Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 165. máls.

Þingskjal 197  —  165. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
með síðari breytingum (heimild til sameiningar).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    Heimilt er að sameina Þeistareyki ehf. og Landsvirkjun með þeim hætti að Landsvirkjun taki yfir allar eignir, skuldir, réttindi, skuldbindingar og rekstur Þeistareykja ehf. frá og með 1. júlí 2013, að um sameininguna/samrunann fari með sama hætti og þegar um er að ræða sameiningu/samruna einkahlutafélags við hlutafélag og að sömu laga og reglna og viðmiðana verði gætt við samrunann.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Þeistareykir ehf. voru stofnaðir 28. apríl 1998 en megintilgangur með stofnun félagsins var að hefja orkurannsóknir á Þeistareykjum. Landsvirkjun varð hluthafi í Þeistareykjum ehf. árið 2005 og eignaðist þá 31,971% hlut. Aðrir hluthafar voru Orkuveita Húsavíkur ehf., Norðurorka hf., Reykdælahreppur og Aðaldælahreppur. Tilgangur Þeistareykja ehf. er nýting jarðhita á Þeistareykjum í Þingeyjarsýslum og önnur starfsemi sem tengist orkuöflun og orkunýtingu, þ.m.t. heildsala og smásala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Í desember 2009 voru fjórir eigendur að Þeistareykjum ehf. Landsvirkjun fór þá með 31,971% eignarhlut, Norðurorka hf. með 31,971%, Orkuveita Húsavíkur ohf. með 31,971% og Þingeyjarsveit með 4,087%. Landsvirkjun er nú ein eigandi alls hlutafjár í félaginu en viðbótarhlutafé keypti Landsvirkjun í góðu samráði við fyrrum hluthafa félagsins með eftirtöldum kaupsamningum:
     a.      við Norðurorku hf. 29. desember 2009 (31,971%),
     b.      við Orkuveitu Húsavíkur ehf. 29. september 2010 (28,771%),
     c.      við Þingeyjarsveit 22. desember 2010 (4,0%),
     d.      við Orkuveitu Húsavíkur ohf. í mars 2012 (3,2%) og
     e.      við Atvinnuþróunarfélag Þingeyjarsveitar ehf. í mars 2012 (0,087%).
    Þegar Landsvirkjun varð meirihlutaeigandi í Þeistareykjum ehf. með kaupum á hlut Norðurorku hf. var sú ákvörðun tilkynnt Samkeppniseftirlitinu sem gerði ekki athugasemd við þau kaup. Frá 1. apríl 2012 hefur Landsvirkjun því ein farið með allt eignarhald í félaginu og telst það því 100% dótturfélag Landsvirkjunar. Allur undirbúningur rannsókna og virkjana af hálfu félagsins hefur haldist óbreyttur þrátt fyrir umrædda breytingu á eignarhaldi félagsins.
    Þeistareykir ehf. hafa síðastliðin 15 ár eða allt frá stofnun félagsins staðið fyrir kostnaðarsömum og umfangsmiklum rannsóknum og undirbúningsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar Þeistareykjavirkjunar. Frá árinu 2006 hefur Landsvirkjun haft umboð frá stjórn Þeistareykja til að selja raforku frá virkjuninni. Hins vegar liggja engir frágengnir samningar fyrir um sölu á raforku. Þar af leiðandi er ekki unnt að segja fyrir um hvenær raforkuvinnsla getur hafist og þar með tekjuöflun félagsins. Félagið hefur engar tekjur haft af raforkusölu frá stofnun. Fram undan er enn frekari undirbúningur, svo sem hönnun mannvirkja, vegalagning, rafvæðing vinnubúða, rannsóknir, boranir og fleira á umráðasvæði félagsins, útboð og gerð verk- og þjónustusamninga, sem allt mun hafa í för með sér umtalsverð útgjöld og kostnað. Óheppilegt er að einkahlutafélag í eigu Landsvirkjunar haldi utan um og standi lengi í framkvæmdum sem þessum án tilheyrandi tekna. Mögulegt hefði þó verið að halda starfsemi félagsins áfram í sjálfstæðu dótturfélagi Landsvirkjunar en þá verður eigandinn að vera reiðubúinn til þess að leggja félaginu til viðbótarfé í formi nýs hlutafjár eða lánsfjár og/eða styðja við félagið sjálft við öflun lánsfjár með viðeigandi sjálfskuldarábyrgð eigandans, sem ekki er æskilegt til lengri tíma. Annar kostur var að yfirfæra eignir, réttindi og skuldbindingar Þeistareykja ehf. yfir til Landsvirkjunar með sölu til eigandans eða yfirtöku. Þriðji kosturinn var að slíta Þeistareykjum ehf. sem sjálfstæðu félagi og yfirfæra eignir, réttindi og skuldbindingar félagsins með þeim hætti yfir til móðurfélagsins. Að öllu virtu þykir sá kostur hagkvæmastur að færa allar eignir, réttindi, skyldur, skuldir og rekstur Þeistareykja ehf. yfir til Landsvirkjunar með samruna félaganna tveggja, sérstaklega með tilliti til þess að Landsvirkjun hefur með höndum umfangsmikla þekkingu á sama sviði og hefur þann trausta fjárhagslega bakgrunn sem félagið hefur ekki. Stjórnunar- og framkvæmdalega er einnig mun eðlilegra að sami aðili fari með alla ákvarðanatöku og framtíðarstefnumörkun fyrir bæði félögin í einu sameinuðu félagi.
