Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 492, 143. löggjafarþing 204. mál: tekjuskattur (afleiðuviðskipti o.fl.).
Lög nr. 142 27. desember 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (afleiðuviðskipti, vatnsveitur og fráveitur, arðsúthlutun til eigenda félaga, millilandasamruni, milliverðlagning, sérstakur fjársýsluskattur, eindagi).


1. gr.

     10. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Allir aðilar sem hafa tekjur af afleiðusamningum hér á landi skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum.

2. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Stofnanir eða félög í meirihlutaeigu ríkis og/eða sveitarfélaga, að því leyti sem þeim hafa verið falin lögbundin verkefni vegna reksturs vatnsveitu og/eða fráveitu enda sé bæði rekstur og efnahagur hinna lögbundnu verkefna að fullu aðgreindur bókhaldslega frá annarri starfsemi.

3. gr.

     3. og 4. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     Á eftir orðunum „Söluhagnaður eigna“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: þ.m.t. hagnaður af uppgjöri afleiðusamninga.

5. gr.

     Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Söluhagnaður af afleiðum, sbr. 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 8. gr., telst ávallt til skattskyldra tekna á söluári.

6. gr.

     Á eftir 1. mgr. 51. gr. laganna koma átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi sem er heimilisfast í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Við slíkan samruna hlutafélaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið er, frá og með uppgjörsdegi efnahagsreikninga samkvæmt samrunaáætlun. Sé um hlutafélög að ræða sem eru heimilisföst í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema þau geti sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.
     Við samruna yfir landamæri, þar sem innlent félag er yfirtekið, skal fara með eignir, réttindi, kröfur og skuldbindingar sem eru yfirteknar og yfirfærðar, sbr. 2. málsl. 2. mgr., sem seldar eða innleystar væru. Leggja skal fram útreikninga á gangverði eigna með samrunaáætlun og skulu þeir byggjast á mati sérfræðinga og staðfestir af löggiltum endurskoðendum félagsins, sbr. XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þegar tilkynnt er um staðfestan samruna yfir landamæri og afskráningu félags skal jafnframt leggja fram skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður um þann skattstofn sem slíkur samruni hefur í för með sér. Skattskyldar tekjur skal reikna út miðað við mismun á gangverði eigna og skattalegu stofnverði þeirra að teknu tilliti til áður fenginna fyrninga á þeim uppgjörsdegi sem efnahagsreikningur samrunaáætlunar miðast við og skal ákvörðun skatts taka mið af því tímamarki. Við útreikning skulda skal einungis miða við skuldir og skuldbindingar skv. 75. gr.
     Ákvörðun skatts samkvæmt ákvæði þessu skal hafa farið fram innan tveggja mánaða frá því að samruni er staðfestur með tilkynningu til hlutafélagaskrár og fellur hann í gjalddaga 10 dögum síðar. Við útreikning skattskyldra tekna samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að undanskilja þær eignir skattlagningu sem eftir verða hér á landi og gætu talist til reksturs fastrar starfsstöðvar í eigu hins sameinaða félags enda verði hún skráð hér á landi.
     Fresta má greiðslu á þeirri skattskuld sem er gjaldfallin skv. 4. mgr. í allt að fimm almanaksár. Höfuðstóll skattskuldar skal bera vexti til greiðsludags í samræmi við almenna óverðtryggða vexti af peningakröfum sem birtir eru á vef Seðlabanka Íslands. Félög sem óska eftir frestun skulu hafa staðið skil á skattframtali fyrir liðin tekjuár og þann hluta tekjuárs sem efnahagsreikningur samrunaáætlunar miðast við. Ef eignir, réttindi og skuldbindingar eru færðar til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja fellur frestun á greiðslu eftirstöðva skattskuldar niður frá og með næsta gjalddaga.
     Afborgun af höfuðstól skattskuldarinnar skal að lágmarki á hverju tekjuári eftir samrunann nema 1/ 5 af hinni frestuðu fjárhæð þar til greitt hefur verið að fullu. Gjalddagi er 1. nóvember ár hvert og eindagi 15 dögum síðar. Reikna skal dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. 114. gr. hafi greiðsla ekki farið fram á eindaga. Að öðru leyti en greinir í þessu ákvæði skulu ákvæði laga þessara um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu gilda eftir því sem við á.
     Félag sem hefur fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skal leggja fram bankatryggingu til tryggingar greiðslunni til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. Bankatrygging skal tryggja greiðslu á höfuðstól kröfunnar ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skal leggja fram bankatryggingu óháð fjárhæðarmörkum í þeim tilvikum þar sem ekki er fyrir hendi tvísköttunarsamningur með ákvæði um innheimtuaðstoð eða aðrir samningar um aðstoð við innheimtu í heimilisfestarríki yfirtökufélags. Árlega, á meðan frestur varir, skal yfirtökufélag skila ársreikningi og skýrslu til ríkisskattstjóra í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður þar sem fram koma upplýsingar um hinar yfirfærðu eignir, svo sem sölu þeirra eða aðrar ráðstafanir. Sé skýrslu ekki skilað fyrir 1. október ár hvert gjaldfellur hin frestaða fjárhæð frá og með næsta gjalddaga.
     Sömu reglur gilda eftir því sem við á þegar um innlent yfirtökufélag er að ræða. Fari skattalegt uppgjör ekki fram í samræmi við gangverðsreglur í fyrrverandi heimilisfestarríki skal eftir atvikum miða skattalegt stofnverð eigna við upphaflegt kostnaðarverð að frádregnum fyrningum umreiknað í íslenskar krónur eða starfrækslugjaldmiðil samkvæmt gengi á dagsetningu efnahagsreiknings samrunaáætlunar. Sé yfirfærslan byggð á gangverðsútreikningi skal sýnt fram á að skattuppgjör hafi tekið mið af því.
     Framangreind ákvæði eiga ekki við nema heimild sé fyrir hendi til að afla nauðsynlegra upplýsinga á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd samruna yfir landamæri, m.a. um bankatryggingu, skýrslur o.fl.

