Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.

Þingskjal 633  —  338. mál.



Frumvarp til laga

um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum.

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila.
    Lög þessi gilda um viðskipti milli aðalverktaka og birgja þeirra og undirverktaka.
    Lög þessi gilda ekki um neytendur og viðskipti þeirra við fyrirtæki eða opinbera aðila.
    Lög þessi gilda ekki um kröfur sem greiðslustöðvunarheimild tekur til, kröfur sem falla undir nauðasamninga eða kröfur sem höfðað hefur verið mál út af samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Fyrirtæki er sérhver eining, óháð félagaformi, fyrir utan opinbera aðila, sem kemur fram í krafti sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar eða sérfræðistarfa, jafnvel þótt fyrirtækið sé aðeins einn einstaklingur.
     2.      Gjaldfallin fjárhæð er höfuðstóll kröfu sem greiða á innan samningsbundins eða lögboðins greiðslufrests ásamt sköttum, gjöldum eða álögum sem tilgreind eru á reikningi.
     3.      Greiðsludráttur er þegar greiðsla er ekki greidd innan samningsbundins eða lögboðins greiðslufrests þrátt fyrir að kröfuhafi hafi staðið við skuldbindingar sínar.
     4.      Opinberir aðilar eru ríkið, sveitarfélög, stofnanir þeirra og aðrir opinberir aðilar. Einnig falla hér undir samtök sem áðurnefndir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér. Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar.
     5.      Verslunarviðskipti eru viðskipti milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila sem fela í sér afhendingu á vörum eða þjónustu gegn þóknun.

3. gr.
Viðskipti milli fyrirtækja.

    Þegar samið er um greiðslufrest í verslunarviðskiptum skal almennt ekki semja um lengri greiðslufrest en 60 almanaksdaga nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningi og að því gefnu að slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa í skilningi 7. gr. Um dráttarvexti fer skv. 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Þegar ekki er samið um greiðslufrest er heimilt að sækja dráttarvexti á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, þ.e. þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu.
    Komi fram í lögum eða samningum að nauðsynlegt sé að fram fari eftirlit með eða skoðun á vöru eða þjónustu svo tryggja megi öryggi hennar eða samræmi við samning og kröfuhafi getur ekki krafist greiðslu fyrr en eftir að slíkt eftirlit hefur átt sér stað, skal tryggja að eftirlit eða skoðun taki ekki meira en 30 almanaksdaga frá viðtöku vöru eða þjónustu nema sérstaklega sé samið um annað og að því gefnu að slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa í skilningi 7. gr.
    Fyrsti dagur greiðslufrests skal teljast dagurinn á eftir viðtökudegi reiknings eða greiðslutilmæla eða dagurinn á eftir þeim degi þegar vara eða þjónusta var afhent.

4. gr.
Viðskipti milli opinberra aðila og fyrirtækja.

    Í verslunarviðskiptum þar sem skuldari er opinber aðili skal greiðslufrestur eigi vera lengri en:
     a.      30 almanaksdagar frá því að skuldari fékk reikning í hendur eða tilmæli um greiðslu,
     b.      30 almanaksdagar frá því að skuldara var afhent vara eða þjónusta innt af hendi ef vafi leikur á um hvenær tekið var við reikningi eða tilmælum um greiðslu,
     c.      30 almanaksdagar eftir móttöku vöru eða þjónustu ef skuldara var afhentur reikningur eða gefin tilmæli um greiðslu áður en varan var afhent eða þjónusta innt af hendi,
     d.      30 almanaksdagar eftir að fyrir liggur viðurkenning eða sannprófun á vöru eða þjónustu ef skuldari hefur móttekið reikning eða tilmæli um greiðslu áður eða sama dag og viðurkenning eða sannprófun liggur fyrir.
    Mögulegt er að framlengja greiðslufrestinn í 1. mgr. ef slíkt kemur skýrt fram í samningi og slík framlenging er rökstudd á hlutlægan hátt í ljósi sérstakra eiginleika eða þátta samningsins. Slík framlenging má þó ekki verða lengri en 60 almanaksdagar.
    Starfi opinber aðili á heilbrigðissviði eða sé starfsemi opinbers aðila að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar, ákveðið að honum skuli heimilt að greiða kröfur allt að 60 almanaksdögum eftir að reikningur barst, vara eða þjónusta var afhent eða viðurkenning liggur fyrir.
    Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu frá 30 daga reglunni og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
    Málsmeðferð við viðurkenningu eða sannprófun vöru skv. d-lið 1. mgr. skal ekki vera lengri en 30 almanaksdagar frá móttöku vöru eða veitingu þjónustu, að því gefnu að ekki sé skýrlega samið um annað eða annað komi fram í tilboðsgögnum og að því gefnu að slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa í skilningi 7. gr.
    Fyrsti dagur greiðslufrests skal teljast dagurinn á eftir viðtökudegi reiknings eða greiðslutilmæla eða dagurinn á eftir þeim degi þegar vara eða þjónusta var afhent.

