Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 640  —  343. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2013.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var sjónum einkum beint að tveimur þáttum. Í fyrsta lagi var fjallað um upptöku nýrra ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum. Of algengt er að EES/ EFTA-ríkin standi ekki við tímamörk EES-samningsins sem kveða á um að ekki skuli líða meira en sex mánuðir frá því að ákvörðun er tekin um að taka gerð upp í EES-samninginn, með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara, þar til fyrirvaranum hefur verið aflétt. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ítrekað þurft að þrýsta á EES/EFTA-ríkin þegar of langt hefur liðið frá því að gerðir taka gildi innan ESB þar til þær gera það hjá EES/EFTA-ríkjunum. Því hefur ESA höfðað fleiri mál fyrir EFTA-dómstólnum á árinu 2013 vegna dráttar á innleiðingu en áður eru dæmi um. Í öðru lagi var sérstaklega fjallað um réttindi borgara innan ESB og EES í sérstakri skýrslu og ályktun.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 25 talsins og taka til 36 ríkja. Engin ríkjasamtök að ESB undanskildu hafa byggt upp eins víðtækt net fríverslunarsamninga. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Fríverslunarviðræður standa nú yfir við m.a. efnahagsleg stórveldi eins og tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans og Indland, auk Indónesíu, Víetnam, Malasíu, Tælands, Alsír og Hondúras og Gvatemala.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna makríldeiluna, málefni norðurslóða, loftslags- og orkumál, samgöngustefnu ESB, framtíð EES og samband ESB við evrópsk örríki og Sviss, og loks þinglegt eftirlit með Europol og Eurojust og mikilvægi þess að þjóðþing EFTA-ríkjanna séu þátttakendur í þeirri vinnu.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Í byrjun árs 2013 skipuðu Íslandsdeildina Árni Þór Sigurðsson, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Skúli Helgason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn seinni hluta starfsárs 2013 voru Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Þór Sigurðsson, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu tók Guðlaugur Þór Þórðarson að sér starf skýrsluhöfundar (rapporteur) skýrslu þingmannanefndar EES um málefni norðurslóða. Meðhöfundur hans af hálfu Evrópuþingsins var írski þingmaðurinn Pat the Cope Gallagher og var skýrslan kynnt á fundi í Liechtenstein. Á árinu gegndi Alþingi forustu í þingmannanefndum EFTA og EES. Árni Þór Sigurðsson var formaður fram að alþingiskosningum og Guðlaugur Þór Þórðarson tók við formennsku á fundum nefndanna eftir kosningar.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2012.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2013. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar tvisvar sinnum í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Kostaríka og Panama til að styðja við gerð fríverslunarsamninga EFTA við ríkin tvö. Framkvæmdastjórnin átti einnig fundi með þingnefndum og ráðuneytum í Króatíu í tilefni af inngöngu Króatíu í EES.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fyrri fundurinn sem haldinn var í maí var ekki sóttur af hálfu Alþingis enda hafði þing ekki komið saman að afloknum kosningum og kosið nýja Íslandsdeild.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Kostaríka og Panama 21.–25. janúar 2013.
    Sendinefnd þingmannanefndar EFTA heimsótti San José, höfuðborg Kostaríka, og Panamaborg, höfuðborg Panama. Markmið heimsóknarinnar var að eiga viðræður við þingmenn, stofnanir og hagsmunaaðila í löndunum tveimur um ávinning áformaðs fríverslunarsamnings EFTA og fjögurra Mið-Ameríkuríkja, Kostaríka, Panama, Gvatemala og Hondúras. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Árni Þór Sigurðsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara. Árni Þór var jafnframt formaður sendinefndarinnar.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Formlegar fríverslunarviðræður EFTA við fjögur Mið-Ameríkuríki, Kostaríka, Panama, Gvatemala og Hondúras, hófust í nóvember 2011. Við heimsókn framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var vonast til þess að samningi yrði lokið um mitt ár 2013. Það gekk eftir og var fríverslunarsamningur undirritaður við Kostaríka og Panama 24. júní 2013. Viðræður liggja niðri við Gvatemala og Hondúras. Samningurinn er svokallaður „annarrar kynslóðar“ fríverslunarsamningur en í því felst að auk þess að taka til vöruviðskipta nær hann til þjónustuviðskipta, fjárfestinga og opinberra innkaupa. Samningurinn mun jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja í EFTA-ríkjunum gagnvart fyrirtækjum innan ESB og Bandaríkjanna sem bæði hafa gert fríverslunarsamninga við Mið-Ameríkuríkin.
    Í San José hitti sendinefnd þingmannanefndar EFTA eftirtalda aðila á fundum: Victor Granados þingforseta, Maria Ruiz, formann utanríkismálanefndar, auk fleiri fulltrúa úr nefndinni í þinghúsi; Luis Liberman, varaforseta Kostaríka, og Fernardo Ocampo, aðstoðarráðherra viðskiptamála, í forsetahöllinni; og Jamie Molina, forseta viðskiptaráðs Kostaríka, auk fleiri fulltrúa ráðsins. Í málflutningi EFTA-þingmanna var hnykkt á fáum en skýrum skilaboðum. Áhersla var lögð á það að EFTA-ríkin og Kostaríka ættu margt sameiginlegt sem fámenn ríki sem stunda alþjóðaviðskipti af krafti. Þá láta ríkin sig umhverfismál og loftslagsbreytingar mjög varða og leggja áherslu á sjálfbæra þróun. Þrátt fyrir að hagkerfin séu ólík eru mikil tækifæri fyrir aukin viðskipti og mikilvægt er að fríverslunarsamningur verði lyftistöng aukinnar efnahagssamvinnu. Þar að auki gæti samningurinn orðið hvatning að samvinnu á öðrum sviðum, t.d. í menningu eða umhverfismálum. Í framsöguerindum sínum á fundunum í San José lagði Árni Þór Sigurðsson sérstaka áherslu á að umhverfismál og vinnumarkaðsmál væru nú hluti af fríverslunarsamningum EFTA. Í formálsorðum í nýrri samningum er kveðið á um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og vinnuvernd og réttindi starfsmanna í samræmi við samninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Tiltók Árni Þór sérstaklega árangur Kostaríka við að bregðast við stórfelldri skógareyðingu en á undanförnum árum hafa skógar landsins stækkað hratt á nýjan leik. Þá hefur landið sérstaka stöðu vegna einstakrar dýra- og plöntuflóru en líffræðilegur fjölbreytileiki er hvergi meiri en í Kostaríka. Enn fremur lagði Árni Þór áherslu á að möguleikar kynnu að vera á samstarfi Íslands og Kostaríka á sviði jarðvarmavirkjunar. Auk funda um fríverslunarmál í þjóðþingi Kostaríka fór þar fram sérstök málstofa um starfshætti í þjóðþingum þar sem fulltrúar Alþingis, norska þingsins og svissneska þingsins fóru yfir ýmsa þætti vinnulags í sínum þingum.
    Viðmælendur í Kostaríka lögðu áherslu á að með samningi við EFTA næðu fríverslunarsamningar landsins til Evrópu allrar sem væri mikilvægt til að efla viðskipti við álfuna. Jafnframt kynntu þeir tvö helstu áherslumál sín í utanríkismálum, að fá aðild að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og framboð fulltrúa ríkisstjórnar landsins til embættis framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO).
    Í Panamaborg átti sendinefnd þingmannanefndar EFTA fundi með eftirtöldum: Sergio Gálvez þingforseta og Dalíu Bernal, formanni utanríkismálanefndar, auk fleiri fulltrúa úr nefndinni í þinghúsi; José Pacheco, aðstoðarráðherra í viðskiptaráðuneytinu; og Irvin Halman, forseta viðskiptaráðs Panama, auk fleiri fulltrúa ráðsins. Málflutningur EFTA-þingmanna var að mestu samhljóða þeim boðskap sem borinn var upp á fundum í Kostaríka og lýst er að framan. Nokkur áhersla var á sérstöðu Panama í alþjóðlegum viðskiptum er varða vöruflutninga á sjó í ljósi Panamaskurðarins. Ýmis þjónusta honum tengd, svo sem skipaskráning og -tryggingar, eru stórar greinar í efnahagslífi landsins.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Þrándheimi 23.–25. júní 2013.
