Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 109. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 333  —  109. mál.
Meiri hluti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun
við samning Evrópuráðsins um tölvubrot).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Maríu Rún Bjarnadóttur og Skúla Guðmundsson frá innanríkisráðuneyti, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Steinunni Rögnvaldsdóttur frá Femínistafélagi Íslands, Sigríði Friðjónsdóttur frá refsiréttarnefnd og Ingibjörgu Elíasdóttur frá Jafnréttisstofu. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Önnu Kristjánsdóttur, Barnaheill, Femínistafélagi Íslands, Hauki Eggertssyni, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Samtökunum '78, umboðsmanni barna og Vantrú.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum 180. og 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þær fela í sér annars vegar að veita einstaklingum með kynáttunarvanda refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda og hins vegar að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar á grundvelli viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gerð verði breyting á 180. gr. almennra hegningarlaga þannig að refsivert verði að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi. Meiri hlutinn vill sérstaklega benda á að með mismunun á grundvelli kynvitundar er átt við mismunun sem beint er gegn einstaklingi eða hópi einstaklinga sem telja sig hafa fæðst í röngu kyni og annaðhvort óska þess að lifa sem einstaklingur/einstaklingar af gagnstæðu kyni eða hafa þegar hafið líf sem slíkir einstaklingar. Við þessa skilgreiningu er litið til gildissviðs laga nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.
    Tilefni þess að 233. gr. a var bætt inn í almennu hegningarlögin með lögum nr. 96/1973 var aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis frá 21. desember 1965. Samkvæmt a-lið 4. gr. samningsins eru aðildarríki skuldbundin til að gera refsiverða með lögum alla útbreiðslu á hugmyndum sem eru byggðar á kynþáttayfirburðum eða óvild, hvatningu til kynþáttamisréttis svo og öll ofbeldisverk eða hvatningu til slíkra verka gegn hvaða kynþætti sem er eða hópi manna af öðrum litarhætti eða þjóðlegum uppruna. Ákvæðinu var svo breytt með 2. gr. laga nr. 135/1996, en þar var m.a. mælt fyrir um að það skyldi jafnframt taka til mismununar á grundvelli kynhneigðar. Í almennum athugasemdum sem fylgdi því frumvarpi kom fram að í skýrslu nefndar um stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi frá október 1994 væri bent á að refsiákvæðum sem fjölluðu um kynþáttamisrétti hefði verið breytt í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á þann veg að refsivernd ákvæðanna næði jafnframt til samkynhneigðra. Kveðið er á um vernd tjáningarfrelsis í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Eigi hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þá segir í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að tjáningarfrelsinu verði ekki settar skorður nema með lögum og verði slíkar skorður að vera í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkis, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Sambærilegar takmarkanir má finna í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Meiri hlutinn bendir á að undantekningar frá meginreglunni um tjáningarfrelsi ber að túlka þröngt og ákvæði 233. gr. a er einstök undantekning sem á fyrst og fremst rætur í alþjóðlegum sáttmála um afnám kynþáttamisréttis.
    Heilt á litið voru þær umsagnir sem bárust nefndinni þess efnis að frumvarpið væri löngu tímabært og til mikilla bóta. Þó komu fram athugasemdir um að bætt yrði í ákvæði 233. gr. a orðunum „kyn eða kynferði“ því að upp hafa komið tilvik þar sem viðhafður er hatursáróður gegn konum. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Í ljósi sögu ákvæðisins er það álit meiri hlutans að ákvæðið eigi ekki við um konur í heild sinni og telur meiri hlutinn því ekki rétt að bæta við orðunum „kyn og kynferði“. Meiri hlutinnn telur að það sé ekki rétt að útvíkka ákvæðið með þeim hætti sem lagt er til enda fellur slíkt undir önnur ákvæði almennra hegningarlaga ef um refsiverða háttsemi er að ræða.
    Meiri hlutinn vill einnig árétta að sú breyting sem gerð er á 233. gr. a felur ekki í sér efnislega breytingu á inntaki ákvæðisins heldur er breytingunni einungis ætlað að skilgreina nánar með hvaða hætti hin ólögmæta tjáning er sett fram. Það er skilningur meiri hlutans að með þessum breytingum sé einvörðungu verið að bæta við minnihlutahóp sem talinn er þurfa sérstaka vernd.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. desember 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Vilhjálmur Árnason,


frsm.


Páll Valur Björnsson.



Elsa Lára Arnardóttir.


Katrín Júlíusdóttir.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.



Svandís Svavarsdóttir.