Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 603  —  274. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum (framlenging bráðabirgðaákvæðis).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Kjartan Gunnarsson og Sóley Ragnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki, sem féll úr gildi 31. desember sl., verði framlengdur til 31. desember 2015.
Forsaga málsins er sú að bráðabirgðaákvæðið kom upphaflega fram í lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þ.e. svokölluðum neyðarlögum. Ákvæðið veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Gildistími ákvæðisins hefur áður verið framlengdur í tvígang. Í kjölfar úttektar á innlendu regluverki á fjármálamarkaði árið 2011, tveggja skýrslna sem lagðar voru fyrir Alþingi, annars vegar um framtíðarskipan fjármálakerfisins og hins vegar um heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi, voru skipaðar nefndir til að vinna eftir tillögum skýrsluhöfunda. Ein nefndin yfirfór tillögur um breytingar á skilameðferð fjármálafyrirtækja og lagði til breytingar sem hún taldi nauðsynlegar. Við verkið hafði hún til hliðsjónar drög að tilskipun sem er í smíðum hjá Evrópusambandinu um skilameðferð fjármálafyrirtækja.
    Unnið er að frumvarpi til heildarlaga um skilameðferð fjármálafyrirtækja í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sú vinna hefur dregist vegna seinkunar sem hefur orðið á smíði tilskipunar Evrópusambandsins um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Seinkunina má helst rekja til ágreinings sem komið hefur upp innan Evrópusambandsins og varðar nokkra þætti tilskipunarinnar.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að gert væri ráð fyrir að leggja nýtt frumvarp til heildarlaga um skilameðferð fjármálafyrirtækja fram á næsta löggjafarþingi. Af þeim sökum væri framlenging gildistíma bráðabirgðaákvæðisins nauðsynleg enda hefði vinna við frumvarpið óhjákvæmilega tafist nokkuð.
    Nefndin telur að í ljósi þeirrar seinkunar sem hefur orðið á framlagningu frumvarps til heildarlaga um skilameðferð fjármálafyrirtækja sé eðlilegt og nauðsynlegt að ákvæði frumvarpsins fái lagagildi. Tekið skal fram að efni ákvæðisins er óbreytt frá þeirri útgáfu er síðast var í gildi. Nefndin tekur fram að hún telur að málið hefði þurft koma fram þegar á haustþingi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. febrúar 2014.


Frosti Sigurjónsson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,      frsm.


Pétur H. Blöndal.



Willum Þór Þórsson.


Árni Páll Árnason.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.


Vilhjálmur Bjarnason.