    Í Þrándheimi fór fram hefðbundinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Páll Árnason, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur starfandi ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var gerð grein fyrir því að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði tekið við formennsku í nefndinni af Árna Þór Sigurðssyni í kjölfar alþingiskosninga. Varaformaðurinn, Svein Roald Hansen, stýrði fundum nefndarinnar í fjarveru Guðlaugs Þórs.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var samþykkt ályktun um þinglegt eftirlit með Europol og Eurojust og mikilvægi þess að þjóðþing EFTA-ríkjanna tækju þátt í þeirri vinnu. Fram kom að þrátt fyrir að Europol væri stofnun ESB takmörkuðust glæpir ekki við landamæri sambandsins auk þess sem hafa þyrfti Schengen-samstarfið í huga. Þá var minnisblað frá skrifstofu EFTA varðandi samningaviðræður milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, sem hvort tveggja tekur til fríverslunar og fjárfestinga, tekið til umræðu. Fulltrúar landsdeilda gerðu loks grein fyrir pólitískri þróun í heimalöndum sínum frá síðasta fundi og greindu Árni Páll Árnason og Willum Þór Þórsson m.a. frá úrslitum alþingiskosninga og stefnubreytingu stjórnvalda varðandi aðildarviðræður við ESB. Ákveðið hefði verið að stöðva viðræðurnar, ráðast í mat á stöðunni, ræða matsskýrsluna í þinginu og halda ekki viðræðum áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Árni Páll benti hins vegar á að ályktun Alþingis frá 2009 um að hefja aðildarviðræður væri enn í gildi, en henni þyrfti þá væntanlega að snúa með sambærilegri ályktun.
    Á fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var gerð grein fyrir reynslunni af því að taka á sjálfbærri þróun í fríverslunarsamningum EFTA við önnur ríki, sem og þeim áskorunum sem í því fælust. Mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar og fara að samningsaðilum með gát til að spilla ekki fyrir samningsviðræðum þar sem viðfangsefnið væri viðkvæmt hjá mörgum þeirra. Þá var á fundinum rætt um málefni á döfinni sem hefðu þýðingu fyrir EES-samstarfið. Sérstaklega var rætt um mikilvægi tímanlegrar aðkomu EES/EFTA- landanna að prógrömmum ESB þannig að möguleikar til þátttöku væru óskertir. Fram kom að nokkuð vel gengi að vinna á halanum af ESB-gerðum sem taka ætti upp í EES-samninginn. Næstum því 500 gerðir hefðu verið teknar upp árið 2012, og hefðu þær ekki verið fleiri síðan 1999. Þó þyrfti að hafa í huga að nýjar gerðir bættust reglulega við svo ekki mætti slaka á. Þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA gangast fyrir sameiginlegri ráðstefnu á tveggja ára fresti. Næsta ráðstefna fer fram í nóvember og var ákveðið að umfjöllunarefni hennar yrði frjáls för fólks innan EES og áhrif hennar á velferðarríkin, en ljóst væri að mikið væri um fólksflutninga í bæði Noregi og Sviss.
    Á fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA var að vanda fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, og hins vegar um samstarf við ESB og framkvæmd EES-samningsins. Fram kom að EFTA væri með gilda fríverslunarsamninga við 36 ríki og stefndi að því að ljúka viðræðum við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan fyrir árslok. Viðræður við Indland væru langt komnar og viðræður við Indónesíu stæðu yfir. Þá var sérstaklega rætt um yfirvofandi samningaviðræður ESB við Bandaríkin á sviði fríverslunar og fjárfestinga og þýðingu þeirra fyrir EFTA-ríkin, m.a. með hliðsjón af WTO-viðræðunum sem langt hlé hefði verið á og því hvort viðmiðanir í þeim viðræðum yrðu í framtíðinni almennar í fríverslunarsamningum. Fram kom að EFTA mundi fylgjast grannt með viðræðunum og skoða samhliða möguleikana á gerð eigin fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Árni Páll Árnason benti á að EFTA-samstarfið byggðist á því að aðildarríkin teldu hagsmunum sínum best borgið utan ESB. Ef EFTA næði ekki að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin væri það mikil gengisfelling fyrir samstarfið hvað Ísland snerti, þar sem landið hefði átt bæði góð samskipti og greiðan aðgang að bandarískum mörkuðum. Það væri því mikilvægt að EFTA héldi vel á spöðunum hvað þetta varðaði.
