Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 42. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 344  —  42. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland
um málefni norðurslóða.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða, ásamt því að vinna að sameiginlegri vestnorrænni stefnumörkun varðandi norðurslóðir á þeim sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman og þau eru á einu máli. Utanríkisráðherra Íslands hitti utanríkisráðherra landanna tveggja reglulega til að ræða málefni norðurslóða og önnur sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna, helst árlega eða annað hvert ár hið minnsta. Fundurinn verði haldinn samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins ef mögulegt er.
    Málið má telja meðal forgangsatriða í utanríkismálum á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og einnig er ríkur vilji til slíks samstarfs samkvæmt yfirlýsingum landsstjórna í Færeyjum og á Grænlandi. Kostnaðarmat við málið barst ekki, en við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ekki yrði um aukinn kostnað að ræða við framkvæmd tillögunnar, enda geti hún sem best fallið að þeirri framkvæmd sem fyrir hendi er.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 2/2012 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 6. september 2012 í Gjógv og Þórshöfn í Færeyjum en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. desember 2013.



Birgir Ármannsson,


form.


Silja Dögg Gunnarsdóttir,


frsm.


Árni Þór Sigurðsson.



Frosti Sigurjónsson.


Sigurður Páll Jónsson.


Vilhjálmur Bjarnason.