Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 679  —  370. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2013.

1. Inngangur.
    Helstu málefni til umfjöllunar í Norðurlandaráði 2013 voru utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi, stjórnsýsluhindranir og nýting náttúruauðlinda. Norðmenn fóru með formennsku á árinu og forseti ráðsins var Marit Nybakk. Per Kristian Foss var varaforseti 1. janúar til 1. október og Michael Tetzschner 1. október til 31. desember.
    Utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi voru til umfjöllunar á vorþingfundi Norðurlandaráðs í apríl og á hringborðsráðstefnu Norðurlandaráðs og norræna varnarmálasamstarfsins NORDEFCO í september. Umræðan snerist helst um norrænt samstarf gegn tölvuógnum og stafrænum árásum, aukna hlutdeild þingmanna í umfjöllun um norrænt varnarmálasamstarf og mögulegan starfshóp Norðurlandaráðs um varnar-, utanríkis- og samfélagsöryggi.
    Stjórnsýsluhindranir voru til umfjöllunar á vorþingfundi í apríl, á Norðurlandaráðsþingi í október og á desemberfundi forsætisnefndar. Helstu áherslur í umræðunni voru á norrænan umboðsmann vegna stjórnsýsluhindrana milli Norðurlanda og framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um afnám stjórnsýsluhindrana fyrir tímabilið 2014–17. Áætlunin felur í sér að sett verði á laggirnar stjórnsýsluhindranaráð til að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum sem í eiga sæti fulltrúar norrænu landanna átta, auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fulltrúa Norðurlandaráðs.
    Nýting náttúruauðlinda var til umfjöllunar við tvö tilefni. Úranvinnsla Grænlendinga kom til umræðu á Norðurlandaráðsþingi í október á norræna leiðtogafundinum og í umræðum um alþjóðlegt samstarf. Aleqa Hammond, formaður Naalakkersuisut, landstjórnar Grænlands, sagði á Norðurlandaráðsþinginu að hráefni á Grænlandi væru á forræði Grænlands en bætti við að Grænlandi væri skylt að starfa með Danmörku svo lengi sem varnar- og öryggismál væru á forræði Danmerkur og að gerður yrði samstarfssamningur milli landanna í þessu sambandi.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fjallaði á árinu um svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum Norðurlandaráðs frá árinu 2011 um norrænt átak til að leysa deilur um makrílveiðar. Ráðherranefndin taldi að afskrifa mætti tilmælin en umhverfis- og náttúruauðlindanefnd samþykkti nefndarálit þar sem fyrstu tveir aðgerðaliðir tilmælanna voru afskrifaðir en þriðja lið þeirra viðhaldið. Jafnframt ákvað nefndin að láta vinna greinargerð um efnisatriði þriðja liðarins sem er umsjón uppsjávartegunda í Norður-Atlantshafi og vinna að nýrri tillögu sem stuðlaði að langtíma sjálfbærri lausn í þeim efnum. Þá var fjallað um sameiginlegan skilning á nýtingu lifandi náttúruauðlinda í Norður-Atlantshafi á sameiginlegu málþingi Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins í Narsarsuaq í ágúst.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga 20 fulltrúa, þing Finnlands á 18 fulltrúa, Danmerkur 16, Íslands 7 en þing Færeyja, Grænlands og Álandseyja tvo fulltrúa hvert. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Árið 2013 voru það utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, vinstrisósíalistar og grænir, og norrænt frelsi. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á byrjun árs 2013 skipuðu Íslandsdeild Helgi Hjörvar, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Ný Íslandsdeild var kosin 6. júní eftir alþingiskosningar 27. apríl. Aðalmenn voru kosnir Höskuldur Þórhallsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Róbert Marshall, þingflokki Bjartrar framtíðar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru kosnir Brynhildur Pétursdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Á fundi Íslandsdeildar 14. júní var Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, kosin varaformaður nefndarinnar.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2013 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2013 á 64. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Helsinki 30. október til 1. nóvember 2012. Eftir kosningarnar var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2013 sem hér segir: Helgi Hjörvar sat áfram í forsætisnefnd og í fjárlagahópi nefndarinnar, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar, Álfheiður Ingadóttir sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Árni Þór Sigurðsson tók sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og sat áfram í kjörnefnd, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sat áfram í velferðarnefnd og Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók sæti í menningar- og menntamálanefnd og sat áfram í eftirlitsnefnd.
    Eftir að ný Íslandsdeild var kosin varð nefndarskipan hennar sú að Höskuldur Þórhallsson tók sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, Valgerður Gunnarsdóttir tók sæti í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst tók sæti í borgara- og neytendanefnd, Helgi Hjörvar tók sæti í forsætisnefnd, Jóhanna María Sigmundsdóttir tók sæti í velferðarnefnd, Róbert Marshall tók sæti í menningar- og menntamálanefnd, og Steingrímur J. Sigfússon tók sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Helgi Hjörvar og Siv Friðleifsdóttir, aðalmaður og varamaður í stjórn Norræna menningarsjóðsins, tóku þátt í störfum stjórnar sjóðsins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði þrettán sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingfundum Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum ráðsins. Einnig var fjallað um önnur mál á verksviði nefndarinnar.
    Starfsárið hófst með því að Íslandsdeildin var gestgjafi janúarfunda Norðurlandaráðs sem fram fóru í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu.
    Fréttamannastyrkjum Norðurlandaráðs 2013 var úthlutað í apríl. Fréttamannastyrki hlutu: Egill Helgason, Ingimar Karl Helgason, Jón Hákon Halldórsson, Karen Dröfn Kjartansdóttir, Steinunn Stefánsdóttir, Sunna Valgerðardóttir og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.
    Eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs voru til umfjöllunar í apríl. Gestir fundarins voru Vilborg Ingólfsdóttir og Sveinn Magnússon, skrifstofustjórar í velferðarráðuneyti.
    Endurmenntunarstofnun norrænna blaðamanna í Árósum var til umfjöllunar í júní. Sigrún Stefánsdóttir, stundakennari við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, var gestur fundarins.
    Norræni sumarháskólinn var til umfjöllunar í ágúst. Gestur fundarins var Ágúst Þór Árnason, aðjunkt, formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri.
    Norræna félagið var til umfjöllunar í ágúst og október. Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, formaður Norræna félagsins, og Ásdís Eva Hannesdóttir, framkvæmdastjóri Norræna félagsins, voru gestir fundanna.
    Stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda voru til umfjöllunar í september. Ole Norrback, formaður norrænnar nefndar um afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum, og Guðríður Sigurðardóttir, fulltrúi Íslands í nefndinni, voru gestir fundarins.
    Norræna eldfjallasetrið var til umfjöllunar í september. Gestir fundarins voru Rikke Pedersen, verkefnisstjóri Norræna eldfjallasetursins, og dr. Þóra Árnadóttir, formaður stjórnar Jarðvísindastofnunar Háskólans.
    Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014 og verkefni hennar voru til umfjöllunar í október og nóvember. Gestir fundanna voru Eygló Harðardóttir, ráðherra norrænna samstarfsmála, Ragnheiður Harðardóttir, sérfræðingur á Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Hanne Fisker, fulltrúi á Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Hildur H. Sigurðardóttir, starfsnemi á Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Karítas Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Stefán Stefánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Arnfríður Valdimarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri formennskuverkefnisins Norræna lífhagkerfið, Danfríður Skarphéðinsdóttir, sérfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ingi Valur Jóhannsson frá velferðarráðuneyti, Guðrún Sigurjónsdóttir frá velferðarráðuneyti, Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneyti, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri útflutningsskrifstofu norrænnar tónlistar og Francine Gorman, verkefnisstjóri formennskuverkefnisins Norræni spilunarlistinn.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs ákvað að leggja til við fjárlagahóp forsætisnefndar að niðurskurður á fjárframlagi til Norræna eldfjallasetursins á Íslandi, Nordisk vulkanologisk institut – NORDVULK, í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar yrði 10% í stað 20% fyrir árið 2014. Áður hafði Íslandsdeildin lagt til við fjárlagahópinn að fjárframlag til Endurmenntunar norrænna blaðamanna, Nordisk Journalistisk Efteruddannelse, yrði 1 milljón DKK í stað engrar fjármögnunar og að Norræni sumarháskólinn, Nordisk Sommeruniversitet – NSU, yrði áfram sérstakur fjárhagsliður í stað þess að færast undir Norræna rannsóknarráðið – NordForsk og að fjármögnunin yrði 1 milljón DKK í stað engrar fjármögnunar eins og gert var ráð fyrir í tillögu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlunina.
    Fjárlagahópur forsætisnefndar tók fyrir breytingartillögur frá þingmönnum Norðurlandaráðs við tillögu um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, en Norðurlandaráð hefur ráðgefandi hlutverk um fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar. Niðurstaða starfshópsins varðandi erindi Íslandsdeildar var að leita samráðs við Norrænu ráðherranefndina um að niðurskurður til Norræna eldfjallasetursins yrði 10% í stað 20%, að framlag til Endurmenntunar norrænna blaðamanna yrði 1,4 milljónir DKK í stað engrar fjármögnunar og að Norræni sumarháskólinn færðist undir fjárhagslið Norræna rannsóknarráðsins á þeirri forsendu að umfang starfsemi sumarháskólans yrði óbreytt, auk þess sem ákveðnir fjármunir, 1,2 milljónir DKK, yrðu sérstaklega merktir starfseminni. Forsætisnefnd samþykkti í kjölfarið niðurstöðu fjárlagahópsins og gaf formanni hópsins, Bertel Haarder, umboð til að ná lendingu í samráði við Norrænu ráðherranefndina um lokatillögu um fjárhagsáætlunina.
    Í viðræðum Norðurlandaráðs við Norrænu ráðherranefndina féllst ráðherranefndin hins vegar ekki á að lækka niðurskurð úr 20% í 10% til Norræna eldfjallasetursins, þar sem hún var ein af þeim fimm rannsóknarstofnunum, ein í hverju norrænu ríkjanna, sem ráðherranefndin hafði náð samkomulagi innbyrðis um að skera niður hjá.