    Í umræðum þingmanna og ráðherra EFTA um samstarfið við ESB og framkvæmd EES- samningsins gerði Árni Páll Árnason makríldeilu Íslendinga og Norðmanna m.a. að umtalsefni. Hann sagði að Norðmenn hefðu tekið mjög einarða afstöðu í málinu, mun harðari en ESB, og óskaði skýringa á því. Fram kom að málið hefði verið til umræðu í EFTA-ráðinu í nóvember og þar hefði komið skýrt fram að ef Norðmenn beittu Íslendinga viðskiptaþvingunum yrði það tekið upp á vettvangi EFTA. Trond Giske, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, ítrekaði að Íslendingar og Norðmenn hefðu að jafnaði átt gott samstarf á sviði fiskveiða. Fyrir dyrum stæði fundur ráðherra landanna og hann vænti þess að þær viðræður skiluðu góðum árangri. Á fundinum kom jafnframt fram að það væri nú forgangsmál hjá EFTA og ESB að finna lausn á því hvernig hægt væri að koma við þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í Sameiginlegu bankaeftirliti ESB á þann hátt að uppbygging EES-samningsins væri í fyrirrúmi og fullveldi EES-ríkjanna virt að fullu. Loks kom fram á fundinum að örríkin í Evrópu, Andorra, Mónakó og San Marínó, væru að skoða aðkomu sína að innri markaði ESB, en hefðu ekki sameiginlega afstöðu gagnvart sambandinu þar sem Mónakó vildi nálgast málið tvíhliða út frá tengslum sínum við Frakkland. EFTA hefði enn sem komið er ekki tekið afstöðu til mögulegrar tengingar þessara ríkja við EES-samninginn.

41. fundur þingmannanefndar EES í Vaduz í Liechtenstein 27.–29. október.
    Fundur þingmannanefndar EES fór fram í þinghúsi Liechtenstein í Vaduz. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Þór Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Við upphaf fundarins tók Guðlaugur Þór Þórðarson við formennsku þingmannanefndar EES en Evrópuþingið og EES/EFTA-ríkin skiptast á að fara með formennsku í nefndinni. Helstu dagskrármál fundarins voru framkvæmd EES-samningsins, málefni norðurslóða, réttindi borgara innan ESB og EES, loftslags- og orkumál og fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna.
    Á fundi þingmannanefndar EES var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Þórir Ibsen sendiherra, fyrir hönd EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni, Jonas Rudalevicius, fyrir hönd litháísku formennskunnar í ráði ESB, Florin Nita, fyrir hönd framkvæmdastjórnar ESB, og Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í umfjöllun þeirra komu m.a. fram áhyggjur af því að ekki gengi nógu hratt að innleiða EES-gerðir í EES/EFTA-ríkjunum. Nauðsynlegt sé að tryggja einsleitni í regluverki á innri markaði EES til þess að tryggja virkni hans en tafir á innleiðingu hamla þessari einsleitni. Ákveðin töf er þó innbyggð í ferlið, ákvarðanir um að taka ESB-gerðir upp í EES-samninginn eru ekki teknar fyrr en viðkomandi gerðir hafa verið teknar upp innan ESB. Of algengt er að EES/ EFTA-ríkin standi ekki við tímamörk EES-samningsins sem kveða á um að ekki skuli líða meira en sex mánuðir frá því að ákvörðun er tekin um að taka gerð upp í EES-samninginn, með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara, þar til fyrirvaranum hefur verið aflétt. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur ítrekað þurft að þrýsta á EES/EFTA-ríkin þegar of langt hefur liðið frá því að gerðir taka gildi innan ESB og þar til þær gera það hjá EES/EFTA-ríkjunum. Því hefur ESA höfðað fleiri mál fyrir EFTA-dómstólnum á árinu 2013 vegna dráttar á innleiðingu en áður eru dæmi um.
