Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 266. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 499  —  266. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um ráðstafanir gegn málverkafölsunum.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir.

Greinargerð.

    Ótvírætt virðist að á 10. áratug síðustu aldar hafi talsverður fjöldi falsaðra myndverka verið í umferð á Íslandi og gengið þar kaupum og sölum. Hefur verið sett fram sú tilgáta af fagmanni, sem þekkir vel til íslenskrar myndlistar og myndlistarmarkaðarins hér, að allt að 900 fölsuð myndverk (málverk og teikningar) muni hafa verið á sveimi hérlendis á þessum tíma. Rökstuddur grunur var um að falsverk hefðu verið eignuð 15 íslenskum listmálurum úr hópi „gömlu meistaranna“, einum færeyskum listmálara og einum dönskum.
    Tveir hæstaréttardómar hafa gengið vegna ákæru um málverkafölsun á síðari árum, annars vegar dómur nr. 161/1999 og hins vegar dómur nr. 325/2003 sem gjarnan gengur undir heitinu „stóra málverkafölsunarmálið“ sökum þess hve umfangsmikið það var. Sami einstaklingur, listmunasali í Reykjavík, var ákærður í báðum málunum og viðskiptafélagi hans einnig í því síðara. Hæstiréttur sakfelldi ákærða í fyrra málinu en sýknaði hina ákærðu í því síðara. Sýknudómurinn fól þó ekki í sér neina viðurkenningu á því að myndverkin, sem talin voru fölsuð og ákært var fyrir, væru nokkuð annað en falsanir.
    „Stóra málverkafölsunarmálið“ og niðurstaða þess í Hæstarétti leiddu í ljós ýmsa veikleika á íslenskum listmunamarkaði, þar sem helst til auðvelt var að koma fölsuðum myndverkum í umferð og varnir við slíku athæfi reyndust næsta litlar. Hæstiréttur felldi dóm í máli nr. 325/2003 19. maí 2004 og skömmu eftir það skipaði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, starfshóp til að fjalla um þann vanda sem stafar af listaverkafölsunum og viðbrögð við honum. Var hópnum falið að „láta ráðherra í té greinargerð um áhrif falsana á íslenska myndlist, höfundarétt og menningararf, sem og um hagræn áhrif listaverkafalsana á myndlistarmarkaðinn“ og skyldi hann enn fremur gera tillögur um leiðir til að sporna við listaverkafölsun.
    Starfshópur menntamálaráðherra skilaði tillögum sínum 23. júní 2005. Í þeim var bent á ýmsar ráðstafanir sem beita mætti til að gera listaverkafölsurum erfiðara um vik að selja falsverk. Taldi hópurinn vænlegast í því skyni að efla rannsóknir á íslenskri listasögu ásamt því að skrásetja upplýsingar um listaverk og eigendasögu þeirra. Þá benti hópurinn á að yfirvöld hefðu ekki neytt allra þeirra úrræða, sem tiltæk væru í lögum, til að fást við listaverkafalsara. Athygli var vakin á því að fölsun listaverks, gerð með því að falsa höfundarmerkingu þess og eigna það ranglega tilteknum listamanni, væri brot gegn sæmdarrétti þess listamanns sem varinn væri í höfundalögum, nr. 73/1972. „Stóra málverkafölsunarmálið“ var hvorki rannsakað né sótt með tilliti til höfundalaga, enda þótt 3. tölul. 2. mgr. 54. gr. þeirra laga heimili það, og hvorki var gerð krafa um að falsverkin yrðu gerð upptæk eða falsaðar höfundarmerkingar afmáðar enda þótt það hefði verið unnt samkvæmt höfundalögum. Voru því myndverkin, sem ákært var fyrir, fengin eigendum aftur að málinu loknu.
    Starfshópur menntamálaráðherra gerði tillögur um breytingar á höfundalögum, nr. 73/ 1972, lögum um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Haustið 2006 flutti þáverandi viðskiptaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (eigendasaga myndverka o.fl.) (414. mál 133. löggjafarþings). Var frumvarpið samið í viðskiptaráðuneytinu og tók mið af fyrrnefndum tillögum starfshóps menntamálaráðherra frá árinu 2005. Breytingarnar, sem stefnt var að með frumvarpinu, fólust einkum í því að þeim aðilum sem selja myndverk í atvinnuskyni (verslunum og uppboðshöldurum) yrði gert skylt að leggja fram eigendasögu myndverkanna og vekja athygli væntanlegra kaupenda á henni. Þá var áskilið að hætti fyrirtæki starfsemi í listaverkasölu skyldi afhenda Listasafni Íslands þær upplýsingar um eigendasögu listaverka sem fyrirtækið byggi yfir.
    Frumvarpið varð ekki að lögum á 133. löggjafarþingi. Það var endurflutt óbreytt haustið 2007 (66. mál 135. löggjafarþings) og gekk til viðskiptanefndar þar sem fram komu tillögur um breytingar á því í innsendum athugasemdum, einkum varðandi skrá þá sem gera átti um listaverk, eigendasögu hennar og varðveislu hennar. Það fór á sömu leið og áður að frumvarpið náði ekki til lands og frekari tilraunir til að efla löggjöf landsins til varna gegn listaverkafölsunum hafa ekki verið gerðar.
    Starfshópur menntamálaráðherra komst að þeirri niðurstöðu að falsverkin, sem falboðin voru á íslenska listaverkamarkaðnum á 10. áratug síðustu aldar og gengu þar kaupum og sölum, hefðu vissulega hnekkt orðspori þeirra listamanna sem falsanirnar voru ranglega eignaðar og haft óheillavænleg áhrif á verslun með verk þeirra. Skiptar skoðanir voru hins vegar um áhrif falsverkanna á íslenska listasögu. Töldu sumir að þau hefðu reynst hverfandi lítil, og má það ef til vill til sanns vegar færa, því að þótt falsanirnar væru umfangsmiklar yrðu þær vart til þess að breyta niðurstöðum fræðimanna í listasögu um stefnur, stíleinkenni og tímabilaskiptingu, svo að nefnd séu fáein viðfangsefni listasagnfræðinga, enda síst að vænta þess frumleika af hálfu falsara að frá þeim komi verk sem máli skipta sem heimildir um þróunarlínur og framvindu í listasögunni.
    Jafnvel þótt áhrif listaverkafalsananna á íslenska listasögu hafi verið óveruleg voru þær eigi að síður blekkingar og til þess gerðar að hafa fé af fólki með ólögmætum hætti, sem m.a. fól í sér brot gegn viðurkenndum og lögvernduðum höfundarétti, og eiga því að varða 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Nokkrir einstaklingar urðu og fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíkum svikum og því leggja flutningsmenn áherslu á að embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, taki þátt í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um.
    Markmið tillögunnar er ekki síður að vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem falsanir fela í sér og því er málið margbrotið. Menningararfleifð samanstendur af menningarminjum sem varðveita í sér heimildir um sammannlega reynslu og skilningur á þeim krefst umhugsunar og túlkunar. Menningararfurinn, þekking á honum og túlkun hans á ríkan þátt í að móta og viðhalda menningarlegri sjálfsmynd einstaklinga og hópa og af sjálfu leiðir að miklu skiptir að þessi arfleifð sé ekki reist á fölsunum. Menningararfleifðin verður til við val á menningarminjum sem teknar eru til varðveislu og meðhöndlunar sem menningararfur fram yfir aðrar menningarminjar sem leyft er að eyðast og glatast. Valið og ákvörðunin um það hvað hafi menningarlegt gildi fer jafnan fram á forsendum ríkjandi hugmyndafræði og ráðandi samfélagsafla en ætíð er gerð krafa um ósvikinn uppruna þess sem fyrir valinu verður.
    Hin mikla áhersla á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný í sögunni en nýtur engu síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar þyki tækar til varðveislu. Skal í því sambandi nefnt að Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar og sömu kröfu gera lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns.