Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 641  —  344. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald
aðildarviðræðna við Evrópusambandið.


Flm.: Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller,
Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall, Björt Ólafsdóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé.


    Alþingi ályktar að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið samhliða sveitarstjórnarkosningum 31. maí 2014, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.
    Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að stjórnvöld haldi áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið?
    ❏    Já, ég vil að stjórnvöld haldi áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
    ❏    Nei, ég vil ekki að stjórnvöld haldi áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.“

Greinargerð.

    Um það bil tveir af hverjum þremur kosningarbærum Íslendingum vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, sbr. könnun Maskínu dagana 27. september til 10. október 2013. Ef halda á slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum 31. maí í ár þarf Alþingi að samþykkja þingsályktun þremur mánuðum fyrr, þ.e. fyrir 28. febrúar nk., sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.
    Til þess að kjósendur viti hvar valdið og ábyrgðin liggur í þessu máli upplýsist að framganga þess veltur fyrst og fremst á þingforseta, Einari K. Guðfinnssyni, sem fer með dagskrárvaldið, að veita málinu forgang í dagskrá þingsins, sem og formanni utanríkismálanefndar, Birgi Ármannssyni, að gera slíkt hið sama í utanríkismálanefnd Alþingis. Þá er það utanríkismálanefndar og Alþingis að greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu svo að kjósendur fái samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014 tækifæri til að segja hug sinn í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
    Flutningsmenn hefðu fremur viljað leggja fram tillögu til þingsályktunar um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en lög gera ekki ráð fyrir þeim möguleika. Í 1. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir skýrt: „Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi.“ Hefði frumvarp stjórnlagaráðs orðið að stjórnarskipunarlögum væri þessu væntanlega öðruvísi farið en í 66. gr. þess sagði: „Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.“