    Þá kom fram í umræðum að þrýst er á EES/EFTA-ríkin að semja um endurnýjun á þróunarsjóðum EFTA og Noregs eftir að núverandi starfstímabil sjóðanna rennur út í apríl 2014. Með þróunarsjóðunum leggja EES/EFTA-ríkin sitt af mörkum til að koma á jöfnuði og styðja félagslega þróun innan nýrra aðildarríkja ESB. Fulltrúar norska þingsins lögðu áherslu á að framlög í þróunarsjóði hefðu verið veitt af fúsum og frjálsum vilja og að ekki væri um skylduframlög að ræða sem framlengja skyldi með sjálfvirkum hætti. Óánægja hefði verið í norska þinginu með mikla hækkun framlaga í þróunarsjóðinn á yfirstandandi starfstímabili.
    Fulltrúi ráðherraráðs ESB, Rudalevicius, tók makríldeiluna upp og kallaði eftir samkomulagi til að tryggja sjálfbæra nýtingu makrílstofnsins til framtíðar. Árni Þór Sigurðsson sagði Ísland leggja áherslu á að ná samkomulagi en að ESB og Noregur sýndu ekki næga sanngirni. Ísland veiddi einungis um 10% þess makríls sem kæmi á Íslandsmið og það næmi 20% af þyngdaraukningu makrílsins meðan hann dvelur í efnahagslögsögunni. Árni Þór gagnrýndi hvernig ESB hótaði og beitti smáríki eins og Færeyjar og Ísland viðskiptaþvingunum á meðan Rússland væri látið óáreitt þrátt fyrir ofveiði. Pat the Cope Gallagher benti á að árið 2005 hefðu Færeyingar og Íslendingar einungis veitt um 5% makrílsins en eftir það hefðu veiðarnar snaraukist. Hann hefði tekið þátt í að efla þær heimildir sem sjávarútvegsstjóri ESB hefur til að beita refsiaðgerðum þegar þær voru til umfjöllunar í sjávarútvegsmálanefnd Evrópuþingsins en ekki hefði komið til þess enn að beita þeim í makríldeilunni þrátt fyrir að sjávarútvegsstjórinn hefði haft þær í meira en 12 mánuði.
    Málefni norðurslóða voru tekin til sérstakrar umræðu og var lögð fram skýrsla og drög að ályktun. Framsögumenn skýrslunnar voru Pat the Cope Gallagher, fyrir hönd Evrópuþingsins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrir hönd EES/EFTA-ríkjanna. Gallagher lagði í ræðu sinni áherslu á hraðar loftslagsbreytingar í ofurviðkvæmu vistkerfi en undirstrikaði jafnframt aukin efnahagsleg umsvif og nýtingu ríkulegra náttúruauðlinda. Jafnvægi yrði að ná milli nýtingar auðlindanna og ábyrgrar umgengni um umhverfið. Þá fagnaði hann samkomulagi aðildarríkja Norðurskautsráðsins um leit og björgun og viðbrögð við olíumengun. ESB fær áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu þegar lausn er komin í deilumál þeirra við Kanada. Í framsöguræðu sinni lagði Guðlaugur Þór áherslu á að athygli heimsins beindist að norðurskautinu þar sem þróun og breytingar þar hefðu áhrif langt út fyrir norðurslóðir. Hann gerði grein fyrir norðurslóðastefnu Íslands og nefndi sérstaklega stofnun ráðherranefndar um norðurslóðamál og frumkvæði Íslands um að koma á fót viðskiptaráði norðurslóða til að efla efnahagssamskipti á svæðinu. Að lokinni umræðu samþykkti þingmannanefnd EES ályktun um norðurslóðamál.
    Þá var lögð fram skýrsla um borgararéttindi innan ESB og EES sem Harry Quaderer frá þinginu í Liechtenstein og Theodor Dumitru Stolojan frá Evrópuþinginu kynntu. Í skýrslunni er annars vegar farið yfir réttindi borgara ESB og starf við að auka þau og hins vegar farið yfir réttindi borgara EES/EFTA-ríkjanna innan EES. Grundvallarréttindin eru réttur til þess að ferðast, taka sér fasta búsetu, starfa og nema innan svæðisins alls. Að lokinni umræðu samþykkti þingmannanefnd EES ályktun um borgararéttindi.
