Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 201. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 253  —  201. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum (leyfi dómara).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 20. gr. laganna bætist: eða þegið setningu sem hæstaréttardómari skv. 3. mgr. 9. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Í 20. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, er fjallað um leyfi héraðsdómara frá störfum sínum sem dómari við héraðsdómstóla landsins. Almenna reglan er sú að héraðsdómara verður ekki veitt leyfi frá störfum til lengri tíma en eins árs nema það sé vegna veikinda. Dómstólaráð getur einnig veitt undanþágu til leyfis í lengri tíma, til mest tólf mánaða í senn ef dómari leitar eftir því til náms. Dómstólaráð setur að öðru leyti reglur um leyfi héraðsdómara frá störfum. Dómstólaráð veitir leyfi vegna orlofs, auk þess að taka afstöðu til umsóknar um leyfi í öðru skyni, sem stendur í heild í mánuð eða skemmri tíma. Að öðrum kosti gerir það tillögu um afgreiðslu umsóknar héraðsdómara um leyfi, en innanríkisráðherra ákveður hvort það skuli veitt að fenginni slíkri tillögu.
    Í 3. mgr. 20. gr. laganna er kveðið á um að þrátt fyrir framangreint sé ráðherra heimilt að veita héraðsdómara lausn frá störfum í allt að sex ár svo að hann geti tekið sæti í alþjóðlegum dómstól eða við starfi við aðra alþjóðlega stofnun. Embættið skal þá auglýst á setningartíma, en við veitingu þess skal gæta að ákvæðum 4. gr. a, sem kveða á um að sérstök hæfnisnefnd skuli fara yfir umsóknirnar og senda ráðherra mat sitt á því hver teljist hæfastur umsækjenda til að gegna embættinu. Sambærilegt ákvæði er í 2. mgr. 9. gr. dómstólalaga er varðar leyfi dómara við Hæstarétt Íslands.
    Í athugasemdum við frumvarp það er varð að núgildandi dómstólalögum segir að skv. 3. mgr. 20. gr. dómstólalaga sé gert ráð fyrir því að sams konar undantekningarheimild standi til að veita héraðsdómara leyfi til allt að sex ára vegna starfa hans við alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun og mælt er fyrir um varðandi hæstaréttardómara í 2. mgr. 9. gr. laganna. Búa því sömu sjónarmið að baki þessari heimild í 3. mgr. 20. gr.
    Í athugasemdum við frumvarp það er varð að núgildandi dómstólalögum segir um 2. mgr. 9. gr. laganna að þessi undantekning sé einkum reist á því að æskilegt geti verið fyrir starfsemi íslenskra dómstóla að dómarar fari héðan til tímabundinna starfa hjá alþjóðlegum dómstólum eða stofnunum og færi hingað aftur að loknum ráðningartímanum mikilsverða reynslu, bæði af viðkomandi málaflokki og vinnubrögðum. Hámarkstími leyfis samkvæmt ákvæðinu miðast við þann kjörtíma eða ráðningartíma sem sýnist vera algengur við þá alþjóðlegu dómstóla og stofnanir sem Ísland á hlut að. Um ráðstöfun embættis dómara, sem fengi leyfi á þessum grundvelli, er mælt svo fyrir í lokamálslið þessarar málsgreinar að það skuli auglýst laust til setningar á leyfistímanum. Samkvæmt þessu er dómari því ekki settur með sama hætti og þegar um styttri leyfi er að ræða, heldur yrði í alla staði farið að á sama hátt og við skipun dómara í laust embætti ef frá er talið að setningunni væri fyrir fram markaður tími. Þessi munur á aðferðum við setningu þykir eðlilegur í ljósi þess hversu lengi setning gæti staðið þegar ákvæðið á við.
    Sú staða getur komið upp að héraðsdómari verði settur til að gegna embætti dómara við Hæstarétt Íslands til lengri tíma en eins árs, m.a. vegna þess að þeim dómara hefur verið veitt leyfi til lengri tíma en eins árs til að gegna stöðu við erlendan dómstól eða alþjóðastofnun. Yrði héraðsdómarinn því mögulega að segja embætti sínu lausu til að geta þegið slíka setningu, þ.e. ef hún er til lengri tíma en eins árs. Slíkt er ekki ákjósanlegt þar sem viðkomandi dómari öðlast á sama hátt og með sömu rökum mikilsverða reynslu af störfum sínum við Hæstarétt Íslands og af störfum við alþjóðadómstól eða stofnun, þekkingu sem yrði fengur að fyrir héraðsdómstólana þegar viðkomandi dómari snýr aftur til starfa að setningu lokinni við Hæstarétt Íslands. Því leggur allsherjar- og menntamálanefnd til að við upptalningu í 3. mgr. 20. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, verði bætt að héraðsdómara verði veitt leyfi til allt að sex ára svo að hann geti tekið sæti sem hæstaréttardómari skv. 3. mgr. 9. gr. laganna. Hér er vísað til sömu raka og tilgangs þess að héraðsdómara verði veitt lengra leyfi en til eins árs svo að hann geti tekið sæti við alþjóðlegan dómstól eða stofnun. Lengd leyfisins miðast við þann tíma sem dómari við Hæstarétt getur fengið leyfi frá störfum sínum, sbr. 2. mgr. 9. gr. dómstólalaga. Allsherjar- og menntamálanefnd leggur áherslu á að mögulegt verði að veita héraðsdómara leyfi frá störfum til lengri tíma en eins árs, m.a. þegar héraðsdómari er tímabundið settur til starfa hjá öðrum dómstóli.