Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 122. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 719  —  122 mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um landsnet ferðaleiða.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Landmælingum Íslands, Landssambandi hestamannafélaga, Landssamtökum hjólreiðamanna, Læknafélagi Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Vegagerðinni. Með tillögunni er lagt til að innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að hefja nú þegar í sameiningu vinnu við skipulagningu og kortlagningu leiða- og þjónustukerfis fyrir ferðamenn sem fara um landið fótgangandi, á reiðhjólum eða á hestum þannig að til verði eitt samtengt landsnet ferðaleiða. Megintilgangur tillögunnar samkvæmt greinargerð er að stuðla að því hið fyrsta að ráðist verði í skilgreiningu og skipulagningu ferðaleiða, samræmingu fyrirkomulags merkinga, afmörkun og skilgreiningu heita á leiðum og gerð númerakerfis fyrir allt landið.
    Í greinargerð með tillögunni er sérstaklega tekið fram að fyrir undirbúning verkefnisins þurfi öflugt samstarf við fulltrúa ýmissa aðila, svo sem Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðarinnar, Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Landssamtaka hjólreiðamanna, Ungmennafélags Íslands, Landssamtaka hestamannafélaga, Ferðafélags Íslands, Ferðafélagsins Útivistar, Kayakklúbbsins, gönguskíðafélaga, landlæknisembættis, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart tillögunni og voru nokkrir tilbúnir til samstarfs um verkefnið. Nefndin telur mikilvægt að nýta þennan samstarfsvilja til að efla verkefnið og setja kraft í vinnu við það. Bændasamtök Íslands bentu á að eðlilegt væri þegar um væri að ræða jafn umfangsmikið verkefni sem snertir í mörgum tilvikum m.a. jarðir í einkaeigu og bújarðir að haft verði samráð við samtökin, ekki einungis vegna undirbúnings verkefnisins heldur einnig við vinnuna sjálfa. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur einnig að hafa skuli samráð við heimamenn á hverjum stað þegar ræddar eru hugmyndir um kortlagningu göngu- og reiðleiða um lönd þeirra. Þá telur nefndin að vegna lögbundins hlutverks við kortagerð á landinu skuli Landmælingar Íslands hafa aðkomu að verkefninu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Ásta Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2014.



Höskuldur Þórhallsson,


form.


Katrín Jakobsdóttir,


frsm.


Katrín Júlíusdóttir.



Haraldur Einarsson.


Brynjar Níelsson.


Birgir Ármannsson.



Róbert Marshall.


Vilhjálmur Árnason.