Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 365. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 670  —  365. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2013.


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2013 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr, með tilliti til markmiða sambandsins, sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna ástandið í Sýrlandi með áherslu á stöðu flóttamanna og nauðsyn þess að tryggja aðgang nauðstaddra að hjálparstofnunum. IPU sendi frá sér neyðarályktun um ástandið þar sem aðildarríki IPU eru m.a. hvött til að styðja við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríki sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu. Jafnframt fór fram utandagskrárumræða á haustþingi IPU um hlutverk þjóðþinga við eftirlit með eyðingu efnavopna og bann við notkun þeirra. Þingmenn fordæmdu og hörmuðu notkun efnavopna í Sýrlandi sem sýnt hafi fram á að til séu birgðir af slíkum vopnum í landinu. Í umræðum um neyðarályktunina var mikilvægi samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra (Chemical Weapons Convention) áréttað.
    Enn fremur ber að nefna umræðu um nýjar leiðir og aðferðir í þróunarstarfi og hlutverk þjóðþinga við mótun þeirra. Þá fór fram umræða á haustþingi IPU um hlutverk þjóðþinga við kjarnorkuafvopnun. Áhersla var lögð á nauðsyn þess að þingmenn tryggi að samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons) sé virtur og tryggi afvopnun í aðildarríkjum til lengri tíma.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2013 má nefna hlutverk þjóðþinga við vernd almennings, sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun og hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði. Enn fremur var rætt um hlutverk þjóðþinga við vernd réttinda barna og málefni Sameinuðu þjóðanna með áherslu á mannréttindi minnihlutahópa.
    Að venju kynnti nefnd um mannréttindi þingmanna skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Mál Birgittu Jónsdóttur alþingismanns, um rannsókn og dómsmál bandarískra yfirvalda gegn henni, var til umræðu hjá nefndinni á árinu og kynnti Birgitta mál sitt á þingfundi.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2013 má nefna svæðisbundna málstofu um konur í stjórnmálum sem haldin var í Argentínu og hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir að átök brjótist út með áherslu á Vestur-Afríku sem haldin var á Fílabeinsströndinni. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2013 var m.a. gefin út handbók fyrir konur í stjórnmálum og skýrsla með leiðbeiningum fyrir þingmenn varðandi notkun internetsins.
    
    
2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 163 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga tíu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og minna þing að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð IPU markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Í ráðinu eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild nema hvað fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Í byrjun árs 2013 skipuðu Íslandsdeildina þau Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Páll Árnason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Eftir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin og gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum Alþingis. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn seinni hluta starfsárs 2013 voru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Pírata. Varamenn voru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokki Pírata, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu 2013, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu 2013 og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti á árinu 2013. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á um að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Svíþjóð formennsku á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Stokkhólmi í mars og sá síðari í Sandhamn í september 2013.
    Íslandsdeildar tók ekki þátt í fyrri fundinum en seinni fundinn sótti Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 129. þingi IPU í Genf 7.–9. október 2013. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum.
    Anti Avsan, formaður sænsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum. Fyrsta mál á dagskrá var umræða um niðurstöður vorþings IPU sem haldið var í Quito 23.–26. mars 2013. Þá kynnti Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn IPU, áhersluatriði framkvæmdastjórnarinnar og hvað helst var til umræðu á stjórnarnefndarfundi Tólfplús-hópsins í París í byrjun september 2013 og fundi undirnefndar um fjármál IPU. Hann sagði fjármál IPU hafa verið aðalumræðuefni fundarins í París og fjárhagsáætlun fyrir árið 2014. Tekist hefði að leggja fram áætlun sem minnkaði kostnað enn frekar fyrir árið 2014. Örnfjäder gegnir formennsku í undirnefndinni og sagði hann að skoðaðir hefðu verið ýmsir möguleikar til að minnka kostnað við rekstur sambandsins og hefði vel tekist til. Þá lagði Örnfjäder í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að auka frjáls fjárframlög til sambandsins en þau hafa ekki skilað sér í þeim mæli sem vonast var eftir. Þá lagði hann áherslu á nauðsyn þess að fulltrúar aðildarríkjanna leggist á eitt og hjálpi starfsfólki IPU við verkefnið, bendi á hugsanlega styrktaraðila og aðstoði við upplýsingaöflun. Nefndarmenn þökkuðu Örnfjäder fyrir gott starf varðandi fjármál sambandsins og í framkvæmdastjórn og lögðu áherslu á að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við meginforgangsverkefni sem skilgreind væru í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2012–2017.
    Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU og sérstaklega um lausa stöðu Krister Örnfjäder, sem hefur verið einn af fjórum fulltrúum Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU á haustþingi 2013 og því mikilvægt að norrænu landsdeildirnar skoðuðu hvort þær hefðu fulltrúa sem hefðu áhuga á að sækjast eftir því embætti. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að hafa norrænan fulltrúa í framkvæmdastjórn IPU.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun og lagði formaður finnsku landsdeildarinnar það til að norræni hópurinn mundi leggja fram sameiginlega tillögu að neyðarályktun um notkun efnavopna í heiminum með áherslu á ástandið í Sýrlandi.
    Jafnframt var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt, þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborgum viðkomandi formennskuríkis. Þá var jafnframt ákveðið að halda næsta norræna undirbúningsfund í Ósló í Noregi í mars 2014 til undirbúnings 130. vorþings IPU í Genf 17.–20. mars 2014.

