Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 265  —  155. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni um samningsmarkmið
í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:

    

     1.      Er vinna hafin við gerð samningsmarkmiða vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið í eftirfarandi málaflokkum:
              a.      landbúnaðarmálum,
              b.      sjávarútvegsmálum,
              c.      byggðamálum,
              d.      gjaldmiðilsmálum.
     2.      Ef svarið er já, hve langt er sú vinna komin í hverjum málaflokki fyrir sig? Hver eru markmiðin? Höfðu þau verið kynnt fyrir viðsemjendum Íslands?
    Í þeim málaflokkum þar sem samningsmarkmið eru ekki tilbúin er óskað eftir því að birt verði síðustu drög undirnefnda í málaflokkunum eins og þau voru kynnt aðalsamninganefnd.


    Samningsafstaða Íslands í samningsköflum um byggðamál og gjaldmiðilsmál var lögð fram og kynnt Evrópusambandinu á árinu 2012 og kaflarnir opnaðir til samninga á ríkjaráðstefnu með Evrópusambandinu sem haldin var 18. desember 2012.
    Vinnu við samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum var ekki lokið þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að gera hlé á vinnu við þá kafla í janúar 2013.
    Þau samningsmarkmið sem þáverandi ríkisstjórn vann út frá er að finna í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsóknina. Í sjávarútvegsmálum lutu markmiðin m.a. að forræði yfir sjávarauðlindinni með því að skilgreina íslensku efnahagslögsöguna sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Ísland héldi því forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Ekki yrðu réttindi fyrir erlend fiskveiðiskip til að veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu úr staðbundnum íslenskum stofnum. Þá yrði krafist að Ísland færi áfram með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum og að Ísland héldi forræði í sjávarútvegsmálum á vettvangi alþjóðastofnana og fyrirsvari í samningaviðræðum um fjölþjóðasamninga. Samningsmarkmið varðandi fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi laut að því að veita ekki svigrúm fyrir erlendar útgerðir og fjárfesta hér á landi þannig að nýting auðlindarinnar og afrakstur færðist úr landi. Fjárfestingar í sjávarútvegi féllu undir 3. og 4. kafla samningaviðræðnanna þar sem annars vegar var fjallað um svokallaðan staðfesturétt og hins vegar frjálsa fjármagnsflutninga.
    Varðandi landbúnað lutu markmiðin að hinum fjölþættu hagsmunamálum sem tengjast íslenskum landbúnaði og stöðu hans til frambúðar fyrir íslenskt samfélag. Landbúnaður snerist ekki einvörðungu um matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar heldur væri hann ekki síður snar þáttur í mótun byggðar í landinu og hefði hlutverki að gegna í veigamiklum þáttum eins og umhverfismálum, skógrækt, landgræðslu, menningu og ferðaþjónustu fyrir landið allt svo að eitthvað væri nefnt. Landbúnaður gegndi gríðarmiklu hlutverki fyrir hinar dreifðu byggðir landsins auk þess að vera hluti af menningu og lífsafkomu þjóðarinnar, enda fjöldi afleiddra starfa sem tengdust landbúnaði beint og óbeint. Litið var til sérstöðu íslensks landbúnaðar vegna þess að loftslag á sumrin væri óvenjukalt. Áhersla var lögð á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap yrði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það ætti til dæmis við um afnám tolla þar sem tollverndin hefði verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar, að stuðningi við landbúnað yrði sem minnst raskað þótt ljóst væri að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins mundi eiga sér stað með aðild að sambandinu. Lögð var áhersla á mikilvægi vistvænnar og lífrænnar landbúnaðarframleiðslu, einnig að hefðbundinn landbúnaður og hið íslenska fjölskyldubú væri hluti af menningu og sögu landsins sem þörf væri á að varðveita og því þyrfti að verja þær greinar sem slíkur landbúnaður byggðist á, svo sem mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Skoða þyrfti hvort nauðsyn bæri til að útvíkka gildandi reglur Evrópusambandsins til að ná fram heimildum fyrir Ísland til að tryggja sem best stöðu íslenskra bænda, og var vísað í því sambandi til fordæmis í aðildarsamningi Finnlands, einnig að kannað yrði til hlítar hvort sérákvæði Rómarsáttmálans um eyjar og héruð sem eru í mikilli fjarlægð frá meginlandi Evrópu gæti átt við um stöðu Íslands. Hér er einungis stiklað á stóru, því að margt fleira var lagt til grundvallar mótun samningsafstöðu í landbúnaði.
    Í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Íslands hefur verið gert hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Jafnframt liggur fyrir að þeim mun ekki verða haldið áfram án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess hefur verið hafin úttekt á vegum ríkisstjórnarinnar á stöðu viðræðnanna og þróun Evrópusambandsins.
    Telja verður að birting á þeim drögum að samningsafstöðu sem hér um ræðir kunni að skaða hagsmuni Íslands komi til þess að aðildarviðræður hefjist á nýjan leik. Í þessu sambandi er höfð hliðsjón af 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Umrædd drög hafa hins vegar verið send til utanríkismálanefndar Alþingis bundin trúnaði, sbr. 24. gr. þingskapalaga.