    Enn fremur var lögð fram vinnuskýrsla um loftslagsbreytingar og orkumál sem ákveðið var að vinna frekar. Þá fékk nefndin kynningu á stöðu fjármálageirans í Liechtenstein frá Adolf E. Real, formanni Sambands banka í Liechtenstein, auk þess sem François Baur kynnti sýn svissnesks atvinnulífs á innri markað Evrópu.
    Pat the Cope Gallagher gerði stuttlega grein fyrir viðræðum ESB og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning sem hófust í júlí 2013. Viðræður munu snúa að markaðsaðgangi er varðar lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup þótt ákveðnar viðkvæmar vörur muni enn þurfa sérstaka meðhöndlun. Ákveðið var að þingmannanefnd fylgdist með þróun viðræðnanna á næstu missirum.
    Að frumkvæði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var í lok fundar ákveðið að stefna að því að hafa beina útsendingu á netinu af fundum þingmannanefndar EES í framtíðinni til að auka gagnsæi og aðgang almennings að upplýsingum um EES-mál.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Zagreb í Króatíu 30. október 2013.
    Að loknum fundi þingmannanefndar EES í Vaduz fór framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA til Zagreb, höfuðborgar Króatíu. Fulltrúar Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES voru Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Júlíusdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara. Guðlaugur Þór leiddi jafnframt sendinefnd framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í heimsókninni. Ekki tókst að ganga frá inngöngu Króatíu í EES samhliða inngöngu landsins í ESB en búist var við að gengið yrði frá EES-aðild Króatíu á næstu vikum. Meðan á heimsókninni í Zagreb stóð áttu þingmenn EFTA fundi með Evrópunefnd, efnahagsnefnd og utanríkismálanefnd króatíska þingsins. Þá var fundað með aðstoðarráðherra Evrópumála og aðstoðarráðherra byggðamála. Á öllum fundunum lagði Guðlaugur Þór áherslu á aukna möguleika á efnahagssamvinnu Króatíu og EFTA-ríkjanna á innri markaði Evrópu þegar Króatía verður orðinn aðili að EES um leið og hann vakti athygli á sérstöðu EES/EFTA- ríkjanna á innri markaðnum. Hann vísaði í fyrri efnahagssamvinnu EFTA og Króatíu með fríverslunarsamningi sem var í gildi frá 2002 og ný og víðtækari tækifæri til samvinnu sem felast í EES.

Fundir þingmannanefndar EFTA í Genf og Brussel 18.–20. nóvember 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í Genf fór fram fundur þingmannanefndar EFTA og fundur þingmanna og ráðherraráðs EFTA. Í Brussel átti þingmannanefndin fundi með utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna, ráðgjafanefnd EFTA og sveitarstjórnarvettvangi EFTA. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingmannanefndar EFTA, stjórnaði fundunum.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var sérstaklega fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP). Prófessor Joost Pauwelyn hélt erindi og gerði grein fyrir mikilli aukningu í gerð fríverslunarsamninga á síðustu tveimur áratugum. Um árið 1990 voru tvíhliða eða marghliða fríverslunarsamningar um 100 talsins en nú eru næstum 300 samningar í gildi. Athyglisvert er að mest aukning hefur orðið í gerð tvíhliða fríverslunarsamninga innbyrðis milli nýmarkaðsríkja eða þróunarríkja. Þá er ljóst að fríverslunarsamningar eru dýpri en áður og taka æ oftar til þjónustuviðskipta, fjárfestinga og opinberra innkaupa auk hefðbundinna vöruskipta. Verði samningur ESB og Bandaríkjanna að veruleika mun hann taka til þriðjungs alþjóðlegra viðskipta og auka viðskiptaflæði innan hins nýja fríverslunarsvæðis. Samkeppnishæfni fyrirtækja EFTA-ríkjanna gagnvart fyrirtækjum innan svæðisins mun versna. Tvær úttektir hafa verið gerðar á því hvaða áhrif samningur ESB og Bandaríkjanna kunni að hafa á þriðju ríki og skila þær ólíkum niðurstöðum. Önnur úttektin spáir því að vöxtur viðskipta Bandaríkjanna og ESB hafi jafnframt jákvæð áhrif á viðskipti við þriðju ríki. Þar muni mest um sameiningu regluverks og sameiginlega staðla á hinu nýja markaði sem dregur úr kostnaði fyrirtækja í þriðju ríkjum og einfaldar viðskipti. Hin úttektin spáir því að vöxtur viðskipta innan markaðssvæðis ESB og Bandaríkjanna muni að hluta verða á kostnað viðskipta við þriðju ríki.
