Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 499. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 860  —  499. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fiskveg í Efra-Sog.


Flm.: Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja gerð fiskvegar úr Þingvallavatni í Efra- Sog í samræmi við stefnumörkun þjóðgarðs á Þingvöllum 2004–2024. Samhliða verði ráðist í endurbætur á fornum hrygningarstöðvum ísaldarurriðans í efri hluta árinnar, og fyrir mynni hennar, til að stuðla að farsælli endurheimt stofnsins.

Greinargerð.

    Alþingi hefur á síðustu tveimur áratugum látið vernd Þingvallavatns, þar á meðal viðkvæmra urriðastofna í vatninu, mjög til sín taka. Skýr vottur um það eru umræður á Alþingi, sérstök þingsályktun 1998 um endurheimt stórurriðans í Efra-Sogi sem gjöreyddist þegar áin var stífluð 1959 og Steingrímsstöð byggð, að ógleymdum sérlögum um vernd Þingvallavatns 2005 þar sem sérstaklega er m.a. kveðið á um vernd búsvæða urriða. Þáttaskil voru svo mörkuð þegar Þingvallanefnd, undir forustu Björns Bjarnasonar, samþykkti árið 2004 stefnumörkun til ársins 2024. Þar var lýst sem einu meginmarkmiða að opna urriðanum að nýju farveg úr Þingvallavatni niður í Efra-Sog í samvinnu við Landsvirkjun.

Stefnumörkun Þingvallanefndar 2004–2024.
    Í stefnumörkun Þingvallanefndar segir skýrt að stefnt verði „að samkomulagi við Landsvirkjun um stýringu miðlunar og vatnshæðar út frá þörfum lífríkis í vatninu og um endurheimt búsvæða fiskistofna sem glatast hafa.“ Þá höfðu a.m.k. þrír stofnar urriða eyðst eftir að Steingrímsvirkjun kom til sögunnar. Auk stofnsins í Efra-Sogi, sem hvarf algerlega, voru stofnarnir í Grafningsánum báðum, Villingavatnsá og Ölfusvatnsá, nær glataðir og hrygning ekki sést lengi á þekktum, en örsmáum, hrygningarstöðvum við uppsprettur.
    Í grein 10.2 í stefnumörkuninni kemur vel fram að samkomulagið við Landsvirkjun um endurheimt búsvæða á ekki síst að fela í sér gerð fiskvegar „niður í Efra-Sog þar sem áður var náttúrulegt útfall Þingvallavatns.“ Þetta er í gadda slegið í markmiðskaflanum þar sem því er lýst sem einu „meginmarkmiða“ að „opna urriða leið niður í Efra-Sog“.
    Þrátt fyrir jákvæð samskipti Þingvallanefndar við Landsvirkjun í kjölfarið er fiskvegurinn ókominn þó áratugur sé liðinn frá samþykkt stefnumörkunarinnar. Tillagan er því flutt fyrir hönd allra sem unna lífríki Þingvallavatns í þeim tilgangi að tryggja mönnum og náttúru endurheimt gæða sem fordjarfast hafa af manna völdum.

Ísaldarurriðinn er einstakur á heimsvísu.
    Urriðinn í Þingvallavatni, sem stofninn í Efra-Sogi tilheyrði, er einstakur á heimsvísu. Hann var afsprengi stórra keltneskra sjóbirtinga, sem gengu í lok síðustu ísaldar upp í stutt straumvötn á suðurströndinni. Jökull lá þá yfir norðurhluta Evrópu og þakti stærstan hluta Íslands. Þegar ísöld tók að slota og jökull hopaði fylgdi sjóbirtingur, hið sjógenga afbrigði urriðans, jaðri jökulsins og nam land í auravötnum sem streymdu til sjávar. Land reis úr sæ þegar bráðnunin létti af því fargi jökulsins. Samkvæmt rannsóknum dr. Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur leiddi landrisið til myndunar ókleifra fossa fyrir níu þúsundum ára í undanfara þess sem nú er Sogið. Sjóbirtingurinn ofan þeirra varð þá innlyksa í jökullóni sem síðar myndaði Þingvallavatn og varð að staðbundnum stórurriða. Einangrunin bjargaði honum frá því að taka glímuna við smávaxnari og harðgerðari sjóbirtinga sem síðar komu fram og ruddu honum víðast hvar burt. Í dag hjara mjög fáar, og dreifðar, leifar af ísaldarurriða í heiminum. Hvergi er hann að finna jafn stórvaxinn og þann sem óðul á í Þingvallavatni – og forðum Efra-Sogi.