5. gr.
Greiðsluáætlun.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. er aðilum í verslunarviðskiptum heimilt að semja um afborganir með greiðsluáætlun. Hafi afborgun ekki verið greidd á þeim degi sem samið var um skal einungis reikna dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð.

6. gr.
Innheimtubætur.

    Þegar skuldari skv. 3. og 4. gr. hefur ekki greitt innan greiðslufrests og heimilt er að krefjast dráttarvaxta í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, skal kröfuhafa einnig heimilt að krefja skuldara um bætur vegna innheimtukostnaðar, innheimtubætur, að fjárhæð 6.700 kr., þó aldrei lægri en sem samsvarar 40 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi evru á hverjum tíma.
    Í reglugerð skal m.a. kveða á um tengsl innheimtubóta skv. 1. mgr. við ákvæði innheimtulaga, nr. 95/2008, og laga um lögmenn, nr. 77/1998, þ.m.t. að innheimtubætur geti komið til frádráttar innheimtukostnaði samkvæmt innheimtulögum eða kostnaði við löginnheimtu á grundvelli laga um lögmenn.

7. gr.
Bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar.

    Ákvæði í samningi sem lög þessi taka til og takmarka eða útiloka dráttarvexti við greiðsludrátt skulu teljast bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar. Þá er gengið út frá því að samningsákvæði sem mæla fyrir um að óheimilt sé að krefjast innheimtubóta í samræmi við 6. gr. séu bersýnilega ósanngjarnir skilmálar nema til þeirra standi ríkar ástæður.
    Við mat á því hvort aðrir samningsskilmálar teljist bersýnilega ósanngjarnir gagnvart kröfuhafa skal taka tillit til allra málsatvika, þ.m.t. áberandi frávika frá góðum viðskiptavenjum, hvers eðlis varan eða þjónustan er og hvort skuldari hafi einhverja gilda ástæðu til þess að víkja frá lögboðnum vöxtum vegna greiðsludráttar, frá greiðslufresti skv. 3. og 4. gr. eða frá fastri fjárhæð skv. 6. gr.

8. gr.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/EB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2012 sem birt var 30. mars 2012 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54/2012.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka aðeins til viðskipta sem stofnað er til eftir gildistöku þeirra.
    Við gildistöku laga þessara bætist ný málsgrein við 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu dráttarvextir í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila samkvæmt lögum um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana (grunnur dráttarvaxta) auk átta hundraðshluta álags (vanefndaálag) nema samið sé um hærri dráttarvexti skv. 2. mgr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði með sérstökum lögum ákvæði tilskipunar 2011/7/EB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Jafnframt kallar innleiðing tilskipunarinnar á breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Tilskipun 2011/7/EB leysir af hólmi tilskipun 2000/35/EB með sama heiti en sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með áðurnefndum lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sbr. m.a. III. kafla þeirra laga um dráttarvexti.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Greiðsludráttur í verslunarviðskiptum er talinn geta haft veruleg áhrif á afkomu og veltu fyrirtækja, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að auki dregur greiðsludráttur úr samkeppnishæfni og virkni markaðarins. Almennt eru kröfur vegna verslunarviðskipta greiddar innan eðlilegra tímamarka en þó hefur borið á því að slíkar greiðslur hafi dregist úr hófi og á það jafnt við um fyrirtæki og hið opinbera.
    Með fyrri tilskipun um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum nr. 2000/35/EB var reynt að spyrna fótum við slíkum greiðsludrætti með því að heimila álögur dráttarvaxta að liðnum 30 dögum frá því að greiðslu var krafist án þess að skuldara sé tilkynnt um slíkt fyrir fram. Rúmum 10 árum síðar sýna rannsóknir sem gerðar hafa verið innan Evrópusambandsins að greiðsludráttur er enn viðvarandi og því var talið nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða svo tryggja megi skilvirkni markaðarins og betri viðskiptahætti.
    Í tilskipuninni eru gerðar ríkari kröfur til greiðslna af hálfu opinberra aðila en áður hafa gilt enda almennt talið að slíkir aðilar njóti öruggari, fyrirsjáanlegri og samfelldari tekjuleiða en fyrirtæki og geti auk þess aflað fjármögnunar á hagstæðari kjörum en fyrirtæki. Er talið að langir greiðslufrestir og greiðsludráttur af hálfu hins opinbera leiði til óréttmæts kostnaðar fyrir fyrirtæki.
    Við innleiðingu tilskipunarinnar var ákveðið að fara þá leið að semja sérstakt frumvarp um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum en að auki er lögð til breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

