Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 317  —  199. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar frá 28. nóvember sl. og fengið á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis til þess að fara yfir helstu þætti þess. Þá hefur nefndin leitað skýringa á einstökum gjaldatilefnum með því að fá fulltrúa allra ráðuneyta á fundi nefndarinnar.
    Einnig hefur nefndin yfirfarið þau erindi sem henni hafa borist. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 1.907 m.kr. til lækkunar gjalda og 3.908 m.kr. til hækkunar tekna á rekstrargrunni.
    Áhrif breytinganna á frumvarpið á rekstrargrunni koma fram í eftirfarandi töflu.

Í milljörðum kr. Fjárlög 2013 Fjáraukalagafrumvarp Breytingartillaga 2. umr. Samtals
Frumtekjur 558,6 -23,1 5,3 540,8
Frumgjöld 498,4 5,6 0,8 504,8
Frumjöfnuður 60,2 -28,7 4,5 36,0
Vaxtatekjur 20,8 -0,7 -1,4 18,6
Vaxtagjöld 84,7 -7,5 -2,7 74,4
Vaxtajöfnuður -63,9 6,9 1,3 -55,8
Heildartekjur 579,4 -23,7 3,9 559,5
Heildargjöld 583,1 -1,9 -1,9 579,3
Heildarjöfnuður -3,7 -21,8 5,8 -19,8

    Nú er áætlað að innheimta tekna skili 5,3 milljörðum kr. hærri tekjum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. Meginskýringin liggur í heldur betri innheimtu á seinni hluta ársins. Þannig hækkar tekjuáætlun vegna fjármagnstekjuskatts, virðisaukaskatts og tekjuskatts lögaðila samtals um 5,9 milljarða kr. Á móti vegur lægri innheimta vörugjalda og lækkun vaxtatekna ríkissjóðs. Á heildina litið gera breytingartillögur nefndarinnar ráð fyrir um 5,8 milljörðum kr. hagstæðari heildarjöfnuði en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu.
    Fjallað er um fjáraukalög í V. kafla laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Þar kemur fram að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skuli leitað í lokafjárlögum. Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana skuli jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nær fjórðungi allra gjaldaliða í fjárlögum. Eru þá ekki meðtaldar breytingar sem verða vegna sameiningar stofnana, flutnings þeirra á milli ráðuneyta eða millifærslu af lið vegna ófyrirséðra útgjalda. Þessi fjöldi liða bendir til þess að fyrrgreind skilgreining á fjáraukalögum sé túlkuð of rúmt og um árabil hefur tíðkast að samþykkja tilefni í fjáraukalögum sem þó geta hvorki talist óvænt né ófyrirséð. Meiri hlutinn telur að hér þurfi að gera bragarbót og bendir á að nú er í undirbúningi nýtt frumvarp til laga um opinber fjármál þar sem ætlunin er að bæta úr ýmsum annmörkum að þessu leyti. Auk lagabreytinga telur nefndin að viðhorfsbreytinga sé þörf þannig að bæði ráðherrar og Alþingi vinni stöðugt að því að draga úr vægi fjáraukalaga. Nokkur árangur hefur náðst á þessu sviði á síðastliðnum árum eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að ýmsir reikningslegir liðir á gjaldahlið fjárlaga koma ekki til endurmats í frumvarpi þessu. Þar má nefna lífeyrisskuldbindingar og afskriftir skattkrafna. Endanlegt uppgjör á slíkum liðum liggur ekki fyrir fyrr en í ríkisreikningi um mitt næsta ár og hugsanlegt að útkoman verði önnur en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Einnig er vakin athygli á því að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 7,5 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda frá fjárlögum skýrast 6,5 milljarðar kr. af lækkuninni af því að ekki var breytt skilmálum skuldabréfs sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands. Í raun og veru lækkar fjármagnskostnaður ríkisins ekki heldur er hluti hans færður beint á eigið fé í staðinn fyrir að færa hann í gegnum rekstrarreikning. Fjárhagsstaða ríkisins er því ekki að batna sem nemur minni vaxtakostnaði.
    Nokkuð ber á því í frumvarpinu að lagðar séu til millifærslur milli verkefna vegna þess að forsendur hafi breyst frá því að fjárlög voru samþykkt. Þar vega millifærslur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu langþyngst. Lagt er til að ónýttar fjárheimildir, m.a. vegna verkefnisins „nám er vinnandi vegur“, falli niður en þess í stað er gerð tillaga um að ráðstafa samsvarandi fjárhæðum til undirbúnings endurskipulagningar, svo sem vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Ekki er ætlunin að nýta þær heimildir fyrr en á næsta ári. Meiri hlutinn átelur þessi vinnubrögð og bendir á að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður og ráðherrar geri þá nýjar tillögur um útgjöld í samræmi við breytta forgangsröðun þannig að tillögurnar rúmist innan fjárhagsramma hvers árs. Engu að síður gerir meiri hlutinn ekki breytingar á fyrirkomulaginu að þessu sinni en beinir því til ráðuneyta að taka upp ný vinnubrögð.
    Einstakar breytingartillögur á gjaldahlið eru skýrðar í álitinu, en meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á því að í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild tveggja rannsóknarnefnda Alþingis hækki um 321,2 m.kr. Heildarkostnaður nefndar um Íbúðalánasjóð og nefndar um sparisjóðina er þá áætlaður um 802 m.kr. Ef framhald verður á því að Alþingi skipi rannsóknarnefndir af þessu tagi telur meiri hlutinn brýnt að afmarka markmið og umfang starfsins miklu betur en gert hefur verið fram til þessa, auk þess sem skýra þarf fjárhagslega ábyrgð og hvernig haga skal kostnaðareftirliti en hvort tveggja hefur verið mjög óljóst og óskilgreint. Í skipunarbréfum rannsóknarnefnda verða þessi atriði að vera miklu skýrari en nú er raunin.
    Gerð er tillaga um 4,5 milljarða kr. framlag til Íbúðalánasjóðs í frumvarpinu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins en meiri hlutinn bendir á að ekki liggur enn fyrir fullnægjandi aðgerðaáætlun um hvernig leysa á fjárhagsvandann til frambúðar og er það verulegt áhyggjuefni. Framlagið er til viðbótar 13 milljarða kr. stofnfjárframlagi fyrr á árinu. Ef ekkert verður að gert stefnir í áframhaldandi umtalsverð framlög á hverju ári til sjóðsins.
    Loks skal þess getið að nefndin leggur til að ekki verði fallist á tillögu í frumvarpinu um 46,7 m.kr. framlag til sendiráðsins í Vín vegna fjárdráttar heldur er miðað við að ráðuneytið beri sjálft þann kostnað þar sem ljóst þykir að fjárhagseftirlit ráðuneytisins var óviðunandi.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR Á GJALDAHLIÐ



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 7. desember 2013.



Vigdís Hauksdóttir,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Sigurður Páll Jónsson.



Haraldur Benediktsson.


Karl Garðarsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.