    Stórurriðinn hefur á síðustu öldum orðið eitt helsta einkennistákn Þingvallavatns. Hann bar hróður þess og Íslands vítt um Evrópu. Sókn erlendra veiðimanna hingað til lands á ofanverðri nítjándu öldinni til að veiða stærstu urriða í heimi var snar þáttur í upphafi ferðaþjónustu á Íslandi. Langstærsti og mikilvægasti hrygningarstofninn var í Efra-Sogi, sem féll úr vatninu niður í Úlfljótsvatn. Stærstu urriðarnir áttu riðstöðvar á malarbingjum í Útfallinu, framan við ána, þar sem saman fór mikill straumur og stór möl, en miklar hrygningarstöðvar voru líka í efri hluta Efra-Sogs. Næstur stofninum í Efra-Sogi að mikilvægi gekk Öxæringurinn, en aðrir smærri stofnar áttu heimkynni í Grafningsánum tveimur, Ölfusvatns- og Villingavatnsá, og við uppsprettur og lindir í vatninu.
    Mikil stærð var það sem brá stórurriðanum í Þingvallavatni frá öllum öðrum urriðum. Ekkert vatn er þekkt, heima eða erlendis, þar sem urriðinn verður að jafnaði eins stór og í Þingvallavatni. Meðalþyngd urriða í Öxará er þannig meiri en meðalþyngd laxa í helstu stórlaxaám Íslands, svo sem Laxá í Aðaldal. Illu heilli var stofninn í Efra-Sogi aldrei mældur áður en hann eyddist. Í Urriðadansi (1996) segja þó gamlir Þingvallabændur að Sogsbúinn hefði að jafnaði verið stærri en Öxæringur.
    Ástæðurnar fyrir stærð ísaldarurriðans eru bæði arfgerð og sérlega hagstætt umhverfi. Arfgerð hans stýrir síðbúnum kynþroska, háum aldri og þar að auki er lífsferill hans sérstakur að því leyti að hann tekur sér gjarnan hlé annað hvert ár frá hrygningu og notar hvíldarárið til að vaxa. Allir þessir þættir stuðla að miklum vexti. Þingvallavatn býður í ofanálag upp á kjöraðstæður fyrir ránfisk. Þar er gnótt smávaxinnar bráðar í formi murtunnar, eins fjögurra afbrigða Þingvallableikjunnar, sem býr urriðanum látlausa veislu frá vori þangað til hrygningin hefst síðla hausts.

Eyðing urriðans.
    Ástæðurnar fyrir niðursveiflu urriðans í Þingvallavatni var fyrst og fremst virkjunin í Efra- Sogi árið 1959. Hún skar með einu hnífsbragði á lífsþráð stórurriðans í ánni. Í staðinn var útfall Þingvallavatns leitt um jarðgöng gegnum Dráttarhlíðina og niður í Steingrímsstöð í Úlfljótsvatni. Mátti þá áratugum saman ganga þurrum fótum á mosadýjum þar sem áður byltu sér stærstu urriðar veraldar.
    Ein bára er sjaldan stök, og virkjunarframkvæmdir leiddu til hroðalegs slyss á lífríki Þingvallavatns þegar ofsaveður reið yfir landið á þjóðhátíðardaginn 1959. Það braut niður bráðabirgðastíflu í útfalli árinnar og Þingvallavatn fossaði niður um Efra-Sog og lækkaði um hátt á annan metra. Svelgurinn sópaði burt gervallri hrygningarmöl á riðstöðvum árinnar, og ruddi um leið með sér riðmölinni í Útfallinu sem líklega var mikilvægasta riðstöðin og þar sem stærstu urriðarnir hrygndu.
