Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 733  —  402. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001,
með síðari breytingum (fyrning uppgjörskrafna).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrningarfresturinn skal vera átta ár frá því tímamarki.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu er lagt til að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar sem reiknast frá 16. júní 2010 verði átta ár frá því tímamarki.
    Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar renni út 16. júní nk. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um vexti og verðtryggingu reiknast fresturinn frá 16. júní 2010 en þann dag komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að VI. kafli laga um vexti og verðtryggingu, sem fjallar um verðtryggingu, veitti ekki heimild til að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu reis réttarágreiningur sem vart á sér hliðstæðu á íslenskum fjármálamarkaði og ekki hefur enn verið að fullu til lykta leiddur. Í grunninn hefur verið tekist á um það hversu víðtækt bannið við gengistryggingu er, þ.e. til hvaða samninga því er ætlað að taka, og hver áhrif þess eru á uppgjör viðkomandi samninga.
    Umrætt bráðabirgðaákvæði var lögfest með lögum nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og fleiri lögum, sem sett voru í þeim tilgangi að draga úr réttaróvissu og hraða uppgjöri. Til grundvallar þeirri lagasetningu lágu ýmis sjónarmið sem m.a. vörðuðu stöðugleika fjármálakerfisins og komu þar m.a. fram almenn viðmið um hvernig standa bæri að endurreikningi lána þegar ákvæði um vexti eða verðtryggingu reyndust ógild. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða X og XI var þeim viðmiðum ætlað að hafa áhrif aftur í tímann á tilgreind lán til einstaklinga sem veitt höfðu verið til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði eða til kaupa á bifreið og þar sem endurgreiðsla var að einhverju leyti miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla. Var fjármálafyrirtækjum falið að eiga frumkvæði að endurreikningi umræddra lána og ljúka honum á fyrri hluta ársins 2011 undir eftirliti umboðsmanns skuldara.
    Sú aðferð við endurreikning sem lögð var til grundvallar í lögum nr. 151/2010, og fram kemur í 5. mgr. 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, tók mið af tilmælum sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið höfðu beint til fjármálafyrirtækjanna í kjölfar hæstaréttardómanna sem féllu 16. júní 2010 en einnig dómi Hæstaréttar frá 16. september sama ár sem á þeim tíma var talinn samræmast tilmælunum. Samkvæmt aðferð laganna voru eftirstöðvar skuldar fundnar út með þeim hætti að upphaflegur höfuðstóll var látinn bera seðlabankavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá upphafi lánstímans en síðan voru dregnar frá þær fjárhæðir sem lántaki hafði innt af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag.
    Lög nr. 151/2010 mæltu einnig fyrir um upphaf fyrningarfrests uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar í formi gengistryggingar, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIV. Upphaf frestsins miðast við sama dag og niðurstaða Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar varð kunn, þ.e. 16. júní 2010. Skýringar við ákvæðið sem fram koma í athugasemdum frumvarps þess er síðar varð að lögum eru eftir sem áður stuttaralegar. Í dómi héraðsdóms frá 4. mars 2014, í máli nr. E-2296/2013, er talið að skýra verði umrætt bráðabirgðaákvæði „til samræmis við önnur ákvæði laga nr. 151/2010, svo og samkvæmt orðanna hljóðan, þannig að fyrningarfrestur krafna sem grundvallaðar eru á endurútreikningi skv. 5. mgr. 18. gr. laganna hafi fyrst hafist hinn 16. júní 2010“. Í málinu var talið að bráðabirgðaákvæðið ætti jafnt við um endurgreiðslukröfu lántaka sem kröfu lánveitanda vegna viðbótarvaxta.
    Gera verður ráð fyrir að fyrning umræddra krafna fari eftir 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, þar sem kveðið er á um almennan fjögurra ára fyrningarfrest. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2008 og er þeim ekki ætlað að taka til krafna sem stofnað var til í tíð eldri laga. Töluverður hluti þeirra lána sem ágreiningurinn varðar voru veitt í tíð laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, sem leyst voru af hólmi með nýju lögunum. Nýju lögin virðast þó ekki hafa falið í sér breytingu að þessu leyti þar sem fram kemur í 2. og 5. tölul. 3. gr. hinna eldri laga að kröfur um gjaldkræfa vexti og krafa um endurgjald á því sem maður hefur greitt í rangri ímyndun um skuld, eða von um endurgjald, fyrnist á fjórum árum.
