Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 261. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 483  —  261. mál.




Fyrirspurn



til utanríkisráðherra um fjármögnun öryggissveita í Írak.


Frá Birgittu Jónsdóttur.



     1.      Hve miklum fjármunum hefur íslenska ríkið varið í þjálfunarverkefni NATO í tengslum við Írak? Fjárhæðin óskast sundurliðuð eftir árum og verkefnum.
     2.      Hvaða upplýsingar fengu íslensk stjórnvöld um það hvernig fjárframlögum í NTM-I- verkefnið yrði varið og í hverju þjálfun og störf öryggissveitanna fælust?
     3.      Er ráðherra kunnugt um efni heimildarmyndar Guardian og BBC um öryggissveitirnar frá 6. mars 2013 sem byggist m.a. á skjölum um Íraksstríðið sem birt voru á vef Wikileaks árið 2010?
     4.      Er ráðherra kunnugt um uppljóstranir á vef Wikileaks um starfsemi öryggissveitanna, þ.e. um:
              a.      rekstur öryggissveitanna á svokölluðum pyndingafangelsum í Írak,
              b.      að yfirmaður NTM-I-verkefnisins kom að uppbyggingu fangelsa, t.d. með ráðgjöf við uppsetningu,
              c.      að opinber stefna bandarískra yfirvalda og NATO hafi verið að bregðast ekki við grunsemdum og vitneskju um pyndingar í fangelsum öryggissveitanna,
              d.      að sjía-múslímar í Írak voru teknir inn í svonefndar SPC-sveitir, sem heyrðu undir fyrrnefnt NTM-I-verkefni, til að beita súnní-múslíma hörku í kjölfar uppreisnartilburða þeirra gegn Bandaríkjaher og veru NATO í landinu?
     5.      Hafa íslensk stjórnvöld brugðist á einhvern hátt við, eða hafa þau ráðgert að bregðast við, framkomnum upplýsingum um starfsemi öryggissveitanna sem Ísland tók þátt í að fjármagna? Hafa þau krafist skýringa innan NATO á þeim? Ef svo er, með hvaða hætti?
     6.      Telur ráðherra ásættanlegt að íslenska ríkið liggi undir ámæli fyrir að hafa tekið þátt í að fjármagna þjálfun öryggissveita sem hafa orðið uppvísar að afar grófum pyndingum, limlestingum og manndrápum?


Skriflegt svar óskast.