    Í framhaldi af því beindi Valgerður Gunnarsdóttir þeirri spurningu til Eyglóar Harðardóttur samstarfsráðherra í óundirbúnum munnlegum fyrirspurnartíma norrænu samstarfsráðherranna á Norðurlandaráðsþingi í Ósló hvernig hún sæi fyrir sér fjármögnun á Norræna eldfjallasetrinu í framtíðinni. Nokkuð sem veikti starfsemi setursins og drægi úr rannsóknastarfi sem verið hefði afar mikilvægt fyrir Norðurlöndin og heiminn allan. Eygló Harðardóttir sagði í svari sínu það vera mikið áhyggjuefni að skorið skyldi niður til Norræna eldfjallasetursins, en að það hefði hins vegar verið tekin ákvörðun um að skera niður í fimm ólíkum stofnunum. Samstarfsráðherra sagðist enn fremur hafa lagt fram bókun á fundi samstarfsráðherranna um að þær stofnanir sem yrðu fyrir þessum niðurskurði hefðu möguleika á að leita fjármuna í verkefni sín í þá sjóði sem væru til staðar í norrænu samstarfi, eins og NordForsk eða skiptiáætlanir. Ráðherra bætti við að það væru einstakar aðstæður á Íslandi fyrir rannsóknir á eldfjöllum, jarðskjálftum og hafsbotninum á norðurslóðum.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að ellefu fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Helgi Hjörvar sat í forsætisnefnd á starfsárinu 2013 og í fjárlagahópi nefndarinnar. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu. Helstu mál til umfjöllunar í nefndinni á árinu voru utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi, og stjórnsýsluhindranir.
    Í janúar afgreiddi forsætisnefnd úr nefnd tillögu um aukið norrænt samstarf gegn tölvuógnum og stafrænum árásum. Í tillögunni var lagt til að auka norrænar varnir á þessu sviði með því að skiptast á upplýsingum, auka þekkingu og samstilla opinberar stofnanir, með það fyrir augum að stefna að sameiginlegu skipulagi. Tillagan var byggð á sjöundu tillögu Stoltenberg-skýrslunnar um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála og er í takti við áherslu á þessu sviði í Haga-samstarfinu, í formennsku Finna í NORDEFCO og í Europol. Haga-samstarfið er norrænt samstarf um samfélagsöryggi og björgunarviðbúnað sem byggist á yfirlýsingu sem undirrituð var í Haga-höllinni í Stokkhólmi árið 2009 af norrænum ráðherrum sem fara með málaflokkinn eða fulltrúum þeirra. Vorþingfundur ráðsins samþykkti síðan tillöguna í apríl.
         Forsætisnefnd afgreiddi úr nefnd tillögu um að haldnar yrðu hringborðsumræður um varnar- og öryggismál á Norðurlöndum sem til yrði boðið norrænum ráðherrunum, formönnum þeirra fastanefnda þjóðþinganna sem fara með varnarmál, norrænum varnarmálaforingjum og fulltrúum NORDEFCO (Nordic Defence Cooperation), norræna varnarmálasamstarfsins. NORDEFCO byggist á samkomulagi (Memorandum of Understanding) norrænu ríkjanna frá árinu 2009. Fulltrúar frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum mundu líka taka þátt í slíkri ráðstefnu sem haldin yrði í samstarfi við NORDEFCO og Finna sem fóru með formennsku í því árið 2013. Markmiðið með hringborðsumræðunum var að stuðla að aukinni hlutdeild norrænna þingmanna í umfjöllun um norræna varnarmálasamstarfið. Tillagan byggðist á hugmyndum í skýrslunni Nordiska gemenskaper sem unnin var af miðstöð um Norðurlandarannsókna hjá Helsinki-háskóla.
    Í júní fjallaði forsætisnefnd um hugmynd þess efnis að forsætisnefnd stofnaði starfshóp um varnar-, utanríkis- og samfélagsöryggi til að fylgja eftir vorþingfundi Norðurlandaráðs þar sem sérstök áhersla var lögð á utanríkis-, öryggis- og varnarmál ásamt samfélagsöryggi, til að undirbúa hringborðsumræðurnar um varnarmál 30. september og til að undirbúa aðrar hugsanlegar hringborðsumræður sem falla undir þessa málaflokka. Samhliða var lagt til að hópurinn yrði með svipuðu móti og starfshópur forsætisnefndar um fjárhagsáætlanir, svokallaður fjárlagahópur sem í sitja fulltrúar flokkahópa Norðurlandaráðs, en í hópnum mundu sitja fulltrúar landsdeilda Norðurlandaráðs. Fulltrúar flokkahóps miðjumanna voru fylgjandi tillögunni en fulltrúar flokkahópa hægri manna og jafnaðarmanna voru mótfallnir, ásamt fulltrúa vinstrisósíalista og grænna. Ákveðið var að fjalla frekar um síðar hvernig umfjöllun Norðurlandaráðs um utanríkis-, öryggis- og varnarmál ásamt samfélagsöryggi getur tekið mið af því aukna samstarfi sem orðið hefur í málaflokkunum á norrænum vettvangi á síðustu árum.
    Í september fjallaði forsætisnefnd um svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum Norðurlandaráðs frá árinu 2012. Þar á meðal voru svör við tilmælum um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum í kjölfar samkomulags aðildarríkja Norðurskautsráðsins um leit og björgun á norðurslóðum sem undirritað var í Nuuk árið 2011. Í tilmælunum, sem samþykkt voru á vorþingfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík 2012 á grundvelli tillögu frá Íslandsdeild, beindi Norðurlandaráð m.a. tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að norrænu fjármálaráðherrarnir (MR-FINANS) skipuðu starfshóp til að leita hugsanlegra leiða til fjármögnunar útgjalda við eftirlit og leitar- og björgunarstarf vegna Nuuk-samkomulagsins. Ráðherranefndin svaraði að Nuuk-samkomulagið væri fullnægjandi samstarfsgrundvöllur og ekki væri þörf fyrir frekari tæki í því sambandi. Forsætisnefnd ákvað að nefndarálit þess mundi verða á þá leið að tilmælunum yrði viðhaldið og óskað eftir frekari svörum á næsta ári, m.a. vegna gagnrýni dönsku Ríkisendurskoðunarinnar í nýrri skýrslu um að björgunarviðbúnaður Danmerkur hafi ekki burði til að bregðast við skipsskaða eða mengunarslysi á hafsvæðinu kringum Grænland.
    Á árinu hélt forsætisnefnd áfram umfjöllun sinni um stjórnsýsluhindranir. Árið 2012 hafði nefndin lagt fram tillögu um norrænan umboðsmann vegna stjórnsýsluhindrana á milli Norðurlanda, tilmæli nr. 16/2012. Samkvæmt tillögunni skyldu norrænu ríkisstjórnirnar gera samkomulag um styrkingu lagalegrar stöðu norrænna borgara samkvæmt norrænum samningum varðandi búsetu, menntun, atvinnu og þess háttar. Það væri hægt að gera með því að koma annaðhvort á fót embætti norræns umboðsmanns hjá Norrænu ráðherranefndinni eða með því að gera hlutverk núverandi umboðsmanna norrænu þjóðþinganna víðfeðmara. Ætlast var til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda gætu leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.
         Í fyrirspurnartíma Norrænu ráðherranefndarinnar á vorþingfundi spurði Helgi Hjörvar sænska samstarfsráðherrann Ewu Björling til hvaða aðgerða ríkisstjórnir Norðurlanda hygðust grípa til að bregðast við tilmælum Norðurlandaráðs nr. 16/2012 um að löndin nái samkomulagi sem tryggi lagalegan rétt almennings þegar norrænir sáttmálar og samningar um búsetu, menntun, atvinnu og þess háttar koma til framkvæmda. Björling svaraði að norrænu samstarfsráðherrarnir hefðu myndað starfshóp embættismanna til að koma með tillögur um langtíma aðgerðaáætlun varðandi stjórnsýsluhindranir frá og með árinu 2014 og að tilmæli Norðurlandaráðs nr. 16/2012 væri hluti af þeirri umfjöllun.
    Aðgerðaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á tímabilinu 2014–2017 var kynnt á Norðurlandaráðsþingi í Ósló, en í henni var gert ráð fyrir stjórnsýsluhindranaráði en ekki tekin afstaða til norræns umboðsmanns varðandi stjórnsýsluhindranir.
    Í desember afgreiddi forsætisnefnd nefndarálit um tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um framkvæmdaáætlun um afnám stjórnsýsluhindrana fyrir tímabilið 2014–17. Áætlunin felur í sér að sett verði á laggirnar stjórnsýsluhindranaráð til að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum sem í eiga sæti fulltrúar norrænu landanna átta, auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fulltrúa Norðurlandaráðs. Markmiðið er að tengja aðgerðir gegn stjórnsýsluhindrunum nánar framkvæmdarvaldi í löndunum og gera stjórnvöldum og stjórnsýslu kleift að axla meiri ábyrgð í starfinu og ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi. Forsætisnefnd samþykkti að leggja til að framkvæmdaáætluninni yrði hrint í framkvæmd með þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðherra formennskulandsins í Norrænu ráðherranefndinni gerði á Norðurlandaráðsþingum einnig grein fyrir stjórnsýsluhindrunum sem ekki hefur tekist eða ekki verið vilji til að leysa og ástæðum þess. Auk þess lagði forsætisnefnd til að norrænar fagráðherranefndir settu skýr og mælanleg markmið fyrir viðkomandi tímabil, að stjórnsýsluhindranaráðið kallaði eftir sjónarmiðum Sambands norrænu félaganna og annarra aðila sem vildu afnema stjórnsýsluhindranir og settu í forgang og ynnu að tilmælum Norðurlandaráðs nr. 16/2012 um norrænan umboðsmann. Í nefndarálitinu lagði forsætisnefndin einnig til að Norðurlandaráð beindi tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að fulltrúar landanna í stjórnsýsluhindranaráðinu fengju öflugt umboð og að fulltrúarnir hefðu nauðsynlegt tengslanet.
    Forsætisnefnd tók síðan ákvörðun sem æðsta ákvörðunarvald Norðurlandaráðs milli þinga og með sömu heimildir og þingfundur og samþykkti tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlanda um framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar varðandi stjórnsýsluhindranir á tímabilinu 2014–2017 samkvæmt nefndaráliti forsætisnefndar.
    Forsætisnefnd samþykkti á tímabilinu janúar til desember 2013 fimm tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs, um barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs frá 2013 (tilmæli 1/2013), um svæðisbundna stefnumörkun innan ramma UNAOC (tilmæli 7/2013), um nýjar starfsreglur og samsetningu stjórnar Norræna rannsóknarráðsins (tilmæli 40/2013), um framkvæmdaáætlun um afnám stjórnsýsluhindrana 2014–2017 (tilmæli 41/2013) og um umboð og tengsl Stjórnsýsluhindranaráðs í norrænu löndunum (tilmæli 42/2013).
    Sjö tillögur forsætisnefndar voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um eflt norrænt samstarf um öryggis- og varnarmál gegn netógnum og stafrænum árásum (tilmæli 2/2013), áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen frá árinu 2014 (tilmæli 21/2013), um áætlun um aðgerðir í Hvíta-Rúss- landi (tilmæli 22/2013), um áætlun um samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur-Rússland (tilmæli 23/2013), um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2014 (tilmæli 24/2013), um framkvæmdaáætlun um afnám stjórnsýsluhindrana 2014– 2017 (tilmæli 41/2013) og um umboð og tengsl Stjórnsýsluhindranaráðs í norrænu löndunum (tilmæli 42/2013).

Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs fer með málefni menningar, kennslu og menntunar. Nefndin fjallar um eftirfarandi svið: almenna menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölbreytileg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, norrænu félögin og frjáls félagasamtök, barna- og unglingamenningu, grunn- og framhaldsskóla, menntunarframboð á Norðurlöndum, almenningsfræðslu og fullorðinsfræðslu, og símenntun.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir sat í menningar- og menntamálanefnd frá 1. janúar til 27. apríl og Valgerður Gunnarsdóttir og Róbert Marshall frá 27. júní til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu málefni til umfjöllunar í menningar- og menntamálanefnd á árinu voru fjölmiðlar og höfundarréttur, norrænt samstarf um menntamál, og upplýsingagjöf skóla um réttindi barna.
    Valgerður Gunnarsdóttir var framsögumaður menningar- og menntamálanefndar á Norðurlandaráðsþingi í Ósló um tillögu nefndarinnar um eflingu norræns samstarfs um menntamál. Í tillögunni, sem var samþykkt, er tilmælum beint til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hún kanni forsendur fyrir því að efla norrænt samstarf um menntamál, þar á meðal hvort hlutaðeigandi aðilar geti unnið meira saman og samræmt og samhæft nýjar greiningar og rannsóknir í menntamálum; að hún kanni hvernig fulltrúar stefnumótunaraðila, menntakerfisins og fræðasamfélagsins geti tekið þátt í efldu samstarfi um menntamál og hvernig þessir aðilar geti unnið saman; að hún geri áætlun til ársins 2025 um norrænt samstarf um menntamál og tryggi þannig sameiginleg og sjálfbær langtímamarkmið í samstarfinu og að hún kanni hvort unnt sé að koma á norrænni miðlun sem sjái um að dreifa og kynna nýjar niðurstöður um og þekkingu á norrænum menntamálum fyrir hlutaðeigandi aðilum á Norðurlöndunum og á alþjóðlegum vettvangi.
    Sex tillögur menningar- og menntamálanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um eflt norrænt samstarf um menntamál (tilmæli 15/2013), um að skólar veki athygli á réttindum barna (tilmæli 16/2013), norrænan samráðsvettvang um rannsóknastefnu (tilmæli 17/2013), fjölmiðla og höfundarrétt (tilmæli 18/2013), fund í tengslaneti um táknmál (tilmæli 19/2013) og um að farsæl skólaganga geti upprætt neikvæðan félagslegan arf (tilmæli 20/2013).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs fjallar um efnahagsumhverfi, framleiðslu og verslun, þar með talið frelsi á markaði og atvinnumarkaði á Norðurlöndum. Hún fjallar m.a. um atvinnulíf/iðnað, innri markað, frjálsa för fólks, afnám stjórnsýsluhindrana, viðskipti, svæða- og byggðaþróunarstyrki, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuumhverfi, innviði/samgöngur, fjarskipti og upplýsingatækni.
    Árni Þór Sigurðsson sat í efnahags- og viðskiptanefnd frá 1. janúar til 27. apríl og Höskuldur Þórhallsson og Steingrímur J. Sigfússon frá 27. júní til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu málefni til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd voru rannsóknir, stöðlun og reglusetning í byggingariðnaði, og gagnkvæm endurgreiðsla skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (pólýetýlentereþalat).
    Á septemberfundum Norðurlandaráðs afgreiddu efnahags- og viðskiptanefnd og menningar- og menntamálanefnd í sameiningu úr nefnd tillögu um að Norðurlandaráð mæltist til þess við Norrænu ráðherranefndina að standa fyrir norrænum umræðu- og samráðsvettvangi um rannsóknastefnu haustið 2014 þar sem helstu hagsmunaaðilar á rannsóknasviði, ráðherrar rannsókna, fræðimenn, embættismenn og stjórnmálamenn gætu átt samræður um rannsóknastefnu og lagt fram hugmyndir um forgangsröðun og framtíðarsýn í norrænu rannsóknasamstarfi.
    Á Norðurlandaráðsþingi í Ósló var samþykkt tillaga efnahags- og viðskiptanefndar um samstarf um stöðlun og reglusetningu í norrænum byggingariðnaði. Í nefndaráliti með tillögunni kom fram að munur á byggingarreglugerðum á Norðurlöndunum skapi stjórnsýsluhindrun sem veiki samkeppnishæfni landanna og dragi úr hagkvæmni í byggingariðnaði. Fyrir vikið verði húsnæði dýrara fyrir neytendur, samtímis því að staða norræns byggingariðnaðar í alþjóðasamkeppni veikist, þar á meðal áhrif á stöðlun í Evrópu. Í tillögunni, sem unnin var í samráði við staðlaráð í norrænu löndunum, er tilmælum beint til ríkisstjórna Norðurlandanna um að skipa vinnuhóp undir forustu formennskulandsins í Norrænu ráðherranefndinni til að samræma norræna faghópa í byggingariðnaði með það að markmiði að annars vegar beita sér fyrir norrænni stöðlun á reglugerðum og starfsháttum í byggingariðnaði og hins vegar að semja nýja sameiginlega staðla sem gætu orðið fyrirmynd að nýjum byggingarstöðlum innan ESB. Í faghópunum verði m.a. fulltrúar þar til bærra yfirvalda, staðlastofnana, hlutaðeigandi menntastofnana auk hagsmunaaðila atvinnugreinarinnar og iðngreina.
    Fjórar tillögur efnahags- og viðskiptanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Þau voru um samstarf um stöðlun og reglusetningu í byggingaiðnaði (tilmæli 25/2013), norræna samstarfsáætlun um stefnu í nýsköpun og atvinnulífi (tilmæli 29/2013), framkvæmdaáætlun um orkusamstarf 2014–2017 (tilmæli 30/2013) og nýjar starfsreglur og samsetningu stjórnar norræna rannsóknarráðsins (tilmæli 40/2013).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs vinnur að umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda innan landbúnaðar, fiskveiða og skógræktar og -nýtingar. Enn fremur vinnur nefndin að orku- og samgöngustefnu í samstarfi við atvinnumálanefndina. Nefndin vinnur jafnt að norrænum og alþjóðlegum úrlausnarefnum. Enn fremur tekur nefndin upp mál við ESB á ofangreindum sviðum sem mikilvæg eru fyrir Norðurlönd. Nefndin fjallar um efni á borð við endurnýjanlega orku og norrænan raforkumarkað, loftslagsbreytingar og aðgerðir til að minnka losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda, kjarnorkuöryggi, fiskveiðistjórnun, landbúnaðarstefnu ESB, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, stjórnun stórra rándýrastofna á Norðurlöndum, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.
    Álfheiður Ingadóttir sat í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd frá 1. janúar til 27. apríl. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Meðal helstu málefna, sem umhverfis- og náttúruauðlindanefnd lagði áherslu á árið 2013, voru norræn langtímastefna í öryggismálum í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál, norrænar aðgerðir til að draga úr hættu sem stafar af hormónaraskandi efnum, gagnkvæm endurgreiðsla skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (pólýetýlentereþalat), og samningar við Þýskaland og Eistland um endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur.
    Á vorþingfundi Norðurlandaráðs í apríl var samþykkt tillaga umhverfis- og nátttúruauðlindanefndar um norræna langtímastefnu í öryggismálum í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Í tillögunni var lagt til við norrænu ríkisstjórnirnar að gerð yrði úttekt á þeim áhrifum sem hækkun meðalhitastigs í heiminum um fjórar gráður getur haft á stöðugleika á grannsvæðum Norðurlanda og fólksflutninga á Norðurlöndum, að kortlögð yrðu þau áhrif sem hækkun meðalhitastigs í heiminum um fjórar gráður getur haft á lífskjör og borgaralegt öryggi Norðurlandabúa og þörf á að efla björgunarbúnað og hæfni norrænna samfélaga til að aðlagast breyttu loftslagi og að eflt yrði samstarf um björgunarmál á Norðurlöndum, t.d. með stofnun norrænnar hamfarabjörgunarsveitar eins og lagt var til í Stoltenberg-skýrslunni. Í tillögunni var einnig lagt til við Norrænu ráðherranefndina að unnin yrði tillaga að hnattrænni framkvæmdaáætlun í því skyni að takmarka uppsöfnun CO 2 í andrúmsloftinu við 450 ppm (parts per million) að hámarki.
    Á septemberfundi sínum fjallaði umhverfis- og náttúruauðlindanefnd um svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum Norðurlandaráðs frá árinu 2011 um aukið siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum. Í tilmælunum var m.a. mælst til þess að norrænu ríkisstjórnirnar efldu norrænt samstarf um eftirlit með höfum á norðurslóðum innan ramma Nuuk-samkomulagsins og að í anda Nuuk-samkomulagsins yrði stofnuð norræn viðbragðssveit á sjó á norðurslóðum sem mönnuð væri fólki úr landhelgisgæslu og björgunarsveitum landanna. Svör ráðherranefndarinnar við tilmælunum voru þau að Nuuk-samningurinn væri fullnægjandi samstarfsgrundvöllur og ekki væri þörf fyrir frekari tæki í því sambandi. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd samþykkti nefndarálit um að viðhalda tilmælunum og óska eftir frekari svörum ráðherranefndarinnar á næsta ári þar sem í svörum ráðherranefndarinnar væri í takmörkuðum mæli fjallað um inntak tilmælanna.
    Í september fjallaði umhverfis- og náttúruauðlindanefnd um svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum Norðurlandaráðs frá árinu 2011 um norrænt átak til að leysa deilur um makrílveiðar. Í tilmælunum mæltist Norðurlandaráð til við Norrænu ráðherranefndina að hún í fyrsta lagi setti í forgang að finna snarlega lausn á deilum sem standa yfir um makrílveiðar í Norður-Atlantshafi, í öðru lagi að hún styrkti vísindalegar forsendur fyrir mati á stærð og útbreiðslu makrílstofnsins og í þriðja lagi að hún semdi tillögu að fiskveiðikerfi sem stuðlaði að sjálfbærri nýtingu á botnfiskstofnum í Norður-Atlantshafi og drægi úr hættu á að deilur risu. Ráðherranefndin taldi að afskrifa mætti tilmælin en umhverfis- og náttúruauðlindanefnd samþykkti nefndarálit þar sem fyrstu tveir liðir tilmælanna voru afskrifaðir en þriðja lið þeirra viðhaldið. Jafnframt ákvað nefndin að láta vinna greinargerð um umsjón uppsjávartegunda í Norður-Atlantshafi og vinna að nýrri tillögu sem stuðlaði að sjálfbærri langtímalausn í þeim efnum.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd afgreiddi í september ásamt efnahags- og viðskiptanefnd og borgara- og neytendanefnd tillögu um gagnkvæma endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur. Í tillögunni var lagt til að Norðurlandaráð beindi tilmælum til ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar og Noregs um að vinna að samkomulagi um gagnkvæma endurgreiðslu skilagjalds í samstarfi við þá aðila sem halda utan um skilagjaldskerfi landanna og að leggja skilagjald á dósir sem seldar eru um borð í ferjum sem fara milli landanna. Þá leggja nefndirnar til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna Danmerkur og Svíþjóðar um að gera samkomulag við Þýskaland um skilagjald fyrir áldósir og PET- flöskur sem seldar eru á landamærum við Þýskaland og nefndirnar leggja sömuleiðis til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórnar Finnlands um að gera samkomulag við Eistland um skilagjald fyrir áldósir og PET-flöskur sem seldar eru á landamærunum.
    Á Norðurlandaráðsþingi í Ósló voru samþykktar tillögur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar um norrænar aðgerðir til að draga úr hættu sem stafar af hormónaraskandi efnum. Þar var annars vegar tilmælum beint til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hefja samnorrænar rannsóknir á því hvernig litlir skammtar af ákveðnum efnum sem notuð eru í neysluvörur geta haft áhrif eða samverkandi áhrif á hormónakerfi fólks. Hins vegar var tilmælum beint til ríkisstjórna Norðurlandanna um að þær beiti sér fyrir breytingum á löggjöf ESB um efni og efnavöru til að varpa ljósi á efni sem eru skilgreind sem hormónatruflandi og innleiða kröfur um prófun á þeim efnum, þar á meðal á samverkandi áhrifum, sbr. bókun Evrópuþingsins þann 14. mars 2013 um lýðheilsuvernd gegn efnum sem trufla innkirtlastarfsemi líkamans.
    Norðurlandaráð samþykkti í heild sextán tilmæli á grundvelli tillagna umhverfis- og náttúruauðlindanefndar á árinu. Tilmælin voru um norræna langtímastefnu í öryggismálum í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál (tilmæli 3/2013), hnattræna framkvæmdaáætlun um uppsöfnun CO 2 í andrúmsloftinu (tilmæli 4/2013), norrænt samstarf um vistvæn opinber innkaup (tilmæli 5/2013), leiðbeiningar og kröfur fyrir vistvæn opinber kaup (tilmæli 6/2013), aðgerðir í þágu sjálfbærrar þróunar (tilmæli 26/2013), könnun aðgerða sem efla umhverfis- og siglingaöryggi í Eyrarsundi (tilmæli 27/2013), eflt umhverfis- og siglingaöryggi í Eyrarsundi (tilmæli 28/2013), norrænar aðgerðir til að draga úr hættu sem stafar af hormónaraskandi efnum (tilmæli 31/2013), lýðheilsuvernd gegn efnum sem trufla innkirtlastarfsemi líkamans (tilmæli 32/2013), gagnkvæma endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (tilmæli 33/2013), samning visð Þýskaland um endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (tilmæli 34/2013), samning við Eistland um endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (tilmæli 35/2013), aðgerðir til að greiða fyrir innleiðingu ESB- tilskipunar um takmörkun brennisteinsmagns (tilmæli 36/2013), samhæfingu og framkvæmd áætlana um að efla og stækka járnbrautarkerfi á norðlægum svæðum (tilmæli 37/2013), könnun á afleiðingum innleiðingar á brennisteinstilskipuninni og svæðisbundin úrræði (tilmæli 38/2013) og fjármögnun á innviðum siglinga í samstarfssamningum um fjármagn úr Byggðaþróunarsjóði ESB (tilmæli 39/2013).

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vinnur með norræna velferðarlíkanið, velferð, heilbrigðis- og félagsmálastefnu. Hún fjallar um velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, bygginga- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni, áfengi og annan ofneysluvanda.
    Siv Friðleifsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sátu í velferðarnefnd frá 1. janúar til 27. apríl og Jóhanna María Sigmundsdóttir 27. júní til 31. desember. Siv var jafnframt formaður nefndarinnar 1. janúar til 27. apríl. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Velferðarnefnd lagði á árinu 2012 megináherslu á félagslega fjárfestingu á Norðurlöndum.
    Í september afgreiddi velferðarnefnd úr nefnd tillögu um að Norðurlandaráð beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að koma á leiðtogafundi norrænu fjármálaráðherranna og heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna ásamt vísindamönnum um viðfangsefnið „félagsleg fjárfesting á Norðurlöndum“ og vinna að norrænum þekkingargrunni með góðum fyrirmyndum úr opinbera geiranum, frjálsum félagasamtökum og einkageiranum sem byggist á félagslegri fjárfestingu. Tillagan var síðan samþykkt sem tilmæli á Norðurlandaráðsþingi í Ósló.
    Sjö tillögur velferðarnefndar að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um stefnu í norrænu samstarfi um félags- og heilbrigðismál (tilmæli 8/2013), félagslega fjárfestingu á Norðurlöndum (tilmæli 9/2013), langtímaáherslur í krabbameinsmálum (tilmæli 10/2013), samstarf við Samtök norrænna krabbameinsfélaga um notkun á norrænum krabbameinsgagnagrunnum við rannsóknir (tilmæli 11/2013), nýtt skipulag norræns samstarfs í málefnum fatlaðra (tilmæli 12/2013), lokun Norræna lýðheilsuháskólans (NHV) (tilmæli 13/2013) og um að Norræna velferðarmiðstöðin „NVC Danmark“ verði færð undir sama þak og NVC (Svíþjóð) (tilmæli 14/2013).

Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs fjallar um málefni sem snerta réttindi borgara og neytenda auk meginþátta sem snerta lýðræði, mannréttindi, jafnrétti o.fl. og tengjast starfsvettvangi hennar. Nefndin fjallar um lýðræði, mannréttindi, réttindi borgaranna, jafnrétti, neytendamál, matvælaöryggi, baráttu gegn glæpum, þar á meðal alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi, löggjöf, innflytjendur og flóttafólk, samstarf gegn kynþáttafordómum og aukið norrænt samstarf á sviði neytendamála.
    Illugi Gunnarsson sat í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs 1. janúar til 27. apríl og Elín Hirst 27. júní til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Borgara- og neytendanefnd lagði á árinu 2013 megináherslu á fjölbreytileika í velferðarkerfum Norðurlanda og vinnu gegn hvers kyns mismunun.
    Á Norðurlandaráðsþingi í Ósló var tekin fyrir tillaga færeysku landsdeildarinnar um áætlun til að hvetja konur til að flytja til héraða og sjálfstjórnarlanda, m.a. á norðurslóðum, sem verið hafði til umfjöllunar í borgara- og neytendanefnd. Í tillögunni fólst að beina tilmælum til ríkisstjórna á Norðurlöndum um að semja og leggja fram markvissa áætlun sem miðaði að því að koma í veg fyrir brottflutning og að skapa hagvöxt á svæðum þar sem íbúum fer fækkandi. Áætlunin ætti að fela í sér áþreifanlegar tillögur um hvernig skapa megi fleiri störf fyrir konur, ná yfir bætt tækifæri fyrir konur til að stofna eigin fyrirtæki, bætt tækifæri til mennta og framkvæmdaáætlun til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi. Meiri hluti borgara- og neytendanefndar lagði í nefndaráliti til að Norðurlandaráð aðhefðist ekki frekar varðandi tillöguna en minni hluti nefndarinnar studdi hana. Þingfundurinn samþykkti nefndarálit meiri hluta nefndarinnar með 37 atkvæðum gegn 16 og 2 sátu hjá.
    Ein tillaga borgara- og neytendanefndar varð að tilmælum Norðurlandaráðs árið 2013. Tilmælin voru um svæðisbundna stefnumörkun innan ramma UNAOC (tilmæli 7/2013).

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs frá 1. janúar til 27. apríl og Valgerður Gunnarsdóttir frá 27. júní til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu umfjöllunarefni eftirlitsnefndar á árinu 2013 voru norrænu húsin á Íslandi, í Færeyjum, á Grænlandi, Álandseyjum og í Finnlandi, tvöfalt styrkjakerfi í norrænum menningarmálum og verkefni hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.
    Árni Þór Sigurðsson sat í kjörnefnd frá 1. janúar til 27. apríl og Steingrímur J. Sigfússon frá 27. júní til 31. desember. Nefndin fundaði tvisvar á árinu.

5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda þrisvar árið 2013, í janúar, apríl og september. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík 28.–29. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru varnar- og öryggismál, tölvuógnir og stafrænar árásir, og norrænt skilakerfi fyrir áldósir og flöskur.
    Umhverfis- og nátttúruauðlindanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og borgara- og neytendanefnd funduðu sameiginlega um norrænt skilakerfi fyrir áldósir og flöskur. Forsaga málsins er sú að Norðurlandaráð samþykkti árið 2010 tvenn tilmæli um norrænt skilakerfi til norrænu ríkisstjórnanna annars vegar og Norrænu ráðherranefndarinnar hins vegar. Greinargerðir norrænu ríkisstjórnanna vegna tilmælanna hafa vísað til þess að flókið væri að samhæfa skilakerfi landanna og í greinargerð ráðherranefndarinnar var því haldið fram að kostnaður við sameiginlegt kerfi væri ærinn með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi. Nú hafði ráðgjafafyrirtækið Copenhagen Economics gert greiningu á málinu að beiðni Norðurlandaráðs og birt niðurstöður sínar í skýrslu. Þar kom fram að samstarf um norrænt skilakerfi væri hagkvæmt ef tekið væri með í reikninginn landamæraverslun Norðurlanda við Þýskaland og Eistland og að hægt væri að endurvinna hálfan milljarð fleiri áldósir á ári með þeim hætti. Þess ber að geta að Ísland, Færeyjar og Grænland voru ekki hluti af greiningunni. Umhverfis- og nátttúruauðlindanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og borgara- og neytendanefnd ákváðu á fundinum að senda erindi til Norrænu ráðherranefndarinnar um niðurstöður skýrslunnar í þeim tilgangi að hafnar yrðu viðræður við Þýskaland og Eistland um samkomulag þess efnis að landamæraverslunin við þessi lönd yrðu hluti af norrænu skilakerfi.
    Þá fjölluðu umhverfis- og nátttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á sameiginlegum fundi um vistvæna vottun ferðamannastaða. Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri umhverfisráðgjafarfyrirtækisins UMÍS ehf. Environice, var gestur fundarins en hann er einn af höfundum skýrslunnar „Vistvæn vottun ferðamannastaða“ sem Norræna ráðherranefndin lét vinna árið 2012. Nefndirnar ákváðu að halda umfjöllun sinni um málið áfram og hyggjast taka það upp á fundi með fulltrúum norræna umhverfismerkisins Svansins, sem stuðlar að því að tryggja sjálfbæra þróun á Norðurlöndum, og vottar m.a. hótel og farfuglaheimili.
    Borgara- og neytendanefnd fjallaði um neytendamál á Íslandi og fékk á sinn fund af því tilefni Ragnhildi Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins, og Tryggva Axelsson, forstjóra neytendastofu. Þar kom m.a. fram að fyrirhugað væri að málaflokkurinn í heild flyttist til innanríkisráðuneytisins og að unnið yrði að fjögurra ára aðgerðaáætlun um hann.
    Menningar- og menntamálanefnd fékk á sinn fund Önnu Hildi Hildibrandsdóttur, framkvæmdastjóra útflutningsskrifstofu norrænnar tónlistar (Nordicmusicexport – NOMEX), til að kynna norrænt tónlistarsamstarf. Hún fjallaði m.a. um kynningarstarf NOMEX til stuðnings því að norræn tónlist fengi meiri athygli á Norðurlöndunum. Ein af aðgerðunum til þess að svo megi verða er að koma á fót norrænum spilunarlista á netinu sem vettvangi þar sem löndin gætu vikulega sett fram nýja tónlist og þar með glætt áhuga á henni milli landanna.
    Menningar- og menntamálanefnd fjallaði einnig um tungumál. Sigrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri Nordplus-tungumálasamstarfsins, var gestur fundarins varðandi samstarfið sem hefur það markmið að stuðla að framgangi norrænna tungumála og menningar, og gagnkvæmum tungumála- og menningarskilningi milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Fram kom m.a. að nýlegar kröfur um að samstarfsverkefni þurfi að hafa þrjá samstarfsaðila eða lönd hefur í vissum tilfellum skapað erfiðleika og að það gæti verið skýringin á fækkun umsókna um styrki til verkefna. Einnig var fjallað um ISLEX-verkefnið um norræna orðabók á netinu. Þá fór menningar- og menntamálanefnd í heimsókn í stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Aprílfundir og vorþingfundur Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Vorþingfundur Norðurlandaráðs og nefndafundir voru haldnir 10.–11. apríl. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Helgi Hjörvar, formaður, Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Á þingfundinum var sérstök áhersla lögð á utanríkis-, öryggis- og varnarmál ásamt samfélagsöryggi, auk fyrirspurnartíma Norrænu ráðherranefndarinnar með fyrirfram skriflegum fyrirspurnum.
    Þingfundinn sátu, auk þingmanna í Norðurlandaráði, utanríkisráðherra Noregs, samstarfsráðherra Svíþjóðar, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, leiðtogi stjórnarinnar á Álandseyjum, varnarmálaráðherra Finnlands, samstarfsráðherra Danmerkur, ráðherra stjórnarinnar á Álandseyjum í ráðherranefnd samstarfsráðherranna og utanríkisráðherra Finnlands. Þá tóku einnig þátt af hálfu fastanefnda þjóðþinganna formaður utanríkis- og varnarmálanefndar norska þingsins, forseti lögþingsins á Álandseyjum, formaður varnarmálanefndar finnska þingsins, formaður varnarmálanefndar danska þingsins og formaður utanríkismálanefndar sænska þingsins.
    Carl Haglund, varnarmálaráðherra Finnlands, sem fer með formennsku í norræna varnarmálasamstarfinu NORDEFCO (Nordic Defence Cooperation), sagði að norræna varnarmálasamstarfið vekti athygli beggja vegna Atlantshafsins fyrir sveigjanleika, gagnsæi og hagkvæmar lausnir. Í samstarfinu þyrftu öll lönd ekki að starfa saman að öllum verkefnum heldur aðeins þegar löndin sæju sér hag í því sem leiddi til þess að stundum tækju lönd þátt í tví- og þríhliða samstarfsverkefnum.
    Karin Enström, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, greindi frá því að vonir stæðu til að ný Haga-yfirlýsing yrði undirrituð í júní, en Haga-samstarfið er norrænt samstarf um samfélagsöryggi og björgunarviðbúnað. Það byggist á Haga-yfirlýsingunni sem undirrituð var í Haga- höllinni í Stokkhólmi árið 2009 af norrænum ráðherrum sem fara með málaflokkinn eða fulltrúum þeirra.
    Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, fjallaði m.a. um norrænt samstarf um loftrýmiseftirlit yfir Íslandi. Hann sagði að þegar samþykkt um það lægi fyrir yrði hlutverkaskipting við það þannig að Finnar og Svíar mundu sjá um eftirlit loftrýmisins og Norðmenn, sem NATO-þjóð, ef svo ólíklega vildi til, mundu sjá um stjórnun loftrýmisins (Air Policing).
    Helgi Hjörvar var fulltrúi flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði við umræðuna. Hann sagði m.a. að umræðan um öryggis- og varnarmál og samfélagsöryggi væri mikilvæg vegna þess að hún snerti viðkvæmar grundvallar lýðræðisspurningar á borð við réttindi borgara, persónufrelsi og eftirlit með valdheimildum. Eitt svið sem Norðurlandaráð hefði látið til sín taka varðandi samfélagsöryggi hefði verið öryggi í norðurhöfunum og á norðurskautinu. Mikilvægt væri að átta sig á að í norðurhöfum skorti enn á upplýsingar, eftirlit og björgunarviðbúnað. Helgi hvatti ráðherrana til að beita sér fyrir því að auka björgunarviðbúnað í norðurhöfunum þar sem hætta væri á slysum, bæði á fólki og umhverfi.
    Þingfundurinn samþykkti tillögu forsætisnefndar um að Norðurlandaráð mundi standa fyrir hringborðsumræðum um varnar- og öryggismál á Norðurlöndum í september í Helsinki sem til yrði boðið norrænum ráðherrum, formönnum þeirra fastanefnda þjóðþinganna sem fara með varnarmál, norrænum varnarmálaforingjum og fulltrúum NORDEFCO. Markmiðið með hringborðsumræðunum er að stuðla að aukinni hlutdeild þingmanna í umfjöllun um norrænt varnarmálasamstarf.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Þórshöfn.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum 23.–24. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Höskuldur Þórhallsson, formaður, Valgerður Gunnarsdóttir, Brynjar Níelsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall og Steingrímur J. Sigfússon. Helstu mál á dagskrá voru fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2014, björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum, makríldeilan, skilagjald fyrir drykkjarumbúðir, rannsóknastefna og félagsleg fjárfesting.
         
65. þing Norðurlandaráðs í Ósló.
    Þing Norðurlandaráðs var haldið í norska Stórþinginu í Ósló 28.–31. október. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Höskuldur Þórhallsson, formaður, Valgerður Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall og Steingrímur J. Sigfússon, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru norrænn leiðtogafundur um áskoranir í norrænu samstarfi með hliðsjón af ungmennum samtímans, formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, stjórnsýsluhindranaráð og samstarf um stöðlun og reglusetningu í byggingariðnaði, alþjóðlegt samstarf og norrænt samstarf í tengslum við Evrópusambandið, úranvinnsla Grænlendinga, eftirlit með hafsvæðum á norðurslóðum, aukið norrænt samstarf í menntamálum, þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna, sjálfbær þróun og aðgerðir til að draga úr hættu af hormónaraskandi efnum, hátíðardagskrá með afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs og fundur norrænna þingforseta.
    Norðurlandaráðsþingið hófst með leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra og leiðtoga landsstjórna á Norðurlöndum með þingmönnum Norðurlandaráðs sem að þessu sinni fjallaði um framtíðarsýn í norrænu samstarfi með hliðsjón af því hvernig Norðurlöndin koma til móts við ungmenni samtímans og því hvort norræn samfélagsgerð framtíðarinnar verði traust og sjálfbær.
    Í máli ráðherranna kom fram að til þess að norrænum samfélögum og norrænu samstarfi vegnaði vel í framtíðinni til góðs fyrir ungmenni samtímans og komandi kynslóðir þá væri nauðsynlegt að takast á við ögrandi áskoranir. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, nefndi í því sambandi áskoranir á borð við að auka atvinnuþátttöku ungs fólks, að auka samkeppnishæfni á alþjóðlegum vettvangi, að leggja áherslu á sjálfbærni og að takast á við þá lýðþróun að æ færri þurfa að brauðfæða æ fleiri. Til að mæta þessum áskorunum í norrænu samstarfi lagði Reinfeldt m.a. áherslu á vinnu gegn stjórnsýsluhindrunum og aukna möguleika á vinnustaðanámi og vinnu í öðru norrænu landi, auk þess sem umfjöllunarefni í Norrænu ráðherranefndinni yrðu að vera í samhengi við áherslusvið norrænu ríkisstjórnanna.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók undir með Reinfeldt um sjálfbærni samfélaga og að auka þurfi samkeppnishæfni Norðurlanda á alþjóðavettvangi en sagði enn fremur að Norðurlöndin ættu að hvetja til menntunar og rannsókna, hvetja til þverfaglegs samstarfs, hvetja ungt fólk til að taka ábyrgð á alþjóðlegum áskorunum á borð við norðurslóðir, hvetja til menningarstarfs og stuðla að menningarlegri fjölbreytni.
    Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, fjallaði einnig um mikilvægi vinnu gegn stjórnsýsluhindrunum á norrænum vettvangi og vinnustaðanám í öðrum norrænum löndum. Hún lagði einnig áherslu á samstarf um sjálfbæran hagvöxt og atvinnuþátttöku.
    Aleqa Hammond, formaður Naalakkersuisut, landstjórnar Grænlands, sagði framtíðarsýn Grænlendinga um norrænt samstarf snúast um áframhaldandi traust og umræður um ágreiningsmál á grunni gagnkvæmrar virðingar og um að Grænlendingar öðlist fulla aðild að samstarfinu nú þegar Grænland hafi tekið að sér flest þau verkefni sem ríki leysi jafnan af hendi. Til þess að svo megi verða þurfi þó að breyta Helsingfors-samningnum.
    Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, leiðtogi færeysku landsstjórnarinnar, fjallaði einnig um að mikilvægt væri í framtíðarsýn um norræna samvinnu á jafnræðisgrundvelli að Helsingfors-samingurinn aðlagaðist framtíðinni í stað þess að framtíðin aðlagaðist Helsingfors-samningnum.
    Í framhaldi af leiðtogafundinum kynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Áætlunin ber yfirskriftina Gróska og lífskraftur. Í henni er lögð áhersla á þrjú meginverkefni. Það fyrsta er Norræna lífhagkerfið sem sameinar áherslur á grænan hagvöxt og sjálfbæra þróun með því að beina sjónum að lífrænum auðlindum Norðurlanda í lofti, á láði og legi, þ.e.a.s. lífmassanum og betri nýtingu þeirra. Annað verkefnið er Norræna velferðarvaktin þar sem fjallað er um viðnámsþrótt velferðarkerfisins í kreppuástandi, velferðarvísar þróaðir, hugað að samstarfi í heilbrigðismálum og haldnar ráðstefnur um til að mynda fjölskyldustefnur og velferð barna á Norðurlöndum og stöðu kynjanna á norðurslóðum. Þriðja meginverkefnið er Norræni spilunarlistinn sem snýst um að virkja frumleika og sköpunarkraft sem auðlind og menningarverðmæti. Á heimasíðu verkefnisins verður hægt að koma á framfæri norrænni tónlist, auðvelda aðgengi að henni og styrkja um leið norrænan tónlistarmarkað og auka útflutningsmöguleika.
    Eygló Harðardóttir samstarfsráðherra kynnti tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um aðgerðaáætlun um afnám stjórnsýsluhindrana á tímabilinu 2014–2017 í umræðum um stjórnsýsluhindranir. Í áætluninni eru stjórnsýsluhindranir skilgreindar sem „Lög, opinberar reglur eða venjur, sem hefta frjálsa för einstaklinga eða tækifæri fyrirtækja til að starfa þvert á landamæri á Norðurlöndum“. Aðgerðaáætlunin felur í sér að sett verði á laggirnar stjórnsýsluhindranaráð til að vinna gegn stjórnsýsluhindrunum, í stað nefndar um afnám stjórnsýsluhindrana sem starfað hefur sl. sex ár. Í ráðinu munu eiga sæti fulltrúar norrænu landanna átta, auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fulltrúa Norðurlandaráðs. Markmiðið er að tengja aðgerðir gegn stjórnsýsluhindrunum nánar framkvæmdarvaldi í löndunum og gera stjórnvöldum og stjórnsýslu kleift að axla meiri ábyrgð í starfinu og ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi. Helstu áherslur í starfi stjórnsýsluhindranaráðsins verða þær að auka tengsl við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og gera hlutverk samstarfsráðherranna skýrara, veita framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar veigameira hlutverk í starfi ráðherranefndarinnar um afnám hindrana og að fulltrúar landanna beri ábyrgð á að tengja og skipuleggja starf um afnám stjórnsýsluhindrana í eigin heimalandi með því að koma á fót, í þeim löndum þar sem það hefur ekki þegar verið gert, tengslaneti og starfshópi um stjórnsýsluhindranir. Fulltrúar landanna í stjórnsýsluhindranaráðinu munu skiptast á að fara með formennsku í því í samræmi við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og formaður stjórnsýsluhindranaráðsins mun stýra starfinu í samstarfi við framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Á árinu 2014 mun Ísland fara með formennsku í stjórnsýsluhindranaráðinu og greindi samstarfsráðherra frá því í ræðu sinni að Siv Friðleifsdóttur hefði verið falið að vera fulltrúi Íslands í ráðinu og leiða starf þess árið 2014.
    Helgi Hjörvar, sem var framsögumaður flokkahóps jafnaðarmanna í umræðunni um stjórnsýsluhindranir, sagði mikilvægt að hafa athugasemdir upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd til hliðsjónar varðandi aðgerðaáætlunina um afnám stjórnsýsluhindrana 2014–2017. Hann sagði enn fremur að rökstuðningur Norrænu ráðherranefndarinnar í svari varðandi hugmynd Norðurlandaráðs um norrænan umboðsmann hefði ekki reynst haldbær þar sem nýlega hefði sænski umboðsmaðurinn hafnað því að fjalla um mál norskra borgara varðandi norrænar skattareglur, en hugmyndin var að Norðurlandabúar gætu leitað til umboðsmanna í viðkomandi heimalandi varðandi meint brot á norrænum réttindum.
    Eygló Harðardóttir svaraði að Norræna ráðherranefndin hefði ekki hafnað endanlega hugmyndinni um norrænan umboðsmann, að umræðan um slíkt væri áhugaverð og að ávallt þyrfti að hafa hugfast hvað kæmi íbúum Norðurlanda mest til góða.
    Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, gaf Norðurlandaráðsþinginu skýrslu fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna í umræðu um alþjóðlegt samstarf. Bildt sagði að mikilvæg þróun og aukning hefði átt sér stað á síðastliðnum fimm árum í samstarfi Norðurlanda í utanríkis- og öryggismálum og tók sem dæmi æfingar Svíþjóðar og Finnlands með Noregi í tengslum við loftrýmiseftirlit NATO yfir Íslandi árið 2014. Á tímabilinu hefði Norðurskautsráðið einnig orðið áberandi á alþjóðavettvangi undir formennsku þriggja norrænna landa og komið hefði verið á fót sameiginlegri skrifstofu ráðsins, fjárhagsáætlun og ráðið samið um og skrifað undir tvær bindandi samþykktir. Sænski utanríkisráðherrann greindi einnig frá sameiginlegri áherslu innan hópsins Vinir Sýrlands um pólitíska lausn deilunnar í Sýrlandi og vinnu norrænu utanríkisráðherranna í því augnamiði að styrkja sameiginlega rödd Norðurlanda innan Sameinuðu þjóðanna. Þá lýsti hann einnig vilja norrænu landanna til náins samstarfs um friðaruppbyggingu á alþjóðlegum vettvangi, auknu samstarfi þeirra varðandi netógnir og stafrænar árásir og niðurstöðu leiðtoga norrænu landanna og Bandaríkjanna á fundi þeirra í Svíþjóð í september um að efna til árlegra funda þessara aðila um alþjóðleg öryggismál. Þá þakkaði Bildt og fagnaði stuðningi norrænna þingmanna við norrænt samstarf um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, bæði á þjóðþingunum og í Norðurlandaráði, og sagði það þýðingarmikið í auknu samstarfi á komandi tíð.
    Höskuldur Þórhallsson tók þátt í umræðunni um alþjóðlegt samstarf fyrir hönd flokkahóps miðjumanna varðandi skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf í tengslum við Evrópusambandið. Höskuldur sagði að markmiðið með norrænni samvinnu í tengslum við ESB væri að standa vörð um hagsmuni Norðurlanda en til þess að svo mætti verða yrði pólitískur vilji að vera til staðar. Það gæti skipt gríðarlegu máli fyrir hagsmuni Norðurlanda að norræn hugsun væri til staðar þegar ákvarðanir eru teknar í Evrópumálum en því miður hefði aðeins skort á það í umræðum um fiskveiðikvóta Atlantshafssíldarinnar. Höskuldur kvaðst óttast að það sem hefði gerst varðandi Atlantshafssíldina gæti gerst í fleiri málum og að það gæti haft áhrif á sjálfsákvörðunarrétt um nýtingu á náttúruauðlindum. Samtímis sagðist Höskuldur vona að víðtækt samstarf tækist um mál af þessu tagi í framtíðinni og sýnd meiri fyrirhyggja.
    Úranvinnsla Grænlendinga kom til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu á norræna leiðtogafundinum og í umræðum um alþjóðlegt samstarf. Steingrímur J. Sigfússon spurði á norræna leiðtogafundinum Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, vegna nýlegrar ákvörðunar grænlenska þingsins um að aflétta banni við vinnslu úrans á Grænlandi með hvaða hætti danska ríkisstjórnin hygðist koma að því máli. Thorning-Schmidt svaraði að samkvæmt sjálfsstjórnarlögum um Grænland frá 2009 væri það á forræði Grænlands að taka ákvörðun um að aflétta banninu, samtímis því að vinnsla úrans gæti haft afleiðingar fyrir utanríkis-, varnar- og öryggismál danska ríkisins, sem væri á forræði Danmerkur. Því væri samstarf Danmerkur og Grænlands heppileg vegferð í málinu og um það væru Danmörk og Grænland sammála. Kim Kielsen, þingmaður grænlensku landsdeildarinnar, spurði á leiðtogafundinum Alequ Hammond, formann Naalakkersuisut, landstjórnar Grænlands, hvort Naalakkersuisut gæti staðfest að vinnsla úrans yrði samkvæmt bestu alþjóðlegum venjum með hliðsjón af vernd umhverfis og heilbrigðis. Hammond svaraði að aldrei yrði ráðist í vinnslu úrans á Grænlandi ef af henni stafaði hætta fyrir umhverfi og heilbrigði, það væri í samræmi við löggjöf um hráefni og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í umræðum um alþjóðasamstarf spurði Johan Lund Olsen, þingmaður dönsku landsdeildarinnar, hvort önnur Norðurlönd væru reiðubúin að aðstoða Danmörku í þeirri þröngu stöðu sem upp væri komin í öryggismálalegum skilningi varðandi vinnslu og útflutning úrans á Grænlandi, þar sem utanríkis-, öryggis- og varnarmál væru ekki á forræði Grænlands. Norski utanríkisráðherrann Børge Brende svaraði á þá leið að skilningur hans væri sá að málið væri til umfjöllunar og umræðu milli Grænlands og Danmerkur. Aleqa Hammond tók fram við sömu umræðu að hráefni Grænlands væru á forræði Grænlands samkvæmt sjálfsstjórnarlögunum. Johan Lund Olsen benti á að nýlega hefði dansk-grænlenskur starfshópur, skipaður af dönsku ríkisstjórninni og grænlensku landsstjórninni, komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla úrans á Grænlandi og mögulegur útflutningur þess væri skýrt utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Því snerti vinnsla úrans á Grænlandi utanríkis-, öryggis- og varnarmál og af þeim sökum væri ágreiningur milli Danmerkur og Grænlands um málið. Aleqa Hammond ítrekaði að hráefni á Grænlandi væru á forræði Grænlands en bætti við að Grænlandi væri skylt að starfa með Danmörku svo lengi sem varnar- og öryggismál væru á forræði Danmerkur og að gerður yrði samstarfssamningur milli landanna í þessu sambandi.
    Eftirlit með hafsvæðum á norðurslóðum var einnig til umræðu á norrænum leiðtogafundi og í umræðu um alþjóðlegt samstarf. Aleqa Hammond sagði á norræna leiðtogafundinum að eftir aðkomu Svíþjóðar og Finnlands að eftirliti með loftrými yfir Íslandi árið 2014 gæti næsta skref verið að mynda sveit dróna, ómannaðra eftirlitsflugvéla, yfir Norður-Atlantshafi. Bertel Haarder, formaður dönsku landsdeildarinnar, sagði hugmyndina athyglisverða í ljósi harðrar gagnrýni dönsku ríkisendurskoðunarinnar í nýlegri skýrslu á skorti á eftirliti með grænlensku hafsvæði en vildi ekki taka afstöðu til hugmyndarinnar.
    Aleqa Hammond fjallaði frekar um hugmyndina um norræna sveit dróna í umræðunni um alþjóðlegt samstarf. Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, sagði af því tilefni að eftirlit með hafsvæðum úr lofti væri annars eðlis en loftrýmiseftirlit og að eftirlit með alþjóðlegum hafsvæðum á norðurslóðum ætti fyrst og fremst að fjalla um í Norðurskautsráðinu með þátttöku allra norðurskautsríkjanna átta. Fjallað hefði verið um eftirlit með hafsvæðum í Norðurskautsráðinu og örugglega yrði fjallað frekar um efnið á þeim vettvangi. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, bætti því við orð Tuomioja að fjallað hefði verið óformlega um eftirlit og samskipti á norðurslóðum á jaðri Norðurskautsráðsins en þar hefði fyrst og fremst verið um að ræða eftirlitskerfi úr geimnum og að framþróun á því sviði ætti sér stað í Kanada, Rússlandi og í Evrópu. Bildt endaði mál sitt með því að segja áskoranirnar miklar varðandi eftirlit og samskipti á norðurslóðum og að þarfirnar fyrir hvort tveggja kæmu til með að aukast.
    Forsetar norrænu þjóðþinganna funduðu í tengslum við þing Norðurlandaráðs og tóku þátt í þingfundi ráðsins. Einar K. Guðfinnson, forseti Alþingis, sótti þingið og sat fund þingforsetanna. Til umfjöllunar á fundinum var norrænt samstarf í alþjóðlegum þingmannasamtökum, þátttaka ungs fólks og innflytjenda í þingkosningum, samhliða umræður um norræn málefni í norrænu þjóðþingunum, ný umfjöllunarefni í Norðurlandaráði og hátíðarhöld í tilefni af 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar árið 2014.
    Þá afhenti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Ósló norska forsætisráðherranum, Ernu Solberg, þjóðargjöf Íslendinga til Norðmanna í tilefni af því að hundrað ár voru liðin árið 2005 frá endurreisn norska konungdæmisins. Gjöfin, sem er viðhafnarútgáfa norsku konungasagnanna í fimm bindum, var afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í Ósló, en íslensk stjórnvöld kunngerðu í gjafabréfi 13. maí 2005 að þau óskuðu eftir að heiðra norsku þjóðina á afmæli konungdæmisins með því að færa henni vísindalega útgáfu af Sverris sögu, Morkinskinnu, Böglunga sögu og Hákonar sögu sem allar voru skrifaðar á Íslandi á miðöldum. Hið íslenska fornritafélag hafði veg og vanda að undirbúningi útgáfunnar.
    Í lok Norðurlandaráðsþings var kosið í nefndir og embætti ráðsins fyrir næsta ár. Nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs verður með þeim hætti að Höskuldur Þórhallsson og Helgi Hjörvar verða í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst í borgara- og neytendanefnd, Róbert Marshall í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Steingrímur J. Sigfússon í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd, og Jóhanna María Sigmundsdóttir í velferðarnefnd.

Aðrir fundir.
    Helgi Hjörvar var fulltrúi í sendinefnd Norðurlandaráðs á leiðtogafundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins 17.–18. janúar í Riga, á þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Pärnu í Eistlandi 25.–27. ágúst og á fundi Norðurlandaráðs með pólska þinginu í Varsjá 12. september. Hann var einnig áheyrnarfulltrúi ráðsins á stjórnarfundum þingmannaráðstefnu norðurskautssvæðisins 11.–13. mars í Washington og 18.–20. september í Murmansk.
    Höskuldur Þórhallsson var fulltrúi í sendinefnd Norðurlandaráðs á hringborðsráðstefnu um varnarmál sem haldin var af Norðurlandaráði og norræna varnarmálasamstarfinu í Helsinki 30. september. Hann var einnig fulltrúi í sendinefnd Norðurlandaráðs á þingmannafundi Norðlægu víddarinnar 11.–12. nóvember í Arkhangelsk.
    Þá átti Helgi Hjörvar sæti í ráðningarhópi Norðurlandaráðs um ráðningu nýs framkvæmdastjóra ráðsins og sótti fund hans í Gardermoen 15. febrúar.

6. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, Baltic Sea Parliamentary Conference – BSPC, var haldin í Pärnu í Eistlandi 25.–27. ágúst undir yfirskriftinni „Sjálfbær nýsköpun til grundvallar samkeppnishæfum hagkerfum á Eystrasaltssvæðinu.“ Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall og Helgi Hjörvar, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál til umfjöllunar voru samvinna á Eystrasaltssvæðinu, nýsköpun og samkeppnishæfni, grænn hagvöxtur og orkunýting, og umhverfi frumkvöðlastarfs í skapandi greinum.
    Samvinna á Eystrasaltssvæðinu var til umfjöllunar í fyrsta hluta ráðstefnunnar. Darya Akhutina, starfandi formaður vettvangs frjálsra félagasamtaka á Eystrasaltssvæðinu, var meðal framsögumanna. Hún sagði að vettvangurinn, sem stofnaður hefði verið árið 2001, væri einnig tengslanet, en vettvangurinn fundar árlega og sendir frá sér ályktanir. Akhutina kynnti síðustu ályktun vettvangsins í fimm liðum frá ellefta fundi hans 16.–17. apríl 2013 í Pétursborg í Rússlandi. Í fyrsta lagi að mikilvægt væri að auka pólitískan og fjárhagslegan stuðning frjálsra félagasamtaka á Eystrasaltssvæðinu til alþjóðasamvinnu. Í öðru lagi að þörf væri fyrir þátttöku og sérfræðiþekkingu frjálsra félagasamtaka í ákvarðanatökuferlum. Í þriðja lagi að mikilvægt væri að auka aðkomu frjálsra félagasamtaka að samvinnu innan ramma Eystrasaltsáætlunar Evrópusambandsins og Norðlægu víddarinnar. Í fjórða lagi að þörf væri á að koma á skipulagi sem gerði þátttöku Rússlands og rússneskra frjálsra félagasamtaka mögulega í áætlunum í alþjóðasamstarfi. Í fimmta lagi að þörf væri á að greiða fyrir vegabréfsáritunum, m.a. með því að leyfa að samstarf frjálsra félagasamtaka og ungliðahreyfinga væri gild ástæða vegabréfsáritunar. Að lokum bauð Akhutina þátttakendur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins velkomna á tólfta fund vettvangs frjálsra félagasamtaka á Eystrasaltssvæðinu sem haldinn verður 2.–3. júní í Turku í Finnlandi. Í ályktun þingmannaráðstefnunnar var í 2. grein hvatt til að greitt yrði fyrir vegabréfsáritunum á Eystrasaltssvæðinu milli landa innan og utan Schengen-svæðisins.
    Við umræður um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu tók danski þingmaðurinn Benny Engelbrecht til máls. Hann undirstrikaði mikilvægi þingmannasamstarfs á Eystrasaltssvæðinu og sagði að danska sendinefndin væri mótfallin allri mismunun vegna kynferðis, kynhneigðar eða trúarbragða. Hann fagnaði því að sum lönd á Eystrasaltssvæðinu hefðu formgert réttindi sam- og tvíkynhneigðra og transfólks, samhliða því að hann lýsti yfir áhyggjum af setningu laga sem bönnuðu áróður því til stuðnings. Engelbrecht sagði að Eystrasaltssvæðið gæti verið fyrirmynd annara svæða varðandi mannréttindi og hvatti þingmannaráðstefnuna til að taka málefnið til umfjöllunar.
    Nýsköpun og samkeppnishæfni var til umfjöllunar í öðrum hluta þingmannaráðstefnunnar. Dr. Silvia Stiller, sem stundar rannsóknir við alþjóðahagfræðistofnun Hamborgar, var meðal framsögumanna og kynnti möguleika og áskoranir varðandi nýsköpun framtíðarinnar á Eystrasaltssvæðinu. Hún sagði fjóra meginstrauma verða ríkjandi í þróun Eystrasaltssvæðisins í framtíðinni; aukið samspil varðandi þjóðarframleiðslu á mann, aukin tengslamyndun varðandi verslun og vinnumarkað, lýðfræðilega þróun og aukin áhersla á þjónustu- og þekkingariðnað. Stiller benti á að nýsköpun væri sérstaklega mikilvæg varðandi tvo síðustu straumana. Þá greindi hún þrenns konar mismun varðandi skipulag og þróun á Eystrasaltssvæðinu sem hefði áhrif á nýsköpun. Í fyrsta lagi mismun á þjóðarframleiðslu á mann, í öðru lagi mismunandi möguleika á nýsköpun í löndunum og í þriðja lagi mismun á fjárfestingu í rannsóknum og þróun í bæði einkageiranum og opinbera geiranum. Stiller sagði að æskilegt væri að Eystrasaltsríkin og Pólland næðu Norðurlöndunum og Þýskalandi varðandi þjóðarframleiðslu á mann, skipulag efnahagsmála og þekkingariðnað. Til að auka möguleika á nýsköpun þyrfti að auka tengsl og klasamyndun yfir landamæri, þróa innviði og stuðla að frjálsri för vinnuafls. Í ályktun þingmannaráðstefnunnar var hvatt til að menn færðu sér í nyt aukinn svæðisbundinn virðisauka sem hlytist af samvinnu um nýsköpun, fjallað um lýðfræðilega þróun og þróun samfélaga á þekkingargrundvelli.
    Grænn hagvöxtur og orkunýting var til umfjöllunar í þriðja hluta ráðstefnunnar. Cecilie Tenfjord-Toftby, formaður starfshóps þingmannaráðstefnunnar um grænan hagvöxt og orkunýtingu, kynnti lokaskýrslu starfshópsins og þær tillögur sem starfshópurinn lagði fram í skýrslunni. Tillögur starfshópsins, sem hefur starfað frá ágúst 2011, voru átta. Í fyrsta lagi að þróa og innleiða fjármögnunarmöguleika til að styðja grænan hagvöxt og orkunýtingu innan landa og innan svæðisins. Í öðru lagi að tryggja nauðsynlegan stuðning við þróun grænnar tækni. Í þriðja lagi að þróa og gera græn opinber innkaup. Í fjórða lagi að vinna saman að samsvarandi svæðisbundnum tæknistöðlum og byggingarreglum. Í fimmta lagi að styðja viðleitni Evrópusambandsins um að styrkja markað með kvóta fyrir útblástur gróðurhúslofttegunda. Í sjötta lagi að styðja viðleitni um að tengja raforkunet ólíkra landa. Í sjöunda lagi að greiða fyrir þróun og fjárfestingu í innviðum til að tryggja framboð umhverfisvæns eldsneytis fyrir skip og báta. Í áttunda lagi að stuðla að aukinni meðvitund meðal fyrirtækja og heimila um umhverfislegar afleiðingar núverandi ósjálfbærra framleiðslu- og neysluhátta. Fjórar af tillögum starfshópsins rötuðu í ályktun þingmannaráðstefnunnar; um aukna meðvitund um umhverfislegar afleiðingar núverandi framleiðslu- og neysluhátta, um samsvarandi tæknistaðla og byggingarreglur, um tengsl raforkuneta, og um fjármögnunarmöguleika til að styðja grænan hagvöxt og orkunýtingu.
    Umhverfi frumkvöðlastarfs í skapandi greinum var til umfjöllunar í fjórða og síðasta hluta þingmannaráðstefnunnar. Deborah Dawton, forstöðumaður skrifstofu evrópskra hönnunarsamtaka, var meðal framsögumanna og kynnti 21 tillögu evrópska leiðtogaráðsins um hönnun sem framlag til sjálfbærs hagvaxtar og aukinnar hagsældar. Dawton undirstrikaði mikilvægi hönnunar í nýsköpunarverkefnum til að auka hagsæld og að samvinna milli hönnunargeirans, fyrirtækja og opinbera geirans stuðlaði að betri þjónustu. Ein af tillögum leiðtogaráðsins um hönnun fjallaði um aukna samkeppnishæfni sem hlytist af endurhönnun afurða sem þegar eru fyrir hendi.
    Mikael Sjövall, kynningarstjóri Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins, Nordic Environment Finance Corporation – NEFCO, var einnig framsögumaður um umhverfi frumkvöðlastarfs í skapandi greinum. Hann benti m.a. á að gífurlegir möguleikar á nýsköpun væru fólgnir í minni losun eldsneytis í hafið frá skipum og bátum. Líta ætti á mengun sem viðskiptatækifæri. Í 12. grein ályktunar þingmannaráðstefnunnar var fjallað um stuðning við skapandi greinar sem hreyfiafl hagvaxtar og atvinnu.
    Ályktun þingmannaráðstefnunnar var undirbúin af ályktunarnefnd sem Jóhanna María Sigmundsdóttir sat í fyrir hönd Alþingis sem formaður íslensku sendinefndarinnar.
    Næsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, sú 23. í röðinni, verður í Olsztyn í Póllandi 24.–26. ágúst 2014.

7. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Verðlaun ráðsins 2013 voru afhent við glæsilega hátíðardagskrá í norsku óperunni 30. október í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Afhending verðlaunanna fór í fyrsta skipti fram með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis, auk þess sem sjónvarpsútsending var frá afhendingunni á öllum norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum. Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs á síðasta ári afhentu verðlaunahöfum verðlaunin, nýja verðlaunastyttu sem nefnist Norðurljós. Haldin var samkeppni um verðlaunastyttuna og báru sigur úr býtum hönnuðirnir Astrid Wiwel frá Danmörku og Linn Wie frá Noregi. Fram til þessa hafa verið veitt vönduð handskrifuð viðurkenningarskjöl fyrir verðlaunin.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á máli eins Norðurlandanna. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumálum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Skáldsagan Profeterne i Evighedsfjorden eftir dansk-norska rithöfundinn Kim Leine hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Leine er fæddur í Noregi en flutti til Danmerkur þegar hann var 17 ára og bjó síðan og starfaði á Grænlandi í 15 ár.
    Profeterne i Evighedsfjorden segir frá danska prestinum Morten Falck sem fór til Grænlands í lok átjándu aldar.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir að Profeterne i Evighedsfjorden sé grípandi söguleg skáldsaga um kúgun og uppreisn. Skáldsagan sé margslungið verk þar sem fram kemur andúð á nýlendustefnu og hugleiðingar um manneskjuna sem líkama og hugsun.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Anna Þorvaldsdóttir tónskáld, verðlaunahafi frá því í fyrra, afhenti Kuusisto verðlaunin á verðlaunahátíðinni í Ósló.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir að Pekka Kuusisto sé ótvírætt fiðluleikari á heimsmælikvarða og að hann búi yfir einstakri sköpunar- og tónlistargáfu. Ennfremur segir: „Pekka Kuusisto fer óbundinn og fullur forvitni um víðar lendur tónlistarinnar og finnur þar alveg nýjar hliðar á þekktum fyrirbrigðum. Hann er óhræddur við að nema ný lönd, en býður jafnframt áheyrendum og meðspilurum til skapandi samspils. Sem tónskáld, útsetjari og listrænn stjórnandi býr hann til samhengi sem örvar til sköpunar, ekki síst á sviði þjóðlagatónlistar. Pekka Kuusisto hefur sterka nærværu á sviði og hann hefur vald á öllum aðferðum og stílbrögðum, allt frá tæknilegum snilldarbrögðum til hins einfalda og hjartnæma.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Við veitingu verðlaunanna árið 2013 var lögð áhersla á að þau skyldu veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefði vöru, uppfinningu eða með öðrum hætti aukið skilvirka nýtingu auðlinda og þar með stuðlað að því að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á náttúruna.
    Selina Juul hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir baráttu sína gegn matarsóun á vettvangi neytendahreyfingarinnar Stöðvum sóun á mat (Stop Spild Af Mad). Juul stofnaði hreyfinguna árið 2008.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Matarsóun er siðferðislegt vandamál í heimi þar sem næstum einn milljarður manna sveltur, en hún hefur jafnframt mikil áhrif á efnahag og umhverfi. Sífellt fleiri skógar eru ruddir í heiminum til að hægt sé að hefja landbúnaðarframleiðslu, meðal annars nautgriparækt, í því skyni að brauðfæða stöðugt vaxandi fólksfjölda. Samtímis er mat hent um allan heim. Maturinn sem þannig fer forgörðum hefði getað nýst sveltandi fólki, eða komið að gagni með því að hafa ekki verið framleiddur. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að matarsóun er þriðja stærsta orsök koltvísýringslosunar í heiminum. Um 1,3 milljörðum tonna af mat er hent á hverju ári í heiminum. Í vestrænum löndum fara um 100 kíló af mat til spillis á hvern íbúa á ári.
    Selina Juul hefur af miklum áhuga og aðdáunarverðum eldmóði vakið athygli manna á matarsóun og sett málið á dagskrá bæði á Norðurlöndum og á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Neytendahreyfingin Stöðvum sóun á mat sér meðal annars um að koma góðum afgangsmat til athvarfa, móttökumiðstöðva fyrir hælisleitendur og til heimilislausra. Með hugmyndaflugi, eldmóði og vinnusemi hefur Selinu Juul tekist að vekja athygli á matarsóun og þar með stuðlað að betri nýtingu auðlinda og dregið úr neikvæðum áhrifum manna á náttúruna.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega handritshöfundum, leikstjórum og framleiðendum og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Kvikmyndin Jagten hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Leikstjóri myndarinnar er Daninn Thomas Vinterberg. Hann skrifaði jafnframt handrit myndarinnar í samstarfi við Tobias Lindholm og framleiðendur myndarinnar eru Sisse Graum Jørgensen og Morten Kaufmann.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Við fyrstu sýn er myndin Jagten í leikstjórn Thomas Vinterbergs auðskilinn harmleikur, sem bæði Grikkir til forna og Hollywood nútímans hefðu getað sagt frá. En undir yfirborði einfaldrar frásagnar af manni sem er ranglega sakaður um að misnota börn eru margir flóknir þræðir sem knýja áhorfendur til íhugunar og umræðu. Í mynd Vinterbergs er „jagten“ (veiðin, eftirförin) notuð sem táknmynd til að kanna hvernig einstaklingur getur skyndilega orðið fyrir ofsóknum af hendi samfélags sem að öðru leyti er eðlilegt og vill vel. Sagan er í sjálfu sér ótrúleg, en hún nýtur stuðnings af kraftmiklum leik Mads Mikkelsens, heillandi tónlist og stemmningsfullum myndum.“
    