III. Meginefni frumvarpsins.
    
Samningsfrelsi gildir hér á landi og geta aðilar í viðskiptum því ákveðið með hvaða hætti greitt er fyrir vörur eða þjónustu. Flestar vörur og þjónusta eru afhentar rekstraraðilum og opinberum yfirvöldum á grundvelli greiðslufrests en þá er skuldaranum veittur frestur til að greiða. Sá frestur sem veittur er getur verið ákveðinn af samningsaðilum eða verið lögbundinn. Í gildandi lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, er í III. kafla fjallað um dráttarvexti. Í tilfellum þar sem gjalddagi hefur verið fyrir fram ákveðinn í samningi er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi. Hafi hins vegar ekki verið samið um gjalddaga kröfu er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu.
    Frumvarpi þessu er ætlað setja fram almennar reglur um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum, bæði hvað varðar viðskipti milli fyrirtækja og viðskipti milli fyrirtækja og opinberra aðila. Frumvarpið er bundið við greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti og gilda ákvæði þess ekki um neytendur. Sérstaklega er tiltekið að frumvarpið gildir ekki um kröfur sem nauðasamningur tekur til, kröfur sem falla undir greiðslustöðvun né heldur um kröfur sem mál hefur verið höfðað um á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti.
    Með frumvarpinu er tilgreint að þegar samið er um greiðslufrest í verslunarviðskiptum á mill fyrirtækja skuli almennt ekki semja um lengri frest en 60 almanaksdaga. Þegar um er að ræða verslunarviðskipti opinberra aðila skuli greiðsla innt af hendi eftir mest 30 almanaksdaga, þó með tilteknum undanþágum. Þá felst í frumvarpinu einnig heimild til þess að fara fram á sérstakar innheimtubætur að fjárhæð 6.700 kr. eða fjárhæð sem samsvarar 40 evrum auk þess sem innleiðing tilskipunar 2011/7/EB leiðir til hækkunar á vanefndaálagi til útreiknings á dráttarvöxtum í verslunarviðskiptum á grundvelli laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Þá er rétt að geta þess sérstaklega að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að aðilar í verslunarviðskiptum semji um að greiða skuldir sínar með afborgunum samkvæmt greiðsluáætlun og skal þá farið með hverja gjaldfallna greiðslu í samræmi við frumvarp þetta þannig að greiðslufrestur og dráttarvextir samkvæmt frumvarpinu eigi við.
    Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi.

Verslunarviðskipti milli fyrirtækja.
    Skilyrði þess að kröfuhafi geti farið fram á vexti vegna greiðsludráttar eru að hann hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi eða lögum, að ekki hafi borist greiðsla innan greiðslufrests og að ástæðu frestsins sé ekki að leita hjá kröfuhafa sjálfum, sbr. 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Ef framangreind skilyrði eru uppfyllt skal kröfuhafi eiga rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar frá deginum eftir síðasta dag þess greiðslufrests sem tilgreindur er í samningi eða lögum. Ef greiðsludagur eða greiðslufrestur er ekki tiltekinn í samningi þá skal kröfuhafi almennt eiga rétt á að krefjast dráttarvaxta eftir 30 daga greiðslufrest, sbr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir ákveðnum takmörkunum á samningsfrelsi aðila á markaði með því að lagt er til að mest skuli semja um 60 almanaksdaga greiðslufrest í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja. Þó er heimilað að semja um lengri greiðslufrest ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa. Þá er einnig sérstaklega tiltekið að ef nauðsynlegt er að vara sem afhent er fari í gegnum ákveðið ferli til staðfestingar á samræmi við kröfur þá skuli slíkt ferli ekki taka meira en 30 daga eftir að vara er móttekin. Hér gildir það sama og áður sagði, þ.e. að hægt er að semja um annað að því gefnu að slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa.

