Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 157. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 313  —  157. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum (heilbrigðisstéttir, fjölmiðlar o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Sóleyju Ragnarsdóttur og Valdimar Ásbjörnsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þá barst nefndinni umsögn um málið frá Sálfræðingafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að 10. og 11. gr. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs verði breytt í nokkrum atriðum vegna breytinga á starfsheitum heilbrigðisstarfsmanna, til að bæta úr lagatilvísunum og í ljósi breytinga á lagagrundvelli fjölmiðla.
    Sú athugasemd var gerð við 1. gr. frumvarpsins að það væri óljóst hvað réði skiptingu starfsheita á milli einstakra stafliða. Var bent á að allar fagstéttir sem taldar væru upp í 10. gr. laganna, að teknu tilliti til 1. gr. frumvarpsins, væru löggiltar heilbrigðisstéttir. Kom sú skoðun fram að eðlilegra væri annaðhvort að tilgreina allar fagstéttirnar undir einum tölulið eða aðskilja þær allar fullkomlega þannig að hver stétt væri tilgreind undir sérstökum tölulið.
    Að mati nefndarinnar ber að líta til þess að þær heilbrigðisstéttir sem hafa fengið löggildingu eru taldar upp á ítarlegan hátt í 10. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Þá er ráðherra heimilað með útgáfu reglugerðar að fella þær starfsstéttir undir lögin sem ekki eru þar taldar upp. Í lögunum er fjallað sérstaklega um réttindi og skyldur slíkra starfsmanna, m.a. um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er hins vegar einungis að finna heimildir hins opinbera til töku ýmissa gjalda, t.d. heimildir til töku gjalda vegna veitingar atvinnuréttinda og leyfa fyrir atvinnustarfsemi. Í þeim koma hvergi fram efnisreglur af neinu öðru tagi.
    Lög um aukatekjur ríkissjóðs tóku gildi 1. janúar 1992 en þeim hefur verið breytt margsinnis síðan. Athugasemdin sem getið er hér að framan varðar uppsetningu þeirra. Að mati nefndarinnar er hægt að taka undir að samhengi einstakra greina sé að nokkru leyti órökrænt. Svo virðist þó hafa verið í gegnum tíðina allt frá gildistöku laganna. Líta verður til þess hver tilgangur laganna er og hvaða kröfur verður að gera til þeirra í því ljósi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Willum Þór Þórsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. desember 2013.



Frosti Sigurjónsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Árni Páll Árnason.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Vilhjálmur Bjarnason.