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á máli eins Norðurlandanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Skáldsagan Blindsker (Karikko) eftir rithöfundinn Seita Vuorela og myndskreytinn Jani Ikonen hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Verkið er bæði fyrir unga og fullorðna og í bókinni eru svarthvítar teikningar sem minna á ljósmyndir og hægt er að túlka sem myndir af landslagi sálar.
    Í rökstuðningur dómnefndar segir: „Frásögnin teygir sig víða og er byggð upp eins og mósaík. Sögð er saga af bræðrum sem snertir lesandann og tekur á alveg fram að síðustu setningu. Stíllinn er sérstakur og vefur saman þjóðtrú, goðsögn og frásagnarhefð. Skáldsagan fjallar um sorg og er full af táknmyndum. Leit ungu manneskjunnar fer fram á mörkum bernsku og fullorðinsára, lands og vatns, draums og raunveruleika, lífs og dauða. Myndskreytirinn tvinnar í svarthvítum myndum sínum saman skáldlega grafík og ljósmyndatækni og styrkir þannig seiðandi heildaráhrifin.“

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2014.
    Svíar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2014. Karin Åström var kosin forseti ráðsins 2014 á Norðurlandaráðsþingi í Ósló 2013 og Hans Wallmark varaforseti. 66. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Stokkhólmi 28.–30. október 2014 og vorþingfundur ráðsins með áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda verður 7.–8. apríl 2014 á Akureyri.
    Formennskuáætlun Svía í Norðurlandaráði árið 2014 hefur fjórar megináherslur. Fyrsta áherslan er Norðurlönd í Evrópu – Evrópa á Norðurlöndum. Svíar vilja nýta möguleika til að styrkja enn frekar sambönd og vinna að árangursríku, norrænu samstarfi innan og með ESB.
    Önnur áherslan er Norræni vinnumarkaðurinn. Svíar vilja að unnið verði enn frekar sameiginlegum norrænum vinnumarkaði. Jafnframt vilja þeir að Norðurlöndin fjalli um og skiptist á reynslu um árangursríkar aðferðir í baráttunni gegn atvinnuleysi ungs fólks og vilja vinna að því að menntun og prófskírteini nýtist í ríkari mæli í öðrum norrænum löndum.
    Þriðja áherslan er sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Svíar vilja stuðla að því að Norðurlönd vinni að sameiginlegum áherslum og stefnumiðum varðandi nýtingu náttúruauðlinda þar sem tekið er tillit til strangra umhverfiskrafna og félagslegra sjónarmiða og þar sem bæði menningararfleifð frumbyggja og ferðamannaiðnaðurinn geta dafnað.
    Fjórða áherslan er friður milli Norðurlanda í 200 ár. Svíar vilja minnast þess að árið 2014 verða 200 ár síðan samið var um frið í Kiel og mikilvægis þessa langa tíma innbyrðis friðar fyrir Norðurlöndin. Traust norræn samstaða hafi orðið til sem sé meðal annars forsenda fyrir núverandi auknu samstarfi í varnar- og öryggismálum.

Alþingi, 28. febrúar 2014.



Höskuldur Þórhallsson,


form., frsm.


Valgerður Gunnarsdóttir,


varaform.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.



Elín Hirst.


Helgi Hjörvar.


Steingrímur J. Sigfússon.



Róbert Marshall.





Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2013.


Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 1/2013: Barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs frá 2013 (A 1580/kultur).

Tilmæli samþykkt á þingfundi 11. apríl 2013.
          Tilmæli 2/2013: Eflt norrænt samstarf um öryggis- og varnarmál gegn netógnum og stafrænum árásum (1581/presidiet).
          Tilmæli 3/2013: Norræn langtímastefna í öryggismálum í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál (A 1585/miljø).
          Tilmæli 4/2013: Hnattræn framkvæmdaáætlun um uppsöfnun CO 2 í andrúmsloftinu (A 1585/miljø).
          Tilmæli 5/2013: Norrænt samstarf um vistvæn opinber innkaup (A 1578/miljö).
          Tilmæli 6/2013: Leiðbeiningar og kröfur fyrir vistvæn opinber kaup (A 1578/miljö).

Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 7/2013: Svæðisbundin stefnumörkun innan ramma UNAOC (A 1534/medborger).

Tilmæli samþykkt á þingfundi 29.–31. október 2013.
          Tilmæli 8/2013: Stefna í norrænu samstarfi um félags- og heilbrigðismál (B 294/velfærd).
          Tilmæli 9/2013: Félagsleg fjárfesting á Norðurlöndum (A 1591/velferd).
          Tilmæli 10/2013: Langtímaáherslur í krabbameinsmálum (A 1582/velfærd).
          Tilmæli 11/2013: Samstarf við Samtök norrænna krabbameinsfélaga um notkun á norrænum krabbameinsgagnagrunnum við rannsóknir (A 1582/velfærd).
          Tilmæli 12/2013: Nýtt skipulag norræns samstarfs í málefnum fatlaðra (B 283/velfærd).
          Tilmæli 13/2013: Lokun Norræna lýðheilsuháskólans (NHV) (B 293/velfærd).
          Tilmæli 14/2013: Norræna velferðarmiðstöðin „NVC Danmark“ færð undir sama þak og NVC (Svíþjóð) (B 295/velfærd).
          Tilmæli 15/2013: Eflt norrænt samstarf um menntamál (A 1599/kultur).
          Tilmæli 16/2013: Skólar veki athygli á réttindum barna (A 1601/kultur).
          Tilmæli 17/2013: Norrænn samráðsvettvangur um rannsóknastefnu (A 1597).
          Tilmæli 18/2013: Fjölmiðlar og höfundarréttur (A 1602/kultur).
          Tilmæli 19/2013: Fundur í tengslaneti um táknmál (A 1603/kultur).
          Tilmæli 20/2013: Farsæl skólaganga getur upprætt neikvæðan félagslegan arf (A 1604/ kultur).
          Tilmæli 21/2013: Áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen frá árinu 2014 (B 287/præsidiet).
          Tilmæli 22/2013: Áætlun um aðgerðir í Hvíta-Rússlandi (B 286/præsidiet).
          Tilmæli 23/2013: Áætlun um samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við Norðvestur- Rússland (B 288/præsidiet).
          Tilmæli 24/2013: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2014 (B 289/ præsidiet).
          Tilmæli 25/2013: Samstarf um stöðlun og reglusetningu í byggingaiðnaði (A 1588/ näring).
          Tilmæli 26/2013: Aðgerðir í þágu sjálfbærrar þróunar (B 285/miljö).
          Tilmæli 27/2013: Kanna aðgerðir sem efla umhverfis- og siglingaöryggi í Eyrarsundi (A 1587/miljö).
          Tilmæli 28/2013: Efla umhverfis- og siglingaöryggi í Eyrarsundi (A 1587/miljö).
          Tilmæli 29/2013: Norræn samstarfsáætlun um stefnu í nýsköpun og atvinnulífi (B 291/ näring).
          Tilmæli 30/2013: Framkvæmdaáætlun um orkusamstarf 2014–2017 (B 292/näring).
          Tilmæli 31/2013: Norrænar aðgerðir til að draga úr hættu sem stafar af hormónaraskandi efnum (A 1589/miljö).
          Tilmæli 32/2013: Lýðheilsuvernd gegn efnum sem trufla innkirtlastarfsemi líkamans (A 1589/miljö).
          Tilmæli 33/2013: Gagnkvæm endurgreiðsla skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (pólýetýlentereþalat) (A 1592/miljø).
          Tilmæli 34/2013: Samningur við Þýskaland um endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (pólýetýlentereþalat) (A 1592/miljø).
          Tilmæli 35/2013: Samningur við Eistland um endurgreiðslu skilagjalds fyrir áldósir og PET-flöskur (pólýetýlentereþalat) (A 1592/miljø).
          Tilmæli 36/2013: Aðgerðir til að greiða fyrir innleiðingu EB-tilskipunar um takmörkun brennisteinsmagns (A 1593/miljø).
          Tilmæli 37/2013: Samhæfing og framkvæmd áætlana um að efla og stækka járnbrautarkerfi á norðlægum svæðum (A 1593/miljø).
          Tilmæli 38/2013: Könnun á afleiðingum innleiðingar á brennisteinstilskipuninni og svæðisbundin úrræði (A 1593/miljø).
          Tilmæli 39/2013: Fjármögnun á innviðum siglinga í samstarfssamningum um fjármagn úr Byggðaþróunarsjóði ESB (A 1593/miljø).

Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 40/2013: Nýjar starfsreglur og samsetning stjórnar (B 296/näring).
          Tilmæli 41/2013: Framkvæmdaáætlun um afnám stjórnsýsluhindrana 2014–2017 (B 290/presidiet).
          Tilmæli 42/2013: Umboð og tengsl Stsjórnsýsluhindranaráðsins í löndunum (B 290/ presidiet).