Verslunarviðskipti milli fyrirtækja og opinberra aðila.
    Hér er um að ræða nýjar reglur í íslenskum lögum þar sem krafa er gerð til opinberra yfirvalda um að þau sjái til þess að kröfur á hendur þeim í verslunarviðskiptum séu almennt greiddar innan 30 daga frá nánar tilteknum tímamörkum.
    Í frumvarpinu er þannig gert ráð fyrir að sá sem hefur átt viðskipti við opinbera aðila geti krafist greiðslu innan 30 daga frá því að reikningur barst skuldara eða sambærileg tilmæli um greiðslu bárust honum, 30 daga frá því að vara eða þjónusta var móttekin ef vafi leikur á um hvenær tekið var við reikningi eða tilmæli um greiðslu bárust eða að lokum innan 30 daga frá móttöku vöru eða þjónustu ef hið opinbera hefur fengið reikning eða sambærileg tilmæli áður en vara eða þjónusta var afhent. Þá segir einnig að greiðsla skuli fara fram mest 30 almanaksdögum eftir þá dagsetningu sem kveðið er á um í lögum eða samningi um málsmeðferð við viðurkenningu eða sannprófun á vöru eða þjónustu og að því gefnu að reikningur eða tilmæli um greiðslu hafi borist fyrir þann dag eða á þeim degi sem viðurkenning eða sannprófun á sér stað.
    Einnig er gert ráð fyrir heimild til framlengingar á þessum greiðslufresti úr 30 dögum í mest 60 daga í samningi milli aðila þegar slíkt er réttlætanlegt vegna sérstakra tilfella og eiginleika samningsins. Þá er einnig gert ráð fyrir að stjórnvöld geti í ákveðnum tilvikum óskað eftir undanþágu frá þessari reglu þannig að greiðslufrestur verði 60 dagar. Tilskipun 2011/7/EB gerir ráð fyrir slíkri undanþágu þegar um er að ræða aðila innan heilbrigðiskerfisins og einnig opinbera aðila sem annast atvinnustarfsemi á sviði iðnaðar eða verslunar og bjóða vörur eða þjónustu á opinberum markaði. Er þar m.a. horft til þess að nauðsynlegt geti verið heilbrigðisstofnunum að hafa sveigjanlegri greiðslufrest og eins er horft til þess að mismunandi reglur um greiðslufrest skekki ekki samkeppni milli tveggja aðila þar sem annar aðilinn er opinber aðili og hinn sjálfstæður atvinnurekandi.
    Þá er sérstaklega tiltekið í frumvarpinu að þrátt fyrir að mælt sé fyrir um hámark greiðslufrests komi það ekki í veg fyrir að aðilar geti samið um afborganir samkvæmt greiðsluáætlun. Þá er farið með hverja afborgun sem gjaldfallna kröfu samkvæmt frumvarpinu.

Bætur vegna innheimtukostnaðar.
    Annað nýmæli í frumvarpinu er heimild til þess að krefjast fastrar bótagreiðslu vegna innheimtukostnaðar, svokallaðra innheimtubóta. Í tilskipuninni sem frumvarpi þessu er ætlað að innleiða er gert ráð fyrir að bætur vegna innheimtukostnaðar skuli nema 40 evrum og að hægt verði að krefjast bótanna án þess að senda áminningu eða greiðslutilmæli önnur en reikning. Tilskipunin gerir ráð fyrir að tryggja þurfi kröfuhafa rétt til bóta vegna umsýslukostnaðar og innri kostnað sem tengist innheimtu. Slíkar innheimtubætur eru taldar nauðsynlegar til þess að draga úr greiðsludrætti eins og stefnt er að með tilskipuninni. Þá gerir tilskipunin ráð fyrir því að hægt sé að krefjast innheimtubóta strax og vanefnd er orðin að veruleika og að ekki þurfi að senda innheimtuviðvörun áður en krafist er bótanna. Frumvarpið gerir auk þess ráð fyrir því að nánar verði kveðið á um samspil og tengsl innheimtubóta og innheimtuviðvörunar, milliinnheimtu og löginnheimtu í reglugerð. Þar á meðal verði nánar kveðið á um hvernig innheimtubætur samkvæmt frumvarpi þessu geta komið til frádráttar við álagningu innheimtukostnaðar.

Hækkun vanefndaálags.
    Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, er útreikningur dráttarvaxta tvískiptur á þann hátt að þeir samanstanda af samtölu gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands auk sjö hundraðshluta álags, svonefnds vanefndaálags. Frumvarpið felur í sér viðbót við ákvæði 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu þar sem sérreglur eru settar um vanefndaálag við greiðsludrátt í verslunarviðskiptum. Í verslunarviðskiptum skal, í samræmi við tilskipun 2011/7/EB, vanefndaálag vera einu prósentustigi hærra eða átta hundraðshluta álag.
    Er því mælt fyrir um breytingu á lögunum um vexti og verðtryggingu í frumvarpi þessu.

Bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar.
    Aukinheldur er sérstaklega tiltekið í frumvarpinu hvaða samningsskilmálar sem snerta verslunarviðskipti skuli teljast bersýnilega ósanngjarnir í skilningi frumvarpsins. Er þar m.a. átt við það þegar samningsskilmálar undanskilja vexti vegna greiðsludráttar og auk þess er gengið út frá því að skilmálar sem undanskilja bætur vegna innheimtukostnaðar, innheimtubætur, teljist bersýnilega ósanngjarnir nema sýnt sé fram á annað. Einnig er fjallað um sjónarmið sem hafa má til hliðsjónar við mat á því hvort samningsákvæði skuli teljast bersýnilega ósanngjörn.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið mælir fyrir um tilteknar takmarkanir á samningsfrelsi. Í ljósi markmiða frumvarpsins um að styrkja stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í verslunarviðskiptum, einkum við opinbera aðila, virðist það ekki gefa tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá. Frumvarpinu er ekki ætlað að hafa afturvirk áhrif.

V. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en á fyrri stigum frumvarpsvinnunnar tóku starfsmenn ráðuneytisins þátt í samnorrænum vinnuhópum. Einnig hafði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna breytinga á vanefndaálagi til útreiknings á dráttarvöxtum sem og við Seðlabanka Íslands. Þá var frumvarpið sent til umsagnar hjá eftirtöldum aðilum: Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Ríkiskaupum og Landspítalanum. Umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við ákvæði um innheimtubætur og voru í framhaldinu gerðar lagfæringar og skýringar á ákvæðinu og greinargerð. Einnig komu fram athugasemdir varðandi þann mun sem er gerður á opinberum aðilum í verslunarviðskiptum og fyrirtækjum í frumvarpinu og greinargerð styrkt hvað þetta varðar.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum munu reglur um greiðslufresti í verslunarviðskiptum verða skýrari og úrræði kröfuhafa til þess að fá greiðslu aukin verulega. Slíkar reglur munu líklegast bæta lausafjárstöðu fyrirtækja verulega og styðja við verslunarviðskipti almennt. Þá eru kröfur þær sem gerðar eru til opinberra aðila í samræmi við reglur Ríkiskaupa um að greitt skuli fyrir vörur og þjónustu innan 30 daga frá dagsetningu reiknings.
    Gert er ráð fyrir að frumvarpið leiði aðeins til verulega takmarkaðs kostnaðar fyrir bæði lögaðila og opinbera aðila og þá aðallega ef nauðsynlegt verður að innleiða ný greiðslukerfi og uppfæra staðlaða samninga í samræmi við breytingarnar sem frumvarpið boðar. Þó er gert ráð fyrir að flest greiðslukerfi sem notast er við í dag ráði við breytingarnar og að þær sé hægt að framkvæma án tilkostnaðar.
    Hér er um að ræða tilskipun á grundvelli EES-réttar sem nauðsynlegt er að innleiða. Tilskipunin leiðir að einhverju leyti til þess að nýjar og íþyngjandi reglur taka gildi en þó eru hagsmunir atvinnulífsins af bættu fjármagnsflæði og skýrara greiðsluferli taldir vega þyngra en hinir íþyngjandi eiginleikar tilskipunarinnar.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er farið yfir gildissvið laganna en rétt er að ítreka að frumvarpið tekur einungis til verslunarviðskipta eins og þau eru skilgreind í 2. gr. og gildir ekki um viðskipti neytenda. Neytendur teljast vera einstaklingar sem kaupa vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni, sbr. 3. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Um skilgreiningu á hugtakinu fyrirtæki og opinber aðili vísast einnig til 2. gr. Þá ber að ítreka að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að fyrirtæki semji sín á milli um lengri greiðslufrest þó aðeins að því gefnu að slíkt fyrirkomulag sé ekki bersýnilega ósanngjarnt í skilningi frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að opinberir aðilar geti samið um lengri greiðslufrest en 60 daga. Þá er sérstaklega tiltekið að frumvarpið gildi ekki um kröfur sem falla undir málsmeðferð vegna gjaldþrotaskipta, kröfur sem falla undir nauðasamning eða greiðslustöðvunarheimild tekur til.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er farið yfir merkingu hugtaka sem notuð eru í frumvarpinu. Skilgreining hugtaka skýrir sig að mestu leyti sjálf.
    Rétt þykir að fjalla nánar um hugtakið opinberir aðilar en skilgreiningin er byggð á ákvæðum laga um opinber innkaup, nr. 84/2007. Þar er byggt á tilskipun 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga. Við úrlausn á því hvaða aðilar falla undir gildissvið laganna veldur afmörkun á „öðrum opinberum aðilum“ en ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra mestum vafa (e. body governed by public law). Til þess að aðili teljist opinber er miðað við að hann þurfi að fullnægja þremur skilyrðum.
    Í fyrsta lagi skal hafa verið til hans stofnað til að þjóna almannahagsmunum en ekki hefðbundnum viðskiptum eða iðnaði (e. established for the specific purpose of meeting needs in the general interest, not having an industrial or commercial character).
    Í annan stað þarf að hann vera lögaðili, það er að geta borið réttindi og skyldur að lögum.
    Í þriðja lagi verður aðili að vera háður ríki, sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum með einhverjum hætti og er þá yfirleitt miðað við að opinber fjármögnun nemi meira en 50% af rekstrarkostnaði aðilans.
    Einnig er rétt að tiltaka að hugtakið fyrirtæki í frumvarpinu tekur til allra félagaforma, m.a. til samlagsfélaga, sameignarfélaga og til einstaklingsfyrirtækja sem reka sjálfstæðan atvinnurekstur á kennitölu einstaklings.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er skilgreint að þegar samningur er til staðar um greiðslufrest milli aðila skuli lengst semja um 60 daga greiðslufrest í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja. Þó kemur fram að heimilt geti verið að semja um lengri greiðslufrest ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa.
    Nokkuð misjafnt er hversu langur greiðslufrestur í verslunarviðskiptum almennt er á Íslandi. Á grundvelli 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, er byggt á því að hafi gjalddagi verið ákveðinn fyrir fram skuli kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi. Ákvæði 3. gr. takmarkar nokkuð samningsfrelsi aðila með því að binda greiðslufrest við 60 daga nema sérstaklega sé samið um annað. Þó má teljast líklegt að slík takmörkun komi aðilum í verslunarviðskiptum vel og að flestir verði jákvæðir gagnvart þessari breytingu. Að þeim 60 dögum liðnum (eða styttri tíma sé samið um slíkt) er heimilt að krefjast dráttarvaxta á grundvelli laganna um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Ef ekki hefur verið samið fyrir fram um gjalddaga segir í lögum um vexti og verðtryggingu að heimilt sé að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Sú heimild mun þannig standa sem sjálfstæð regla í þeim tilfellum þar sem ekki var samið um gjalddaga fyrir fram.
    Ákvæði 3. gr. er því ætlað að setja þak á þann greiðslufrest sem almennt er samið um og gert ráð fyrir að hann skuli ekki vera lengri en 60 almanaksdagar nema sérstaklega standi á og slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa.
    Þá er einnig tiltekið í ákvæðinu að ef nauðsynlegt er að fram fari athugun eða skoðun á vöru eða þjónustu sem afhent er þá skuli slík skoðun ekki taka lengri tíma en 30 almanaksdaga frá því að vöru eða þjónustu var veitt viðtaka. Ekki er gert ráð fyrir að umræddir 30 almanaksdagar bætist aftan við 60 daga frestinn heldur byrji að líða samhliða honum og veiti þar af leiðandi í raun 30 almanaksdaga greiðslufrest eftir staðfestingu eða skoðun. Heimilt er þó að semja um annað að því gefnu að slíkir skilmálar séu ekki bersýnilega ósanngjarnir.