    Óskar Ögmundsson, bóndi í Kaldárhöfða, segir jafnframt frá því í Urriðadansi (1996) hvernig hrygningarstöðvar stofnsins í Útfallinu, sem var Þingvallavatnsmegin stíflunnar, voru líka eyðilagðar við virkjunarframkvæmdirnar: „Það er svo kapítuli útaf fyrir sig, að hrygningarstöðvarnar sjálfar voru eyðilagðar. Þangað var ekið miklu magni af efni sem féll til við gangnagerðina sjálfa, sprengigrjót og útgröftur, og keyrt í malargarð og síðar var rekið járnþil í garðinn. … Efnið sem þarna var ekið í vatnið var ekki hæft sem hrygningarbotn, og hefur eitt út af fyrir sig eyðilagt aðstæður.“
    Ekki bætti úr skák að eftir stíflun Efra-Sogs var Þingvallavatn notað sem miðlunarlón fyrir Steingrímsstöð, með tilheyrandi sveiflum á vatnsborði, allt að einum metra, sem eyddu takmörkuðum hrygningarstöðvum, t.d. fyrir Nesjahrauni, þar sem urriði hrygndi öldum saman á örgrunnu vatni. Landsig í norðurhluta sigdældarinnar, sem Þingvallavatn hvílir í, ásamt hækkun á vatnsborði eftir virkjun, rýrði jafnframt riðstöðvar í Öxará, sem eftir lokun Efra- Sogs varð mikilvægasta hrygningarstöðin. Jafnframt sneiddist verulega um Grafningsstofnana tvo. Sá stærri í Ölfusvatnsá var að hruni kominn án þess þó að hverfa að fullu meðan örsmár stofn í Villingavatnsá fór að heita mátti forgörðum. Líklegt er að báða hafi illa leikið samspil minks og vaxandi ásóknar veiðimanna. Báðir, einkum Ölfusvetningur, voru mikilvægir fyrir viðkomu Þingvallaurriðans eftir fall stóra stofnsins í Efra-Sogi.
    Mat þeirra þingmanna sem töldu brýnt að grípa til aðgerða til að bjarga urriðanum speglast vel í eftirfarandi orðum úr greinargerð með tillögu sem flutningsmaður lagði fram 1998 ásamt Guðna Ágústssyni og Árna M. Mathiesen: „Í hnotskurn er þó staða urriðans í Þingvallavatni þannig að verði ekkert gert eru yfirgnæfandi líkur á að hann muni smám saman hverfa úr vistkerfi vatnsins. Það leikur hins vegar enginn vafi á því að enn er ekki of seint að bjarga Þingvallaurriðanum frá eilífri glötun.“
    Þegar flutningsmaður gaf út Urriðadans (1996) hafði Þingvallaurriðinn árum saman verið á stöðugri niðurleið. Hans gætti vart í veiði, stórfiskarnir sem á nítjándu öldinni löðuðu að sér erlenda veiðimenn og gerðu vatnið frægt langt út fyrir Ísland, sáust ekki lengur. Leikmenn jafnt sem sérfræðingar óttuðust að stofnsins biði beisklegur aldurtili. Í bókinni ræða gamlir bændur við vatnið, allir horfnir í dag, um urriðann í þátíð, yfirleitt „fyrir virkjun.“ Samhliða því að vera nokkuð örvæntingarfull herhvöt til björgunaraðgerða var Urriðadans öðrum þræði löng minningargrein um stórurriðann í Þingvallavatni. Dökk sýn á framtíð hans birtist vel í formála þar sem urriðinn er nánast kvaddur.

Atbeini Alþingis og Þingvallanefndar.
    Baráttan fyrir vernd ísaldarurriðans í Þingvallavatni var ekki síst háð í sölum Alþingis. Leiðir til að tryggja búsvæði hans og framtíð í vatninu, m.a. endurheimt stofnsins í Efra-Sogi, voru tilefni fyrirspurna og þingsályktana og voru hluti af lagasetningu. Árið 1993 flutti flutningsmaður þingsályktunartillögu um endurreisn urriðastofna „… í Efra-Sogi og Þingvallavatni“ ásamt Guðna Ágústssyni og Gunnlaugi Stefánssyni. Með henni var lagt til að Alþingi fæli ríkisstjórn að „meta hvort unnt sé að opna aftur fyrir rennsli Sogsins í hinum náttúrulega árfarvegi milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns að hluta eða öllu leyti…“ Í tillögunni fólst að metið yrði með öðrum kostum hvort rétt væri að fjarlægja í heilu lagi stífluna í Efra-Sogi og leyfa náttúrunni að spreyta sig á að byggja á ný upp hinn öfluga stórurriðastofn sem þar átti óðul.
