Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 445  —  3. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga
fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
    Eftir afgreiðslu þessa máls til 2. umræðu lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta (þskj. 339 í 233. máli). Ein meginforsenda þess að ákvæði þess frumvarps komist til framkvæmda er að fjármögnun fjárhagsaðstoðarinnar sé að fullu tryggð. Til þess að svo megi verða leggur meiri hluti til breytingu á 16. gr. frumvarpsins þannig að í stað þess að gjaldhlutfall sérstaks gjalds samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara verði 0,0172% verði það 0,0212%. Þess má geta að í umsögn skrifstofu opinberra fjármála, sem birt er sem fylgiskjal við þskj. 339, er gert ráð fyrir því að á móti aukningu útgjalda embættis umboðsmanns skuldara, vegna fjárhagsaðstoðarinnar, vegi jafnmikil hækkun ríkistekna í formi aukinnar gjaldtöku á gjaldskylda aðila til greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara og afkoma ríkissjóðs verði þannig óbreytt. Er í framhaldinu sérstaklega vísað til þess að gera þurfi þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til. Til þess að tryggja að frá byrjun verði ljóst hvernig ráðstafa eigi þeim tekjum embættisins sem til verða komnar vegna þeirrar tillögu sem hér er tíunduð og tryggja yfirsýn stjórnvalda yfir málaflokkinn leggur meiri hlutinn til þá breytingu að á undan 16. gr. frumvarpsins, í kafla um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, með síðari breytingum, komi tvær nýjar greinar. Í hinni fyrri verði kveðið á um að sérstakt gjald, samkvæmt lögunum, skuli renna til reksturs umboðsmanns skuldara og greiðslu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Í hinni seinni verði kveðið á um að embættinu sé skylt að gefa ráðherra skýrslu, fyrir 1. júlí ár hvert, um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs og áætlaðan kostnað vegna fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.
    Eins og fram kom í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar fyrir 2. umræðu (þskj. 315) töldu ýmsir að með tillögum 17. gr. fengju fyrirtæki röng skilaboð. Einnig var talið að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð og dregið í efa að lækkun tekjuskattsfrádráttarhlutfalls mundi á endanum skila ríkissjóði þeirri niðurstöðu sem lagt væri upp með.
    Meiri hlutinn leggur til að IX. kafli, þ.e. 17. gr. frumvarpsins, falli brott. Þetta er gert í tengslum við samkomulag þingflokka um lok þingstarfa fyrir jólahlé Alþingis.

Breyting á ákvæðum laga er varða Ríkisútvarpið ohf.
    Nefndinni barst erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar kom fram að mennta- og menningarmálaráðherra hefði óskað eftir því við fjárlaganefnd að lögð yrði til breyting á tilteknum lið frumvarps til fjárlaga þar sem gert væri ráð fyrir 150 millj. kr. lækkun útgreiðslu úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins og sömu fjárhæð yrði ráðstafað til hækkunar á lið sem snerti háskólastarfsemi. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar varð meiri hluti fjárlaganefndar við þessari beiðni og lagði fram breytingartillögu fyrir 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.
    Til þess að tryggja að ekki verði þörf á frekari aðhaldsaðgerðum hjá Ríkisútvarpinu og að fjármagn fáist til stuðnings við starfsemi háskóla leggur meiri hlutinn til breytingu á 21. gr. frumvarpsins. Þannig verði í henni kveðið á um frestun á gildistöku tiltekinna ákvæða laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, þ.e. ákvæða um aðra starfsemi, um hlutfall viðskiptaboða og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar og um tekjustofna.

Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða, sem fjármagnað er með hluta af gjaldstofni tryggingagjalds, verði fellt brott á árunum 2013 og 2014.

Lagfæring á ákvæðum um úrvinnslugjald.
    Að 2. umræðu lokinni bárust nefndinni ábendingar um að smávægilegar villur væri að finna í 44. gr. frumvarpsins. Þannig væri krónutala í f-lið hennar röng svo næmi 1 kr. og ranglega væri miðað við að leggja ætti úrvinnslugjald miðað við kr./kg. í stað kr./stk. Meiri hlutinn leggur til lagfæringu á framangreindu.

Gjöld vegna innlagnar á sjúkrahús.
    Í tengslum við samkomulag þingflokka um lok þingstarfa fyrir jólahlé Alþingis leggur meiri hlutinn til að XX. kafli, þ.e. 46. og 47. gr., frumvarpsins, falli brott.

Leiðréttingar á texta nefndarálits fyrir 2. umræðu.
    Nefndinni barst ábending þess efnis að meinleg villa hefði slæðst inn í nefndarálit meiri hlutans við 2. umræðu (sjá þskj. 315). Villuna er að finna í undirkafla kafla sem ber heitið Tillaga að nýjum köflum, nánar tiltekið undirkafla sem ber heitið Gildissvið slysatryggingar og lögboðin ábyrgðartrygging. Í umfjöllun um efni tillögunnar kemur fram að lagt sé til að „sá sem verður fyrir slysi og nýtur tryggingar skv. IV. kafla laganna og einnig samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda sæki framvegis rétt sinn til hlutaðeigandi tryggingafélags ef bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda en ekki til sjúkratrygginga almannatrygginga“ (skáletrun nefndarinnar). Meiri hlutinn vekur athygli á að þarna er ranglega vísað til þess að sá sem verður fyrir slysi eigi undir þessum tilteknu kringumstæðum ekki að sækja rétt sinn til sjúkratrygginga almannatrygginga. Hið rétta er að hann á að sækja rétt sinn til slysatrygginga almannatrygginga eftir að hafa tæmt rétt sinn til lögboðinna trygginga.
    Þá bendir meiri hlutinn á að í sama nefndaráliti kemur fram að hann telji hækkun skólagjalda þess bær að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á. Þarna er um ónákvæma notkun á hugtökum að ræða. Átt er við að hækkun skrásetningargjalda í opinbera háskóla hefði þessi áhrif enda er nemendum í slíkum skólum ekki gert að greiða skólagjöld þó að í öðrum skólum séu skráningagjöld oft flokkuð sem skólagjöld.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. desember 2013.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.

Sigurður Páll Jónsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Brynjar Níelsson.