7. gr.

     Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði þessarar greinar gilda, eftir því sem við á, þegar yfirtökufélag skv. 2. mgr. 51. gr., við samruna yfir landamæri, er heimilisfast hér á landi enda hafi verið sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi hafi verið að ræða í hinu yfirtekna félagi. Tap flyst ekki milli félaga nema sannað sé með fullnægjandi hætti að það hafi verið ónýtanlegt eða ekki nýtt áður.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
  1. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Ef verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum á milli ótengdra aðila skal meta og eftir atvikum leiðrétta verðlagninguna með tilliti til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið. Sama á við um verðlagningu í viðskiptum lögaðila við fastar starfsstöðvar sínar. Með viðskiptum er átt við almenn kaup og sölu á vörum og þjónustu, efnislegum og óefnislegum eignum og hvers kyns fjármálagerninga.
         Lögaðilar teljast tengdir í skilningi 3. mgr. þegar:
    1. þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða
    2. meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða
    3. þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg. Sama á við um einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar.

         Ef rekstrartekjur lögaðila á einu reikningsári eða heildareignir í upphafi eða við lok reikningsárs eru yfir 1 milljarði kr. er hann skjölunarskyldur frá og með næsta reikningsári vegna viðskipta við tengda lögaðila, sbr. 4. mgr. Með skjölunarskyldu er átt við að lögaðili skrái upplýsingar um eðli og umfang viðskipta við tengda lögaðila, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar milliverðs. Skjölunarskyldur aðili skal varðveita sérstaklega gögn um slík viðskipti, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á verð og skilmála í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila eða hvernig verðlagningu er háttað með tilliti til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu. Gagna og upplýsinga skal gæta í sjö ár frá lokum reikningsárs. Lögaðili skal staðfesta skjölunarskyldu við framtalsskil og að fullnægjandi skjölun hafi átt sér stað. Lögaðili skal bregðast við beiðni skattyfirvalda um aðgang að skjölunarskyldum gögnum eigi síðar en 45 dögum eftir að beiðnin kom fram.
         Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, meðal annars um kröfur varðandi skjölun á ákvörðun milliverðlagningar.
  3. Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Óvenjuleg skipti í fjármálum og milliverðlagning.


9. gr.

     2. og 3. málsl. 4. mgr. 58. gr. laganna orðast svo:
     Maður telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum eða starfandi hluthöfum á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 5% hlut í þeim lögaðila.

10. gr.

     5. mgr. 66. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     Við 70. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 10. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
  1. 20% af tekjum ef um mann er að ræða.
  2. 18% af tekjum lögaðila.


12. gr.

     Við 3. mgr. 71. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við álagningu sérstaks fjársýsluskatts skal ekki tekið tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
  1. Í stað „15“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: 30.
  2. Í stað orðanna „15 dögum“ og „15. næsta mánaðar“ í 5. mgr. kemur: mánuði.


14. gr.

     Ákvæði 1., 3.–7. og 9.–13. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014.
     Ákvæði 2. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2014 vegna tekjuársins 2013 og skulda í lok þess árs.
     Ákvæði 8. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda 1. janúar 2014.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2013.