128. þing IPU í Quito í Ekvador 31. mars til 5. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Þuríður Backman, formaður, Ólöf Nordal og Sigmundur Ernir Rúnarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru hlutverk þjóðþinga við vernd almennings, sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun og hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði. Jafnframt fór fram sérstök umræða um nýjar nálganir og leiðir til að stuðla að sjálfbærri þróun. Auk þess fór fram utandagskrárumræða um ástandið í Sýrlandi með áherslu á stöðu flóttamanna. Um 1.200 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 620 þingmenn frá 118 ríkjum og 33 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 19. og 20. mars í Quito og fundar stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í París 25. febrúar 2013. Rætt var um ráðningu nýs framkvæmdastjóra IPU og breytingar á samþykktu verklagi. Kom fram sú tillaga á fundi framkvæmdastjórnar IPU að tekið væri tillit til þjóðernis nýs framkvæmdastjóra og staðan látin rótera eftir heimsálfum. Fór fram umræða um málið og voru fulltrúar Tólfplús-hópsins ekki samþykkir henni. Á haustþingi IPU 2014 losna stöður fyrir tvo fulltrúa Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn en síðastliðin fjögur ár hefur Krister Örnfjäder frá Svíþjóð verið fulltrúi Norðurlandanna í stjórninni. Norski þingmaðurinn Truls Wickholm gaf kost á sér sem nýr fulltrúi norrænu landanna í framkvæmdastjórninni og dreifði kynningarbréfi til fundargesta.
    Við setningu 128. þingsins flutti forseti IPU, Abdelwahad Radi, ávarp og kynnti dagskrá þingsins. Hann lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi yfirskriftar þingsins þar sem horft sé til nýrra gilda og viðmiða varðandi þróun ríkja heims. Þingforseti Ekvador, Fernando Cordero Cueva, ávarpaði þingið og benti á að þingmenn væru vitni að veikleikum og afleiðingum núverandi stjórnmála- og efnahagskerfis sem ýtti undir fátækt, yki ójöfnuð og stuðlaði að umhverfisslysum og óöryggi. Yfirskrift þingsins væri því brýnt innlegg í nauðsynlega umræðu sem snerist ekki eingöngu um nýjar leiðir varðandi þróunarmál heldur einnig um hlutverk þjóðþinga í þeirri þróun. Fyrir hönd aðalritara Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Ban Ki-moon, flutti sérstakur ráðgjafi aðalritara SÞ um nýbreytni í efnahags- og þróunarmálum, Philippe Douste- Blazy, ávarp. Hann hrósaði IPU fyrir langvarandi viðleitni til að efla alþjóðleg markmið í þróunarmálum, þ.m.t. þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og fagnaði þema þingsins sem beindi sjónum sínum m.a. að mikilvægi sjálfbærrar þróunar. Setningarathöfninni lauk með ræðu forseta Ekvador, Rafael Correa, sem hvatti til aukinnar þátttöku almennings í borgaralegu lýðræði. Þá greindi hann frá því að Ekvador væri griðland fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og gæti ein þjóða státað sig af því að réttindi náttúrunnar væru bundin í stjórnarskrá landsins.
    Sex tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins og fjölluðu þrjár þeirra um ástandið í Sýrlandi. Voru tvær þeirra dregnar til baka þar sem orðalag þeirrar þriðju var aðlagað þeim fyrrnefndu. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Tillaga Jórdaníu um ástandið í Sýrlandi og stöðu flóttamanna var samþykkt af meiri hluta þingsins. Yfirskrift tillögunnar var: Hlutverk þjóðþinga við að takast á við öryggis- og mannúðarmál vegna ástandsins í Sýrlandi og þrýsta á ríkisstjórnir til að axla mannúðlega og alþjóðlega ábyrgð gagnvart sýrlenskum flóttamönnum auk þess að styðja við nágrannalönd sem veita þeim móttöku. Í umræðum um neyðarályktunina fordæmdu þingmenn brot gegn óbreyttum borgurum, sérstaklega konum og börnum. Í ályktuninni eru aðildarríki IPU hvött til að styðja við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríkin sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt.