    Á næstu tveimur árum, þegar flutningsmaður gegndi stöðu umhverfisráðherra, var margsinnis rædd milli þeirra ráðherra sem málið varðaði sú hugmynd að hleypa vatni í gamla farveginn sem dygði til að ná aftur upp urriðastofni í Efra-Sogi. Í þeim hópi var jákvæður skilningur á málinu. Það kom m.a. fram á Alþingi þegar Halldór Blöndal, þáverandi landbúnaðarráðherra, sagði í umræðum að sjálfsagt væri, að teknu tilliti til fjárhagslegra þátta, að athuga hvort ekki væri rétt að hætta að nota Þingvallavatn sem miðlunarlón. Hugmyndin var sömuleiðis reifuð milli ríkisstjórnar og Landsvirkjunar sem hóf skoðun á henni. Með nýrri ríkisstjórn 1995 var ráðist í kostnaðarsamt viðhald á Steingrímsstöð. Dvínaði þá áhugi stjórnvaldsins á að hrófla í nokkru við stíflunni í Efra-Sogi og talið að orkuframleiðslan þyrfti áfram á öllu útfalli Þingvallavatns að halda.
    Árið 1998 samþykkti Alþingi þingsályktun að tillögu flutningsmanns, Guðna Ágústssonar og Árna M. Mathiesen sem gekk mun skemur en tillagan 1993. Ekki var beinlínis lagt til að stíflan yrði rofin fyrir fiskveg en ríkisstjórn falið að setja á fót nefnd sérfræðinga til að meta leiðir til að endurreisa urriðastofnana í Þingvallavatni. Í svörum tveggja forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar árið 2002 og Halldórs Ásgrímssonar 2004, við fyrirspurn á Alþingi kom í ljós að nefndin sá aldrei dagsins ljós. Hins vegar upplýsti Halldór að í kjölfar ályktunarinnar hefði stjórnvaldið þegar ráðist í ýmsar aðgerðir sem miðuðu að því að festa urriðann í sessi.
    Þingvallanefnd, sem fer í umboði Alþingis með forsjá þinghelginnar og er eingöngu skipuð alþingismönnum, ræddi dapurlega þróun urriðans margsinnis frá 1995. Árið 2005 var að frumkvæði Þingvallanefndar, undir forustu Björns Bjarnasonar, samið frumvarp um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, sem ríkisstjórnin lagði fram. Það leiddi til laga nr. 85/ 2005, sem fólu í sér þýðingarmikil ákvæði um verndun lífríkis vatnsins, þar á meðal sérstaka grein um vernd búsvæða og hrygningarstöðva urriða og fjögurra bleikjuafbrigða.
    Lögin veittu einnig umhverfisráðherra heimild til að setja mikilvægar reglur um breytingar á vatnshæð og takmarkanir á losun úrgangsefna og um frárennsli og fráveitur í vatnið. Með reglunum náðist fram mikilvægt baráttumál um stöðugra vatnsborð, því þær mæla skýrt fyrir um að yfirborði Þingvallavatns verði jafnan haldið eins stöðugu og kostur er. Miklar sveiflur, eins og raunin var lengi eftir virkjun, rýra búsvæði bæði kuðungableikjunnar og urriðans.
    Þingvallanefnd hefur sömuleiðis reynt að hemja ofveiði á stórurriða eftir að ásókn í hann jókst upp úr aldamótum. Árið 2008 bannaði nefndin tilteknar veiðiaðferðir sem beindust fyrst og fremst að honum. Á þessu ári, 2014, gekk nefndin lengra og ákvað að leyfa einungis flugu sem agn í vorveiði, og setti það skilyrði að fram til 1. júní ár hvert skuli öllum urriða sem veiddist í þinghelginni sleppt.