Um 4. gr.

    Ákvæði 4. gr. er nýmæli en markmið ákvæðisins er að setja hinu opinbera mörk um hvenær því beri að inna af hendi greiðslur í verslunarviðskiptum. Samtök atvinnulífsins gerðu rannsókn á vanskilum opinberra aðila árið 2003. Í niðurstöðunum kom fram að rúm 19% fyrirtækja sem svöruðu könnuðust við vanskil af hálfu hins opinbera. Ekki eru til nýrri tölur um vanskil af hálfu hins opinbera en gera má ráð fyrir að vandamálið sé ennþá nokkurt. Því er lagt til, í samræmi við tilskipunina, að allar kröfur sem varða verslunarviðskipti við hið opinbera skuli greiddar innan 30 daga frá tilteknum tímapunktum sem nánar eru skilgreindir í ákvæðinu.
    Þó er mögulegt að greiðslufrestur verði mest 60 dagar samkvæmt samningi ef aðstæður sem tengjast eiginleikum samningsins mæla með því. Er þar skilyrði að í samningi komi skýrlega fram að greiðslufrestur skuli vera lengri og það fyrirkomulag nægilega rökstutt.
    Einnig er í ákvæðinu að finna heimild til þess að sækja um fasta undanþágu frá 30 daga greiðslufrestinum þannig að tilteknir aðilar hafi 60 daga greiðslufrest. Slíka almenna undanþágu geta fengið þeir opinberu aðilar sem starfa að nær öllu leyti í samkeppni á markaði eða á heilbrigðissviði.
    Fyrirmynd að útfærslu á umsóknum samkvæmt ákvæðinu er sótt í upplýsingalögin, nr. 140/2012, nánar tiltekið í 3. mgr. 2. gr. laganna. Hér er gert ráð fyrir að ráðherra geti, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar, ákveðið að ákvæði 4. gr. taki ekki til opinberra aðila sem annars falla undir lögin. Þessari undanþágu skal þó aðeins beitt ef starfsemi viðkomandi opinbers aðila er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði eða ef viðkomandi opinber aðili starfar í heilbrigðisgeiranum.
    Skilyrði þess að undanþágunni verði beitt eru því í grundvallaratriðum þau að starfsemi viðkomandi aðila geti ekki talist til hefðbundinnar opinberrar starfsemi, svo sem þjónustustarfsemi sem fram fer á grundvelli laga, og að starfsemi hans sé að nær öllu leyti í samkeppni við einkaaðila. Þegar svo háttar til þykir ekki rétt að aðili á samkeppnismarkaði búi við strangari reglur um greiðslufrest en aðrir enda geti slíkt misræmi skekkt samkeppnisstöðu viðkomandi aðila. Hvað varðar undanþágu fyrir heilbrigðisgeirann þá er talin rík þörf fyrir sveigjanleika á því sviði enda nauðsynlegt að forgangsraða heilsugæslu þannig að jafnvægi ríki á milli þarfa sjúklinga og þess fjármagns sem er til ráðstöfunar. Því skal réttilega heimilt að lengja greiðslufrest innan heilbrigðisgeirans svo hægt sé að tryggja að þörfum sjúklinga sé mætt.
    Ákvörðun um það hvort tiltekinn opinber aðili geti fengið undanþágu frá reglunni í 1. mgr. verður að byggjast á sérstöku mati á starfsemi viðkomandi aðila og markaðsaðstæðum á því sviði sem hann starfar á. Ljóst er einnig að beita ber reglunni af varfærni þar sem um er að ræða undanþágu frá meginreglu. Eins og fram kemur í ákvæðinu er það hlutaðeigandi ráðherra eða viðkomandi sveitarstjórn sem leggur til við ráðherra þann sem lög um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum heyra stjórnarfarslega undir að tiltekinn opinber aðili skuli falla utan við meginregluna um 30 daga greiðslufrest séu skilyrði þess fyrir hendi. Almennt veldur það ekki vafa hvaða ráðherra telst „hlutaðeigandi ráðherra“ í þessu sambandi.