    Almenn umræða fór fram um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum með áherslu á ný viðhorf og leiðir til að stuðla að sjálfbærri þróun ríkja heims. Um 90 sendinefndir tóku þátt í umræðunni. Þuríður Backman tók þátt í henni fyrir hönd Íslandsdeildar. Hún fjallaði um mikilvægi þess að ný hugmyndafræði og gildi yrðu tekin upp við mat og samanburð á stöðu ríkja sérstaklega m.t.t. efnahagsþróunar. Það væru mun fleiri þættir en hagvöxtur sem hefðu áhrif á velferð þjóða. Nauðsynlegt væri að hverfa frá þeim mælikvörðum sem mæla eingöngu hagvöxt og horfa í auknum mæli til heilsufars, líðanar fólks og umhverfisáhrifa. Þá sagði hún að í ljósi loftslagsbreytinga og auðlindamála væri nauðsynlegt að huga að vistfræðilegri stjórnun og jafnrétti kynjanna. Við lok umræðunnar gaf þingið út pólitíska yfirlýsingu (Quito-yfirlýsingin) sem beint var til Sameinuðu þjóðanna og lagði áherslu á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og víðsýni.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræðuefnið hlutverk þjóðþinga við vernd almennings. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá vinnu nefndarinnar og drög að ályktun. Umræður um ályktunartexta nefndarinnar voru líflegar og endurspegluðu ólíkar skoðanir nefndarmanna og náðist m.a. ekki samstaða um íhlutun NATO í átökunum í Líbíu árið 2011. Þuríður Backman tók þátt í störfum nefndarinnar. Tekin var ákvörðun um að viðfangsefni fyrir árið 2014 yrði hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun. Ólöf Nordal tók þátt í störfum nefndarinnar. Viðfangsefni nefndarinnar fyrir árið 2014 verður þýðing lýðfræðilegrar þróunar og náttúrulegar takmarkanir fyrir þróun ríkja. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallað um hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði. Tók Sigmundur Ernir Rúnarsson þátt í störfum nefndarinnar. Í ályktun hennar var lögð áhersla á frelsi fjölmiðla og þá þróun að þingmönnum sé gert kleift að nýta sér samfélagsmiðla á málefnalegan og frjálsan hátt. Viðfangsefni nefndarinnar fyrir árið 2014 verður hlutverk þjóðþinga við vernd réttinda barna.
    Á lokadegi þingsins sendi forseti IPU frá sér yfirlýsingu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af útbreiddu kynferðislegu ofbeldi gegn konum og lagði áherslu á nauðsyn þess að brugðist verði við með samræmdum aðgerðum til að stöðva þessa plágu. Þá fundaði nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna í tengslum við þingið og fjallaði m.a. um samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU auk sérstakrar umræðu um þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og yfirlit yfir skipulagða fundi og framkvæmdir fyrir seinni hluta árs 2013 og 2014. Þá var tekin ákvörðun um að bæði vor- og haustþing IPU skuli vara í fjóra daga frá árinu 2014, samkvæmt fyrra skipulagi stóð haustþingið yfir í þrjá daga og vorþingið í fimm daga. Jafnframt var nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna veitt sama staða og fastanefndirnar þrjár hafa innan IPU. Þá var tekin ákvörðun um framkvæmd ráðningar nýs framkvæmdastjóra IPU en hann verður valinn á vorþingi 2014.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 202 þingfulltrúar á 128. þingi IPU voru konur (33%), sem er betri árangur en náðist á síðasta þingi (28%). Haustþingið 2013 verður haldið í Genf 7.–9. október og vorþingið 2014 í Bakú í Aserbaíjan.

