Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 460  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fyrsti minni hluti bendir á að fjárlagafrumvarp hvers árs er helsta stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er því miður boðuð afturhaldssöm atvinnustefna og byggðastefna sem stuðlar að veikingu landsbyggðar auk óljósrar menntastefnu. Fjármunir eru veittir til þeirra sem nóg hafa frá þeim sem eru ekki aflögufærir.
    Við meðferð frumvarpsins hafa þó verið gerðar breytingar til batnaðar og mun fjárlaganefnd í heild sinni flytja tillögur sem samkomulag varð um.
    Ástæða er til að staldra sérstaklega við nokkur mál í þessu nefndaráliti.

Bankaskattur og skuldamál.
    Gert er ráð fyrir tekjum af bankaskatti og mun verða úthlutað af þeim lið í samræmi við samþykkt lagafrumvörp á árinu 2014. Mörgum spurningum er ósvarað varðandi það málefni. Ekki er búið að greina hverjir fá niðurfelldar skuldir samkvæmt tillögu sérfræðingahóps forsætisráðuneytisins (sjá til dæmis fyrirspurn frá formanni Samfylkingarinnar í þingskjali 287 í 219. máli).
    Greina þarf eignastöðu lántaka í íbúðarhúsnæði sem er veðandlag lánsins sem á að greiða niður samanborið við eignastöðu lántaka á heimilum sem fá ekki niðurgreiðslu.
    Greina þarf hvenær lán sem fá leiðréttingu voru tekin og skipta þeim eftir höfuðborgarsvæði og landsbyggð til að hægt sé að meta í hvaða tilvikum verðbólga hefur verið hærri en hækkun vísitölu húsnæðisverðs. Auk þess þarf að greina hvenær þau húsnæðislán, sem ekki á að leiðrétta vegna aðgerða sem stjórnvöld hafa þegar gripið til, voru tekin.
    Við framangreinda liði þarf að skoða hver eru áhrifin af því að draga frá fyrri aðgerðir stjórnvalda og hverjir það eru sem fá hámarksniðurgreiðslu.
    Skoða þarf áhrifin eftir tekjutíundum heimila, heildarupphæðir og fjölda heimila í hverri tekjutíund.
    Greina þarf hver eru áhrif niðurfellingarinnar á hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum. Hver er fjöldi heimila sem mun greiða undir 20% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað ef af niðurfellingu verður en greiðir meira en 20% núna.
    Hvað kostar að bæta Íbúðalánasjóði hugsanlegt tap vegna hraðari uppgreiðslu lána?
    Hvert er áætlað tap Landsbankans vegna hraðari uppgreiðslu lána?
    Þörf er á nákvæmari greiningu á áhrifum niðurfellingarinnar á verðbólgu og aðrar hagstærðir en birt var samhliða skýrslu sérfræðingahópsins.
    Seðlabankinn hefur sagt að verðbólguáhrif gætu verið vanmetin sem og áhrif á einkaneyslu og viðskiptajöfnuð. Allt eru þetta þættir sem gætu torveldað afnám gjaldeyrishafta.
    Þörf er á að meta hvaða aðrar aðgerðir ríkið gæti farið í fyrir sambærileg útgjöld og meta hver áhrif þeirra væru á helstu hagstærðir.
    Greina þarf hvernig koma á til móts við leigjendur þannig að þyngri greiðslubyrði vegna verðtryggðrar leigu verði bætt.
    Námslán þarf að meðhöndla eins og önnur verðtryggð lán.
    Aðrar aðgerðir sem mætti skoða væri niðurgreiðsla á skuldum ríkissjóðs, skattalækkanir sem næðu til almennings, aðgerðir sem auðvelduðu afnám gjaldeyrishafta og uppbyggingu innviða samfélagsins, t.d. þeirra sem eru líklegir til að skapa aukna atvinnu og gjaldeyristekjur.
    Framantalið er engan veginn tæmandi en gefur til kynna hversu mörgum spurningum er enn ósvarað varðandi áform stjórnvalda um skuldaniðurfellingu.

