Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 265. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 488  —  265. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum
(skatthlutfall og fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna, sbr. a- og b-lið 1. gr. nýsamþykktra laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014:
     a.      Í stað „25%“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 25,3%.
     b.      Í stað „25%“ tvívegis í 4. tölul. 1. mgr. kemur: 25,3%.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 5. tölul. 1. mgr. 66. gr. skal fjárhæð skv. 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. vera 3.480.000 kr. vegna ársins 2014.

3. gr.

    Ákvæði 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda 2014 og álagningu 2015.
    Ákvæði 2. gr. öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er boðað að miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækki úr 25,8% í 25% frá og með 1. janúar 2014 og hefur sú breyting þegar verið lögfest, sbr. lög um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki). Jafnframt hefur ríkisstjórnin lýst yfir því að hún hyggist beita sér fyrir heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu í áföngum með einföldun að markmiði. Í ljósi stöðu kjaraviðræðna er í frumvarpi þessu lögð fram tillaga um aðra útfærslu á framangreindri breytingu. Lagt er til að skatthlutfall í miðþrepi tekjuskatts einstaklinga verði 25,3%, jafnframt því að efri mörk lægsta þreps tekjuskatts hækki í 290 þús. kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2014. Að teknu tilliti til hækkunar launavísitölu síðastliðna tólf mánuði hefðu mörkin að óbreyttu orðið 256 þús. kr. á mánuði. Þessi breyting felur það í sér að þeir tekjulægri fá meiri ábata af breytingunni en áður eins og fram kemur á eftirfarandi skýringarmynd. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er áfram stefnt að því að tekin verði frekari skref í átt til einföldunar skattkerfisins þegar við framlagningu frumvarps til fjárlaga 2015.
    Steingrímur J. Sigfússon, Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson standa að flutningi málsins með fyrirvara.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið kveður á um breytingu á tekjuskattshlutfalli manna í miðþrepi tekjuskatts úr 25% samkvæmt nýsamþykktum lögum í 25,3%.

Um 2. gr.

    Í 5. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, þ.e. tekjuviðmiðunarmörkin milli skattþrepanna, skuli taka breytingum í upphafi árs í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað uppfærslu í takt við breytingar á launavísitölu verði fjárhæðarmörk af tekjuskattsstofni skv. 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna 3.480.000 kr. á árinu 2014.

Um 3. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.