129. þing IPU í Genf 7.–9. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, og Birgitta Jónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Einnig sótti fundinn Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Helstu mál á dagskrá voru hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna, málefni Sameinuðu þjóðanna með áherslu á þúsaldarmarkmiðin og hlutverk þjóðþinga við vernd réttinda barna. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið auk þess sem haldin var málstofa um bann við notkun kjarnorkuvopna. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um hlutverk þjóðþinga við eftirlit með eyðingu efnavopna og bann við notkun þeirra. Um 1.190 þátttakendur sóttu þingið, þar af 539 þingmenn frá 132 ríkjum og 40 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 5.–6. október 2013 og funda stjórnarnefndar Tólfplús- hópsins sem haldinn var í París í byrjun september. Rætt var um ráðningu nýs framkvæmdastjóra IPU og breytingar á samþykktu verklagi. Á haustþingi IPU 2013 losnaði staða fyrir tvo fulltrúa Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn, en síðastliðin fjögur ár hefur Krister Örnfjäder frá Svíþjóð verið fulltrúi Norðurlanda í stjórninni. Norski þingmaðurinn Truls Wickholm hafði gefið kost á sér sem nýr fulltrúi norrænu landanna í framkvæmdastjórninni en þar sem hann náði ekki endurkjöri í þingkosningunum í Noregi í september sl. bauð enginn fulltrúi norrænu ríkjanna sig fram að þessu sinni. Kosnir voru tveir nýir fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn til næstu fjögurra ára en Örnfjäder mun áfram sitja stjórnarnefndarfundi Tólfplús-hópsins og tala þar fyrir hönd norrænu landsdeildanna.
    Við setningu 129. þingsins flutti forseti IPU, Abdelwahad Radi, ávarp og kynnti dagskrá þingsins. Hann ræddi m.a. um hryðjuverkaárásirnar sem framdar voru nýverið í Kenía og átökin í Sýrlandi. Hann lagði áherslu á að eingöngu væri hægt að ná fram friði með orðræðu og samningaviðræðum og IPU hefði ávallt talað einni röddu og gagnrýnt harðlega þau mannréttindabrot og þær hörmungar sem hefðu fylgt átökunum.
    Átta tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins og fjölluðu þrjár þeirra um ástandið í Sýrlandi. Voru fjórar tillögur dregnar til baka til stuðnings við aðrar tillögur. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Tillaga Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um hlutverk þjóðþinga við eftirlit með eyðingu efnavopna og bann við notkun þeirra var samþykkt af meiri hluta þingsins. Formaður finnsku landsdeildarinnar, Maria Lohela, kynnti tillöguna fyrir hönd norræna hópsins á þingfundi. Fyrir hönd norrænu landsdeildanna fordæmdi hún og harmaði notkun efnavopna í Sýrlandi og sagði hana færa sönnur á að til séu birgðir af vopnum sem ákveðnir hópar eru tilbúnir til að beita. Sú staðreynd hafi hvatt norrænu landsdeildirnar til að varpa fram spurningunni: Hvað geta þjóðþing gert til að styðja við markmið samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra (Chemical Weapons Convention)? Í umræðum um neyðarályktunina var mikilvægi samningsins um efnavopn áréttað en hann nýtur stuðnings um allan heim og hefur verið fullgiltur af 189 ríkjum þar sem búa yfir 98% íbúa heims.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræðuefnið hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá vinnu nefndarinnar og kynntu drög að skýrslu hennar. Í skýrslunni er m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að þingmenn tryggi að samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons) sé virtur og tryggi afvopnun í aðildarríkjum til lengri tíma. Áður en umræðurnar hófust horfðu nefndarmenn á heimildarmynd um sögu og þróun kjarnorkuvopna í boði landsdeildar Kasakstans sem varpaði ljósi á umræðuefnið. Í framhaldinu héldu sérfræðingar fyrirlestra um viðfangsefnið. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar og lagði áherslu á að það sinnuleysi sem hættunni af notkun kjarnorkuvopna væri sýnt væri afar ógnvekjandi og óásættanlegt. Hún benti á að við byggjum nú þegar yfir verkfærum sem gætu unnið að algjörri eyðingu kjarnorkuvopna á næstu fimm árum. Í framhaldinu hvatti hún Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Kína, Indland, Pakistan, Norður-Kóreu og Ísrael til að eyða þeim kjarnorkuvopnum sem þau byggju yfir. Þá lagði hún áherslu á að þingmenn frá framangreindum ríkjum stuðluðu að því að eyðing kjarnorkuvopna gæti átt sér stað og benti í því sambandi á handbók sem IPU gaf út um afvopnun og bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna með leiðbeiningum og framtíðarsýn.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um þýðingu lýðfræðilegrar þróunar og náttúrulegar takmarkanir á þróun ríkja. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallað um hlutverk þjóðþinga við vernd réttinda barna. Þá fundaði nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna í tengslum við þingið og fjallaði m.a. um samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU, auk sérstakrar umræðu um afvopnun og mannréttindi minnihlutahópa.
    Á lokadegi þingsins sendi forseti IPU frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af nýlegum hryðjuverkaárásum í Westgate-verslunarmiðstöðinni í Naíróbí í Kenía og sendi samúðarkveðjur frá IPU og fulltúum þess til þings og íbúa Kenía á þessum erfiðu tímum. Þá lýsti hann yfir áhyggjum af fjölgun hryðjuverka í Kenía og öðrum Austur-Afríkuríkjum og fordæmdi árásirnar harðlega.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og yfirlit yfir skipulagða fundi og framkvæmdir seinni hluta árs 2014 og 2015. Þá var rætt um reglur varðandi framkvæmd og ferli ráðningar nýs framkvæmdastjóra IPU en hann verður valinn á vorþingi 2014.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Í framhaldinu hélt Birgitta Jónsdóttir ræðu um dómsmál sitt fyrir bandarískum dómstólum vegna aðkomu hennar að gerð myndbands sem Wikileaks birti. Mál Birgittu hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU sem hefur m.a. fjallað um það út frá tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að vernda friðhelgi einkalífs en eins og málum er háttað í dag eru notendur samskiptavefja á internetinu ekki lagalega varðir. Hún hvatti IPU til að stuðla að bættu lagaumhverfi fyrir notendur internetsins og nefndi í því samhengi mál Edwards Snowden, fyrrverandi starfsmanns leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem lak upplýsingum um persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna til fjölmiðla. Þess má geta að 198 þingfulltrúar á 129. þingi IPU voru konur (31%), sem er lakari árangur en náðist á síðasta þingi (33%). Vorþingið 2014 verður haldið í Genf 17.–20. mars.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2013.
    Ályktanir 128. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga við vernd almennings.
     2.      Sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun.
     3.      Hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði.
     4.      Hlutverk þjóðþinga við að takast á við öryggis- og mannúðarmál vegna ástandsins í Sýrlandi og þrýsta á ríkisstjórnir til að axla mannúðlega og alþjóðlega ábyrgð gagnvart sýrlenskum flóttamönnum auk þess að styðja við nágrannalönd sem veita þeim móttöku.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 128. þingi:
    Um kynbundið ofbeldi gegn konum.

    Ályktun 129. þings IPU varðaði eftirfarandi efni:
    Hlutverk þjóðþinga við eftirlit með eyðingu efnavopna og bann við notkun þeirra.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 129. þingi:
    Um hryðjuverkaárásirnar í Kenía.

Alþingi, 27. febrúar 2014.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


form.


Ásmundur Einar Daðason,


varaform.


Birgitta Jónsdóttir.