    Þingvallanefnd hefur einnig átt ríkan þátt í að afla mikilvægrar þekkingar á lífsháttum og atferli urriðans í Þingvallavatni. Rannsóknir á Þingvallaurriðanum voru takmarkaðar þangað til nefndin hóf árið 2003 samstarf við Jóhannes Sturlaugsson fiskilíffræðing um rannsóknir á Öxæringnum. Þær hafa staðið óslitið síðan. Rannsóknir Jóhannesar, sem Landsvirkjun kom að á síðari árum, hafa m.a. byggst á rafeindamerkjum og skilað dýrmætri nýrri þekkingu, ekki aðeins um Þingvallaurriðann heldur varpað nýju ljósi á lífsferil tegundarinnar. Þær má óhikað telja til grundvallarrannsókna. Fyrir vikið er nú til staðar miklu betri mynd af stöðu og þróun stofnanna í vatninu en nokkru sinni fyrr. Hún auðveldar að fylgjast með árangri aðgerða sem miða að því að styrkja urriðann og treysta framtíð hans í vatninu.
    Mikilvægasta skrefið sem nefndin tók til að treysta stöðu Þingvallaurriðans var svo þegar Þingvallanefnd samþykkti stefnumörkun fyrir þjóðgarðinn 2004–2024. Þar, eins og fyrr er rakið, var afdráttarlaust tekið af skarið um að stefna að því opna urriða farveg niður í Efra- Sog.

Hlutur Landsvirkjunar.
    Steingrímsstöð var barn síns tíma. Í dag dytti engum í hug að ráðast í virkjun sem gjöreyðir einstöku afbrigði fágæts ísaldarurriða eins og gerðist í Efra-Sogi. Engar rannsóknir voru gerðar á Sogsbúanum áður en skrúfað var fyrir ána. Landsvirkjun hefur brugðist jákvætt við kröfum um aðgerðir til að vernda og treysta urriðann. Sveiflum á vatnsborði Þingvallavatns hefur verið stillt í hóf og reynt er að halda því sem stöðugustu. Á seinni hluta tíunda áratugarins hófust tilraunir til að koma upp klaki í suðurhluta Þingvallavatns með því að bera riðmöl í Útfallið og grafa þar frjóvguð hrogn.
    Mikilvægasta aðgerðin fólst þó efalaust í seiðasleppingum sem hófust 1993. Þær gáfust vel og skiptu hugsanlega sköpum á mjög krítísku augnabliki í sögu Þingvallaurriðans. Þær, og síðari sleppingar, hafa leitt til náttúrulegrar hrygningar víðs vegar um vatnið, staðið undir styrkingu Öxæringsins, tryggt stofninn í Ölfusvatnsá sem var að falli kominn, og bætt á dreifða hrygningu örstofna við lindir og uppsprettur. Hrygningarstofninn í Öxará hefur t.d. næstum tífaldast á rúmum áratug, farið úr innan við 100 fiska upp í ríflega 800, og takmörkuð hrygning er hafin í Útfallinu. Óhætt er að fullyrða að þessar aðgerðir ásamt hlýnandi veðurfari hafa leitt til þess að á síðustu árum hefur hagur stórurriðastofna í Þingvallavatni batnað verulega.
    Stofninn í Efra-Sogi var þó langstærsti stofninn, og langmikilvægastur fyrir viðkomu urriðans. Mikilvægasta aðgerðin til að tryggja framtíð stórurriðans í Þingvallavatni og endurheimta þá líftryggingu sem hann átti í Efra-Sogi er því að gera fiskveg úr vatninu niður í ána, bera riðmöl á gömlu hrygningarsvæðin og endurreisa þannig hinn sterka stofn árinnar. Í dag eru allar aðstæður til að ráðast í þessar framkvæmdir. Landsvirkjun hefur um allmörg ár hleypt miklu vatni niður hinn gamla farveg árinnar. Magnið er nógu mikið til að standa undir verulegri seiðaframleiðslu á fornum óðulum stórurriðans í efri hluta árinnar. Urriði er þegar tekinn að leita undir botnlokur stíflunnar, en kemst ekki til baka upp í Þingvallavatn, stórir fiskar laskast á tálknbörðum þegar þeir troða sér undir þær, og seiði, sem hugsanlega klekjast út við núverandi aðstæður, komast ekki heldur upp í vatnið. Jafnframt þarf að bæta hrygningarskilyrði fyrir urriðann, einkum að bæta riðmöl í Útfallið og efri hluta árinnar í stað þeirrar sem sópaðist burt í slysinu 17. júní 1959.
    Í dag hafa því skapast kjöraðstæður til að taka til óspilltra málanna við að endurheimta stórurriðastofninn í Efra-Sogi.