    Þá flutti Said El Hachimi frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) framsögu um stöðu Doha-samningalotunnar og undirbúning níunda ráðherrafundar stofnunarinnar sem áformaður var á Balí 3.–6. desember 2013. Samningalotan er þegar langlengsta samningalota WTO. Ein ástæða þess hve erfiðlega hefur gengið að ná niðurstöðu í samningalotunni er sú að allar ákvarðanir þarf að taka samhljóða.
    Næst fjallaði þingmannanefndin um tillögu að stefnumótun ESB á sviði orku- og loftslagsmála til ársins 2030 og samþykkti ályktun um loftslagsbreytingar og orkumál. Íslandsdeildin lét setja inn í ályktunina vísan í mögulegan framtíðarútflutning raforku um sæstreng frá Íslandi og áherslu á efnahagslega sjálfbærni þegar þróun endurnýjanlegra orkugjafa er annars vegar.
    Að venju fóru fram á fundi þingmannanefndarinnar hringborðsumræður um stjórnmálaástand í EFTA-löndunum. Þar gerði Guðlaugur Þór Þórðarson stuttlega grein fyrir áhersluatriðum nýrra stjórnvalda, niðurskurði á fjárlögum og undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Árni Páll Árnason og Vilhjálmur Bjarnason tóku jafnframt til máls og ræddu stöðu efnahagsmála og stjórnmálaástandið á Íslandi.
    Á fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA í Genf var einkum fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Engin ríkjasamtök hafa náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Eru fríverslunarsamningar EFTA nú 26 talsins og ná til 36 ríkja. Í framsöguræðu sinni lagði Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein og formaður ráðherraráðs EFTA, áherslu á að ljúka samningaviðræðum við Indland fyrir áramót svo undirrita mætti fríverslunarsamning fyrir þingkosningar þar í landi næsta vor. Þá standa yfir viðræður við Rússland og tollabandalag þeirra við Hvíta-Rússland og Kasakstan. Viðræður halda jafnframt áfram við Indónesíu og vonast er til að fyrsta lota samningaviðræðna við Malasíu fari fram á fyrri hluta árs 2014. Jafnhliða er rætt við Tyrkland um að útvíkka fyrirliggjandi fríverslunarsamning til þjónustuviðskipta. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti framsögu fyrir hönd þingmannanefndarinnar. Hann spurði sérstaklega út í viðbrögð ráðherra EFTA við viðræðum ESB og Bandaríkjanna. Þá fjallaði Guðlaugur Þór um nýjan fríverslunarsamning ESB og Kanada sem er mun víðtækari en samningur EFTA við Kanada og kallaði eftir viðbrögðum við hinum nýja samningi. Frick svaraði að náið samráð væri haft við bæði Bandaríkin og ESB um fríverslunarmál og grannt væri fylgst með framvindu fríverslunarviðræðna þeirra. Vonast væri eftir uppfærslu og útvíkkun fríverslunarsamnings við Kanada í kjölfar samnings Kanada og ESB þannig að samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA yrði tryggð gagnvart fyrirtækjum innan ESB á Kanadamarkaði. Árni Þór Sigurðsson spurði hvort ráðherrarnir hefðu uppi áform um aðgerðir til að tryggja að Palestínumenn gætu notið fríverslunar við EFTA í krafti fríverslunarsamnings aðilanna sem tók gildi árið 1999. Þá spurði hann um áform íslenskra og norskra stjórnvalda varðandi fullgildingu fríverslunarsamnings EFTA við Kólumbíu en samningurinn hefur mætt andstöðu vegna mannréttindabrota í landinu. Monica Mæland, viðskiptaráðherra Noregs, sagði nýja ríkisstjórn ekki hafa tekið afstöðu til fullgildingar samningsins. