Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 345  —  76. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka (frjálsir fjármagnsflutningar)
við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Minnisblað barst um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti en við vinnslu þess var aflað umsagna frá Fjármálaeftirlitinu (FME), Seðlabanka Íslands (SÍ) og Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF).
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009, frá 16. september 2009, um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2560/2001, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012, frá 14. mars 2012, um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) 924/2009. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 3. nóvember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Reglugerðirnar kveða á um annars vegar greiðslur í evrum yfir landamæri og rekstrarsamhæfni greiðslukerfa hins vegar.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um hvort tekið hefði verið til skoðunar að útvíkka gildissvið reglugerðar (EB) nr. 924/2009 með þeim hætti að hún tæki almennt til greiðslna í erlendum gjaldmiðlum. Vann fjármála- og efnahagsráðuneyti minnisblað um þetta efnisatriði fyrir nefndina, svo sem að framan greinir. Fram kemur í minnisblaðinu að heimild reglugerðarinnar til útvíkkunar á gildissviði skv. 2. mgr. 1. gr., sbr. 14. gr., nái eingöngu til gjaldmiðils viðkomandi aðildarríkis, í tilviki Íslands til íslensku krónunnar. Því komi ekki til skoðunar að útvíkka gildissviðið svo að hún taki almennt til greiðslna í erlendum gjaldmiðlum. Sömuleiðis er tekið fram að þeir aðilar er skilað hafi umsögnum um málið til ráðuneytisins hafi verið sammála um að varhugavert sé að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar; slíkt hefði væntanlega neikvæð kostnaðarleg áhrif á notendur greiðsluþjónustu innan lands. Í ljósi þessa telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að ekki sé ráðlegt að svo stöddu að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar við innleiðingu í íslenskan rétt.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að með reglugerðunum eigi að tryggja að gjöld í evrum verði hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna innan lands. Á það var hins vegar bent að vegna gjaldeyrishafta njóti Ísland að óbreyttu undanþágu skv. 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins, sem gangi framar öðrum ákvæðum EES-samningsins.
    Innleiðing framangreindra gerða kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fjármála- og efnahagsráðherra í því skyni leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 146/2004, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðanna. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðanna muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnað eða stjórnsýslulegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 10. desember 2013.



Birgir Ármannsson,


form.


Frosti Sigurjónsson,


frsm.


Árni Þór Sigurðsson.



Sigurður Páll Jónsson.


Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.