Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 256  —  77. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Minnisblað barst nefndinni frá utanríkisráðuneyti.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála, fjallað um tilskipun 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda, til mats á því hvort efnislegra aðlagana sé þörf. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og var utanríkismálanefnd upplýst um málið, skv. 2. mgr. 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. 2. og 7. gr. framangreindra reglna, með skeyti frá utanríkisráðuneyti, dags. 22. ágúst 2012, ásamt fylgigögnum. Í því ferli hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 94/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 3. nóvember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tilskipunin kveður á um lengingu verndartíma listflutnings í hljóðritum, úr 50 árum í 70 ár, eftir að flutningur fór fram eða frumupptaka varð gerð, eða eftir fyrstu útgáfu upptökunnar, og samræmingu á verndartíma höfundaréttar milli aðildarríkjanna þegar um ræðir tónverk með texta. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að mikilvægt væri að tryggja að listflytjendur nytu fjárhagslegs ávinnings af lengingu verndartíma hljóðrita til jafns við verndartíma höfunda, sem er 70 ár. Í minnisblaði frá utanríkisráðuneyti er enn fremur bent á að útreikningur verndartíma tónverks með texta verði samræmdur í þeim tilvikum þegar það er samið af mismunandi einstaklingum. Í þeim tilvikum skuli verndartími vera 70 ár frá andláti þess höfundar sem lengst lifir.
    Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi. Mun mennta- og menningarmálaráðherra í því skyni leggja fram frumvarp til laga um breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.
    Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar og efnahagslegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
         Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 22. nóvember 2013.


Birgir Ármannsson,


form.


Óttarr Proppé,


frsm.


Árni Þór Sigurðsson.



Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.


Össur Skarphéðinsson.





Fylgiskjal.


Álit


um upptöku tilskipunar (ESB) nr. 2011/77/ESB er varðar verndartíma höfundaréttar.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur í kjölfar ábendingar ritara EES-mála frá 23. ágúst 2012, með hliðsjón af 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Pálsson frá utanríkisráðuneytinu og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Nefndin leitaði einnig álits hjá stjórn Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda og hjá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar.
    Málið kom nýlega til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og má telja líklegt að það leiði til upptöku tilskipunar (ESB) nr. 2011/77 í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar. Nefndin hefur með umfjöllun sinni leitast við að kalla fram sjónarmið sem líta mætti til við mat á því að hvaða leyti efnislegrar aðlögunar kann að reynast þörf.
    Tilskipunin fjallar um lengingu á verndartíma einkaréttar listflytjanda á hljóðritun af listflutningi og höfundarétti hljómplötuframleiðanda, úr 50 árum í 70 ár eftir að flutningur fór fram eða frumupptaka varð gerð, eða eftir fyrstu dreifingu upptökunnar og samræmingu á verndartíma höfundaréttar milli aðildarríkjanna þegar um ræðir tónverk með texta.
    Á þessu stigi verður ekki séð að sérstaka efnislega aðlögun þurfi vegna íslenskra hagsmuna, svo sem undanþágur, sérlausnir eða frest á gildistöku. Allsherjar- og menntamálanefnd gerir því á þessu stigi ekki athugasemdir við málið.

Alþingi, 15. október 2012.

Skúli Helgason.
Þráinn Bertelsson.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir.
Arnbjörg Sveinsdóttir.