Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 194  —  163. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.


Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að senda tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 142. löggjafarþingi (þskj. 12) og er endurflutt óbreytt.
    Í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2013 og í tengslum við myndun núverandi ríkisstjórnar gáfu stjórnarflokkarnir mjög afdráttarlaus loforð um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, þar á meðal var heitið verulegri lækkun á höfuðstól lána. Þetta hefur skapað væntingar en jafnframt leitt til óvissu.
    Nú er fyrir löngu komið á daginn að hinar boðuðu aðgerðir láta á sér standa. Athafnir stjórnvalda hingað til vegna málefna skuldara hafa reynst smáar í sniðum og innihaldsrýrar. Aðgerðaleysið kom berlega í ljós þegar forsætisráðherra flutti Alþingi skýrslu sína um „aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142“ haustið 2013 og var skýrslan sú sannarlega ekki réttnefnd. Forsætisráðherra gat þar ekki greint frá öðru en því að skipaðar hefðu verið nefndir og teymi og hópar myndaðir og undirhópar þeirra sem veitt hafa móttöku gestum úr ýmsum áttum. Þær eru margar þessar nefndir, hóparnir líka og gestalistinn sjálfsagt langur, en þar við situr. Hin tíu liða áætlun þingsályktunartillögu nr. 1/142 hefur vissulega fjölmargt til að bera, annað en efndir á gefnum loforðum um ráðstafanir í skuldamálum, en þar sem svo vill til að þeirra er miklu fremur beðið en fregna af nefndaskipun, hópamyndun og teymistengslum reynist óhjákvæmilegt að bregðast við þeirri óvissu og óöryggi sem efndalausir loforðabálkar hafa kallað fram með því að fresta innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns fyrir liggur hvort einhverjar ráðstafanir búa að baki þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið.
    Þannig er óljóst hvaða þýðingu lögfesting á flýtimeðferð dómsmála í gengislánum hefur, sbr. lög nr. 80 frá 2. júlí 2013, þar sem tafir í slíkum málum verða jafnan fremur raktar til málsaðila dómsmálanna en til dómstólanna. Því skal einnig haldið til haga að skammir frestir geta valdið þeim lántakendum tjóni sem eru í baráttu við fjármálafyrirtæki með her sérfræðinga, bæði lögmanna og sérfræðinga í endurútreikningum. Ákvæði frumvarpsins mun ekki leysa neinn verulegan vanda enda hafa stefnumarkandi dómsmál um lögmæti gengistryggingar lána orðið til að leggja línur um útreikning þeirra og jafna þannig deilur milli aðila, sbr. Hæstaréttardóm nr. 50/2013, Plastiðjan ehf. gegn Landsbankanum hf.
    Staðhæft er af hálfu stjórnvalda að verulegra aðgerða sé að vænta sem muni rétta hlut lántakenda. Fyrir fólk sem komið er í greiðsluþrot eða er í þann veginn að missa heimili sitt skiptir sköpum að fá boðaða úrlausn sem allra fyrst, megi það verða til að forða því frá heimilismissi eða gjaldþroti. Einnig skal á það bent að ákveðin biðstaða hefur myndast á fasteignamarkaði og í úrvinnslu greiðsluerfiðleikamála. Er ástæðan m.a. væntingar einstaklinga til þess að fá lausn sinna mála og er mikilvægt að koma til móts við þann hóp. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar ganga eftir gæti ákveðinn hópur fengið lausn sinna mála án greiðsluerfiðleikaúrræða, svo sem greiðsluaðlögunar eða gjaldþrots. Af þessum sökum er mikilvægt að kanna þessa leið til að einstaklingar geti notið þessara úrræða og hlýtur það að vera auðsótt þar sem ríkisstjórnin hefur gefið loforð um skjótar efndir.
    Þess vegna er hér lagt til að á meðan tillögur ríkisstjórnarinnar eru í vinnslu verði Íbúðalánasjóði gefin fyrirmæli um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum send samsvarandi áskorun.