    Megintilgangur Landsvirkjunar með kaupum á hlutum í félaginu var að tryggja þau réttindi sem félagið fer með og losa fyrri eigendur við fjárhagslegar skuldbindingar vegna félagsins, enda höfðu þeir ekki sömu fjárhagslegu burði og Landsvirkjun til að leggja félaginu til nauðsynlegt fé og styrk, og sameina það síðan öðrum rekstri og starfsemi Landsvirkjunar. Með óbreyttu fyrirkomulagi voru fyrirsjáanlegar ýmsar flækjur varðandi ábyrgðarmál móðurfélagsins, skattaleg réttindi og skuldbindingar og fleira.
    Í 3. mgr. 9. gr. sameignarfélagssamnings Landsvirkjunar segir m.a. að ákvörðun um „ sameiningu eða samruna félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins [sé] óheimil nema að fengu samþykki Alþingis“. Í sameignarfélagssamningnum er með öðrum orðum beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika að til sameiningar við önnur félög geti komið. Nauðsynlegt var því að afla samþykkis og heimildar Alþingis fyrir samrunanum. Þá heimild veitti Alþingi með skýrum hætti með 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2102, nr. 122/2012 (nýr liður, 7.20 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2012).
    Þeistareykir ehf. eru einkahlutafélag sem lýtur lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. Um Landsvirkjun gilda lög nr. 42/1983. Að öðru leyti og eftir því sem við á hefur verið litið svo á að lög nr. 50/2007, um sameignarfélög, taki til Landsvirkjunar þegar sérlögunum sleppir. Félagsform Landsvirkjunar er samt sem áður um sumt mun líkara hlutafélagi en sameignarfélagi. Félagið nýtur til dæmis ekki lengur ótakmarkaðrar ábyrgðar eigenda sinna en það er eitt helsta einkenni sameignarfélaga. Þá þarf að afla sjálfstæðs samþykkis fjármálaráðherra fyrir ábyrgðarskuldbindingum fyrirtækisins sem einnig er mjög óvenjulegt fyrir sameignarfélög. Þá hefur það sjónarmið komið fram að Landsvirkjun geti tæplega talist sameignarfélag í félagaréttarlegu tilliti í ljósi þeirra reglna sem um fyrirtækið gilda.
    Ekki liggja fyrir þekkt fordæmi þess að einkahlutafélag sé sameinað sameignarfélagi og ekki er að finna lagaákvæði sem mæla fyrir um fyrirkomulag slíkra sameininga. Hins vegar er vel þekkt að einkahlutafélög og hlutafélög sameinist hvert öðru með yfirtöku eða stofnun nýs félags. Að þessu gefnu var talið eðlilegt að afla lagaheimildar fyrir samrunanum eins og gert var með tilvitnuðum fjáraukalögum.
    Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa gert með sér sérstakan samning þar sem fram kemur að Landsvirkjun yfirtekur öll réttindi og skyldur, svo og allan rekstur Þeistareykja ehf. frá og með 1. september 2012, þ.m.t. greiðslu allra útgjalda og kostnaðar, svo sem vegna afborgana og vaxta af lánum og fleira, vegna starfsemi Þeistareykja ehf. frá þeim tíma. Frá 1. september 2012 ber Landsvirkjun því beina ábyrgð á öllum framkvæmdum og greiðslu reikninga vegna félagsins, fer með réttindi og forráð þeirra verkefna, útboða, verka og þjónustu, sem Þeistareykir ehf. eiga aðild að, svo og umráða- og samningsrétt vegna þeirra auðlinda og virkjanaréttinda sem Þeistareykir ehf. hafa farið með. Þá samþykktu stjórnir félaganna tveggja samruna þeirra sem miðast skyldi við 1. september 2012. Í frumvarpi þessu er samruninn hins vegar miðaður við 1. júlí 2013 vegna ákvæða einkahlutafélagalaga um að sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur fyrir félögin skuli miða við uppgjörsdag sem ekki má vera meira en sex mánuðum fyrir undirritun samrunaáætlunar. Stjórnir félaganna beggja munu þar af leiðandi miða við þann dag þegar fyrir liggur samþykki Alþingis fyrir samrunanum samkvæmt frumvarpi þessu.