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagðist stefna að því að leggja fram þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins við Kólumbíu snemma árs 2014. Þá kvað hann mikilvægt að Palestínumenn gætu notið fríverslunarsamningsins við EFTA og að EFTA ætti að beita sér fyrir því.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna í Brussel greindu ráðherrarnir frá niðurstöðum fundar EES-ráðsins sem fram fór fyrr um daginn og svöruðu fyrirspurnum þingmanna. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti framsögu og kom m.a. inn á stjórnskipulegan vanda sem tengist innleiðingu ákveðinna EES-gerða, einkum er varðar sameiginlegar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Vidar Helgesen, nýr EES- og Evrópuráðherra Noregs, gerði grein fyrir hinu nýja ráðherraembætti, sem komið var á fót þegar ný ríkisstjórn komst til valda í Noregi, og fór yfir áherslur hennar hvað varðar hagsmunagæslu Noregs gagnvart ESB. Hann lagði áherslu á að EES væri styrkur og sveigjanlegur rammi tengsla EFTA-ríkjanna við ESB. Árni Páll Árnason spurði hvers væri að vænta um mögulega lausn á stjórnskipulegum vanda varðandi sameiginlegt eftirlit á fjármálamörkuðum. Lagði hann áherslu á að ekki væri hægt að framselja vald til stofnana sem EFTA-ríkin ættu ekki aðild að. Árni Þór Sigurðsson tók í sama streng og sagði að þrátt fyrir óopinbert kjörorð EFTA um sveigjanleika væri ekki hægt að sýna hann þegar stjórnarskráin er annars vegar. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði um Þróunarsjóð EFTA og sagði mikinn þrýsting af hálfu ESB um framlengingu sjóðsins og hækkuð framlög þegar núverandi tímabili 2009–2013 lýkur. Minnti hann á að EFTA bæri engin skylda til að framlengja sjóðinn og hvatti til þess að framlög yrðu a.m.k. lækkuð ef til framlengingar kæmi. Nær væri að verja fjármunum sem færu í sjóðinn til þróunaraðstoðar við fátækustu ríki heims. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði stjórnardeild framkvæmdastjórnarinnar fyrir innri markaðinn jákvæða gagnvart lausnartillögu EFTA og að hún væri nú til skoðunar hjá lagaskrifstofu framkvæmdastjórnarinnar. Þá kvað ráðherra viðræður um framtíð þróunarsjóðs EFTA ekki hafnar og því ótímabært að tjá sig um hana.
    Auk áðurnefndra funda átti þingmannanefnd EFTA fund með sveitarstjórnarvettvangi EFTA auk þess sem málstofa var haldin með ráðgjafanefnd EFTA um frjálsa för fólks innan EES og áhrif hennar á velferðarkerfi ríkjanna.

5. Ályktanir árið 2013.
Ályktanir þingmannanefndar EES:
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2012, samþykkt í Brussel 30. maí 2013.
          Ályktun um framtíð EES og samband ESB við evrópsk örríki og Sviss, samþykkt í Brussel 30. maí 2013.
          Ályktun um samgöngustefnu innan EES, samþykkt í Brussel 30. maí 2013.
          Ályktun um málefni norðurslóða, samþykkt í Vaduz 28. október 2013.
          Ályktun um réttindi borgara innan ESB og EES, samþykkt í Vaduz 28. október 2013.

Ályktanir þingmannanefndar EFTA:
          Ályktun um þinglegt eftirlit með Europol og Eurojust og mikilvægi þess að þjóðþing EFTA-ríkjanna séu þátttakendur í þeirri vinnu, samþykkt í Þrándheimi 24. júní 2013.
          Ályktun um grænbók um loftslag og orku 2030, samþykkt 19. nóvember 2013.

Alþingi, 13. febrúar 2014.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form.


Árni Þór Sigurðsson,


varaform.


Árni Páll Árnason.



Vilhjálmur Bjarnason.


Willum Þór Þórsson.