Samkomulag um afgreiðslu mála.
    Formenn stjórnmálaflokkanna gerðu með sér samkomulag um þinglok fyrir jól. Í því samkomulagi fólust tillögur sem hafa bæði áhrif á tekjur og gjöld á árinu 2014.
    Í fyrsta lagi mun samráðsnefnd um veiðigjöld, sem Alþingi kýs samkvæmt gildandi lögum, fjalla um möguleika á álagningu á nýjar fisktegundir í íslenskri lögsögu, með það að markmiði að unnt verði að leggja slíkt gjald á árið 2014. Þetta atriði skiptir miklu máli og 1. minni hluti vonar að vinna nefndarinnar leiði til útboðs á kvóta til leigu sem gefi tekjur í ríkissjóð sem munar um.
    Fyrirhuguð gjaldtaka af sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús er dregin til baka. Um er að ræða 290 millj. kr. og verða lagaheimildir til gjaldtökunnar felldar út við 3. umræðu um bandorm sem fjallar um tekjuhluta frumvarpsins. 1. minni hluti fagnar þessari tillögu sérstaklega enda fráleitt að taka gjald til reksturs sjúkrahúsanna af þeim sem veikastir eru.
    Fjórar tillögur um eflingu nýsköpunar og skapandi greina eru gerðar. Hönnunarsjóður og Myndlistasjóður fá hvor um sig 25 millj. kr. en í fjárlagafrumvarpinu voru framlög til þeirra engin. Tillögurnar eru því til bóta þó að ljóst sé að sjóðirnir geti ekki styrkt mörg verkefni sem verðskulda styrk.
    Gerð er tillaga um að Rannsóknasjóður fái 50 millj. kr. viðbótarframlag sem er til bóta þótt ekki náist sú upphæð sem stefnt var að. Þá skiptir miklu máli fyrir nýsköpunarverkefni fyrirtækja að fallið verði frá þaki á endurgreiðslur vegna þeirra eins og tillaga er gerð um.
    Verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir fær 50 millj. kr. framlag og getur því haldið áfram á árinu 2014. Byggðastofnun hefur á árinu 2013 unnið með íbúum Raufarhafnar, Bíldudals, Skaftárhrepps og Breiðdalshrepps. Í þessari nýstárlegu nálgun stofnunarinnar felast sértækar aðgerðir og vinna með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða duga ekki ein til. Verkefnið verður ekki skorið niður eins og til stóð og er það vel.
    Þá var samið um að þverpólitísk vinna um stefnumörkun á grundvelli þingsályktunar um fæðingarorlof fari af stað. Ekki er gert ráð fyrir að sú vinna leiði til útgjalda á árinu 2014 en 1. minni hluti fagnar þverpólitískri stefnumótunarvinnu um fæðingarorlof og um það hvernig brúa megi bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Lög um loftslagsmál.
    Gert er ráð fyrir 700 millj. kr. tekjum af losunarheimildum samkvæmt EES-samningnum. Gert er ráð fyrir að heimildir ársins 2013 og 2014 verði boðnar upp og samtals gefi þetta 700 millj. kr. í tekjur. Hins vegar á helmingur teknanna að renna til umhverfismála samkvæmt lögum nr. 70/2012. Ekki er gert ráð fyrir þeim útgjaldalið í breytingartillögum meiri hlutans og ljóst að gefin eru skilaboð um að breyta eigi lögum um loftslagsmál sem leiði til þess að helmingur teknanna renni ekki til umhverfismála. Engin fagleg umræða hefur farið fram til að undirbyggja þessa ákvörðun. Þessu mótmælir 1. minni hluti harðlega.

Vinnumálastofnun.
    Í nefndaráliti við 2. umræðu benti 1. minni hluti á að atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert frá hruni og stendur nú í rúmum 4%. Það er þó óásættanlega hátt hlutfall sem þýðir að enn eru um 7.000 einstaklingar án atvinnu. Há niðurskurðarkrafa var gerð á Vinnumálastofnun, svo há að talið var að hún mundi ekki geta sinnt hlutverki sínu hvað varðar ráðgjöf til atvinnuleitenda og miðlun atvinnu. Það er mikilvægt að starfsskilyrði stofnunarinnar verði þannig að hún geti uppfyllt sitt lögbundna hlutverk. Fjárlaganefndin öll leggur til að niðurskurður á Vinnumálastofnun verði dreginn til baka og því fagnar 1. minni hluti.

Viðbótarniðurskurður á ráðuneyti.
    Meiri hlutinn lagði til 5% niðurskurð að jafnaði hjá öllum ráðuneytunum. 1. minni hluti bað um skrifleg svör við eftirfarandi spurningum:
     1.      Á hvaða sviðum mun stjórnsýslan veikjast vegna aðgerða sem gripið verður til?
     2.      Hvað fækkar um mörg störf vegna þessa?
     3.      Hve mörgum nýjum nefndum og hópum er gert ráð fyrir í fjárlögunum sem starfa að málefnum ráðuneytisins?
    Ráðuneytin svöruðu nánast öll með samræmdum hætti að ekki væri mögulegt að leggja endanlegt mat á hver áhrif aðhaldskröfunnar yrðu en augljóst væri að svo mikið aðhald til viðbótar niðurskurði undanfarinna ára hlyti að hafa umtalsverð áhrif á rekstur ráðuneytanna. Einnig kemur fram í svörum ráðuneytanna að þau muni grípa til samræmdra ráðstafana eins og kostur er varðandi ýmis stoðkerfi sem samræma megi en óhjákvæmilegt væri að segja upp starfsfólki í einhverjum mæli.
    Samfara niðurskurði í stjórnsýslunni undanfarin ár hefur verið gripið til ráðstafana til að fækka ráðuneytum og styrkja starfseiningar. 1. minni hluti varar við frekari niðurskurði í stjórnsýslunni og telur að ef lengra verður gengið muni hún veikjast þannig að skaði geti hlotist af.

Vinnubrögð.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta við 2. umræðu fjárlaga var sagt frá því að vinna fjárlaganefndar við afgreiðslu mála fyrir 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins hefði einkennst af flýti og örum breytingum á tillögum og skjölum. Það vinnulag var gagnrýnt og varað við því að vegna þess gætu mistök átt sér stað sem gætu kallað á vandamál á árinu 2014 í rekstri stofnana. Vinna fjárlaganefndar fyrir 3. umræðu hefur ekki verið skárri. Öllum óskum 1. minni hluta um að fá gesti á fund nefndarinnar var hafnað. Fundir voru stuttir og ómarkvissir. Tillögur vegna áhrifa af ráðstöfunum til niðurfærslu á verðtryggðum fasteignalánum upp á 23 milljarða kr. voru ræddar og afgreiddar á innan við klukkustund samtals á tveimur fundum sama daginn.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega vinnubrögðin í nefndinni bæði við fjáraukalagafrumvarp 2013 og fjárlagafrumvarp 2014.

Alþingi, 19. desember 2013.



Oddný G. Harðardóttir.