    Hinn 21. desember 2012 var samruni Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. tilkynntur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Í samrunaáætlun félaganna kom fram að félögin yrðu sameinuð undir nafni og kennitölu Landsvirkjunar á grundvelli liðar 7.20 í 4. gr. heimildarákvæðis fjáraukalaga nr. 122/2012 og XIV. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
    Með lið 7.20 í 4. gr. fjáraukalaga var eins og áður greinir gerð breyting á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2012. Í breytingunni fólst að fjármálaráðherra var veitt heimild til að sameina Þeistareyki ehf. og Landsvirkjun með þeim hætti að Landsvirkjun tæki yfir allar eignir, skuldir, réttindi og skuldbindingar og rekstur Þeistareykja ehf. frá og með 1. september 2012, að um sameiningu/samrunann færi með sama hætti og þegar um er að ræða sameiningu/samruna einkahlutafélaga og hlutafélaga og að sömu laga og reglna yrði gætt.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga er að finna umfjöllun um lið 7.20 en þar segir:
    „Heimild 7.20 er vegna óska Landsvirkjunar um að fá að sameinast Þeistareykjum ehf. sem nú er að öllu leyti í eigu Landsvirkjunar. Landsvirkjun eignaðist fyrr á þessu ári alla eignahluti í Þeistareykjum ehf. með það að markmiði að sameina umsvif og rekstur félagsins annarri starfsemi Landsvirkjunar. Með hliðsjón af því að félagið er sameignarfélag í eigu ríkisins sem sérstök lög gilda um er eðlilegt að óskað sé heimildar Alþingis til að sameina félögin. Ástæðan er einnig sú að engar lagareglur eru í raun til um sameiningu hlutafélags og sameignafélags en til eru mótaðar lagareglur um sameiningu hlutafélaga.“
    Með ákvörðun dagsettri 14. febrúar 2013 synjaði fyrirtækjaskrá hins vegar fyrirhuguðum samruna Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. með vísan til þess að samruninn ætti sér ekki næga lagastoð. Í ákvörðun fyrirtækjaskrár er að finna umfjöllun um þá heimild sem veitt er til samrunans í fjáraukalögum nr. 122/2012 en hún hefur að mati fyrirtækjaskrár sín lagalegu takmörk þar sem lög um Landsvirkjun heimila ekki slíkan samruna, auk þess sem önnur almenn lög heimila ekki samruna sameignarfélaga og einkahlutafélaga. Í ljósi þessarar niðurstöðu fyrirtækjaskrár er nauðsynlegt að afla skýrari viðbótarheimildar Alþingis með breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, sem staðfestir enn frekar þá heimild sem Alþingi veitti með fjáraukalögum, nr. 122/2012. Aðstæður og tími til þess hefur ekki unnist fyrr en nú með frumvarpi þessu. Er í frumvarpinu lagt til að heimildin verði veitt með bráðabirgðaákvæði í lögum um Landsvirkjun sem taki til þessa einstaka tilviks og því er ekki um almenna heimild að ræða enda þarf ávallt samkvæmt sameignarfélagssamningi Landsvirkjunar að afla samþykkis Alþingis fyrir hverjum og einum samruna félagsins við önnur félög. Í ljósi þess að nokkur tími er liðinn frá því að upphaflega var gert ráð fyrir samrunanum og ákvæði einkahlutafélagalaga kveða á um tiltekið sex mánaða tímamark í því efni er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að samruninn miðist við 1. júlí 2013 í stað 1. september 2012 eins og upphaflega var áætlað. Með þeim hætti er farið að meginreglum einkahlutafélagalaga hvað samrunann varðar. Við vinnslu frumvarpsins hefur verið haft samráð við embætti ríkisskattstjóra. Frumvarp þetta er jafnframt samið í samráði við Landsvirkjun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er veitt skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir samruna Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar. Um sameininguna/samrunann skal farið með sama hætti og tíðkast þegar um er að ræða sameiningu/samruna einkahlutafélags við hlutafélag og gætt verði við samrunann samsvarandi laga og reglna félagaréttarlega, skattalega og í öllu öðru tilliti. Miðað er við að Landsvirkjun yfirtaki öll réttindi og allar skuldbindingar Þeistareykja ehf. frá og með 1. júlí 2013. Gert er ráð fyrir því að allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi Þeistareykja ehf. færist yfir til Landsvirkjunar, svo sem heimilt er þegar samruni tveggja hlutafélaga fer fram, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, án þess að það skapi skattskyldu fyrir Landsvirkjun eða Þeistareyki ehf. við yfirtökuna.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
með síðari breytingum (heimild til sameiningar).

    Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við gildandi lög um Landsvirkjun sem heimili sameiningu Þeistareykja ehf. við fyrirtækið. Frá 1. apríl 2012 hefur Landsvirkjun farið með allt eignarhald á Þeistareykjum ehf. og telst það því vera dótturfélag sem er að fullu í eigu Landsvirkjunar. Þeistareykir ehf. hafa allt frá stofnun félagsins staðið fyrir kostnaðarsömum rannsóknum og undirbúningsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar Þeistareykjavirkjunar en félagið hefur engar tekjur haft af raforkusölu frá stofnun. Ýmis áform eru uppi um öflun og sölu á raforku á Norðausturlandi en meðan ákvörðun hefur ekki verið tekin um virkjun á Þeistareykjasvæðinu er ekki unnt að fullyrða um tekjustreymi félagsins á komandi árum.
    Samkvæmt efnahagsreikningi Þeistareykja ehf. í árslok 2012 námu heildareignir félagsins 4,4 mia. kr. en þar af nam eignfærður undirbúningskostnaður 4,2 mia. kr. Uppsafnað ójafnað tap nam í árslok 2012 947 m.kr. en það endurspeglar m.a. gjaldfærðan rekstrarkostnað og fjármagnskostnað. Óheppilegt er að einkahlutafélag í eigu Landsvirkjunar haldi utan um og standi lengi í framkvæmdum sem þessum án tilheyrandi tekna. Þykir sá kostur hagkvæmastur að færa allar eignir, réttindi, skyldur, skuldir og rekstur Þeistareykja ehf. yfir til Landsvirkjunar með samruna félaganna tveggja. Eignir Þeistareykja ehf. eru, eins og áður var nefnt, að stærstum hluta 4,2 mia. kr. eignfærður undirbúningskostnaður en einnig færast á milli rekstrarfjármunir og auk þess yfirfæranlegt tap félagsins sem metið er á um 274 m.kr. og gert er ráð fyrir að Landsvirkjun muni geta nýtt. Einu skuldir Þeistareykja ehf. eru við Landsvirkjun og nemur sú skuld um 4,3 mia. kr. en hún fellur niður við yfirtöku á eignum Þeistareykja ehf. Með því móti er ekki verið að auka skuldir Landsvirkjunar þar sem félagið er nú þegar að fullu í eigu Landsvirkjunar. Frekar er um að ræða hagkvæmara skipulag á samstæðu Landsvirkjunar en breytingar á skuldbindingum þess.
    Hinn 21. desember 2012 var samruni Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. tilkynntur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Með ákvörðun dagsettri 14. febrúar 2013 synjaði fyrirtækjaskrá hins vegar samrunanum með vísan til þess að hann ætti sér ekki næga lagastoð. Í ljósi þessarar niðurstöðu fyrirtækjaskrár er nauðsynlegt að afla skýrari viðbótarheimildar Alþingis til þessarar ráðstöfunar.
    Verði frumvarpið að lögum verða Þeistareykir ehf. hluti af Landsvirkjun og má áætla að það sé hagkvæmara fyrirkomulag, sérstaklega með tilliti til þess að Landsvirkjun hefur umfangsmikla þekkingu á sama sviði og Þeistareykir og hefur þann trausta fjárhagslega bakgrunn sem félagið sem slíkt hefur ekki. Gera má ráð fyrir að samruni félaganna hafi lítil áhrif á afkomu Landsvirkjunar þar sem Þeistareykir ehf. er nú þegar í 100% eigu Landsvirkjunar. Síðastliðin ár hefur Landsvirkjun greitt ríkissjóði arðgreiðslur en þar sem samruni félaganna mun ekki hafa mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins er ekki ástæða til að ætla að hann hafi mikil áhrif á arðgreiðslur til ríkissjóðs í framtíðinni.