Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 157. máls.

Þingskjal 187  —  157. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs,
með síðari breytingum (heilbrigðisstéttir, fjölmiðlar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      2. og 3. tölul. orðast svo:
                  2.      Leyfi til að stunda almennar lækningar og sérfræðilækningar, leyfi til að stunda almennar tannlækningar og sérfræðitannlækningar, leyfi til ljósmæðra og sérfræðileyfi til ljósmæðra, leyfi til hjúkrunarfræðinga og sérfræðileyfi til hjúkrunarfræðinga, leyfi til lyfsala, leyfi til lyfjafræðinga og sérfræðileyfi til lyfjafræðinga.
                  3.      Leyfi til sjúkraþjálfara og sérfræðileyfi til sjúkraþjálfara, leyfi til félagsráðgjafa og sérfræðileyfi til félagsráðgjafa, leyfi til iðjuþjálfa, leyfi til þroskaþjálfa, leyfi til lífeindafræðinga og sérfræðileyfi til lífeindafræðinga, leyfi til geislafræðinga, leyfi til matvælafræðinga og leyfi til sálfræðinga og sérfræðileyfi til sálfræðinga.     
     b.      9.–11. tölul. orðast svo:
               9.      Leyfi til hnykkja (kírópraktora) og osteópata.
               10.      Leyfi til sjúkraflutningamanna og bráðatækna.
               11.      Leyfi til næringarfræðinga, næringarráðgjafa og næringarrekstrarfræðinga.
     c.      15. tölul. orðast svo: Leyfi til tannfræðinga og tanntækna.
     d.      17. tölul. orðast svo: Leyfi til stoðtækjafræðinga.
     e.      19. tölul. orðast svo: Leyfi til áfengis- og vímuvarnaráðgjafa.
         

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      10. og 11.     tölul. orðast svo:
              10.      Leyfisbréf fyrir kauphallir, sbr. 3. gr. laga nr. 110/2007          166.000 kr.
              11.      Leyfi til að reka markaðstorg fjármálagerninga, sbr. 4. mgr. 4. gr.
                 laga nr. 110/2007 og g-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002          166.000 kr.
     b.      13. tölul. orðast svo: Starfsleyfi vátryggingafélaga, sbr. 18. gr. laga
         nr. 56/2010,          166.000 kr.
     c.      40.–42. tölul. orðast svo:
               40.      Leyfi til myndmiðlunar:
               a.      Skammtímaleyfi til allt að þriggja mánaða          15.000 kr.
               b.      Almennt leyfi til allt að sjö ára. Gjald fyrir hvert ár sem leyfi
                       er veitt          54.000 kr.
              41.      Leyfi til hljóðmiðlunar:
               a.      Skammtímaleyfi til allt að þriggja mánaða          9.500 kr.
               b.      Almennt leyfi til allt að sjö ára. Gjald fyrir hvert ár sem leyfi
                    er veitt.          36.500 kr.
              42.      Leyfi til mynd- og hljóðmiðlunar á afmörkuðum svæðum sem
                fjölmiðlanefnd telur ná til innan við 10 þúsund íbúa: 50% af þeim
                fjárhæðum sem greinir í b-lið 40. tölul. og b-lið 41. tölul.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Tilefni og meginatriði frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, en lögin innihalda meðal annars ákvæði um gjaldtöku fyrir veitingu atvinnuréttinda og atvinnustarfsemi.
    Í fyrsta lagi er tillaga vegna breytinga á starfsheitum heilbrigðisstarfsmanna í samræmi við ákvæði laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Bætt er inn nýjum heitum um löggiltar heilbrigðisstéttir og önnur felld út.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lagatilvísunum varðandi lög nr. 110/2007, um kauphallir, og laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, án þess að um efnisbreytingar sé að ræða og bætt er við tilvísun í lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í þriðja lagi eru breytingar er varða lög nr. 38/2011, um fjölmiðla, en með þeim voru útvarpslög felld úr gildi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við fjölmiðlalögin, þar sem m.a. er kveðið á um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í stað sjónvarps og útvarps.

II. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

III. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var haft samráð við Fjármálaeftirlitið, fjölmiðlanefnd og velferðarráðuneytið.

