Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 442  —  161. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Málið gekk til nefndarinnar eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og stjórn Lögmannafélags Íslands eftir 2. umræðu.
    Nefndin fjallaði um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í VI. kafla frumvarpsins, á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum, en þar er lagt til að ákveðin verkefni verði færð frá innanríkisráðuneytinu til sýslumanna. Í 20. gr. frumvarpsins er heimildarákvæði fyrir ráðherra um að ákveða að verkefni sýslumanna samkvæmt lögunum verði falin einu sýslumannsembætti til einföldunar. Nefndin ræddi sérstaklega þau tilvik ef sýslumaður hafnar að fella málflutningsréttindi úr gildi. Nefndin bendir á að hægt verður að kæra þær ákvarðanir til innanríkisráðuneytisins og telur nefndin skýrt að Lögmannafélag Íslands eigi aðild að þeim málum og þar með kærurétt. Nefndin áréttar þá skoðun sína að rétt sé að ákvarðanir í þessum málaflokki séu teknar af sýslumanni og að kæruheimild verði til ráðuneytisins.
    Nefndin bendir einnig á að á Norðurlöndunum er fyrirkomulag á veitingu lögmannsréttinda og niðurfellingu þeirra ekki samræmt á milli landa og ýmsar stjórnsýslustofnanir sinna þessum verkum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2014. Þar sem skammt er til áramóta sem og að nokkur vinna fylgir því að flytja málaflokka frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana leggur nefndin til að gildistökudeginum verði breytt í 1. febrúar 2014 í stað 1. janúar 2014.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:

    1. málsl. 25. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2014.

Alþingi, 19. desember 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Haraldur Einarsson.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Katrin Jakobsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.