    Hæstiréttur Íslands hefur almennt gengið út frá því að skuldarar hafi verið í góðri trú um lögmæti þeirra skuldbindinga sem um er deilt. Enda þótt upphaflegir dómar réttarins frá 16. júní 2010 hafi gefið þeim tilefni til að efast um lögmæti skuldbindinganna er erfitt að slá því föstu að upphafstími fyrningar hefði að óbreyttum lögum átt að hefjast á þeim degi. Héraðsdómur í máli nr. E-2296/2013 dregur þá ályktun af ákvæðum laga nr. 151/2010 að með þeim hafi fjármálafyrirtækjum og skuldurum verið gefið ákveðið tóm til þess að taka afstöðu til endurútreiknings án þess að það leiddi til fyrningar krafna sem virkar voru við gildistöku laganna.
    Af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands má ráða að það hafi tekið réttinn umtalsverðan tíma að marka stefnuna við úrlausn þessara mála og að rétturinn hafi að vissu leyti ekki talið sig vera bundinn af lögum nr. 151/2010. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 (Hrd. nr. 600/2011), þar sem því var hafnað að kröfuhafi gæti á grundvelli laganna átt tilkall til viðbótarvaxta fyrir liðna tíð, var vísað til þess að ekki væri með almennum lögum unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt.
    Framangreind afstaða réttarins fær því ekki breytt að með ákvæði til bráðabirgða XIV var tekið af skarið um að miða skyldi upphaf fyrningarfrests við 16. júní 2010. Það er meginregla að nýjum lögum verði beitt um lögskipti, sem undir þau falla, þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra og verður því að telja að þessi ráðstöfun hafi verið löggjafanum heimil, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. október 2008 (Hrd. nr. 560/2008). Í þeim dómi var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli, þar sem deilt var um gildi fjárnámsgerðar til tryggingar á skuld vegna meðlagsgreiðslna, og dómurinn lét í ljós það álit að ef fyrningarfrestur [væri] lengdur með lögum, [yrði] þeim lögum beitt um fyrningu, sem hafin [væri], en ekki er lokið við gildistöku nýrra laga. Athygli vekur að lenging fyrningarfrestsins var íþyngjandi fyrir meðlagsgreiðandann, einstakling, en ívilnandi fyrir kröfuhafann, Innheimtustofnun sveitarfélaga. Einnig má benda á að í dómi Hæstaréttar Íslands frá 21. september 2012 (Hrd. nr. 485/2012) var komist að þeirri niðurstöðu að beita skyldi nýjum lögum um varnarþing við slit fjármálafyrirtækja þrátt fyrir að þau hefðu tekið gildi eftir að málið var höfðað. Þá var með vísan til ítrekaðra fordæma ekki fallist á að lenging frests sem slitastjórn fjármálafyrirtækis hefði til að höfða riftunarmál væri andstæð stjórnlögum í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2013 (Hrd. nr. 74/2013). Telja verður að framangreindir dómar veiti leiðsögn varðandi heimildir löggjafans til þess að breyta lögmæltum fyrningarfresti. Varðandi tvo síðargreindu dómana má geta þess að enda þótt málshöfðunarfrestir séu taldir tilheyra reglum réttarfars en fyrning teljist til eiginlegra efnisreglna kröfuréttar getur aðgerðarleysi kröfuhafa í hvoru tilviki fyrir sig leitt til þess að hann glati kröfu sinni.
    Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem unnin var í tengslum við 8. tölul. aðgerðaáætlunar samkvæmt þingsályktun nr. 1/142, um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, frá 142. löggjafarþingi, kemur fram að til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur séu um 90 mál þar sem reyni á lögmæti gengistryggðra skuldbindinga. Af þeim fjölda hafi um 40 borist dómstólnum eftir setningu laga nr. 80/2013 (flýtimeðferð), um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Greinargerðin er dagsett 22. október 2013 en fjölgun málanna hefur síðan þá verið á bilinu 5–15 í hverjum mánuði sem liðinn er og má af því ráða að réttaróvissa tengd gengistryggðum lánum heyri ekki sögunni til.
    Úrlausn ágreiningsefna sem tengjast gengistryggðum lánum hefur að verulegu leyti byggst á dómafordæmum Hæstaréttar Íslands og virðast yfirlýsingar þeirra lánveitenda sem hlut eiga að máli ekki hafa gefið annað til kynna en að þeir hafi viðurkennt skyldu til að endurreikna þau lán sem sýnt þyki að falli undir fordæmin. Fjármálaeftirlitið fylgist með áætlunum lánastofnana og dótturfyrirtækja fjármálafyrirtækja í slitameðferð um að ljúka endurreikningi.