Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 411  —  177. mál.

3. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum
(skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir).


Frá Jóni Þór Ólafssyni, Birgittu Jónsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni.


    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna bætist: enda hafi stjórn lífeyrissjóðsins tryggt að sjóðfélagar hafi greiðan aðgang að öllum upplýsingum um fjárfestingar sjóðsins sem brjóta ekki gegn lögum um persónuvernd.


Greinargerð.

    Reynslan í kjölfar hruns fjármálakerfisins hefur sýnt að stjórnendur hafa á margan hátt brugðist eftirlitsskyldum sínum. Sjóðfélagar, sem eru lögum samkvæmt skyldaðir til að festa fé sitt í lífeyrissjóðum, eiga fullan rétt á að hafa aðgang að nákvæmum upplýsingum um það í hverju lífeyrissjóðir fjárfesta. Til að auka aðhald og stórauka gegnsæi er mikilvægt að sjóðfélagar hafi greiðan aðgang að upplýsingum um fjárfestingar síns lífeyrissjóðs. Til að svo verði er mikilvægt að skylda stjórnir lífeyrissjóða til að upplýsa sjóðfélaga um allar fjárfestingar sem brjóta ekki gegn lögum um persónuvernd.