Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 224  —  91. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25 27. mars 1991, með síðari breytingum (ábyrgð dreifingaraðila).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneytinu, Matthildi Sveinsdóttur og Helgu Sigmundsdóttur frá Neytendastofu og Magnús M. Norðdahl frá ASÍ. Umsagnir bárust frá ASÍ og Neytendastofu.
Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991. Í fyrsta lagi er lagt til að dreifingaraðili beri ekki ábyrgð beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum, þ.e. hlutlæga ábyrgð, heldur beri hann ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni. Í öðru lagi er lagt til að lögum um skaðsemisábyrgð verði einungis beitt ef tjón, sem hlýst af ágalla af vöru, er að lágmarki 500 evrur eða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum. Í þriðja lagi er lagt til að viðmið fjárhæða í Evrópureikningseiningum verði felld niður en í staðinn verði vísað í fjárhæðir í evrum.
    Skaðsemisábyrgð er sú ábyrgð nefnd sem framleiðandi og dreifingaraðili vöru bera á tjóni á öðrum hlut eða líkamstjóni sem hlýst af venjulegri notkun vörunnar og stafar af ágalla á henni. Nefndin bendir á að tilgangur laga um skaðsemisábyrgð er að veita neytendum bótarétt vegna líkamstjóns eða skemmda á munum er hlýst af vöru sem er framleidd eða dreift í atvinnuskyni.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið að ákvæði þess gengi of langt við að draga úr neytendavernd, þ.e. með því að fella niður hlutlæga ábyrgð dreifingaraðila í öllum tilvikum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en bendir á 4. mgr. 4. gr. laganna þar sem segir að þegar tjónþoli getur ekki komist að því hver hefur búið til vöru sem framleidd er hér á landi eða flutt vöru til landsins skal sérhver dreifingaraðili hennar teljast framleiðandi.
    Í máli C-402/03, Skov Æg og Bilka, var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 10. gr. dönsku laganna um skaðsemisábyrgð, sem lagði hlutlæga ábyrgð á dreifingaraðila bryti í bága við tilskipun 85/374/EBE. Nefndin bendir á að í dómnum kom fram að tilskipunin mælti fyrir um allsherjarsamræmingu, þ.e. að aðildarríkin gætu ekki gert strangari eða vægari kröfur í landslögum en þær sem koma fram í viðeigandi EES-gerð. Við endurskoðun dönsku laganna var því lagt til grundvallar að ekki yrði gengið lengra í að takmarka ábyrgð dreifingaraðila, og þar með að draga úr neytendavernd, en leyfilegt væri samkvæmt Evrópuréttinum. Sérstaklega var litið til ummæla Evrópudómstólsins að tilskipunin stæði ekki í vegi fyrir því að aðildarríki gætu mælt fyrir um skaðsemisábyrgð á öðrum grundvelli en hlutlægri ábyrgð. Í ljósi þessa leggur nefndin til þá breytingu á 3. gr. frumvarpsins að skaðsemisábyrgð dreifingaraðila skuli byggjast á sakarlíkindareglunni en hún felur í sér að tjónvaldur eða sá er ber ábyrgð á honum hefur sönnunarbyrði fyrir því að háttsemi sú er tjóni olli hafi ekki verið saknæm. Á grundvelli sakarlíkindareglunnar yrði dreifingaraðili að sýna fram á að orsök ágalla sé ekki af hans völdum en það stendur dreifingaraðila nærri. Það er álit nefndarinnar að með þessari breytingu sé ekki gengið gegn tilskipuninni. Nefndin bendir einnig á að tjónþoli verður eftir sem áður að sanna tjón sitt, ágalla vöru og orsakatengsl milli ágalla og tjóns, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. gr. orðist svo:
    10. gr. laganna orðast svo:
    Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni skv. 2. gr. nema hann sýni fram á að tjónið verði ekki rakið til sakar hans eða vanrækslu.
    Dreifingaraðili ber ábyrgð beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum á tjóni sem fellur undir ákvæði 2. gr. að svo miklu leyti sem tjónið verður rakið til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni.

Alþingi, 19. nóvember 2013.


Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Hjálmar Bogi Hafliðason.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.