IV. Mat á áhrifum.
    Lítils háttar breytingar verða á fjárhæðum leyfisgjalda fyrir myndmiðlun og hljóðmiðlun sem talin eru hafa óveruleg fjárhagsleg áhrif þegar á heildina er litið. Á hinn bóginn er megintilgangur breytinganna að samræma ákvæði gildandi laga við yngri lög þannig að þau hafi betra upplýsingagildi gagnvart almenningi og þeim stofnunum sem vinna eftir lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Á síðastliðnum árum hafa orðið ýmsar breytingar á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna þar sem stéttir hafa breytt um starfsheiti, þær fallið brott eða fengið heimild til að nota heitið sérfræðingar. Í 3. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, eru taldar upp löggiltar heilbrigðisstéttir og er breytingartillaga frumvarpsins í samræmi við það ákvæði. Þær stéttir sem taldar eru þar upp og vantar í þessi lög eru áfengis- og vímuvarnaráðgjafar, næringarrekstrarfræðingar, osteópatar og stoðtækjafræðingar. Starfsheiti meinatækna er nú lífeindafræðingar og starfsheiti röntgentækna er nú geislafræðingar. Starfsheitin aðstoðarlyfjafræðingar og matarfræðingar falla brott. Þá geta eftirtaldar stéttir sótt um sérfræðileyfi samkvæmt lögum nr. 34/2012 til viðbótar við þær sem nú eru taldar upp í 10. gr. laganna: félagsráðgjafar, lífeindafræðingar, ljósmæður, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar.

Um 2. gr.

    Í a- og b-lið eru lagðar til breytingar á 10., 11. og 13. tölul. 11. gr. laganna vegna breyttra lagatilvísana. Í stað laga nr. 34/1988, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, gilda nú lög nr. 110/2007, um kauphallir, og í stað laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, gilda nú lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi. Bætt er við tilvísun í lög nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í 40.–42. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, er fjallað um greiðslur fyrir útgáfu leyfa til útvarps, sjónvarps og hljóðvarps, til samræmis við útvarpslög, nr. 53/ 2000. Með gildistöku laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, voru útvarpslög felld úr gildi og fyrirkomulagi við útgáfu leyfa breytt. Í greininni er því lögð til breyting í samræmi við hið nýja fyrirkomulag. Til samræmis við ákvæði laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, er lagt til að kveðið verði á um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í stað sjónvarps og útvarps. Heimilt verður að gefa út almenn leyfi til allt að sjö ára í senn í stað tiltekins tíma eins og er nú í lögunum. Fjárhæðir fyrir útgáfu leyfanna taka mið af núgildandi fjárhæðum og miðað er við gjald fyrir hvert ár sem lækkar ekki þótt leyfið sé gefið út til lengri tíma eins og er nú. Árgjald fyrir leyfi til myndmiðlunar er því hlutfallslega sama fjárhæð og var þegar leyfi til sjónvarps var gefið út til þriggja ára. Árgjald fyrir leyfi til hljóðmiðlunar er sama árgjald og leyfi til hljóðvarps er nú. Nýmæli í frumvarpinu er skammtímaleyfi til myndmiðlunar sem verður unnt að fá til þriggja mánaða.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum (heilbrigðisstéttir, fjölmiðlar o.fl.).

    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, en lögin innihalda meðal annars ákvæði um gjaldtöku fyrir veitingu atvinnuréttinda og atvinnustarfsemi. Í fyrsta lagi er tillaga vegna breytinga á starfsheitum heilbrigðisstarfsmanna í samræmi við ákvæði laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Bætt er inn nýjum heitum um löggiltar heilbrigðisstéttir og önnur felld brott. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lagatilvísunum varðandi lög nr. 110/2007, um kauphallir, og lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, án þess að um efnisbreytingar sé að ræða og bætt er við tilvísun í lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í þriðja lagi eru breytingar er varða lög nr. 38/2011, um fjölmiðla, en með þeim voru útvarpslög felld úr gildi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við fjölmiðlalög þar sem m.a. er kveðið á um leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í stað sjónvarps og útvarps.
    Verði frumvarpið að lögum verður lítils háttar breyting á leyfisgjöldum fyrir myndmiðlun og hljóðmiðlun en ekki verður séð að það hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs svo nokkru nemi. Megintilgangur breytinganna er frekar að samræma ákvæði gildandi laga við yngri lög þannig að þau hafi betra upplýsingagildi gagnvart almenningi og þeim stofnunum sem vinna eftir lögunum. Verði frumvarpið að lögum er því ekki talið að það hafi teljandi áhrif á fjárhag A-hluta ríkissjóðs.