    Gert er ráð fyrir að ráðuneyti það sem fer með lög um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum haldi opinbera skrá yfir þá opinberu aðila sem fengið hafa undanþágu frá 1. mgr. og að undanþágan skuli endurskoðuð á þriggja ára fresti. Með þessu er ætlunin að tryggja að upplýsingar um það hverjir njóta undanþágu séu aðgengilegar á einum stað. Jafnframt er þannig gert ráð fyrir að undanþágur séu endurskoðaðar reglulega.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er nánar tiltekið að þrátt fyrir ákvæði um greiðslufresti sé ekki ætlunin að koma í veg fyrir að samningsaðilar, hvort heldur er fyrirtæki eða opinber aðili, geti samið um afborganir á grundvelli greiðsluáætlunar eða um greiðslu í áföngum. Einnig er sérstaklega tiltekið að hafi afborgun ekki verið greidd á þeim degi sem um var samið þá skuli reikna dráttarvexti aðeins frá þeim degi þegar sem hin tiltekna gjaldfallna afborgun átti að greiðast. Er þannig reynt að hvetja fyrirtæki og opinbera aðila til þess að ganga frá greiðsluáætlun í stað þess að verulegur greiðsludráttur verði á heildarkröfunni.

Um 6. gr.

    Nýmæli er að finna í 6. gr. en þar er gert ráð fyrir heimild til handa kröfuhafa að krefja skuldara um fasta bótagreiðslu vegna innheimtukostnaðar. Slíkra bóta er hægt að krefjast frá þeim degi þegar greiðsludráttur er orðinn staðreynd og ekki er nauðsynlegt að senda skuldara áminningu áður. Þannig er reiknað með að kröfuhafi geti samhliða töku dráttarvaxta farið fram á fastar innheimtubætur úr hendi skuldara þegar greiðsludráttur er fyrir hendi.
    Samningur sem útilokar innheimtubætur mundi hins vegar yfirleitt teljast bersýnilega ósanngjarn nema sýnt sé fram á annað.
    Fjárhæð innheimtubóta skal miðast við 6.700 krónur en taka breytingum miðað við hreyfingar opinbers gengis evru og skal ekki vera lægri en 40 evrur.
    Um tengsl og samspil ákvæðisins við ákvæði innheimtulaga og ákvæði um löginnheimtu verður nánar kveðið í reglugerð. Þar verður m.a. tekið á því hvernig greiddar innheimtubætur geta komið til frádráttar innheimtukostnaði á grundvelli innheimtulaganna og laga um lögmenn.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig túlka skuli orðalagið bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar sem kemur m.a. fyrir í 3. og 4. gr. Er þar miðað við að samningsskilmálar sem undanskilja dráttarvexti vegna greiðsludráttar teljist bersýnilega ósanngjarnir skilmálar. Einnig er gert ráð fyrir að skilmálar séu bersýnilega ósanngjarnir ef bætur vegna innheimtukostnaðar eru undanskildar, nema sýnt sé fram á annað. Þá er tiltekið hvaða öðrum sjónarmiðum hægt er að beita við mat á bersýnilega ósanngjörnum samningsskilmálum. Er þar horft til þess hvort samningsákvæði teljist áberandi frávik frá góðum viðskiptavenjum, hvers eðlis varan eða þjónustan er og hvort skuldari hafi haft gilda ástæðu til að víkja frá ákvæðum frumvarps þessa.
    Ákvæði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, kveður á um almenna ógildingarreglu sem byggt er á til þess að víkja til hliðar ósanngjörnum samningum í heild eða hluta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig. Hugtakið bersýnilega ósanngjarnir samningsskilmálar í frumvarpi þessu er talið rúmast innan hugtaksins í 36. gr. samningalaganna, þó þannig að hér sé um að ræða sérreglur um samninga í verslunarviðskiptum.

