Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 226. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 310  —  226. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnanir
sem þjóna einstaklingum með skerta færni.


    Með bréfi forseta Alþingis, dags. 11. júní 2013, sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnanir sem þjóna einstaklingum með skerta færni til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa (sjá skýrsluna: www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/skert_faerni.pdf). Framsögumaðurmálsins er Helgi Hjörvar.
    Nefndin fékk á sinn fund Svein Arason ríkisendurskoðanda og Kristínu Kalmansdóttur og Bjarkeyju Rut Gunnlaugsdóttur frá Ríkisendurskoðun sem kynntu efni skýrslunnar. Í skýrslunni er kannaður faglegur og fjárhagslegur ávinningur af aukinni samvinnu eða sameiningu fimm þjónustustofnana sem þjónusta einstaklinga með fötlun eða skerðingar, þ.e. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem heyra undir velferðarráðuneyti og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Hljóðbókasafn Íslands sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti auk TMF Tölvumiðstöðvar (áður Tölvumiðstöð fatlaðra) sem rekin er af fjórum samtökum fólks með fötlun eða skerðingar með styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir tilstuðlan velferðarráðuneytis.
    Í skýrslunni er hvatt til þess að velferðarráðuneytið greini vandlega og meti faglegan og fjárhagslegan ávinning af flutningi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda í sameiginlegt húsnæði. Auk þess sem kannaðir verði kostir þess að TMF Tölvumiðstöð flytjist með þeim. Ríkisendurskoðun telur að þjónusta megi einstaklinga með fötlun eða skerðingar betur með því að flytja stofnanirnar saman eða sameina þær enda sé algengara en áður að einstaklingar séu með fjölþætta fötlun og þurfi að sækja þjónustu á fleiri en eina stofnun. Þannig mætti samþætta þjónustu og auðvelda aðgengi að henni. Ríkisendurskoðun bendir einnig á að hjá stofnununum starfa margar fagstéttir og með nánari samvinnu og meiri nálægð skapist betri aðstæður til þverfaglegs rannsókna- og þróunarstarfs. Þá er bent á það í skýrslunni að hlutfall starfsmanna sem sinna stoðþjónustu sé hátt og með sameiningu eða samnýtingu þeirra megi ná fram hagræðingu. Þar kemur einnig fram að þessar stofnanir búi við ófullnægjandi húsakost, sem henti illa starfsemi eða sé of lítill og leysa megi húsnæðisvanda stofnananna með því að flytja þær í sameiginlegt húsnæði. Nefndin telur jákvætt að leitað sé leiða til að hagræða í ríkisrekstri og bæta þjónustu en áréttar að mikilvægt er að breytingar í þá veru sem lýst er í skýrslunni verði metnar vandlega áður en tekin verður ákvörðun um þær. Nefndin áréttar mikilvægi þess að við slíkt mat sé sérstaklega hugað að þeirri þjónustu sem um ræðir og þeim hópum einstaklinga sem hana sækja. Varast beri að horfa á þá sem einsleitan hóp og mikilvægt sé að virða sérstöðu hvers hóps.
    Í skýrslunni eru birt viðbrögð mennta- og menningarmálaráðuneytis að skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar og í þeim kemur m.a. fram að þó svo að í skýrslunni sé ekki gerður sérstakur greinarmunur á hugtökunum skerðing og fötlun geta þeir einstaklingar sem sækja þjónustu til framangreindra stofnana gert slíkan greinarmun. Þannig áréttar mennta- og menningarmálaráðuneytið að „einstaklingar sem tilheyra svokölluðum döff heimi, þ.e. þeir sem hafa táknmál að móðurmáli og tilheyra þeim menningarheimi, líta ekki á sig sem fatlaða einstaklinga í skilningi læknisfræðinnar. Hins vegar má segja að sú skerðing sem þeir verða fyrir ef þeir njóta ekki tungumáls síns, geti fallið undir sjónarhorn félagslegrar fötlunar, s.s. þegar félagslegar hindranir gera það að verkum að einstaklingarnir geta ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Helsta hindrunin í þeirra tilfelli er ef þeir geta ekki notið málsamfélags með sínum líkum og/eða fá ekki tilhlýðilega túlkaþjónustu til að taka þátt í samfélaginu.“
    Í skýrslunni er lögð áhersla á að með meiri samvinnu og nálægð stofnananna skapist „betri aðstæður til þverfaglegs rannsókna- og þróunarstarfs sem stuðlar m.a. að aukinni faglegri þróun og markvissari lausnum á vandamálum fatlaðra“. Nefndin bendir á að sú þjónusta sem stofnanirnar veita er oft mjög sérhæfð og því hugsanlegt að hinn faglegi ávinningur sé ofmetinn. Nefndin áréttar einnig mikilvægi þess að við mat á ávinningnum af því að sameina stofnanirnar í sama húsnæði fari fram heildrænt og raunsætt mat. Of algengt er að við sameiningu stofnana sé ætluð hagræðing ofmetin og bera ýmsar skýrslur Ríkisendurskoðunar vitni um það.
    Nefndin bendir á að þjónustustofnanir þær sem nefndar hafa verið eru sumar með aðsetur nálægt annarri þjónustustofnun og skrifstofum samtaka einstakra hópa fólks með fötlun eða skerðingar. Því getur staðsetning þeirra verið mikilvæg fyrir einstaklinga með fötlun eða skerðingu sem geta þá sótt sér heildræna þjónustu á sama stað. Hér má t.d. nefna að þar sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er til húsa er einnig Blindravinnustofan, Blindrafélagið hefur þar aðsetur sem og Fjóla, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, gleraugnaverslun er starfrækt í húsinu og þar starfa augnlæknar. Tilfærsla Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar getur því í reynd haft í för með sér almenna þjónustuskerðingu fyrir þá sem sækja þurfa nauðsynlega þjónustu á fleiri en einn stað.
    Í viðbrögðum velferðarráðuneytis við skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ráðuneytið muni fara að tillögum stofnunarinnar og hefja vinnu við að greina og meta faglegan og fjárhagslegan ávinning af því að flytja Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda í sameiginlegt húsnæði eða sameina stofnanirnar. Nefndin bendir á að áður en lengra er haldið í þeirri vinnu sé nauðsynlegt að tryggja stuðning þeirra samtaka sem hér um ræðir. Þá leggur nefndin ríka áherslu á að ráðuneytið líti sérstaklega til þeirra atriða sem hér hafa verið tilgreind og að við mat á ávinningi af sameiningu eða flutningi í sameiginlegt húsnæði verði fagleg sjónarmið og þjónusta við einstaklingana höfð að leiðarljósi.
    Nefndin áréttar enn fremur að við framkvæmd laga um málefni fatlaðs fólks skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Ávallt þarf að gæta að mannréttindum, virðingu og vernd þeirra sem þjónustunnar njóta.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.
    Brynjar Níelsson, Birgitta Jónsdóttir og Pétur H. Blöndal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. desember 2013.



Ögmundur Jónasson,


form.


Helgi Hjörvar,


frsm.

Karl Garðarsson.



Sigrún Magnúsdóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Willum Þór Þórsson.