Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 182. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 744  —  182. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgvin Guðmundsson og Guðbrand Bogason frá Ökukennarafélagi Íslands. Umsagnir bárust frá Ákærendafélagi Íslands, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Ökukennarafélagi Íslands, ríkissaksóknara og Samgöngustofu.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er að leitast við að fækka þeim tilvikum þar sem ökumenn aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Lagt er til að ráðherra komi á fót starfshópi sem fari heildstætt yfir málið og vinni frumvarpsdrög á grundvelli þeirra tillagna sem tíundaðar eru í þingsályktunartillögunni. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að leitað verði allra leiða til að fækka umræddum tilvikum og bendir á að í tillögunni kemur fram að samkvæmt gögnum Samgöngustofu og rannsóknarnefndar samgönguslysa eru áfengis- og vímuefnaakstur orsök þriðjungs banaslysa í umferðinni og margra alvarlegra umferðarslysa.
    Nefndin vekur athygli á því að umferðarlög voru tekin til heildarendurskoðunar af nefnd sérfræðinga árið 2007. Frumvarp til nýrra umferðarlaga var lagt fram á 138., 139., 140. og 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Á yfirstandandi þingi hefur verið lagt fram frumvarp (284. mál) sem inniheldur þau ákvæði úr frumvarpsdrögunum sem talið er brýnt að nái fram að ganga eins fljótt og auðið er.
    Í ljósi framangreinds og þess að umferðarlögin eru enn í endurskoðun telur nefndin rétt að þau atriði sem tiltekin eru í þingsályktunartillögunni verði skoðuð sérstaklega samhliða heildarendurskoðun umferðarlaga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri við heildarendurskoðun umferðarlaga með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Sérstaklega skuli skoða eftirfarandi leiðir:
     1.      Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis.
     2.      Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs.
     3.      Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð.
     4.      Ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri.

    

    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. mars 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Elsa Lára Arnardóttir,


frsm.


Páll Valur Björnsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.