Um 8. gr.

    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun nr. 2011/7/EB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum en tilskipunin leysir af hólmi tilskipun nr. 2000/35/EB en sú gerð var innleidd í íslenskan rétt með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Ákveðið var að innleiða tilskipunina með sérlögum þar sem ekki þótti ákjósanlegt að innleiða umrædda tilskipun með dreifðum lagaákvæðum í hinum ýmsu gildandi lögum. Einnig leiðir þetta af því að gildissvið tilskipunarinnar er takmarkað við verslunarviðskipti. Öll ákvæði frumvarpsins innleiða nefnda tilskipun og er ekki gengið lengra í innleiðingu en gerðin gefur tilefni til.

Um 9. gr.

    Ákvæði 2. mgr. leiðir til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, á þann hátt að gert er ráð fyrir að vanefndaálag verði annað í verslunarviðskiptum sem frumvarpið tekur til en nú gildir samkvæmt lögunum. Tilskipun nr. 2011/7/EB sem frumvarp þetta innleiðir gerir ráð fyrir að vanefndaálag til útreiknings dráttarvaxta hækki úr sjö hundraðshlutum í átta hundraðshluta. Umrædd tilskipun tekur aðeins til verslunarviðskipta og ekki þótti ástæða til þess að hækka vanefndaálag fyrir allar almennar kröfur sem lög um vexti og verðtryggingu ná til og því var farin sú leið að innleiða sérstaka dráttarvexti þegar um verslunarviðskipti er að ræða í skilningi frumvarpsins. Þannig skuli dráttarvextir af kröfum í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja eða í verslunarviðskiptum milli opinberra aðila og fyrirtækja miðast við grunn dráttarvaxta auk átta hundraðshluta álags. Með breytingu frumvarpsins er komist hjá því að dráttarvextir á neytendalánum hækki. Breyting þessi kemur þó ekki í veg fyrir samningsfrelsi um dráttarvexti í verslunarviðskiptum, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með þeirri takmörkun þó að áðurnefndur hundraðshluti er lágmarkshlutfall vanefndaálags.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði tilskipun 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum auk þess sem lagðar eru til breytingar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, í tengslum við innleiðingu tilskipunarinnar. Markmið frumvarpsins er að setja fram almennar reglur um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum, annars vegar hvað varðar viðskipti milli fyrirtækja og hins vegar varðandi viðskipti milli fyrirtækja og opinberra aðila. Gert er ráð fyrir að með lögfestingu frumvarpsins muni reglur um greiðslufresti verða skýrari og úrræði kröfuhafa til þess að fá greiðslu aukin.
    Í frumvarpinu er lagt til að samningar milli fyrirtækja skuli ekki veita lengri greiðslufrest en 60 almanaksdaga, nema um annað sé skýrt samið. Sé ekki samið um greiðslufrest gilda hins vegar ákvæði laga um vexti og verðtryggingu. Þegar um er að ræða verslunarviðskipti opinberra aðila gerir frumvarpið ráð fyrir að greiðsla skuli innt af hendi eftir mest 30 almanaksdaga en mögulegt verður að sækja um undanþágu í ákveðnum tilfellum og verður þá greiðslufrestur mest 60 almanaksdagar. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þegar greiðsludráttur er orðinn að veruleika verði kröfuhafa heimilt að krefja skuldara sérstakar innheimtubætur að fjárhæð 6.700 kr., vegna innheimtukostnaðar, en þó verði fjárhæðin aldrei lægri en samsvarar 40 evrum. Auk þess felur innleiðing tilskipunarinnar í sér hækkun á vanefndaálagi til útreiknings dráttarvaxta í verslunarviðskiptum á grundvelli laga um vexti og verðtryggingu.
    Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum er ekki gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu um greiðslufrest í verslunarviðskiptum muni hafa áhrif á upplýsingakerfi sem höndla greiðsluskilmála enda sé greiðslufrestur að jafnaði stillanleg færibreyta í flestum almennum fjárhagskerfum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur.