Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 425  —  210. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn bendir á að frumvarpið er lagt fram til að draga úr umfangi þess eftirlits með velferð dýra sem kveðið er á um í gildandi lögum. Gildandi lög voru samþykkt á Alþingi sl. vor en nokkur umræða varð þá í atvinnuveganefnd um eftirlitið. Undanfarin ár hafa komið upp nokkur erfið mál á þessu sviði og kemur fram í umsögn um frumvarpið að slík mál hafi styrkt skoðun margra um að fremur bæri að efla eftirlitið en að draga úr því. Einnig kemur fram í sömu umsögn að ekki veiti af eftirlitinu sem hafi forvarnagildi og veiti aðhald auk þess sem það getur stuðlað að því að vandamál séu greind.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að eftirlit með velferð dýra verði byggt á áhættuflokkun frekar en að reglulegar eftirlitsheimsóknir eigi sér stað. Ekkert liggur fyrir um sjálfa áhættuflokkunina, ekkert kemur fram um hvaða fjárhæðir munu sparast og því síður er ljóst hvernig breytingin kann að stuðla að velferð dýra.

Alþingi, 12. desember 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.