Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 336  —  91. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25 27. mars 1991, með síðari breytingum (ábyrgð dreifingaraðila).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Málið gekk til nefndarinnar eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Almar Guðmundsson og Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda. Umsögn barst frá Félagi atvinnurekenda eftir 2. umræðu.
    Nefndin ræddi sérstaklega þá breytingu sem hún lagði til á 3. gr. frumvarpsins sem laut að því að skaðsemisábyrgð dreifingaraðila skyldi byggjast á sakarlíkindareglunni. Sakarlíkindareglan er sú bótaregla nefnd þegar tjónvaldur, eða sá sem ábyrgð ber á honum, hefur sönnunarbyrði fyrir því að háttsemi sú sem tjóni olli hafi ekki verið saknæm. Á grundvelli hennar yrði dreifingaraðili að sýna fram á að orsök ágalla sé ekki af hans völdum.
    Í umsögn Félags atvinnurekenda kemur fram nokkur gagnrýni á þessa breytingu sem lýtur að því að með henni sé sett meiri ábyrgð á dreifingaraðila en tilskipun 85/374/EBE mælir fyrir um. Að mati félagsins færi betur á því að taka ákvæði tilskipunarinnar beint upp í stað þess að byggja ábyrgð dreifingaraðila á sakarlíkindareglunni.
    Nefndin ræddi þetta nokkuð og áréttar að í máli C-402/03, Skov Æg og Bilka, kom fram að tilskipunin stæði ekki í vegi fyrir því að aðildarríki gætu mælt fyrir um skaðsemisábyrgð á öðrum grundvelli en hlutlægri ábyrgð. Nefndin bendir einnig á að þegar ákvæði dönsku laganna um skaðsemisábyrgð voru endurskoðuð í kjölfar dómsins var lagt til grundvallar að ekki yrði gengið lengra í að takmarka ábyrgð dreifingaraðila en leyfilegt væri samkvæmt Evrópurétti. Þar var litið til þess að með því að byggja ábyrgð dreifingaraðila á sakarlíkindareglunni væri verið að tryggja rétt neytenda. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið sem liggja að baki ákvæði dönsku laganna um skaðsemisábyrgð.
    Nefndin vill að lokum árétta að með þeim breytingum sem hún lagði til á frumvarpinu er hlutur dreifingaraðila gerður sterkari. Í gildandi lögum þarf tjónþoli enga sök að sanna og dreifingaraðili getur á engan hátt varist enda ber hann hlutlæga ábyrgð. En með sakarlíkindareglunni getur dreifingaraðili firrt sig ábyrgð ef hann sannar að engin sök liggi hjá honum. Einnig telur nefndin rétt að benda á að lög um skaðsemisábyrgð takmarka ekki rétt tjónþola til bóta eftir almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga eða samkvæmt reglum í öðrum lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 9. desember 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Höskuldur Þórhallsson.



Elsa Lára Arnardóttir.


Katrín Júlíusdóttir.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.