæmd samningsins, til dæmis einstök vandamál sem fyrirtæki upplifa í viðskiptum. Slíkir fundir verða að jafnaði haldnir á tveggja ára fresti, en oftar ef þörf krefur.

11. kafli – Lausn deilumála
    Í samningnum er að finna hefðbundin ákvæði fríverslunarsamninga um lausn deilumála sem upp kunna að koma milli samningsaðila. Ef ágreiningur er uppi varðandi túlkun, framkvæmd og beitingu samningsins er reynt að finna með samráði aðilanna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Ef sú leið þrýtur getur hvor aðili um sig farið fram á stofnun gerðardóms til að skera úr um ágreininginn. Til þess hefur aldrei þurft að koma í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland hefur gert. Starfsreglur gerðardóms er að finna í viðauka IX.

12. kafli – Lokaákvæði
    Í lokaákvæðum fríverslunarsamningsins er meðal annars kveðið á um það ferli sem verður ef samningnum er breytt, gildistöku og heimildir varðandi uppsögn samningsins.



Fylgiskjal III.


Sameiginleg yfirlýsing
ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína
og
ríkisstjórnar Íslands
um að efla víðtækt
tvíhliða samstarf sín á milli
(Peking 15. apríl 2013)


1.    Í boði hr. Li Keqiang, forsætisráðherra ríkisráðs Alþýðulýðveldisins Kína, kom frú Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, í opinbera heimsókn til Kína dagana 13. til 18. apríl 2013. Meðan á heimsókninni stóð átti Li Keqiang forsætisráðherra viðræður við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

2.    Leiðtogar landanna tveggja rifjuðu upp þróun vinsamlegra samskipta þeirra og samstarfs á sviði stjórnmála, efnahagsmála, menningarmála, menntamála, vísinda og tækni, um málefni hafsins, í ferðamálum og á öðrum sviðum frá því stofnað var til stjórnmálasambands milli landanna í desember 1971 og voru sammála um að tvíhliða samskipti hefðu eflst í áföngum, með sífellt auknu pólitísku, gagnkvæmu trausti og virðingu, og aukið á samstarf og viðskipti. Báðir aðilar telja staðfastlega að koma beri fram við öll lönd sem jafningja í samfélagi þjóðanna og að þau geti gegnt uppbyggilegu hlutverki í heimsmálum án tillits til stærðar þeirra eða styrkleika. Báðir aðilar deila þeirri skoðun að það sé beggja hagur að vinna saman að tvíhliða, marghliða og hnattrænum viðfangsefnum.

3.    Báðir aðilar sammæltust um að auka skoðanaskipti um stjórnmál og efnahagsmál, byggð á gagnkvæmri virðingu og jafnræði, með því að halda áfram reglubundnum og gagnkvæmum samskiptum á æðstu stigum og stuðla að vinsamlegum samskiptum ríkisstjórna, löggjafarþinga og svæðisbundinna stjórnvalda landanna af mismunandi tagi og á ólíkum stigum, í því skyni að auka sameiginlegan skilning, stuðla að nánara samráði og samvinnu milli utanríkisráðuneyta landanna, viðhalda pólitískum skoðanaskiptum háttsettra embættismanna og kappkosta að halda fundi annað hvert ár, til skiptis í Beijing og Reykjavík, treysta samband og samskipti milli viðkomandi deilda, sem stýra efnahags- og viðskiptamálum í löndunum tveimur, ásamt því að viðhalda festu í skipan hinnar sameiginlegu efnahags- og viðskiptanefndar. Báðir aðilar áréttuðu að þeir virða að fullu fullveldi og friðhelgi landamæra hvors annars. Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt og óskipt ríki og styður friðsamlega þróun samskipta yfir sundið og þá viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti. Kína metur mikils fyrrnefnda afstöðu ríkisstjórnar Íslands.

4.    Sem aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum virða báðir aðilar markmið og grunnþætti sáttmála Sameinuðu þjóðanna og forræði og hlutverk Sameinuðu þjóðanna. Leiðtogar beggja aðila ítrekuðu stuðning sinn við sanngjarnt, réttlátt, réttmætt og reglufast fjölþjóðasamstarf, þar sem Sameinuðu þjóðirnar gegni lykilhlutverki þegar tekist er á við hnattræn viðfangsefni. Hér er meðal annars vísað til þess að vernda frið í heiminum, stuðla að almennri þróun, þar á meðal nýjum þróunarmarkmiðum eftir 2015, vinna alþjóðlegri samvinnu fylgis, sem og pólitískum lausnum í milliríkjadeilum með friðsamlegum hætti á grundvelli samráðs og samningaviðræðna.

5.    Báðir aðilar gáfu fyrirheit um að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi, þar sem tekið er tillit til stjórnmála-, efnahags- félags-, umhverfis- og menningarlegra aðstæðna hvors lands um sig. Báðir aðilar virða þær leiðir til þróunar sem hvor þeirra hefur valið samkvæmt aðstæðum í eigin landi. Báðir aðilar ítrekuðu að þeir framfylgja þeim hugsjónum sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og viðeigandi alþjóðlegir mannréttindasáttmálar, sem þeir hafa gerst aðilar að, fela í sér og munu áfram efla og vernda mannréttindi með virkum hætti. Báðir aðilar munu viðhalda samskiptum og samvinnu sín á milli á sviði kynjajafnréttis, eins og fram kemur í „viljayfirlýsingu velferðarráðuneytis Íslands og Kvennamálasamtaka Kína (All-China Women´s Federation of the People's Republic of China), sem var undirrituð árið 2012.

6.    Báðum aðilum var umhugað um að nýta tækifærið til að undirrita tvíhliða fríverslunarsamning í því skyni að efla enn frekar samstarf sín á milli á sviði viðskipta og fjárfestinga, báðum til hagsbóta. Báðir aðilar leggjast gegn verndarstefnu í viðskiptum og fjárfestingum og einsetja sér að fjarlægja viðskiptahindranir með því að mynda fríverslunarsvæði í því skyni að tryggja framþróun og aukin alþjóðaviðskipti.

7.    Báðir aðilar sammæltust um að stuðla enn frekar að samskiptum og hagnýtu samstarfi sín á milli um málefni norðurskautssvæðisins og viðfangsefni á sviði hafsins, jarðvarma, jarðvísinda, umhverfisverndar og loftslagsbreytinga og annarra viðfangsefna á grundvelli „Rammasamningsins milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína um samstarf á norðurslóðum“, „Samkomulagsins um samstarf í vísindum og tækni á sviði haffræði og heimskautafræði milli utanríkisráðuneytis Íslands og stofnunar kínverska ríkisins um málefni hafsins“ og „Samkomulagsins milli utanríkisráðuneytis Íslands og jarðnýtingar- og auðlindaráðuneytis Alþýðulýðveldisins Kína um samstarf á sviði jarðvarma og jarðvísinda“. Ísland áréttaði stuðning sinn við umsókn Kína um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Kína lét í ljós þakklæti fyrir þennan stuðning.

8.    Báðir aðilar voru því sammála að auka samstarf á sviði vinnumála, í menningarmálum, menntamálum og ferðamálum og á öðrum sviðum og að stuðla að beinu sambandi og samskiptum milli íbúa landanna.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Ef þjónustan er ekki veitt beint af lögaðila heldur á grundvelli annars konar viðskiptanærveru, eins og útibúi eða umboðsskrifstofu, skal þjónustuveitandinn (þ.e. lögaðilinn) þó fá sömu meðferð vegna þessarar nærveru og þjónustuveitendur fá samkvæmt þessum kafla. Slík meðferð skal ná til þeirrar viðskiptanærveru sem þjónustan er veitt í gegnum, eða leitast er við að veita hana gegnum, og þarf ekki að ná til annarrar starfsemi þjónustuveitandans utan yfirráðasvæðisins þar sem þjónustan er veitt, eða leitast er við að veita hana.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Þar til Kína setur landslög um meðferð erlendra einstaklinga sem hafa fasta búsetu skulu skyldur hvors samningsaðila að því er varðar fasta búsetu takmarkast við þær skyldur sem þeir hafa gengist undir samkvæmt GATS-samningnum.